Blik 1963/Friðrik Zophóníasson

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 19631963 b 106.jpg
Friðrik Zophóníasson
FÁEIN MINNINGARORÐ


Þann 19. des. sl. ár andaðist einn af nemendum skólans, Friðrik Zophóníasson frá Þórshöfn, nemandi í gagnfræðadeild. Hann er 4. nemandinn, sem látizt hefur á starfstíma skólans síðan hann var stofnaður 1930. Hinir eru Þórunn Friðriksdóttir frá Löndum, Haukur Lindberg, Vestmannabraut 3, og Örn Tr. Johnsen, Faxastíg 4.
Friðrik Zophóníasson fæddist á Þórshöfn 7. des. 1946. Hann var því 12 dögum betur en 16 ára, er hann lézt. Foreldrar hans voru Zophónías Jónsson, bóndi og sjómaður, og k.h. Ólafía G. Friðriksdóttir. Hún lézt árið 1955. Þessi hjón bjuggu á Læknessstöðum á Langanesi um 11 ára skeið. Þar stunduðu þau landbúnað og sjávarútveg. Eftir að þau fluttust til Þórshafnar, ráku þau þar einnig sjávarútveg, og stundaði Zophónías þar sjálfur sjó á litlum vélbáti. Hjónin eignuðust 6 börn, 5 dætur og þennan eina son. Þrjár af dætrunum eru búsettar hér í Vestmannaeyjum, ein á Þórshöfn og ein í Kaupmannahöfn.
Friðrik Zophóníasson gekk í barnaskóla á heimabyggð sinni, Þórshöfn, en haustið 1960 settist hann í 2. bekk Gagnfræðaskólans hér, enda hafði hann þá stundað nám í framhaldsdeild á Þórshöfn. Það nám veitti honum réttindi til setu í 2. bekk.
Friðrik heitinn var geðþekkur unglingur, sem kom sér í alla staði vel í skóla, skyldurækinn við námið og kurteis í framkomu. Gott uppeldi leyndi sér ekki í fari hans. Hann stefndi að því að ljúka gagnfræðaprófi hér að fáum vikum liðnum, er hann lézt.
Mikill harmur er kveðinn að föður, systrum og öðrum ástvinum Friðriks Zophóníassonar við fráfall hans, svo efnilegt mannsefni, sem hann var. Þjóðfélaginu í heild er mikill skaði að fráfalli hvers efnilegs æskumanns.
Í slíkum raunum er mörgum huggun að hinum kunnu huggunarorðum, að þeir, sem Guð elskar, deyi ungir (til að „starfa meira Guðs um geim“). Vissulega megnar sú trú að hugga marga og sætta þá við missi barna og unglinga, sem hverfa héðan löngu fyrr en vænta mætti. Sú trú er fögur og hugðnæm. Við trúum því einnig, að alvaldsaflið eina og mikla í tilverunni sé alls staðar að verki og allar gjörðir þess hafi góðan tilgang, annars væri það ekki algott. Þá hlýtur það að vera gert í góðum tilgangi að kalla æskumann burt af jörðinni löngu fyrir aldur fram, eins og við orðum það.
Við kynntumst unga manninum Friðriki Zophóníassyni þannig, að þar færi gott og göfugt mannsefni, þar sem hann fór. Mættum við þá ekki, skilningssljóvir og fáfróðir menn, álykta sem svo, að alvaldsaflið mikla hafi einmitt í hinum mikla verkahring þurft á þessari göfugu æskumannssál að halda til þess að koma henni sem allra fyrst til meiri þroska en jarðlífið gat veitt henni, svo að hún gæti sem fyrst drýgt þær dáðir, sem alvaldsaflið hafði frá upphafi ætlað henni?
Við vottum öllum ástvinum Friðriks heitins dýpstu samúð í söknuði og raunum. Mættu minnin um góðan dreng í fyllstu og beztu merkingu þess orðs verða þeim huggun og styrkur harmi gegn.

5. jan. 1963.
Þ.Þ.V.