Blik 1962/Saga barnafræðslunnar í Vestmannaeyjum, 3. kafli, III. hluti

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1962ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Saga barnafræðslunnar
í Vestmannaeyjum


III. kafli, 1880-1903
(3. hluti)Þegar barnaskólinn var stofnaður í Vestmannaeyjum, voru þar búandi 558 manns.
Þar af ólæsir:

Við skóla
stofnun
Íbúar
558 manns
103 ólæsir innan 10 ára
12 ólæsir 10-15 ára
1 ólæs 15-20 ára
2 ólæsir 20-30 ára
Ólæsir alls 21%

Árið 1881 bjuggu í kauptúninu 556 manns.
Þar af ólæsir:

1881 Íbúar
Íbúar
556 manns
104 ólæsir innan 10 ára
4 ólæsir 10-15 ára
2 ólæsir 15-20 ára
3 ólæsir 20-30 ára
Ólæsir alls 20%

1882 bjuggu í Eyjum 544 m.
Þar af ólæsir:

1882 Íbúar
544
86 ólæsir 10 ára
10 innan 10-15 ára
1 15-20 ára
3 20-30 ára
Ólæsir alls 18,4%

1887 bjuggu 564 m.
Þar af ólæsir:

1887 Íbúar
564
70 ólæsir innan 10 ára
Allir
Aðrir læsir
Ólæsir alls 12,4%

Þessar tölur gefa hugmynd um áhrifin af skólastarfinu á lestrarkunnáttu Eyjabúa, og mun kunnátta í skrift og reikningi lúta líkum hlutföllum.
Árið 1890, 17. sept., var lagt fram á sýslunefndarfundi uppkast að fyrstu reglugjörð fyrir barnaskólann í Vestmannaeyjum. Hana hafði skólanefndin samið fyrir atbeina sýslunefndar, sem samþykkti uppkastið með smávægilegum breytingum. Þá hafði barnaskólinn starfað í 10 ár. Séra Oddgeir Guðmundsen, eins og hann skrifaði sig þá, hinn nýi prestur á Ofanleiti, (Séra Stefán Thordersen lézt 3. apríl 1889), mun hafa átt drjúgan þátt í því að reglugjörðin var samin. Hann var þjálfaður kennari og reyndur skólamaður, eins og áður er drepið á. Hann tók nú raunverulega við forustunni í skólamálum sveitarfélagsins.
Við sýslunefndarkosningu 1889 (22/6) hafði Sigurður Sveinsson ekki verið endurkosinn í sýslunefndina. Þá hvarf hann jafnframt úr skólanefndinni. Sæti hans í sýslunefnd tók J.P. Bjarnasen, verzlunarstjóri við Austurbúðina. Hann var jafnframt kosinn í sæti Sigurðar í skólanefnd og varð gjaldkeri hennar.
Haustið 1890 afréð sýslunefndin að lengja skólaárið um hálfan mán. Skyldi skólinn þá hefjast 1. sept. í stað 15. sept. eins og undanfarin 4 ár og starfa til febr.loka sem áður, og laun kennarans verða kr. 275,00 fyrir starfstímann, 6 mánuði. Næsta haust (1891) var kaup kennarans hækkað í kr. 50,00 á mánuði, eða í kr. 300,00 fyrir 6 mánaða starf.
Stiftsyfirvöldin gjörðu nokkrar athugasemdir við uppkastið að hinni nýju reglugjörð. Þær athugasemdir lutu fyrst og fremst að heilbrigðisháttum, um rekstur skólans og dagleg störf. Í reglugjörðinni skyldu vera ákvæði um 5—6 mínútna kennsluhlé milli hverrar kennslustundar og 10 mínútur einu sinni á dag. Þá skyldi þar einnig kveðið svo á, að skólanefnd hefði gætur á, að kennslustofa sé það stór í hlutfalli við nemendatölu, að 90 rúmfeta loftrúm sé handa hverjum nemanda, og talið vera minnsta loftrúm, sem hæfilegt er hverju barni, segir þar.
Þegar þessum ákvæðum hafði verið bætt inn í reglugjörðina, staðfestu stiftsyfirvöldin hana. Það var vorið 1891.
Hér birti ég reglugjörðina til fróðleiks og geymslu.

REGLUGJÖRÐ
fyrir barnaskólann
í Vestmannaeyjum, staðfest 20. maí 1891.
1. gr.

Það er ætlunarverk skólans að kenna börnum og ófermdum unglingum kristindóm, lestur, skrift, réttritun, reikning, meginatriði landafræðinnar, einkum Íslands, og helztu grundvallaratriði náttúrusögunnar, svo sem um byggingu mannlegs líkama, loft, hita og þyngd, — og ennfremur söng.

2. gr.

Stjórn skólans skal falið á hendur þriggja manna skólanefnd. Formaður þeirrar nefndar er sóknarpresturinn. Hina tvo kjósa sýslunefnd og hreppsnefnd, sinn hvor úr sínum flokki.

3. gr.

Það er á valdi skólanefndarinnar, hvort fleiri fræðigreinar eru kenndar í skólanum en þær, sem taldar eru í fyrstu grein.

4. gr.

Skólanefndin má veita móttöku í skólann hverju barni í Vestmannaeyjum, sem er fullra 7 ára að aldri, og svo undirbúið í lestri, að það geti nokkurnveginn kveðið að. Hún má og taka í skólann, með því skilyrði, sem nú var sagt, börn, sem eiga heima annars staðar en í Vestmannaeyjum, að svo miklu leyti, sem rúm og kringumstæður leyfa.

5. gr.

Skólinn byrjar árlega á tímabilinu frá 1. okt. og skal standa að minnsta kosti 6 mánuði. Þann tíma, er börn almennt koma í skólann, ákveður skólanefndin árlega og auglýsir hann fyrirfram árlega með nægum fyrirvara.
Taka má barn í skólann, eftir að hann er settur.

6. gr.

Á hverjum virkum degi um skólatímann skulu vera 5 kennslustundir og byrja kl. 10 f.h. Þó má skólanefndin með samþykki sýslunefndarinnar stytta kennslutímann, svo að hann sé 4 stundir á dag allan skólatímann eða nokkurn hluta hans. Kennsla á hverjum degi byrjar með stuttri bænagjörð.
Sömuleiðis skal börnunum gefið 5 mínútna frí milli kennslustundanna, en séu kennslustundirnar 5, þá einnig 10 mínútur einu sinni á dag. Að öðru leyti skal kennslustundum hagað samkvæmt lestöflu, er sóknarpresturinn og hlutaðeigandi kennari semja fyrir hvert skólaár.

7. gr.

Á hverju skólaári skal halda tvö opinber próf, annað 22. eða 23. desember, hitt í lok skólaársins.
Prófdómendur séu sóknarpresturinn og annar maður, er sýslunefndin kýs, og taka þeir til spurningar við prófin. Að afloknum prófum í lok skólaársins sé af sóknarprestinum haldin stutt ræða og sálmar sungnir fyrir og eftir.

8. gr.

Hverju barni skal gefin einkunn í hverri námsgrein, sem það er prófað í, en einkunnirnar eru: ágætlega, dável, vel, sæmilega, laklega illa, eða í tölum 6, 5, 4, 3, 2 og 1. Meðaltal þessara einkunna mynda aðaleinkunn.
Skýrslu um prófið undirskrifaða af prófdómendum og kennara, skal láta skólanefndinni í té.

9. gr.

Eigi skal kennt í desember, eftir að jólafríinu er lokið. Svo skal og vera tveggja daga leyfi á undan hvoru prófi. Þar að auki má hlutaðeigandi kennari veita leyfi einstaka daga eða stundir, þegar sérstakar ástæður eru til þess. Sóknarpresturinn gætir þess, að þetta sé ekki misbrúkað og að kennarinn yfir höfuð ræki skyldur sínar.

10. gr.

Kennari við skólann og laun hans ákveðin af sýslunefndinni, hvorttveggja eftir tillögum skólanefndarinnar.

11. gr.

Upphæð kennslueyrisins ákveður skólanefndin árlega. Þó skal hann ekki fara fram úr 12 krónum á ári fyrir börn, sem eiga heima í Vestmannaeyjum, og 18 krónur fyrir börn, sem eiga heima annars staðar. Hann skal greiddur fyrir lok skólaársins. Séu fleiri en eitt barn frá sama heimili, skal kennslueyririnn 1/3 minni fyrir annað barnið en hið fyrsta, 1/2 minni fyrir þriðja og fyrir fjórða barnið 3/4 af heilum kennslueyri. Séu fleiri en 4 börn frá sama heimili, skal ekkert greitt fyrir þau, sem umfram eru, en þó er þessi eftirgjöf kennslueyris fyrir fleiri börn frá sama heimili bundin því skilyrði, að börnin séu kostuð til skólagöngu af sama manni.

12. gr.

Skólanefndinni ber að innheimta kennslueyrinn og aðrar tekjur skólans, borga út gjöld hans, halda nákvæman reikning yfir tekjur hans og gjöld og senda sýslunefndinni afrit af þeim reikningi í lok hvers skólaárs.

13. gr.

Skólanefndin hefur umsjón með áhöldum skólans og skólahúsinu, sér um, að því sé haldið hreinu, og að handa hverju barni séu að minnsta kosti 90 teningsfet loftrúm jafnan í skólastofunni.

14. gr.

Skólanefndin skal í tækan tíma árlega senda stiftsyfirvöldum glögga skýrslu um hag skólans, skýrslu um árspróf hans og afrit af ársreikningi um tekjur hans og gjöld og þau fylgiskjöl, sem í því efni eru nauðsynleg.
Þannig samin og af sýslunefndinni samþykkt á sýslufundi 17. des. 1890.

Vottar
Oddgeir Guðmundsen.
Reglugjörð þessi er hér með staðfest.
Stiftsyfirvöld Íslands, Reykjavík,
20. maí 1891.
Hallgrímur Sveinsson.

Eins og reglugerðin ber með sér, er hér æði mikið vald yfir starfi skólans dregið úr höndum sýslunefndar. Presturinn er sjálfkjörinn formaður skólanefndarinnar, og sýslunefndin kýs aðeins einn mann í hana í stað þriggja áður. Skólanefndin kveður á um skólagjaldið í stað sýslunefndar áður. Skólanefnd virðist einnig eiga að ráða ráðningu kennara og afráða laun hans, enda þótt sýslunefndin samþykki þau endanlega „hvorttveggja eftir tillögum skólanefndarinnar.“ (Samanber 10 gr.).
Samkvæmt reglugjörðinni var presturinn gerður að eiginlegum skólastjóra barnaskólans í Vestmannaeyjum og meira að segja tekið fram, að honum bæri að flytja ræðu við skólaslitin, slíta honum.
Þegar stiftsyfirvöldunum barst skýrsla barnaskólans 1891, höfðu þau ýmislegt við hana að athuga. Ekki hafði t.d. verið fullnægt fyrirskipunum um kennslu í landafræði og náttúrufræði. Yfirvöldin töldu það ekki fullnægjandi skýringu hjá presti fyrir hönd skólanefndar, að bækur í þessum kennslugreinum hefðu ekki verið fáanlegar, þar sem allir aðrir barnaskólar í landinu höfðu getað aflað sér þeirra. Einnig vantaði greinargerð fyrir tilhögun kennslunnar og hve mörgum stundum var varið til kennslu hverrar námsgreinar. (Bréf Hallgríms biskups Sveinssonar dagsett 13. júní 1891 til séra Oddgeirs Guðmundsen). Þessi óánægja olli því, að skólinn fékk hlutfallslega lægri styrk úr landssjóði en flestir aðrir sambærilegir skólar í landinu og styrkur helmingi lægri en hann var fyrir 4 árum (1887).
Árið eftir (1892) láta stiftsyfirvöldin einnig óánægju í ljós um ýmislegt varðandi Vestmannaeyjaskólann. Þar segir svo í bréfi þeirra til landshöfðingja:
„Vér skulum taka fram, að það var galli síðasta ár, að ekkert próf var haldið í náttúrufræði. Vér getum eigi heldur bundizt þess að láta í ljós það álit vort, að einkunnagjöf í skólanum næst liðin 3 ár hafi verið hóflauslega há, þar sem flest börnin hafa ágætlega í mörgum kennslugreinum. Eins og slíkt getur naumast verið rétt, mun það eigi heldur hafa holl áhrif á álit barnanna sjálfra á þekkingu sinni.“
Vorið 1893 sagði Árni Filippusson af sér kennslustörfum og gaf ekki kost á sér lengur við skólann. Hafði hann þá verið kennari við hann í 7 ár við góðan orðstír. Flest árin voru hjá honum 15—18 nemendur eins og áður segir, stundum jafnvel yfir 20. Þeir voru alltaf í einni deild, þó að aldurinn og þroskinn væri misjafn, 10—15 ár. Sökum þess hve gamlir sumir nemendurnir voru, var skólinn í bréfum til stiftsyfirvaldanna kallaður „barna- og unglingaskólinn í Vestmannaeyjum.“
Jafnframt barnakennslunni rak Árni Filippusson unglingaskóla, kvöldskóla, að vetrinum í 3 vetur. Það er vitað, að synir sýslumannsins Aagaards gengu í kvöldskólann hjá Árna. Einnig dætur Gísla Stefánssonar, Ásdís og Guðbjörg. Þær stunduðu nám í unglingaskólanum tvo vetur, 1887 og 1888. Einnig stundaði Þórunn Anna Sigurðardóttir í Nýborg nám í unglingaskólanum árið 1887. Þrír synir Aagaards, Sophus, Gunnar og Otto, stunduðu nám í einkaskóla Árna veturinn 1889.
Veturinn 1891 hafði Árni 18 nemendur í kvöldskólanum. En stutt mun sá skóli hafa staðið, þvi að skólagjöldin námu samtals aðeins 30 krónum. Hina veturna munu nemendur kvöldskólans hafa verið 9—12.
Barnaskólinn var í rauninni þung byrði á sýslusjóði, svo litlu fé sem þar var úr að spila. T.d. var greitt úr sjóðnum kr. 190,00 til barnaskólans árið 1891—1892 og nam sú upphæð 45% af heildartekjum sýslusjóðs (Kr. 420,45).
Haustið 1893 tók séra Oddgeir Guðmundsen, sóknarprestur, að sér kennsluna í skólanum. Það haust hófu nám í skólanum 20 nemendur í einni deild sem jafnan áður. Það er á orði haft, hversu prestur lagði hart að sér til þess að geta stundað kennslustörfin. Í skólann var um hálfrar stundar gangur frá Ofanleiti. Í skólanum starfaði hann 4—5 stundir daglega og átti þá eftir heimgönguna.
Veturinn 1893—1894 ráku tveir menn saman smábarnaskóla í Vestmannaeyjum. Þeir munu hafa kennt á heimilum manna eða í herbergjum sínum. Það voru þeir Guðmundur Þorbjarnarson, bókbindari (þá titlaður svo), síðar kunnur bóndi á Stóra-Hofi á Rangárvöllum og félagsmálaforingi Rangæinga á sinni tíð, og Pálmi Guðmundsson, tómthúsmaður í Stíghúsi í Eyjum (áður París, nú Njarðarstígur 5).**
** Pálmi var afi Inga R. Jóhannssonar skákmeistara.

Veturinn 1894—1895 var einnig starfandi smábarnaskóli í Eyjum. Þar var þá smábarnakennari Eiríkur Hjálmarsson, verzlunarmaður við Júlíushaabverzlunina. Hann rak smábarnaskóla sinn á eigin spýtur eins og Guðmundur og Pálmi og hafði 13 nemendur. Námsgreinar í skóla Eiríks voru flestar hinar sömu sem í hinum fasta barnaskóla, þ.e. lestur, skrift, kver, biblíusögur og reikningur. Eiríkur rak skóla sinn í tómthúsinu Pétursborg, hinum gamla læknisbústað fyrir vestan Jómsborg. Pétursborg var þá að falli komin. Hún fauk 29. des. 1895. Um Pétursborg segir Sigurður Sigurfinnsson í „Fjallkonunni“ 1896: Pétursborg var einn ,,af hinum mörgu rotnunarsjúku fúahjöllum etazráðsins (þ.e. Bryde kaupmaður), fyrrverandi læknissetur og kaupmannsskýli.“ Í þessari vistarveru hafði yfirleitt ekki verið búið síðustu árin, þótti ekki íbúðarhæft. Er þá nokkuð sagt, þegar íhuguð eru híbýli manna í Eyjum á þeim tímum. Í húsnæðishraki hefur Eiríkur kennari neyðzt til að nota þetta hús til skólahalds.

Séra Magnús Þorsteinsson.

Þennan sama vetur (1894—1895) var einnig starfræktur unglingaskóli í Vestmannaeyjum. Það gerði Magnús Þorsteinsson, guðfræðikandidat, sonur Þorsteins læknis í Landlyst. Í unglingaskóla Magnúsar voru einnig 13 nemendur, sem hann kenndi ensku, frönsku, dönsku og „réttritun í móðurmálinu“, eins og það er orðað í heimildum. Þessi verðandi prestur gerði ýmislegt fleira fyrir æskulýðinn í Eyjum þennan vetur, sem leiða mátti til mennilegra hátta og aukins þroska. Til þess hafði Magnús Þorsteinsson m.a. guðrækilegar samkomur með ungu fólki í Eyjum í goodtemplarahúsinu, sem þá var nýbyggt. Á jóladag 1894 flutti hann barnaguðþjónustu í goodtemplarahúsinu. Þátttakendur voru um 70 börn og unglingar.

BARNASKÓLINN í TVEIM DEILDUM.
ÓKEYPIS KENNSLA.


Jón Magnússon, fyrrv. forsætisráðherra, sýslumaður í Vestmannaeyjum 1891—1896, kona hans frú Þóra Jónsdóttir Péturssonar, háyfirdómara, og fósturdóttir þeirra, Þóra Guðmundsdóttir lœknis Guðmundssonar. Hún var systurdóttir frú Þóru. (Heimild: Sigfús M. Johnsen).

Árið 1891 hvarf Daninn M.M. Aagaard frá sýslumannsembættinu í Eyjum og flutti búferlum til Danmerkur. Þá gerðist Jón Magnússon, síðar forsætisráðherra, sýslumaður í Vestmannaeyjum. Breyttist þá margt til batnaðar þar. M.a. hafði Jón sýslumaður mikinn áhuga á fræðslumálum Eyjamanna. Vildi hann efla barnaskólann og gera fátækum börnum einnig kleift að sækja hann og njóta þar kennslu.
Haustið 1895 urðu miklar breytingar gerðar á skipun barnaskólans og starfsháttum. Um sumarið flutti Jón sýslumaður þá tillögu á almennum hreppsfundi, að barnaskóli Vestmannaeyja skyldi starfa í tveim deildum, fyrir eldri börn og yngri, og kennslan vera með öllu ókeypis. Skólinn skyldi að öllu leyti vera kostaður af hreppnum með styrk úr landssjóði. Þessi tillaga sýslumanns var samþykkt einum rómi. Fögnuður greip hina tiltölulega mörgu fátæku í sveitarfélaginu. Til þessa höfðu skólagjöldin orðið þess valdandi, eins og minnzt er á áður, að fátæk börn og umkomulítil gátu ekki sótt skólann. Nú skyldi ryðja þeirri hindrun úr vegi. Í tilefni þessarar nýju samþykktar varð að breyta reglugjörð skólans. Fól þá sýslumaður formanni skólanefndar, sóknarprestinum, að skrifa stiftsyfirvöldunum og leita samþykkis þeirra um þessar breytingar á reglugjörðinni. Þetta gjörði hann með bréfi, sem ég leyfi mér að birta hér máli mínu til sönnunar:

,,Með því að breyting er orðin á barnaskólanum hér í Vestmannaeyjum eða fyrirkomulagi hans fyrir tilstilli Jóns sýslumanns Magnússonar, hefur viðkomandi sýslunefnd álitið nauðsyn bera til að breyta í nokkrum atriðum þeirri núgildandi reglugjörð, og leyfi ég mér því að senda hinum háu stiftyfirvöldum umrædda reglugjörð endurskoðaða og staðfesta af hlutaðeigandi sýslunefnd og hreppsnefnd til íhugunar og væntanlegrar staðfestingar.
Aðalbreyting á fyrirkomulagi skólans er í því fólgin, að hann var í haust er leið gjörður að frískóla og skólanum skipt í tvær deildir og tveir kennarar skipaðir, þar sem áður hafði aldrei verið nema einn kennari.

Ofanleiti, 26. apríl 1896.

Í umboði skólanefndarinnar,

Oddgeir Guðmundsen.“

Þessum gáfaða klerki þurfti ekki ráð að kenna. Hann beitir sýslumanni í broddinn fyrir breytingunni á reglugerðinni ekki sízt vegna þess, að honum var ljóst traust það og álit, sem Jón sýslumaður naut hjá stiftyfirvöldum landsins sökum skyldurækni í embættisstörfum, vitsmuna og manngæzku.
Nýja reglugjörðin, sem samin var af skólanefnd (en þó undir handarjaðri sýslumanns) og samþykkt af sýslunefnd 24. apríl 1896, markar mjög mikilvægt og markvert spor í skólamálum Vestmannaeyja og fræðslumálum.
Helztu breytingarnar á hinni eldri reglugjörð skólans voru þessar:

1. Aftan við 2. grein komu þau ákvæði, að kosning skólanefndarmanna skyldi gilda fyrir þrjú ár í senn.
2. Framan við 3. grein komi þessi ákvæði: „Skólinn skiptist í tvær deildir eða bekki, og kennir einn kennari í hvorri deild.“
3. Í 4. grein falli niður ákvæðið um leyfi skólanefndar til að taka í skólann utansveitarbörn.
4. Skólinn skal hefja starf sitt árlega hinn 1. sept. í stað 1. okt.
5. Daglegar kennslustundir skulu vera 4 í stað 5 áður.
6. Í 7. grein verði þau ákvæði, að sýslunefndin afráði tölu prófdómenda og kjósi þá, en sóknarpresturinn er þó sjálfkjörinn prófdómandi sem áður.
7. 11. grein um skólagjöldin falli niður. Í samræmi við það falli niður ákvæðin um kennslueyri í 12. grein.
8. 14. gr. kveður á um, að sýslunefndin skipi kennara við skólann eftir tillögum skólanefndar og hreppsnefndar. Þar með eru völd sýslunefndarinnar varðandi ráðningu kennara að skólanum stórlega skert eða að engu orðin.

Með þessari breytingu á skipulagi og starfsháttum skólans jókst nemendafjöldinn mjög þar sem kennsla var nú ókeypis öllum börnum og unglingum á aldrinum 7-15 ára. Haustið 1895 hófu 45 nem. nám í skólanum og urðu nokkrir án skólavistar sökum þrengsla í skólahúsinu. Í efri eða eldri deild skólans stunduðu 15 nemendur nám. Þar kenndi presturinn einvörðungu. Í yngri deildinni voru 30 nemendur. Þar kenndi Eiríkur Hjálmarsson, sem nú hóf kennslu við skólann fyrsta sinni. Hann var síðan fastur kennari við barnaskóla Vestmannaeyja til ársins 1928, eða í 33 ár samfleytt.
Í yngri deild skólans var vitaskuld lögð mest áherzla á lestur, skrift og reikning. Einnig fór þar fram kristindómsfræðsla.
Haustið 1896 tók skólinn til starfa 14. sept. með 40 nemendum. Kennarar voru hinir sömu og áður og skólinn allur með sama sniði og árið áður. Þannig hélzt það fram um aldamótin bæði um kennara, nemendatal og starfshætti.
Árlega hlaut skólinn styrk úr landssjóði. En meira fé var honum þó árlega lagt úr hreppssjóði. Rétt þykir að birta hér yfirlit yfir tekjur og gjöld skólans eitt árið fyrir aldamótin til glöggvunar áhugasömum lesanda, þ.e. skólaárið 1897—1898 samkv. reikningi oddvitans, Þorsteins læknis.

Tekjur: Krónur
1. Styrkur úr landssjóði 263,00
2. Greitt úr sveitarsjóði 320.70
3. Leiga af húsinu 15,00
Tekjur alls kr. 598,70
Gjöld Krónur
1. Viðhald og áhöld 17,70
2. Eldiviður 31,00
3. Laun kennaranna 430,00
4. Hirðing skólans 30,00
5. Afborgun og vextir til
landssjóðs af skuldabréfi
dags. 27. maí,1884
upph. kr. 1.500,00
(árleg greiðsla)
90,00
Gjöld alls kr. 598,70

Jafnframt reikningsyfirlitinu læt ég fljóta hér með til sýnis og glöggvunar stundatöflu skólans skólaárið 1897—1898, sem þá var kölluð lestafla.

Lestafla yngri deildar 1897-1898. Mánudagur Þriðjudagur Miðvikudagur Fimmtudagur Föstudagur Laugardagur
Guðfræði
Lestur
Reikningur
Skrift
Skrift
Guðfræði
Lestur
Reikningur
Lestur
Reikningur
Guðfræði
Skrift
Reikningur
Guðfræði
Skrift
Lestur
Guðfræði
Lestur
Reikningur
Skrift
Skrift
Guðfræði
Lestur
Reikningur
Lestafla eldri deildar 1897-1898
Kl. 10—11 Trúarbrögð Trúarbrögð
Trúarbrögð Trúarbrögð Trúarbrögð
Trúarbrögð
— 11-12 Lestur Eðlisfræði Lestur Landafræði Lestur Skrift
— 12-1 Skrift Réttritun Skrift Eðlisfræði Réttritun Reikningur
— 1-2 Landafræði Reikningur Reikningur Reikningur
og Danska
Eðlisfræði Lestur
og Danska

Athygli má það vekja, að borið er við að kenna eldri nemendum dönsku.
Árið áður greiddi hreppurinn til skólans kr. 368,90 gegn kr. 200,00 úr landssjóði.


HAFIN BARÁTTA GEGN ÁFENGISNAUTN


Árið 1897 hóf hið opinbera baráttu gegn tóbaks- og áfengisnautn barna og unglinga og gerði skólana að baráttuvettvangi sínum. Þetta ár eru send í alla skólana 1790 eintök af fræðslukveri um vínanda og tóbak, og fékk barnaskólinn í Vestmannaeyjum 50 eintök, sem gefin voru börnunum.
Kver þetta var tvær arkir í litlu broti. Höfundar þess voru Þórður J. Thoroddsen, Indriði Einarsson og Hjálmar Sigurðsson. Þeir gerðu ráð fyrir einnar stundar fræðslu á viku um skaðsemi áfengis og tóbaks og miðuðu efni kversins og stærð við það. Hér fara á eftir nokkur atriði úr kveri þessu.

„Um áhrif drykkjuskapar á börn drykkjumannsins“:
„Hver áhrif hefur drykkjuskapur foreldra á afkvæmi þeirra?
Þau verða óhraust.
Í hverju kemur þessi óhreysti fram?
Börnin verða veikburða yfirhöfuð, blóðrýr og fölleit. Þeim er hætt við slíkum sjúkdómum sem kirtlaveiki, lungnaveiki, beinkröm o.fl.
Af hverju kemur þessi óhreysti?
Hún er afleiðing af drykkjuskap foreldranna. (Hér er vísað til ummæla fransks stjórnvitrings um reynslu Frakka í þessum efnum).
Hvernig stendur á því?
Óhreystina eða móttækileikann fyrir sjúkdómum erfa börnin af óreglusömum foreldrum.
Hvaða skaðleg áhrif hefur drykkjuskapur á sálarlíf barnanna?
Börnin verða oft sljó og dauf, fá sljóvan skilning og veikt minni. Hugmyndir þeirra verða óljósar, þau tala óskipulega og óskilmerkilega. Þau verða tornæm á allt („fáráðlingar“).
Hver áhrif hefur drykkjuskapur foreldra á hegðun barnanna?
Drykkjumannabörn eru oft rustaleg og ósiðleg, og mörgum af þeim hættir við að hneigjast til drykkjuskapar og annars slarks og lasta.
Mörg af þeim fá illt uppeldi og venjast á flakk.
Hvað getum við af þessu lært?
Að svo sem maðurinn sáir, svo mun hann og uppskera, og að afleiðingarnar af ávirðingum foreldranna ná til barnanna.
Í hvaða hlutfalli standa glæpir og misgjörðir til drykkjuskaparins?
Fjórir fimmtu hlutar allra afbrota eru bein afleiðing drykkjuskapar.“

Þannig var þetta kver með spurningum og svörum.
Höfundarnir voru landskunnir menn, a.m.k. tveir af þeim. Þórður Thoroddsen var landskunnur læknir, sonur skáldsins okkar. Indriði Einarsson var landskunnur rithöfundur og skáld og Hjálmar Sigurðsson var barnakennari á Eyrarbakka, Rangæingur að uppruna, kunnur bindindisfrömuður og mannvinur.
Í eftirmála við kver þetta standa m.a. þessi orð:
„Auk læknisins, sem skrifar hér undir (þ.e. Þórður læknir) hefur docent Guðmundur Magnússon einnig yfirfarið handritið og lagað það samkvæmt uppgötvunum læknisfræðinnar á síðustu tímum, og kunnum við honum þakkir fyrir.
Guðmundur Magnúson varð, sem vitað er, einn allra nafnkunnasti læknir landsins á sínum tíma.
Það kom í hlut prestsins, séra Oddgeirs Guðmundsen, að skýra efni kversins fyrir nemendum barnaskólans. Það mun hann hafa talið sér skylt að gera svo vel sem honum var unnt. Hann vildi börnunum allt hið bezta, vildi gæfu þeirra og gengi í hvívetna, og skildi um leið manna bezt hinar sorglegu afleiðingar drykkjuskaparins á heimili þeirra og framtíð.

Magnús Jónsson, sýslumaður, (sjá ennfremur grein um bókasafn Vestmannaeyja).

Fastur árlegur starfstími skólans, þegar að aldamótunum leið, var 6 mánuðir, frá 1. sept.—1. marz, og nemendatal um 40, stundum fleiri, stundum færri. Árið 1898—1899 voru t.d. 20 nem. í eldri deild og 24 í yngri deild. Næstu 3 árin gengu árlega innan við 40 nemendur í skólann.
Prófdómendur voru um nokkurra ára skeið fyrir aldamótin og fram yfir þau: Þorsteinn læknir Jónsson og Magnús sýslumaður Jónsson (tók við embættinu af Jóni Magnússyni 1896) í efri deild, Sigurður Sveinsson og ýmsir með honum í yngri deild, m.a. Engilbert Gíslason, þá um tvítugt, verzlunarmaður hjá föður sínum í verzluninni Júlíushaab eða Tangaverzluninni öðru nafni.
Nú dregur að þáttaskilum í starfsemi skólans. Óska ég því að birta útdrátt úr skýrslu um hann skólaárið 1901—1902.
Skólinn var settur 1. sept. 1901 með 39 nemendum, 19 í eldri deild og 20 í deild yngri nemenda. Margt ungmennið varð að vera án skólagöngunnar sökum þess, að skólahúsið var alltof lítið og erfitt að starfa þar með þetta marga nemendur. (Sjá mynd og skýringu við hana).
Kennarar þetta skólaár voru hinir sömu og áður. Próf samkvæmt reglugjörð voru þreytt fyrir jól og svo í lok skólaársins í enduðum febrúarmánuði.
Prófdómendur í eldri deild voru sem áður þeir Þorsteinn læknir og Magnús sýslumaður, en í yngri deild þeir Árni Filippusson, fyrrverandi kennari, og Jón Einarsson á Gjábakka.
Reikningur skólans fyrir þetta skólaár sannar kaupgreiðslur og fleira.

Tekjur:
1. Styrkur frá landssj. kr. 242,00
2. Húsaleiga — 30,00
3. Tillag úr sveitarsjóði — 337,25
Tekjur alls kr. 609,25
Gjöld:
1. Viðhald og áhöld kr. 28,75
2. Eldiviður — 30,50
3. Laun kennaranna —430,00
4. Hirðing skólahússins — 30,00
5. Greiðsla til landssjóðs
(af láninu)
— 90,00
Gjöld alls kr. 609,25

Í marzmánuði árið 1900 samþykkti sýslunefndin enn breytingar á reglugjörð skólans, (frá árinu 1896). Helztu breytingarnar voru þessar:

2. gr.

Stjórn skólans skal falin á hendur þriggja manna nefnd. Í henni sitja auk sóknarprests, sem er formaður nefndarinnar, sýslunefndaroddviti og hreppsnefndaroddviti.

4. gr.

Í stað: ... „og svo undirbúin í lestri, að það nokkurn veginn geti kveðið að,“ komi: ,,og svo undirbúið, að það geti nokkurn veginn fleytt sér í lestri.“

6. gr.

Í stað: „... og 10 mínútna frí um hádegið,“ komi: ,,og 15 mínútna frí um hádegið.“

7. gr.

Í stað: „... er sýslumaður kýs,“ komi: „er skólanefndin kýs.“ Og í stað „... að afloknu prófi í lok skólaársins sé af sóknarprestinum haldin stutt ræða,“ komi: „Við skólasetningu hvert ár heldur sóknarpresturinn stutta ræðu.“

8. gr.

Á eftir orðunum: „... eða í tölum 6, 5, 4, 3, 2, 1,“ komi: „ásamt brotunum 1/3, 2/3, o.s.frv.“

14. gr.

Hún orðist þannig: „Kennarar við skólann skulu skipaðir af skólanefnd og laun þeirra ákveðin af hreppsnefndinni eftir tillögum skólanefndar.“

Gísli Engilbertsson, verzlunarmaður og bóndi.(Leiðr.)

Með þessum breytingum á reglugerðinni var vald sýslunefndar yfir skólanum, ráðningu kennara og launakjörum, að engu gert. Þegar sýslunefndin árið 1900 afsalaði sér þannig öllu valdi yfir barnaskóla Vestmannaeyja, skipuðu hana þessir menn: Magnús sýslumaður Jónsson, tengdasonur séra Oddgeirs sóknarprests, séra Oddgeir sóknarprestur, Gísli Stefánsson í Hlíðarhúsi, sem verið hafði í skólanefndinni frá því að hún var fyrst kosin (1885) og J.P. Bjarnasen, verzlunarstjóri, gjaldkeri skólanefndarinnar, síðan Sigurður Sveinsson í Nýborg hvarf frá því starfi. Það átti eftir að sýna sig, að þessar breytingar á reglugerðinni um alræðisvald skólanefndarinnar um ráðningu kennaranna, starf þeirra og stöður, drógu dilk á eftir sér, svo sem sýnt skal og sannað í næsta kafla fræðslusögunnar.
Styrkur úr landssjóði veittur barnaskóla Vestmannaeyja á árunum 1885—1904:

Ár krónur Ár Krónur
1885 100,00 1895 104,00
1886 200,00 1896 200,00
1887 200,00 1897 263,00
1888 130,00 1898 264,00
1889 80,00 1899 270,00
1890 100,00 1900 216,00
1891 105,00 1901 242,00
1892 125,00 1902 245,00
1893 160,00 1903 225,00
1894 145,00 1904 236,00

Styrkurinn var oftast miðaður við tölu nemenda þeirra, sem fullnægðu settum ákvæðum um námsgreinar og próf. Einnig var hann háður starfstíma skólans.
Árið 1897 nutu 21 barnaskóli styrks úr landssjóði, samtals kr. 4.500,00.
Árið 1900 26 skólar, samtals kr. 5.300,00.
Árið 1902 eru skólar þessir 29 alls og greitt samtals kr. 5.500,00.
Árið 1904 eru barnaskólarnir 31 og samtals greitt kr. 7.000,00 til þeirra úr landssjóði.
Skólaárið 1903—1904 stunduðu 39 nemendur nám í barnaskóla Vestmannaeyja, 18 í eldri deild og 21 í yngri deild. Kennarar voru hinir sömu og áður, séra Oddgeir Guðmundsen og Eiríkur Hjálmarsson. Kennt var frá kl. 10—2 eða 4 stundir daglega í 6 mánuði, frá 1. sept.—28. febr.

Nú eru miklar breytingar framundan í fræðslumálum Eyjanna og það verður nýr kafli í fræðslusögunni. Þess vegna læt ég staðar numið hér að sinni.
Sjá kennaratal á öðrum stað i ritinu.

Þ.Þ.V.

Til baka