Blik 1963/Kennaratal: Steinn Sigurðsson

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1963ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


KENNARATAL
frá 1904-1937


Steinn Sigurðsson,
skólastjóri í Vestmannaeyjum
1904-1914


(F. 24. apríl 1872, d. 18. ágúst 1940)

Steinn Sigurðsson, skólastjóri.

Vorið 1901 fjölmenntu Landeyingar sem oftar í verzlunarferðir til Vestmannaeyja. Með einu skipinu þeirra kom 29 ára gamall bóndasonur frá Fagurhóli í Austur-Landeyjum. Sá hét Steinn Sigurðsson. Hann fæddist að Fagurhóli 24. apríl 1872 og voru foreldrar hans Sigurður bóndi Einarsson þar og kona hans Helga Sigurðardóttir, frá Lambafelli undir Eyjafjöllum.
Þessi piltur var snemma bráðger andlega, eins og hann átti kyn til. Ýmsir nánustu frændur hans höfðu reynzt bráðþroska námsmenn, og sumir þeirra þess vegna fermdir fyrr með biskupsleyfi en lög stóðu til.
Sterk námshvöt gerði snemma vart við sig hjá Steini Sigurðssyni, en foreldrar hans voru fátækir og fleira var þess valdandi, að Sigurður bóndi var því mótfallinn, að Steinn sonur hans hyggði á langskólanám. Vinnan var þar eitt og allt og bókvitið ekki jafnan sett í askana.
Landeyingar stunduðu fiskveiðar með færastúfana sína út frá Landeyjasandi síðari hluta vetrarvertíðar vor- og sumartíma, þegar fiskur gekk og búskaparannir hindruðu ekki sjósókn eða „Rán á Eyjasandi, þar sem hún heyir heimsins langa stríð,“ — eins og hann kveður, „sem kveða kunni kvæðin ljúfu, þýðu,“ ...
Snemma voru drengir þeir, sem ólust upp þá í Landeyjum, látnir hefja sjómennskuna og draga fisk á disk foreldra sinna og annars fjölskylduliðs. Steinn Sigurðsson var einn þeirra. Aðeins 11 ára gamall hóf hann færaveiðarnar með nágrönnum foreldranna og reyndist fiskinn í bezta lagi. Á kyrrlátum vor- og sumarnóttum varð Steinn litli á Fagurhóli að vakna til sjóróðra kl. 2—3. Nestislaus fór hann í róðurinn eins og hinir og heim kom hann aftur oft og tíðum, þegar veður leyfðu, að 12—14 tímum liðnum. Þá var maginn vissulega matarþurfti hjá duglegum dreng, sem var að vaxa og þroskast.
Steinn á Fagurhóli fékk brátt orð á sig í sveit sinni fyrir óvenjulega þekkingu á ungum aldri og mikið bókvit, enda las hann öllum stundum, þegar hann átti tómstund, allt sem hann fékk hönd á bókarkyns, en miklar bækur voru þá ekki í hvers manns eigu: Lestrarfélög greiddu þá götu margra unglinga um kost bóka. Steinn sat jafnan við lestur, þegar aðrir unglingar á hans reki og eldri skemmtu sér.
Lítið var um menn þá í Austur-Landeyjum, sem þóttu búa yfir svo miklu bókviti, að þeir gætu kennt börnum nauðsynleg fræði fyrir ferminguna. Þess vegna var það, að Steinn Sigurðsson var á ungum aldri ráðinn barnakennari í sveit sinni án næstum allrar skólagöngu. Kennslustarfið jók áhuga hans á frekara námi og fræðslustörfum. Félaus og í fullri óþökk föður síns ¹ brauzt hann til náms með tilstyrk ýmissa sveitunga sinna.

¹ Þessi orð mín sannar kvæði, sem Steinn orti að föður sínum látnum:

„Mér fellur þyngst við föðurlát,
ég fékk þig aldrei þekkt.
Sá harmur vekur hljóðan grát
og hrópar glöggt um sekt.
Ég skildi lítt þín ráð og rök
og rækti miður flest.
Ef tala skyldi um skuld og sök,
hvors skuld og sök var mest.
En hönd þín lagðist þungt á þann,
er þýðzt ei ráð þín gat,
og enginn gleggri en ég það fann,
sem önnur hærri mat.
...“

Í minningargrein um Stein skólastjóra látinn sá ég því fram haldið, að faðir hans hefði hvatt hann til náms. Þar var því sannleikanum snúið við. — Þ.Þ.V.

Hann afréð að ganga í Flensborgarskólann í Hafnarfirði. Þar hóf hann nám haustið 1891 og lauk gagnfræðaprófi þar og kennaraprófi eftir tveggja ára nám eða vorið 1893. Námið hafði sótzt ágætlega.
Fyrsta árið eftir kennaraprófið hafði Steinn Sigurðsson á hendi kennslustörf í Miðneshreppi í Gullbringusýslu. Eftir það hvarf hann heim til átthaganna.
Á árunum 1894-1897 var hann farkennari í Vestur-Landeyjum og Fljótshlíð. Síðan í heimasveit sinni árin 1897—1903.
Skólaárið 1899-1900 kenndi Steinn Sigurðsson á þrem bæjum í Austur-Landeyjum. Á Fagurhóli eða heima hjá sér kenndi hann 15 nemendum í 7 vikur, á Kanastöðum dvaldist hann þá við kennslu 4 vikur og hafði þar 10 nemendur. Síðast kenndi hann 6 vikur í Búðarhólshjáleigu 9 nemendum. Alls kenndi hann það skólaár 17 vikur og gat vænzt þess að fá 40—50 krónur í kaup úr landssjóði. Meginlaun hans önnur fyrir farkennsluna voru fæði og húsnæði.
Steinn var sem sé kennari í Austur-Landeyjum, er hann tók sér far til Vestmannaeyja vorið 1901. Þangað hafði hann aldrei komið fyrr í land, enda þótt hann hefði oft sótt fisk á Eyjamið með sveitungum, þegar hann var á uppvaxtarárunum, og þá oft nærri Eyjum.
Aftur heimsótti Steinn Sigurðsson Eyjar vorið 1902 og dvaldist þar þá við ýmis störf um nokkurn tíma og bjó hjá hjónunum á Grund við Kirkjuveg, þeim Árna Árnasyni og Jóhönnu Lárusdóttur.
Árið 1863, 26. maí, gáfu stjórnarvöldin út tilskipun um lausamenn og húsmenn á Íslandi: Sú tilskipun miðaði að því að hindra að eitt sveitafélag gæti með ráðum og vélabrögðum komið ,,ómögum“ sínum yfir á framfærslu annars hrepps eða sveitarfélags. Enginn hafði rétt til samkv. hinni konunglegu tilskipun að setjast að í sveitarfélagi nema með leyfi sveitarstjórnar þess hrepps, sem hlutaðeigandi hugðist setjast að í. Innflytjandinn varð að gera nákvæma grein fyrir efnahag sínum og möguleikum til sjálfsbjargar og viðhlítandi efnahagsafkomu í hreppnum. Málsmetandi menn urðu að votta það, að hlutaðeigandi væri reglusamur og ráðdeildarsamur, svo að hreppnum stafaði ekki fjárhagsleg byrði eða efnaleg hætta af honum. Þá varð innflytjandinn að hafa tryggt sér húsnæði í sveitarfélaginu fyrst, áður en búsetuleyfi kom til mála.
Til áréttingar þessum orðum mínum óska ég að birta hér umsóknarbréf Steins Sigurðssonar, er hann skrifaði hreppsnefnd Vestmannaeyja, þegar hann sótti um húsmennskuleyfi til handa þeim hjónum í Eyjum. Bréf þetta er skilmerkilega samið og skrifað, en það er meira en hægt er að segja um allan þorra þessara umsóknarbréfa, sem mörg eru mjög illa samin og skrifuð af húsmannaefnum, sem naumast eru sendibréfsfær.

Bréfið:

„Með því að ég hefi áformað að koma mér fyrir hér í Vestmannaeyjum sem húsmaður og hefi þegar fengið loforð um húsnæði hjá herra Jóhanni snikkara Jónssyni í Túni, þá skal ég leyfa mér að fara þess á leit við hina heiðruðu sveitarstjórn Vestmanneyjahrepps, að hún veiti mér leyfi til að setjast að í hreppnum sem húsmaður.
Ég skal geta þess, að húsnæðið er ekki til sýnis sem stendur, þar eð húsið er enn að mestu óbyggt, en smíði þess verður lokið í sumar.
Vona ég, að hin heiðraða sveitarstjórn finni ekki ástæðu til að synja mér um leyfið þess vegna. Mér er lofað tveim herbergjum hlýjum: stóru svefnherbergi eða stofu og sérstöku eldhúsi. Þangað til húsið verður tilbúið, hugsa ég til að dvelja, sumpart hér í Eyjum sem vormaður og sumpart annars staðar — að líkindum á Austfjörðum sem sumarmaður. Að öðru leyti á ég löglegt heimili og húsnæði að Fagurhóli í Austur-Landeyjum, og segi ég því ekki lausu að svo stöddu.
Af högum mínum er það að segja, að ég er kvæntur, og er kona mín 39 ára en ég 30; við erum barnlaus og höfum hvorki ómaga né annað fólk fram að færa. Ég er vanur allri almennri vinnu til lands og sjávar og kvíði því ekki, að mér muni ekki takast að vinna mér brauð án þess að verða neinum til þyngsla. Einnig hygg ég, að ég geti haft nokkra atvinnu af því á vetrum að veita bæði börnum og fullorðnum tilsögn í ýmsum greinum, sem heyra undir almenna menntun, því að sjálfur hefi ég tekið aðalpróf af alþýðu- og gagnfræðaskólanum í Flensborg og einnig burtfararpróf í kennarakennslu við sama skóla.
Að ég sé reglusamur maður og fari ekki illa með efni mín, sést af meðfylgjandi vottorði.
Eigur mínar, bæði í Landeyjum og hér í Vestmannaeyjum, hefi ég látið virða til peningaverðs og nema þær eins og meðfylgjandi virðingargjörðir bera með sér, kr. 648,28; en frá þessari fjárhæð dragast skuldir við verzlanir J.P.T. Bryde og A.S. Johnsen, er nema samtals kr. 56,04. Skuldlausar eignir eru þá alls kr. 592,24.
En auk þessara eigna, er ég hefi getað sýnt og sannað, á ég talsvert hjá öðrum í áreiðanlegum stöðum. Skal ég leyfa mér að geta hins helzta.
1. Þar eð ég hefi haft á hendi sveitarkennslu í Austur-Landeyjum síðastliðið kennslutímabil, þá gjöri ég mér von um að minnsta kosti 40 króna styrk úr landssjóði, sem mun verða veittur fyrir næsta nýjár, því að í fjárlögunum er ætlað fé til slíkrar kennslu eins og að undanförnu.
2. Í Borgarfirði vestra á kona mín 5 vetra gamlan hest, alinn upp hjá systur hennar þar og gjöf frá henni í upphafi.
3. Hjá bróður mínum, Markúsi Sigurðssyni í Fagurhóli, á ég veturgamalt hesttrippi og fóður fyrir 10 ær. Sökum þess að Markús var í veri á Stokkseyri, þegar virðingin fór fram í Landeyjum, gat þetta síðast talda ekki komizt að.
Ég skal leyfa mér að mælast til þess, að hin heiðraða sveitarstjórn vildi afgreiða þessa umsókn sem fyrst.

pt. Grund í Vestmannaeyjum 20/5 1902.
Steinn Sigurðsson.
Til
sveitarstjórnarinnar í
Vestmanneyjahreppi.“

Vottorðið, sem Steinn getur um í bréfinu, var svohljóðandi:
„Við, sem ritum nöfn okkar hér undir, getum vottað það, að hr. real. stud. Steinn Sigurðsson Fagurhóli hafi um öll þau síðustu ár, sem við höfum haft mest persónuleg kynni af honum, verið reglumaður, eins og líka hitt, að hann hafi ekki, svo að á okkar vitorði sé, farið ráðlauslega með efni sín á nokkurn hátt; þvert á móti verið sparsamur og iðjusamur maður.

Hallgeirseyjarhjáleigu
Jón Guðnason og
p.t. Í Landlyst 2. maí 1902
Magnús Þorsteinsson.“

Hinn síðari vottorðsgefandinn er séra Magnús sonur Þorsteins læknis Jónssonar, þá prestur að Bergþórshvoli (sjá Blik 1962, bls. 126).
Húsið, sem Steinn getur um, að Jóhann Jónsson hafi í smíðum, er eldri Brekka (Faxastígur 4).
Árið 1924-1925 byggði Jóhann íbúðarhúsið Brekku, sem nú er þar og stendur aðeins sunnar en eldra húsið.
Að vel athuguðu máli gaf síðan hreppsnefndin Steini Sigurðssyni búsetuleyfi í hreppnum.
Veturinn 1902-1903 hafði Steinn á hendi farkennslu eða sveitarkennslu, eins og hún þá var kölluð, síðast í heimasveit sinni og lauk því starfi í janúarlok (1903). Að því starfi loknu hvarf hann til Vestmannaeyja og vann þar vertíðarstörf.
Haustið 1903 var Steinn ráðinn farkennari í Vestmannaeyjum með því að nálega helmingur allra barna þar á aldrinum 7—14 ára fékk ekki vist í barnaskólanum þar sökum rúmleysis. (Sjá hér í ritinu Sögu barnafræðslunnar, 3. kafla.) En haustið 1904 réðst hann kennari við Barnaskóla Vestmannaeyja í stað séra Oddgeirs sóknarprests, sem þá hætti þar kennslustörfum. Steinn Sigurðsson var þá þegar ráðinn „yfirkennari“ skólans, eins og séra Oddgeir hafði verið.
Um haustið (1904) fluttist barnaskólinn í nýtt hús, eins og greint er frá nú í sögu barnafræðslunnar hér í ritinu, og gat nú frekar en áður innt af hendi allar fræðsluskyldur sínar við æskulýð kauptúnsins. Nýr kennari réðst nú að skólanum með Steini Sigurðssyni, Högni Sigurðsson í Vatnsdal (sjá um hann hér í ritinu). Samstarf þessara tveggja manna var hið bezta og svo við Eirík kennara Hjálmarsson, sem kennt hafði við skólann undanfarin 9 ár. Þessir skólamenn voru samhentir og samhuga um að efla skólastarfið svo sem kostur var þá, og vinna sem mest og bezt í því til velferðar og gæfu börnunum.
Enn eru hér búsettir í Eyjum nokkrir fyrrverandi nemendur Steins Sigurðssonar og muna hann vel. Eins og sjón er sögu ríkari, þannig verður það öruggast, áhrifaríkast og óbrigðulast að gefa einum nemanda Steins orðið og fá hann til að segja frá minnum sínum um Stein, kennararann og skólastjórann. Hinn minnugi og glöggi nemandi segir svo frá:
„Steinn Sigurðsson var góður kennari. Hann þótti þó nokkuð strangur og siðavandur. Hélt hann ávallt mjög góðum aga í sínum bekk.
Steinn kenndi aðallega efstabekkjarnemendum, oftast 3—4 klukkustundir á dag. Hann þótti sérstaklega góður íslenzkukennari. Mun hann einna fyrstur allra kennara hér hafa látið nemendur sína í efsta bekk semja og skrifa ritgerðir um efni, er hann valdi og sagði til um. Mörgum nemendum hans þóttu þau verkefni hans full-erfið. Þegar ég gekk í skólann til Steins, voru þar þreytt próf í lok hvers mánaðar. Síðan var nemendum raðað í bekkjardeildirnar eftir einkunnunum, sem þeir hlutu. Aðaleinkunnir og röð nemendanna var auglýst hér í þorpinu á áberandi stað — síðustu árin í Verzlun Gísla J. Johnsen.
Þegar Steinn skólastjóri hafði farið yfir þessar ritgerðir, var hann vanur að lesa úr þeim upphátt fyrir bekkjarsögnina það, sem honum þótti vel samið. Því benti hann einnig á allar ambögur og meiri háttar stafavillur.
Flestir nemendur Steins Sigurðssonar munu hafa lært af lífinu að meta hann meira og betur, eftir því sem þeir þroskuðust, eltust að árum, — séð þá betur, hversu góður kennari hann var og mikilhæfur skólamaður.
Mér er í minni, hve Steinn Sigurðsson var mikið snyrtimenni í klæðaburði og allri framkomu. Hann vildi líka kenna nemendum sínum prúðmannlega framkomu, góða hegðun og siði, stundvísi og skyldurækni.
Steinn Sigurðsson var algjör bindindismaður á vín og tóbak. Hann mun hafa verið allgóður tungumálamaður og kenndi af áhuga og fórnfúsum vilja piltum hér eftir fermingu bæði dönsku og ensku. Námshvöt nemendanna var honum þá meginatriðið, en greiðslukröfur hans jafnan litlar eða engar, ef fátækir foreldrar áttu í hlut. Stundum tók hann við búsafurðum upp í kennslugjaldið, svo sem garðamat, mjólk eða þá söltuðum fugli. Kennslugjaldið mun því hafa verið milli 25 og 50 aurar á klukkustundina.“
Þetta voru ummæli eins af nemendum Steins Sigurðssonar í barnaskóla Vestmannaeyja á árunum 1908-1911.
Ekki hafði Steinn Sigurðsson lengi dvalizt í Eyjum, er hann tók að beita sér fyrir málefnum og velferðarmálum æskulýðsins, svo sem íþróttum, sundíþróttinni sérstaklega, og ýmsum félagsmálum, sem leiða mætti til vaxandi þroska og aukinnar ánægju. Hann beitti sér fyrir ungmennafélagsstarfi í hreppnum og var lífið og sálin í Ungmennafélagi Vestmannaeyja, sem þá lét töluvert til sín taka í Eyjum, sérstaklega meðan St. Sig. var formaður þess.
Árið 1911 vakti Steinn Sigurðsson máls á því á fundi Ungmennafélagsins, að það efndi til sundskálabyggingar við höfnina. Til þessa höfðu sundiðkendur í Eyjum neyðzt til að afklæða sig á sundstað „undir berum himni“ sökum skorts á sundskýli. Svo var það einnig um börn og unglinga, sem lærðu sund fyrir atbeina bjargráðanefndar og með styrk frá sýslu- og landssjóði. Ungmennafélagar samþykktu að byggja sundskála á sunnanverðu Eiðinu austur við Kleifar. Steinn Sigurðsson var kosinn formaður byggingarnefndarinnar og forsjármaður þessara framkvæmda. Byggingarnefndin efndi til hlutaveltu til fjáröflunar. Einnig aflaði hún fjár til skálabyggingarinnar á annan hátt. Sumir Eyjamenn gáfu fé úr eigin vasa til sundskálabyggingarinnar og ráðandi menn veittu fé úr sýslusjóði til framkvæmdanna. Skálinn reis af grunni og var vígður til nota almenningi 22. júní 1913. Í tilefni skálavígslunnar hélt Ungmennafélag Vestmannaeyja almenna útisamkomu í Eyjum. Þar flutti Steinn skólastjóri aðalræðuna og talaði um gildi sundíþróttarinnar og hina margþættu nytsemi hennar. Einnig orti hann kvæði í tilefni þessa merka áfanga í menningarlífi byggðarlagsins. Þetta kvæði kallaði skólastjórinn Sundhvöt. Það er hvatningakvæði til æskulýðsins um að læra sund og er þannig:

Sundkvöt.
Úti í beljandi á, út í brimóðri lá
hetjur byltu sér fyrr, jafnvel kóngborin sprund,
hver einn frjáls maður svam, þrællinn fordæmið nam,
íþrótt feðranna varpaði ljóma á grund.
Listin dapraðist þó, mönnum drukknanir bjó
eigin drykkjarskál! ef ei var sytra né lón;
fyrir vanrækslur gelst, engum tölum það telst,
hversu trúleysi á sund hefur bakað oss tjón.
Aftur vitkaðist þjóð, bálköst villunni hlóð; —
framtak vaknar í brjósti hvers hugsandi manns:
vekja félög vor ýms íþrótt Gunnars og Gríms,
íþrótt Grettis, er synti úr Drangey til lands.
Verður krökt út við sæ, hlaupa krakkar úr bæ,
varpa klæðum og steypa sér nakin í gjálp.
Hvílík glymjandi óp eintóm glaðværðar hróp!
engin geigvænleg, kveinandi sárbæn um hjálp!
Þótt oss finnist það strangt, skal leggjast svo langt
til að leita sér frama, að hann hlotnist til fulls,
og að kafa til grunns með þeim knáleik til sunds,
er í kappraunum launast með bikurum gulls.
Fylgjum Erlingi á mið, nemum sundkóngsins sið.
Mun þá sækjast að ávinna' oss frægðarorð misst.
Vinnum Íslandi allt. Gefum Íslandi allt!
Heitum Íslandi tryggð við þess göfgustu list!

Kjörorð ungmennafélaganna íslenzku er: Íslandi allt. Skólastjórinn minnir vel á það í kvæðinu.
Sjá að öðru leyti greinar um sundskálann á bls. 310.
Ýmislegt gerði Steinn skólastjóri Sigurðsson fyrir nemendur sína í barnaskólanum. Hann samdi t.d. leikrit, sem hann æfði síðan með nemendum sínum og sýndi síðan almenningi í bænum við góðan orðstír. Í skólastarfi sínu tók hann upp þann sið í skólanum, að efna til skemmtana í skólanum fyrir nemendurna einu sinni eða tvisvar á skólaárinu. Þessi viðleitni hans efldi félagsanda nemendanna og félagsþroska, en var herfilega misskilin af ýmsum foreldrum og sumum ráðandi mönnum í hreppnum, sem lítið skyn báru á uppeldis- og skólamál. Þá leyfði Steinn skólastjóri börnunum skautaferðir á Vilpu og Daltjörninni, þegar ís var þar, svo að ýmsum þótti nóg um frjálslyndi hans í þeim efnum.
Árið 1898, 24. júlí, kvæntist Steinn Sigurðsson og gekk að eiga Agöthu Þórðardóttur bónda á Heggstöðum og Staðarhóli í Andakíl.
Þau hófu búskap á Fagurhóli, æskuheimili Steins, og bjuggu þar þangað til þau fluttu til Eyja veturinn 1903. Þau eignuðust þrjú börn. Tvö þeirra misstu þau á ungum aldri, en sonur þeirra Óskar Lárus fæddist í Vestmannaeyjum 21. maí 1903. Hann var barnakennari í Hafnarfirði, d. 12. apríl 1954.
Þau hjón byggðu sér íbúðarhús í Eyjum, sem enn stendur þar, Sólheimar við Njarðarstíg. Það hús munu þau hafa byggt 1907.
Í marzlok 1914 samþykkti skólanefnd Vestmannaeyja að segja Steini skólastjóra upp starfi. Daginn eftir, 29. marz, sagði hann af sér skólastjórastarfinu. Hvergi virðist fundinn stafur fyrir því, hvers vegna Steinn Sigurðsson var látinn víkja úr stöðu, svo nýtur skólastjóri og kennari, sem hann jafnan hafði reynzt í öllu starfi sínu. (Sjá „Eilítinn eftirmála“ hér í ritinu.)
Eftir að Steinn skólastjóri var sviftur stöðu sinni í Vestmannaeyjum, fluttust hjónin til Reykjavíkur. Þar gerðist hann starfsmaður í banka. Eftir fáar vikur varð hann að hætta því starfi sökum heilsubrests. Tók hann þá upp líkamlega vinnu að læknisráði. Von bráðar náði hann þá aftur heilsu sinni, sem jafnan hafði verið góð. Hvarf hann þá aftur til kennslustarfa og settist að í Hafnarfirði. Þar bjó hann síðan til dánardægurs. Fyrst í stað tók hann að sér kennslustörf í Garðahreppi á Álftanesi. Með þeim hafði hann einnig mikla heimakennslu í Hafnarfirði.
Árið 1917 tók Steinn Sigurðsson að sér bókara- og gjaldkerastarf hjá hlutafélaginu Dvergi í Hafnarfirði, en gegndi þó kennslustörfum jafnframt fyrstu árin eftir það.
Brátt dró að því, að hann lagði föstu kennslustörfin á hilluna og vann því meir hjá hlutafélaginu, sem hann varð smám saman stór hluthafi í og áhrifaríkur stjórnaraðili.
Mörg vetrarkvöldin hjálpaði hann hins vegar heima hjá sér skólanemendum án endurgjalds og mest sér sjálfum til ánægju eins og hann orðaði það.
Steinn Sigurðsson var mikill eljumaður alla sína tíð og sat jafnan við lestur eða skriftir eftir að daglegum skyldustörfum lauk. Eftir Stein komu út 5 bækur, sem mér er kunnugt um:

Almannarómur, leikrit, 1921.
Stormar, leikrit, 1923.
Skyggnu augun, leikrit, 1925.
Brotnir geislar, ljóð, 1925.
Landið mitt, ljóð, 1930.

Steinn Sigurðsson tók mikinn þátt í starfi K.F.U.M. í Hafnarfirði og Reykjavík og flutti þar fjölda af ræðum — trúarlegs efnis.
Steinn Sigurðsson lézt 18. ágúst 1940 í Sjúkrahúsi Hafnarfjarðar. Kona hans, Agatha, lifði 13 ár eftir mann sinn og lézt 8. september 1953 á 91. aldursári. Hún var 10 árum eldri en maður hennar, f. 27. nóv. 1862.
Kunnugir tjá mér, að Steinn Sigurðsson hafi aldrei minnzt eða viljað minnast á dvöl sína í Eyjum. Þar mun hann hafa verið særður sári, sem aldrei greri.

Steinn Sigurðsson unni móður sinni mikið og kvað eftir hana fagurt kvæði. Þar eru þessi erindi:

Þú varst mér ástrík, einlæg, sönn,
mitt athvarf lífs á brautum.
Þinn kærleik snart ei tímans tönn,
hann traust mitt var í hvíld og önn,
í sæld og sorg og þrautum.
Þú geymdir heilan innri eld,
þótt ytra sjaldan brynni.
Ef kulda heims var sál mín seld,
ég sat hjá þér um vetrarkveld,
þá þýddirðu ísinn inni.
Sem varstu mér, svo varstu þeim,
er veittir ævitryggðir.
Þótt auðs þér væri vant í heim,
þú valdir honum betra en seim,
þitt gull var dáð og dyggðir.
Hver var þér trúrri í stöðu og stétt,
hver stærri að þreki og vilja,
hver meiri að forðast flekk og blett,
hver fremri að stunda satt og rétt,
hver skyldur fyrri að skilja?