Blik 1962/Saga Bókasafns Vestmannaeyja, II. hluti

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1962HARALDUR GUÐNASON:


Saga Bókasafns Vestmannaeyja


(Lestrarfélag Vestmannaeyja — Sýslubókasafn — Bæjarbókasafn)


1862-1962
(2. hluti)Þessum skjölum fylgdi Listi yfir þá sem gjörast vilja meðlimir lestrarfélags Vestmannaeyja. Á listanum eru skráð nöfn 27 stofnfélaga lestrarfélagsins, en Jón Árnason í Þorlaugargerði virðist hafa afturkallað aðild sína að félagsstofnuninni, því strikað hefur verið yfir nafn hans. Þeir, sem „einhver efni hafa og vilja vel sér og þessum afskekta hólma“ reyndust því 26 alls, en það sýnir, að rösklega einn fjórði heimila í þorpinu á hlut að þessum félagsskap. Þetta er ekki lítil þátttaka, en vafalaust hafa einhverjir orðið utangarðs vegna fátæktar. Tillag hvers og eins er ærið misjafnt. Hefur ekki verið unnt að fylgja eftir ákvæðinu um lágmarksframlag. Bryde kaupmaður greiðir mest, 20 rd., sem var mikið fé á þeim tíma. Sýslumaður og sóknarprestur leggja fram 10 rd. hvor, greitt í bókum, næst kemur félagsmaður með 8 rd. virði í bókum, tveir borga 5 dali hvor, báðir danskir, þrír borga 2 dali og fimm leggja fram 1 dal hver. Átta borga 48 skildinga hver og fjórir 32 sk. Bókbindarinn rekur lestina með 42 sk. framlagi greiddu með bókbandi.
Þar sem svo vel vill til, að listinn með nöfnum hinna fyrstu meðlima lestrarfélagsins er enn varðveittur, þykir rétt að birta hér nöfn þeirra. En þar sem forgöngumennirnir tveir, Bjarni sýslum. og séra Brynjólfur, koma mjög við sögu meðan þeirra naut við hér, verður þeim gerð nokkur skil í tveim næstu köflum.

J.P.T. Bryde, selstöðukaupmaður.

Jóhann Pétur Thorkelin Bryde, einn af þrem aðalstofnendum, f. í Danska Garði (Kornhól) 10. sept. 1831. Faðir hans var Niels N. Bryde. Hann var Íslandskaupmaður um 5 ártuga skeið, átti verzlanir víða um land og var fremur vel þokkaður af landsmönnum. Sonurinn; J.P.T. Bryde, oftast kallaður Pétur Bryde, erfði Garðsverzlun, en eftir 1870 dvaldi hann lengstum í Khöfn.

J.P.T. Bryde var hlyntur nýbreytni, sem til framfara horfði; þó varla í verzlun. Ber því m.a. vitni hið óvenjumikla framlag hans til lestrarfél.
Hann gerði fyrstu tilraun með trjárækt í Eyjum árið 1856; gróðursetti trjáplöntur í Dalnum og nefndi Þórulund, til minningar um konu sína. Talið er, að hann hafi útvegað fyrsta lundaháfinn til Eyja (1875). Þá gaf Bryde nýtt orgel í Landakirkju (1877).
Bryde var kosinn heiðursfélagi lestrarfélagsins á aðalfundi þess 13. júní 1863, „sem mikill velgerðarmaður félagsins.“
Bryde lézt í Khöfn 13. apríl 1910.
Wilhelm Thomsen, verzlunarstjóri í Godthaab, var fæddur 1844. Var hafnsögumaður um skeið og settur sýslumaður 1871 í fjarveru Bjarna E. Magnússonar. Var kosinn í stjórn Skipaábyrgðarfélagsins við brottför sýslumanns. Thomsen var talinn starfsmaður mikill, en óreglusamur. Hann strauk til Ameríku 1873 vegna sjóðþurrðar við verzlunina.
Helgi Jónsson í Kornhól var ættaður úr Vestur-Landeyjum. Hann var góður bóndi og hinn mætasti maður. Kona hans var Steinunn¹), dóttir Jóns Brandssonar í Hallgeirsey. Helgi drukknaði við Elliðaey í júlí 1864.
Jóhann Pétur Bjarnasen var fæddur 1835, Skagfirðingur að ætt. Kona Péturs var Jóhanna, dóttir Rasmussens skipstjóra og Johanne Roed, kölluð Maddama Rúð. J.P.Bjarnasen var verzlunarstj. í Garðinum. Meðal barna hans var Anton, sem síðar kemur mjög við sögu lestrarfélagsins. Jóhann Pétur Bjarnasen lézt 1869.
Gísli Bjarnasen, bróðir Jóhanns Péturs, f. 1837. Verzlunarstjóri í Juliushaab og um skeið við Garðsverzlun. Gísli var merkur maður og vel látinn. Hann hætti verzlunarstörfum og gerðist bóndi á Vilborgarstöðum. Árið 1883 flutti hann til Kaupmannahafnar og starfaði þar að bóksölu. Þar lézt hann fáum árum síðar. — Áður en Gísli kvæntist, átti hann son, er Gísli hét; hann var faðir Jóns útgerðarmanns að Ármóti.
C. Bohn var verzlunarstjóri í Vestmannaeyjum. Hann andaðist þar 29. jan. 1863 og var jarðsettur í Landakirkjugarði. Um sumarið var hann grafinn upp og fluttur til K.hafnar. Ekki er kunnugt um nánari æviatriði.
Magnús Pálsson bóndi á Vilborgarstöðum. Hann lézt á ferð í Landeyjum árið 1869. Kona hans hét Oddný Þórðardóttir. Þau hjón áttu tvær dætur, er fluttu til Ameríku og eiga þar afkomendur.
Páll Jensson bóndi á Búastöðum var elzti félaginn í lestrarfélaginu, fæddur 1797. Páll var ættaður úr Fljótshlíð. Kona hans var Gróa Gunnarsdóttir²), fædd sama ár og Páll. Hún var úr Austur-Landeyjum. Þau hjón áttu eigi afkomendur, en ólu upp tvö fósturbörn. Páll var ekki lengi í félaginu, mun hafa andast fyrir 1870.
Brynjólfur Halldórsson var á sinni tíð þekktur bóndi í Norðurgarði og formaður. Hann var ættaður frá Strönd í Vestur-Landeyjum. Kona Brynjólfs var Jórunn Guðmundsdóttir. Meðal barna þeirra voru Halldór blindi, er síðast bjó í Hafnarfirði, og Margrét, kona Hannesar lóðs á Miðhúsum. Brynjólfur lézt árið 1874.
Ingimundur Jónsson bóndi og formaður á Gjábakka. Hann var Skaftfellingur að uppruna, fæddur 20. ágúst 1829. Ingimundur var kunnur maður á sinni tíð, hlaut m.a. virðingarstöður í Herfylkingunni. Börn Ingimundar og Margrétar, konu hans, urðu þekktir borgarar þessa bæjar, svo sem Kristján á Klöpp, Jón í Mandal og Þóranna ljósmóðir í Nýborg. Hann lézt 25. apríl 1912.
Árni Diðriksson, bóndi og formaður í Stakkagerði, var frá Hólmi í Austur-Landeyjum. Bróðir hans var Þórður, hinn kunni Mormónatrúboði. Árni var merkisbóndi, hreppstjóri um skeið og flokksforingi í Herfylkingunni. Árni var kvæntur Ásdísi Jónsdóttur frá Berufirði. Dóttir þeirra hjóna var merkiskonan Jóhanna, er átti Gísla Lárusson, gullsmið og útvegsbónda í Stakkagerði. Árni Diðriksson hrapaði til bana í Stórhöfða árið 1903.
Carl Roed veitingamaður. Hann var fæddur í Danmörku 1822, en lézt í Eyjum 29. des. 1896. Hann var beykir að iðn. Var félagi í LV til æviloka og las jafnan mikið. Seinni kona Carls var merkiskonan Ane Johanne Grüner, sem raunverulega rak veitingahúsið.
Bjarni Ólafsson bóndi og formaður í Svaðkoti. Hann var fæddur að Steinmóðarbæ undir Eyjafjöllum 22. jan. 1836. Kona Bjarna var Ragnheiður Gísladóttir, ættuð úr Fljóthlíð. Voru þau hjón dugmikil og samhent í búskapnum. Bjarni fórst af bát sínum 16. júní 1883. Veður var gott og sjór sléttur. Var haldið að illhveli hefði grandað bátnum. Með Bjarna fórst m.a. Tíli Oddsson, greindur maður, lengi í lestrarfélaginu. — Meðal barna Ragnheiðar og Bjarna var Guðríður í Brautarholti, kona Jóns Jónssonar frá Dölum.
Jón Jónsson í Gvendarhúsi var fæddur að Kirkjulandi í A.-Landeyjum 1833. Jón bjó um hálfa öld í Gvendarhúsi, þótti góður bóndi á gamla vísu og stundaði sjó jafnframt, meðan orka leyfði. Kona Jóns var Sesselja, hálfsystir Hannesar á Miðhúsum. Jón var sérkennilegur í háttum og orðheppinn. Hann var greindur vel, las jafnan mikið, einkum fornrit og fræðibækur. Hann las og danskar bækur. Jón var í lestrarfélaginu til 1892. Hann lézt árið 1919. (Sjá Blik 1956 og 1958, Þjóðhátíðarblað Vestmannaeyja 1957).
Stefán Austmann var sonur séra Jóns Austmanns, f. í Vestmannaeyjum 1829. Hann bjó að Draumbæ. Kona Stefáns var Anna Benediktsdóttir ljósmóðir, merk kona. Var Stefán fyrsti maður hennar, en hún var þrígift. Stefán drukknaði í fiskiróðri 13. marz 1874.
Jón Austmann í Þorlaugargerði var bróðir Stefáns. Jón var fæddur 1814. Bjó alllengi að Þorlaugargerði. Annars var hann beykir að iðn, lærði erlendis. Jón Austmann lézt árið 1888.
Guðni Guðnason var bóndi að Dölum. Guðni lézt árið 1875.
Sveinn Þórðarson beykir á Löndum. Hann var undirforingi í Herfylkingu Vestm.eyja. Sveinn var sonur Þórðar prests að Kálfafelli. Kona Sveins hét Helga Árnadóttir. Sveinn flutti með fjölskyldu sína til Ameríku árið 1878.
Árni Einarsson bóndi á Vilborgarstöðum, hreppstjóri og alþingismaður. Árni var merkur fróðleiksmaður. Hann var formaður og þótti veðurglöggur svo að af bar. — Kona Árna var Guðfinna Jónsdóttir Austmanns, prests að Ofanleiti. Meðal barna þeirra hjóna var Sigfús, póstafgreiðslum. og alþingismaður, Lárus stúdent og Kristmundur, er fluttust til Bandaríkjanna. Árni Einarsson lézt árið 1899.
J.N. Thomsen, sem er skráður nr. 23 í félagsskránni³³) , mun vera Jes N. Thomsen, er var verzlunarstjóri í Godthaab. Kona Jes Thomsens var Jóhanna Karólína, ekkja Péturs Bjarnasen.
Jón Salómonsson verzlunarstjóri og hafnsögumaður, sonur Jóns kaupmanns Salómonsen frá Kúvíkum. Jón var bróðir Ragnheiðar, konu séra Brynjólfs Jónssonar og Jóhönnu, konu Thorvalds Abels kaupmanns³). Kona Jóns var Jórunn, dóttir séra Jóns Austmanns. Jón var flokksforingi og vopnasmiður Herfylkingarinnar. Hann lézt árið 1872.
Kristján Magnússon verzlunarstjóri var fæddur 1830, að Nýjabæ.
Foreldrar Kristjáns voru Skaftfellingar. Kristján var verzlunarstjóri við Godthaabsverzlun til ársins 1862. Hann var dugnaðarmaður; átti þá enginn meiri skipakost í Eyjum. Kristján lézt árið 1865. Kona hans, er var dönsk, fluttist þá til K.hafnar með syni þeirra hjóna tvo. Varð annar þeirra, Christian að nafni, þekktur maður í Danmörku, forstjóri margra vátryggingafélaga í Kaupmannahöfn.
Sigurður Torfason hreppstjóri, Búastöðum, var fæddur að Neðra-Dal undir Eyjafjöllum 14. febrúar 1822. Kona Sigurðar, Guðríður Jónsdóttir, (f. 1829) var úr Eyjum. Sigurður naut mikils álits, enda skarpgreindur maður.
Eyjólfur Hjaltason, var þurrabúðarmaður á Löndum; lézt 30. des. 1884. Eyjólfur var kvæntur Arndísi Sigurðardóttur, áttu þrjú börn. Eyjólfur var bókbindari lestrarfélagsins, greindur maður og las mikið til æviloka.
Þeir 26 stofnendur lestrarfélagsins, er nú hafa verið taldir, hafa þá greitt samtals 74 ríkisdali 46 skildinga.** Til samanburðar má nefna, að þá er bókasafn Vesturamtsins var stofnað í Stykkishólmi 1847, söfnuðust 53 rd. og 48 sk. frá 48 gefendum í 4—5 næstu sýslum. —
Það virðist einkum tvennt, er veldur því, að í Vestmannaeyjum er stofnað eitt fyrsta bókasafn í kaupstað á Íslandi. Í fyrsta lagi framtakssemi Bjarna E. Magnússonar. Í öðru lagi góðar undirtektir Eyjamanna sjálfra, er forystumennirnir riðu á vaðið. Og það er vert að veita því athygli, að 19 af 26 stofnfélögum hafa verið í Herfylkingu Vestmannaeyja. Samstarfið þar hefur glætt félagsþroska þeirra, og það litla bókasafn, sem Kohl sýslumaður hafði fengið þeim til handa, hefur án efa haft sín áhrif, er stofnun stærra safns komst á dagskrá. Og ef til vill er það ekki tvímælalaust, hvort bókasafn hefði verið stofnað 1862, ef meginþorri félagsmanna hefði ekki áður öðlazt reynslu og þroska í þessum sérstæða félagsskap Kohls sýslumanns.
** Haustið 1863, er útlán hófust, höfðu þrír nýir félagar bætzt í hópinn. Virðist því mega telja þá meðal stofnfélaga, sem þá verða 29 með samtals 77 rd. 16 sk. framlagi. Þessir þrír, er eigi komust á hina upprunalegu stofnskrá voru: Torfi Magnússon assistent, Matthías Markússon smiður og Þorsteinn Jónsson hreppstjóri og alþm. Nýjabæ.
¹) Kona Helga í Kornhól var Sigríður Bjarnadóttir frá Miðhúsum. Tengdadóttir Helga, kona Jónasar í Nýjabæ, var Steinvör dóttir Jóns Brandssonar í Hallgeirsey. (Heimaslóð).
²) Kona Páls Jenssonar var Gróa Grímsdóttir. (Heimaslóð).
³) Leiðr. (Heimaslóð).
³³) Leiðr. (Heimaslóð).

SÝSLUMAÐUR OG BÓKAVÖRÐUR (1862—1871)


Bjarni E. Magnússon, sýslumaður.

Bjarni Einar Magnússon var fæddur í Flatey á Breiðafirði 1. des. 1831. Foreldrar hans voru Þóra, dóttir Guðmundar Scheving sýslumanns í Barðastrandarsýslu, og Magnús Gunnarsson trésmiður. Var föðurættin úr Fljótum, en móðurætt af Vesturlandi. Foreldrar Bjarna gengu ekki í hjónaband. — Bjarni Einar ólst upp í fóstri hjá Einari Ólafssyni og Ástríði Guðmundsdóttur, foreldrum Þóru, móður Matthíasar Jochumssonar. Hann var settur til mennta í Lærða skóla 1847 og útskrifaðist þaðan 1854 með fyrstu einkunn. Bjarni sótti námið af miklu kappi. Var honum falið að gæta reglu í skólanum. Sigldi Bjarni nú til K.hafnar og lauk embættisprófi í lögfræði 1860 með I. einkunn. Þetta segir Gröndal í kunningjabréfi: ,,Bjarni Magnússon er að taka jus; hann er búinn með það skriflega, og var svo mikið, að þrettán dónar voru 30 daga að bera það upp á loftið í Garnisonkirkjunni, þar á að rannsaka málið og eru fimm eiðsvarnar níumannanefndir alvopnaðar settar til að rita láð á hrygginn á Bjarna með bryntröllum.“
Um haustið kvæntist Bjarni Hildi Solveigu, dóttur þjóðskáldsins Bjarna Thorarensen. Ungu hjónin sigldu til Danmerkur það haust og bjuggu þar um veturinn.
Bjarna var veitt Vestmannaeyjasýsla 18. febrúar 1861. Þar var hann sýslumaður í 11 ár, en 24. júlí 1871 var honum veitt Húnavatnssýsla. Flutti hann norður þangað vorið 1872 og bjó að Geitaskarði. Hann varð bráðkvaddur 25. maí 1876. Börn þeirra Hildar voru: Guðmundur Scheving, héraðslæknir í Hólmavík, f. 1861 í Vestm., d. 24. jan. 1909; Ásthildur Herdís, f. 1872 í Vestm., dó ung; Brynjólfur bóndi í Þverárdal, f. 1865 í Vestm., d. 1928; Páll Vídalín, f. 1873 í Geitaskarði, sýslumaður í Stykkishólmi, d. í Rvík 1930.
Hildur Solveig, kona Bjarna, var fædd 31. ágúst 1835. Hún var merk kona. Fyrirmannleg var hún, og sópaði að henni jafnan. Um hana hefur verið sagt, að hún hafi lagt öllum gott til í bak og brjóst og hún særði engan, þótt lífið hefði sært hana sárum, er hvorki læknir né tími fengi grætt. Frú Hildur dvaldi lengi hjá Brynjólfi syni sínum í Þverárdal, en á efri árum fluttist hún til Páls sonar síns í Stykkishólm og þar andaðist hún árið 1915.
Bjarna E. Magnússyni er svo lýst, að hann hafi verið glæsimenni í sjón og reynd. „Fullkominn meðalmaður á vöxt og vel vaxinn, vel fallinn í andliti og gæfumannlega fyrirmannlegur í yfirbragði, en jafnframt hvatlegur, góðlyndur og glaðlyndur, léttur og ör í skapi, vel máli farinn, ljúflyndur í allri framgöngu, en þó einarður vel, háttprúður í dagfari, hreinskiptinn og guðrækinn. Röggsamur í embættisfærslu og stóðust dómar hans yfirleitt fyrir Hæstarétti. Hann var skyldurækinn og skjótur til framkvæmda, reglusamur, frjálslyndur og framsækinn og vildi öllum til liðs vera.“
Áður hefur verið drepið á, hvernig umhorfs var í Eyjum er B.E.M. fluttist þangað. Aðkoman var ömurleg. Þar voru ærin verkefni fyrir framsækinn mann, enda lét Bjarni ekki við það sitja, að rækja embættisstörfin ein.
Vinur þeirra hjóna, þjóðskáldið Matthías Jochumsson, heimsækir þau fyrsta árið í Eyjum. Í fylgd með honum var enskur maður, Sharpe kvekaraprestur. Fóru þeir austur í Mýrdal, en í Landeyjum lögðu þeir lykkju á leið sína, brugðu sér til Eyja, þar sem þeir voru tepptir í fimm daga hjá Hildi og Bjarna, sem tóku þeim tveim höndum. Matthías hafði lagt hug á Hildi vestur í Flatey, en vandamenn hennar hindrað, að þau næðu saman. „Þeim líður dável,“ segir Matthías. „Eyjarnar eru dáfallegar, og mjög björgulegt, því fuglinn er ógrynni. Bjarna þykir hægt að beita réttvísinni í Eyjum, enda er hann þar einvaldari en víðast annarsstaðar, því þar liggur allt fyrir höndum honum.“
Árið 1862 var Skipaábyrgðarfélagið stofnað fyrir forgöngu sýslumanns***. Áður hafði eitt slíkt félag verið stofnað á landinu (á Ísafirði). Sjálfur annaðist sýslumaður bókhald og allan rekstur félagsins, meðan hann bjó í Eyjum. Hann hafði og á hendi eftirlit með fiskiskipum, vandasamt starf. Eitt sinn bar svo við, að franskt fiskiskip strandaði við Eyjar. Kom þá vel í ljós mannúð Bjarna og hjálpsemi. Hlaut hann viðurkenningu Frakkakeisara fyrir frábæra aðstoð við skipbrotsmenn. Á vissan hátt beitti hann sér fyrir slysavörnum. Skipaði hann nefnd til þess að athuga, hvort innsiglingin mundi ekki vera orðin hættuleg vegna sandgrynninga.
*** Bátaábyrgðarfél. Vestmannaeyja 1862—1937, bls. 105—108 og Blik 1959.

Bjarni hafði með höndum umboð jarða í Eyjum, samkv. byggingarlögum frá þeim tíma, er Vestmannaeyjar heyrðu undir Mikjálsklaustur í Noregi. Hvatti hann bændur mjög til að auka túnræktina og lofaði ívilnun í greiðslu landsskuldar. Áður höfðu fyrirrennarar hans, Abel og Kohl, stranglega bannað stækkun túnanna á þeim forsendum, að ekki mætti skerða haglendið. Voru ýmsir bændur sama sinnis og snérust öndverðir gegn ræktunarstefnu Bjarna. Árið eftir að Bjarni flutti til Eyja útvegaði hann bændum hafrafræ og seinna grasfræ. Var þetta mikil nýjung.
Í þann mund er Bjarni kom til Eyja, var aflatregða mikil, sem þó fór vaxandi næstu ár. Árið 1868 bættist það ofaná, að bændur misstu 3/4 fjárins. Vertíðarhlutir voru þá 50 fiskar. 1869 beitti hann sér fyrir því, að Eyjabúar fengju hlut af gjafakorni, sem þá var úthlutað. Þá hvatti hann til aukinnar matjurtaræktar. Á fiskileysisárunum vann sýslumaður að því, að þilskip yrði keypt til fiskveiða. Var tilraun gerð, en gafst ekki vel.
Árið 1870 útvegaði sýslumaður 500 rd. styrk til atvinnubótavinnu, svo bætt yrði úr sárustu neyð þeirra fátækustu. 60 menn fengu vinnu við ræktun Nýjatúns; líkast til fyrsta atvinnubótavinna á Íslandi. Næsta ár fékkst sama fjárveiting í þessu skyni, en þá neituðu bændur að láta meira af haglendi undir tún.
Þá skal þess getið, að fyrir atbeina Bjarna sýslumanns voru veittir 600 rd. til byggingar þinghúss og fangageymslu í Eyjum.
Í Vestmannaeyjum var stofnaður fyrsti barnaskóli á Íslandi 1745, en lagðist niður. Bjarni sýslumaður hóf snemma atlögu að stjórnarvöldunum um stofnun barnaskóla. Sjálfur kenndi hann unglingum endurgjaldslaust ýmsar námsgreinar. Sýslumaður vildi koma á fót skóla í Landlyst, en þar var þá sýsluskrifstofan og bókasafnið. Stjórnarvöldin tóku ekki illa í málið, en hummuðu fram af sér framkvæmdir.
Þess er áður getið, að Bjarni Magnússon beitti sér fyrir stofnun lestrarfélags í Eyjum á öðru dvalarári. Hann vildi ekki aðeins bæta hag fólksins efnalega: honum lá ekki síður á hjarta að efla andans mennt. Það er vissulega að vel athuguðu máli, að hann hefur forgöngu um stofnun lestrarfélagsins. Hann einn hafði reynsluna af slíkum félagsskap, og það var góð reynsla. Hann ólst upp í Flatey og Skáleyjum, undir handarjaðri forvígismanna fyrstu lestrarfélaganna á Íslandi. Bókasafn Flateyjarstiftunar var fyrsta almenningsbókasafn á Íslandi, stofnað 1836 fyrir atbeina hins merka hugsjónamanns, séra Ólafs Sivertsen. Gáfu prestshjónin 100 bindi bóka til safnsins og 100 rd. í reiðufé. Árið 1790 hafði að vísu verið stofnað ,,Ens Íslenska Suðurlands Bókasöfnunar og lestrarfélag“ en það var félag embættismanna; lagðist félagið niður skömmu eftir 1800.
Árið 1792 stofnaði Stefán Thorarensen amtmaður fyrsta lestrarfélag norðanlands, og náði það yfir þrjár sýslur. Bókasafn Vesturamtsins í Stykkishólmi tók til starfa 1847, og 1851 var stofnað fyrsta lestrarfélag í Árnessýslu. Í Mývatnssveit var stofnað lestrarfélag 1848.
Á Barðaströnd voru stofnuð 4 lestrarfélög fyrir bein áhrif frá Flateyjarsafni; hið 5. var lestrarfélagið í Vestmannaeyjum. Bjarni E. Magnússon ólst upp með Flateyjarsafni og þekkti menntagildi þess. Það lá því í hlutarins eðli, að jafn framfarasinnaður maður mundi reyna slíka félagsstofnun í sinni sýslu. Hann vissi manna bezt, hverja þýðingu góður bókakostur hafði fyrir fátækt fólk í einangraðri byggð. Þetta er Matthíasi Jochumssyni enn í fersku minni á gamals aldri: ,,Þá hófust lestrarfélög víða um sveitir í líkingu við framfarastiftunina í Flatey, þannig var eitt félag fyrir Reykhóla og Gufudalssveit, er ég man fyrst til; gengu bækurnar bæja á milli í belgjum, og er mér í barns minni fögnuðurinn, þegar þeir belgir héldu innreið sína.“
Bækur Lestrarfélags Vestmannaeyja voru geymdar í „Stiftelsinu“ (nú Landlyst) meðan Bjarni sýslumaður veitti safninu forstöðu og nokkru lengur. Útlán voru tvisvar í viku frá haustnóttum til vertíðar. Sýslumaður annaðist allan rekstur félagsins og lánaði sjálfur bækurnar, meðan hann bjó í Eyjum. Hélt hann nákvæma bók yfir starfsemi félagsins, skrá yfir öll útlán, lánþega, láns- og skiladag. Útlánaskrá í sama formi var haldið áfram til aldamóta.
Að loknu dagsverki ganga þreytulegir erfiðismenn á fund yfirvaldsins með dýrmætar bækur bundnar í klút; bókunum er skilað og aðrar fengnar í staðinn. Sýslumaður skrifar nöfn bóka og manna í þar til gerða dálka, veitir leiðbeiningar um lestrarefni o.s.frv. Og svo er haldið heim með tilhlökkun í huga yfir ólesnum bókunum, þar er eitthvað fyrir andann í allri hinni efnalegu fátækt. Mundi þá ekki margur hafa hugsað sem svo: „Svona eiga sýslumenn að vera.“
Félagatala hélst svipuð til ársins 1868. Það ár voru félagar 28, en svo fór félögum fækkandi; hefur versnandi árferði vafalaust átt sinn þátt í því. Næstu árin eru félagar aðeins 18 og fækkar enn niður í 12 tvö síðustu árin, sem B.E.M. veitti félaginu forstöðu. Og sú varð raunin á, að mörg lestrarfélög lögðust niður. Í Fréttum frá Íslandi segir svo 1871: „Af lestrarfélögunum er lítið að segja. Um flest af þeim vantar skýrslur, en svo mikið er víst, að þeim fer óðum fækkandi og hnignandi; hafa þau víða verið lögð niður s.l. ár og bækur þeirra seldar fyrir lítið verð.“
Þessi ömurlega þróun átti sér vissar orsakir. Félögin höfðu ekki annað fé til bókakaupa en það, sem félagsmenn sjálfir létu af hendi; margir varla aflögufærir. Aukningin varð því lítil, og svo lögðu menn árar í bát. Þá var og ríkjandi sá hugsunarháttur, að bókvitið yrði ekki látið í askana og þeim legið á hálsi, sem „lágu í bókum“.
Það var ekki annað en vænta mátti, að lestrarfélaginu í Eyjum færi hnignandi, því að sjaldan var ástandið skuggalegra en einmitt 1872, því að þá lá við hallæri. Fjárráð félagsins hlutu því að minnka og félögum að fækka. Fyrsta starfsárið eru tillög félagsmanna rúmir 77 rd., næsta ár 49 rd. og 1865 eru tekjurnar ekki nema 20 rd. Frá 1865 greiða menn gjöldin næstum að jöfnu í bókum og peningum og 1869 meira í bókum. Það ár var prentuð fyrsta bókaskrá félagsins, í Kaupmannahöfn. Var Bryde kaupmanni falið að sjá um prentunina, sem kostaði 7 ríkisdali.
Bókaskráin er ein örk (16 bls.) í 8vo, prentuð hjá S.L. Möller. Bæklingurinn heitir „Skýrsla um Lestrarfélag Vestmannaeyja. Reglugjörð þess og bókaskrá eftir B.E. Magnússon sýslumann. Gefin út að tilhlutun félagsins. Kaupmannahöfn. Prentuð hjá S.L. Möller. 1869.“
Bókaskráin er morandi af prentvillum; virðist ekki hafa verið lesin af henni próförk. Það eina eintak, sem nú er til af bókaskránni — svo vitað sé ,— var upphaflega í eigu Jóns Borgfirðings, nú í Landsbókasafni.
Í formála að skýrslu „um stofnun „Lestrarfélags Vestmannaeyja“ segir Bjarni sýslumaður og bókavörður frá tildrögum að stofnun félagsins og rómar hann góðar undirtektir Eyjabúa, því safnazt hafi hérumbil 80 rd. til bókakaupa. En þrátt fyrir það hefði félagið eigi náð neinum verulegum framförum, segir sýslumaður, ef það hefði ekki notið styrks annarsstaðar frá því til eflingar. Verður vikið nánar að þeim stuðningi síðar.
Þá er prentuð framan við skrána reglugerðin, sem fyrr er greint frá, og loks kemur sjálf bókaskráin með 506 númerum. Þetta er flokkuð skrá og eru flokkarnir 8, en innan hvers flokks eru rit á íslenzku merkt A og rit á erlendum málum (dönsku) eru merkt B. Fyrst er þá raðtala bókarinnar, þá bókarnafn og loks höfundar. Stundum er getið útgáfuárs, en sjaldan útgáfustaðar. Flokkunin er þessi: I. Guðfræði; II. Stjórnfræði og lögfræði; III. Lækninga- og heilsufræði; IV. Náttúrufræði og jarðyrkjufræði; V. Sagnfr. og landafr.; VI. Íslendingasögur og fornfræðirit; VII. Kvæði, skemmtisögur og skáldskaparrit; VIII. Ýmislegs efnis. — Fjórir flokkar hafa fleiri rit á íslenzku en dönsku: Þrír fyrstu flokkarnir og sá síðasti. Náttúrufræðin á aðeins 4 rit á íslenzku, en 20 á dönsku. Sagnfræði á 43 rit á íslenzku, en 156 á dönsku. Skáldritaflokkurinn á aðeins 35 bækur á íslenzku, en 143 á dönsku. Þar eru m.a. sögur Marryats, sem njóta enn svipaðrar hylli og fyrir hundrað árum, þar er sá góði vindmylluriddari Don Quixote í 5 bindum. Þar er bók um Hvad man kan see gratis paa Gaden, bók um dauðasyndirnar sjö, harla vinsæl. Í þá daga gátu menn fræðst um Can Can, því þar var m.a. En Can-can Danserindes Memoirer.
Af þeim 500 bindum, sem voru í lestrarfélaginu í Eyjum árið 1869 eru enn til nokkuð á annað hundrað bindi, en margar fágætustu og dýrustu bækurnar eru löngu glataðar eða uppslitnar.
Fyrsta áratuginn var því bókaeign lestrarfélagsins að meginhluta á dönsku, enda bókaútgáfa lítil hér á landi í þann tíð. Til marks um það er, að á árunum 1852—60 komu út 350 bækur og bæklingar á Íslandi, en nokkuð var prentað í K.höfn. Í bókaskránni 1869 eru aðeins 150 bækur á íslenzku, en 356 á dönsku. Af ritum á íslenzku er helzt að nefna Skírni, Ný Félagsrit, Þjóðólf, Landhagsskýrslur, fornritin, Heljarslóðarorrustu og Gandreið, Pilt og stúlku, 1001 nótt, nokkrar rímur og ljóðabækur. Á dönsku var margt sögulegra rómana og fræðirita um ýmiskonar efni.
Bjarni sýslumaður var mjög ötull í útvegun bóka. Auk þess, er keypt var fyrir innkomin árgjöld, leitaði hann til áhrifamikilla aðila í þessu skyni. Sennilegt er, að hann hafi skrifað Jóni Sigurðssyni um stofnun lestrarfélagsins og leitað stuðnings hans. Bjarni hafði kynnzt Jóni forseta á háskólaárunum í Höfn og mat hann mikils. Jón forseti sendi mörgum lestrarfélögum bókagjafir og hinu nýstofnaða félagi í Eyjum sendi hann myndarlega gjöf. Var Jón kosinn heiðursforseti lestrarfélagsins á aðalfundi þess 13. júní 1863, samkvæmt tillögu Bjarna sýslumanns. Segir í fundargerð, að ,,herra alþingismaður og skjalavörður Jón Sigurðsson í Kaupmannahöfn, riddari dannebrogsorðunnar, hefur mikillega stutt að stofnun félagsins með því að senda því gefins töluvert af bókum.“ Þá er vert að minnast þess, að Jón Borgfirðingur gaf hinu nýja félagi nokkrar bækur íslenzkar.
Á aðalfundi 1864 skýrði Bjarni sýslumaður frá því, að stofnendur félagsins hefðu sumarið áður sótt um 2—300 rd. styrk til bókakaupa, félaginu til eflingar. Næsta ár veitti kirkju- og kennslumálastjórnin 200 ríkisd. til safnsins og eru þá keypt 116 bindi bóka. Flest voru þau rit á dönsku. Þetta var félaginu mikill fengur og flest eru þetta merk rit; þ.á . er Lovsamling for Island í 12 bindum, nokkur rit um náttúrufræði, Beckers Verdenshistorie í 16 bindum, Thiers Consulatets og Keiserdömmets Historie í 17 bindum og Riises Arkiv for Geografi og Historie í 28 b.

Árið 1868 gaf Einar Þórðarson, prentsmiðjueigandi í Rvík, bækur, sem hann prentaði. Hefur þetta trúlega verið gjöf, sem nokkuð munaði um, því að sýslumaður birtir í Þjóðólfi, 10. apríl 1869, svohljóðandi: „Þakkarávarp. Fyrir bækur þær, sem herra Einar Þórðarson, forstöðumaður prentsmiðjunnar í Reykjavík, sendi Lestrarfélagi Vestmannaeyja á seinastliðnu sumri, votta ég honum hér með mitt innilegt þakklæti félagsins vegna. Vestmannaeyjum í Des. 1868. B.E. Magnússon sýslumaður.“
Útlán fyrsta áratuginn voru frá 70 til 170 á ári, en flest árin um 150. Fyrstu árin eru lánaðar mun fleiri bækur danskar en íslenzkar, en 1870 verður hlutfallið öfugt. Þá fækkar og dönskum í félaginu að mun. Hinsvegar lesa innfæddir dönskuna engu síður, enda voru Eyjarnar hálfdanskt þorp.
Þess er eigi kostur, að greina frá einstökum félagsmönnum eða lánþegum, en til gamans má nefna, að stundum ritar sýslumaður fornafn lánþega og auknefni, en ekki föðurnafn, sem var þó meginreglan. Hann skrifar t.d. Jón „bratti“ og Jón „hái“ ****. Þorsteinn læknir er oftast titlaður „Dr. Þ. Jónsson“ eða aðeins „Dr. medice“. — Þorsteinn læknir, séra Brynjólfur og Jón í Gvendarhúsi voru um áratugi meðal þeirra, er mest lásu bækur safnsins. Þorst. læknir Jónsson gekk í safnið strax, er hann kom til Eyja 1865 og var í því unz hann fluttist til Rvíkur 1906. Kemur hann mjög við sögu lestrarfélagsins síðar. Árið 1869 skrifar B.E.M. í aths. við ársreikning: „Í félagið hefur gengið í júnímánuði þetta ár vinnumaður Jósef Valdason, Gjábakka og borgað 32 sk. fyrir árið 1869—70.“ Er þessa getið vegna þess, að síðar kemur vinnumaðurinn á Gjábakka verulega við sögu lestrarfélagsins.
**** Jón í Bratta og Jón í Háagarði.

Árið 1870 gekk fyrsta konan í félagið, Margrét Jónsdóttir, Nýjakastala.
— Hvað mundi nú hafa verið eftirsóttasta lesefnið í fiskiþorpinu Vestmannaeyjum um og eftir miðja 19. öld?
Sú fræga bók Þúsund og ein nótt mun eftir allnána athugun hafa metið. Kannski hafa hinir fátæku fiskimenn og bændur gleymt um stund eigin örbirgð, er þeir sökktu sér niður í frásagnirnar um töfraheima Austurlanda. Raunar voru menntamennirnir eigi síður hrifnir af þessum sögum. Þorst. læknir og séra Brynjólfur lásu þær ár eftir ár. Og svo segir Gísli Brynjólfsson í dagbók sinni í Höfn: „Lesið Þúsund og ein nótt, mikið og óþrjótandi ímyndunarafl og ótæmandi sögubrunnur er í þessum serknesku frásögnum.“ Nú er fullorðið fólk hætt að lesa Þúsund og eina nótt, svona hefur rómantíkinni farið aftur.
Þá koma Íslendingasögurnar næstar, þjóðsögur, sem raunar voru fáar til á prenti, Noregskonungasögur, Jómsvíkingasaga, Færeyingasaga (1832), mjög vinsæl og Biskupasögur. Af íslenzkum skáldsögum var varla um aðrar að ræða en Pilt og stúlku (1867) og Heljarslóðarorrustu Gröndals. En ein er sú skáldsaga þýdd, sem aldrei stendur í skáp: Felsenborgarsögur (Ak. 1854). Nú lítur enginn við þeirri bók, og er raunar án skaða. Ný Félagsrit voru talsvert lesin, Skírnir og Gestur Vestfirðingur. Öll rit um þjóðleg fræði voru eftirsótt. Riddarasögur voru og mjög vinsælar. Hinsvegar virðast rímur aldrei hafa verið hátt skrifaðar í Eyjum eftir útlánaskrá að dæma. Danskar bækur voru mikið lesnar sem fyrr segir, svo sem Thiers, Verdens Hist., Riises Archiv, Blichers Noveller. Skáldsögurnar Söoffiseren og Taarnet ved Dardanella voru yfirburða vinsælar.
III. hluti

Til baka