Blik 1962/Dvergasteinn

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1962ctr


Dvergasteinn„Gamla skólahúsið“, sem Eyjamenn byggðu á árunum 1883—1884, er Heimagata 7A, eða Dvergasteinn, eins og það hefur heitið, síðan sýslan seldi það til íbúðar.
Í húsi þessu var barnaskóli sýslunnar starfræktur í 20 ár. Meðan hann var aðeins í einni deild, var kennt á aðalhæð hússins. Þá geymdi Aagaard sýslumaður skjalasafn embættis síns á lofti hússins eða undir risi þess. Þar lá það á gólfinu, og nemendur barnaskólans léku sér stundum þar uppi við að fletta skjölum og skræðum, blöðum og bókum, sem dreifðust um gólfið eins og skæðadrífa. Brátt reyndist mikill músagangur í skólahúsinu. Þá gengu mýslur um skjalasafnið og nöguðu blöð og brýndu smáar tennur á bókaspjöldum. Þar sem lítið fannst þarna matarkyns, varð tréefnið í pappírnum þeim furðu gómsætt. Sýsluskjöl Vestmannaeyja frá þessum árum, sem geymast á Þjóðskjalasafni, bera danskri forsjá á Íslandi glöggt vitni, votta sorglegt áhugaleysi og hirðuleysi um íslenzka menningu og söguleg verðmæti.
Fyrstu árin var tjörupappi látinn nægja utan á borðklæðningu þaksins. Brátt komst vatn að viðnum og þakið tók að leka og fúna. Fól þá sýslunefnd Sigurði húsameistara í Nýborg að setja járn á þakið. Kostnaðaráætlun hans um þær framkvæmdir hefi ég í höndum og birti hana hér til fróðleiks.

1. Áætlun yfir járnþak á skólahúsið:
Þakið er 13 álnir á lengd og 6 álnir á hæð.
Á það þarf báðumegin með kjöl og á skorsteinspípuna 68 plötur,
sem klæða 2 álnir og 21 þumlung á lengd og 21 þm. á breidd,
kr. 3,00 hver plata alls krónur
204.00
2. 1000 stk. þaknaglar 14,50
3. Tvær tylftir fírskorin borð til
endurbótar þakinu undir járnið, kr. 18,00 hver tylft
36,00
4. 200 stk. fjögurra þuml. naglar 1,20
5. Kítti 2,00
6. Vinnulaun 30,00
Kostnaður alls kr. 287,70

Sum árin, sem skólinn var starfræktur í húsi þessu, var það leigt að sumrinu. T.d. fékk Gísli Stefánsson, sýslunefndarmaður í Hlíðarhúsi, þar inni að sumrinu fyrir vörur sínar, en hann rak þá verzlun eða vísi að pöntunar- eða kaupfélagi til hagnaðar ýmsum hreppsbúum.
Barnaskóli Vestmannaeyja var fluttur í annað skólahús árið 1904. Um starfrækslu hans þar fjallar næsti kafli fræðslusögunnar.

Sigurður smiður Ísleifsson í Merkisteini við Heimagötu fluttist til Vestmannaeyja árið 1903. Þá vildi hann byggja sér íbúðarhús suður af Eystra-Stakkagerði. Aðstaða Sigurðar til búsetu í Eyjum var góð að ýmsu leyti. Sjálfur var hann völundur til allra smíða og svo var hann svili þess manns, sem mest ítök og völd hafði í Eyjum þá, Sigurðar hreppstjóra Sigurfinnssonar.
Sigurður Ísleifsson byggði hið nýja hús sitt á hæðinni mjög nálægt því, sem Hvítingar voru áður fyrri, steinarnir á þingstað Eyjaskeggja í fornri tíð og þing þeirra dró nafn af. Sigurður kallaði hús sitt Káragerði, nafni bæjar þess í Landeyjum, sem kona hans, Guðrún Jónsdóttir, var ættuð frá.
Bændur í Eyjum, sem byggingu höfðu fyrir öllum lendum og löndum þar samkv. byggingarlóðabréfum og samningum við jarðardrottinn, ríkið, töldu Sigurði hreppstjóra og sýslumanni, umboðsmanni jarðardrottins, algjörlega óheimilt að leyfa nokkrum manni byggingu íbúðarhúss svo fjarri Sandi, þ.e. höfninni. Fannst bændum sem þrengjast mundi fyrir dyrum sínum, ef frjálst skyldi að byggja íbúðarhús á úthaga sínum um Heimaey og skírskotuðu til byggingarbréfa sinna og fornrar hefðar um rétt sinn.
Endalyktir urðu þær á þjarki þessu, að Sigurður Ísleifsson varð að rífa hið nýbyggða hús sitt og flytja það nær höfninni. Þá var það sem þau hjón, Sigurður og Guðrún, byggðu íbúðarhúsið Merkisstein, Heimagata 9. Í það hús notuðu þau timbrið úr Káragerði sínu.
Þegar endalyktir á þjarki þessu um Káragerði Sigurðar Ísleifssonar og þeirra hjóna urðu þær, sem nú var greint, keyptu þau hjón „Gamla skólann“ af sýslusjóði til þess fyrst og fremst að ná eignarhaldi á lóð (þ.e. óvéfengjanlegum afnotarétti af lóð) undir íbúðarhús það, er þau hugðust byggja aftur í Eyjum, en skólahúsinu fylgdi stór lóð, leikvangur barnanna. Hjónin gáfu nú skólahúsinu gamla nýtt nafn og kölluðu það Dvergastein. Svo heitir það enn í dag. Ekki fluttu þau hjón í húsið, þó að þau keyptu það, heldur leigðu þau íbúð í Garðhúsum hjá Einari Jónssyni, en hann og Sigurður voru miklir vinir. Þar bjuggu þau, meðan þau byggðu íbúðarhús sitt Merkisstein nokkrum metrum fyrir austan Dvergastein. Það var 1907. Árið eftir fengu þau lán, kr. 800,00 í Sparisjóði Vestmannaeyja (hinum eldri) út á nýja íbúðarhúsið sitt.
Sigurður og Guðrún leigðu Edvard Fredereksen bakarameistara íbúð í Dvergasteini, rishæðina. Á neðri hæð hafði Edvard brauðgerðarhús sitt, rak þar brauðgerð. Þar var það, sem eitt sinn kviknaði í hjá honum, svo að logarnir stóðu út um glugga á austurstafni Dvergasteins. Fljótlega tókst þó að slökkva eldinn. Loftbitar sviðnuðu mjög og mun mega sjá þess merki enn í Dvergasteini.
Árið 1907 leigja í Dvergasteini hjónin Magnús Árnason „húsmaður“ og Ingigerður Bjarnadóttir, síðar byggjendur og búendur að Lágafelli (Vestmannabraut 10) í Eyjum um tugi ára.
Árið 1908 flytja til Eyja hjónin Guðmundur Magnússon og Helga Jónsdóttir, sem síðar (1922) byggðu Goðaland á Flötum (Flatir 16). Þessi hjón keyptu Dvergastein. Guðmundur réðist smiður við Edinborgarverzlun G.J.J.. Hjónin bjuggu í Dvergasteini 3 ár.
Með bréfi dagsettu 27. júlí 1911 kaupir Magnús Jónsson frá Minni-Borg undir Eyjafjöllum (bróðir Guðjóns á Sandfelli og þeirra bræðra) Dvergastein af Guðmundi Magnússyni. Þau hjón, Magnús og Guðríður Jónsdóttir, búa í húsinu í 5 ár, ýmist ein eða þau leigja annarri fjölskyldu rishæðina. T.d. leigðu þar hjá þeim Magnús smiður Magnússon og kona hans Oddný Erlendsdóttir¹), sem síðar byggðu íbúðarhúsið nr. 10 á Flötum. Þá áttu 12 manns heima í Dvergasteini. Þau munu hafa flutt úr Dvergasteini um 1920, er þau byggðu á Flötum og Magnús stofnaði og byggði bátaviðgerðarstöð sína þar niður við höfnina. Þau mannvirki Magnúsar Magnússonar keypti Ársæll Sveinsson 21. apríl 1941 og byggði þar skipasmíðastöð sína (Skipasmíðastöð Vestmannaeyja).
Með bréfi dags. 15. maí 1916 kaupa hjónin Eiríkur Ögmundsson og Júlía Sigurðardóttir Dvergastein og hafa búið þar síðan. Kaupverðið var kr. 2.000,00.
¹) Leiðrétting: Oddný Erlendsdóttir.

Þ.Þ.V.