Blik 1963/Nýja-Tún

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1963ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Nýja-Tún


Árið 1868 var ördeyða við Eyjar, svo að glöggir menn og sögufróðir, eins og t.d. Bjarni E. Magnússon, sem þá var sýslumaður í Vestmannaeyjum, fullyrtu, að svo rýr hefði afli aldrei orðið fyrr, það sem af var öldinni. Hæsti vertíðarhlutur nam 200 fiskum. Á helming vertíðarskipanna náði vertíðarhluturinn ekki 50 fiskum. Vor- og sumarveiðin var einnig mjög rýr.
Bjargveiði öll var einnig með allra minnsta móti, sérstaklega lundaveiðin. Kornvara steig mjög í verði á erlendum markaði þetta ár. Samfara þeirri verðhækkun lækkuðu innlendar afurðir mjög í verði. Þá sat sultarvofan svo að segja fyrir hvers manns dyrum í Eyjum, þegar svo áraði. Fátæklingar liðu skort og nauð. Ekki reyndist þetta eina ár nein sérstök alda, sem skall yfir. Hvert bjargarleysisárið rak annað. — Þá var það, sem Bjarni sýslumaður sótti eftir styrk úr landssjóði til þess að hindra hungurdauða með fátækasta fólkinu í sveitarfélaginu.
Það varð að ráði með sýslumanni og stiptamtsmanni, að sýslumaður fengi fjárveitingu úr landssjóði, sem næmi a.m.k. 500 ríkisdölum. Það var árið 1870. Fyrir þetta fé skyldi sýslumaður stofna til eins konar atvinnubótavinnu í Eyjum. (Ég þekki ekki til annarrar fyrr hér á landi.) Unnið skyldi eitthvert verk, sem skapaði verðmæti, yki eignir ríkisvaldsins.
Að ráði varð að verja fé þessu til ræktunar lands í Heimaey, en land allt, lóðir og lendur, voru eign ríkisins.
Atvinnubótavinna þessi hófst vorið 1870, eftir því sem helzt verður ráðið af heimildum. Rækta skyldi tún um 6 dagsláttur að stærð eða sem næst 2 ha. Ræktunarsvæðið var valið suður af höfninni eða nánar til tekið eftir húsum og götum nú þetta:

1963 b 307 A.jpg
Hér sitja tveir Eyjamenn, sem kunnir eru í sögu byggðarlagsins, flötum beinum vestan við vesturmörk Nýjatúns. Það eru þeir Gísli Lárusson (t.v.) og séra Jes A. Gíslason. Myndin er tekin á stúdentsárum séra Jes, 1891-1893.Austurmörk túnsins voru við götu þá, er nú heitir Bárugata. Suðausturhorn túnsins var, þar sem húsið Garðar stendur nú. Suðurmörk túnsins lágu frá því horni vestur að Lögbergi (Vestmannabraut 56). Þaðan lágu vesturmörkin norður undir Fagurhól (Strandvegur 55). Norðurmörk lágu sunnan við tómthúsið Fögruvelli í vestur, þar sem húseignin Hólmur (Vesturvegur 14) stendur nú.
Þegar sýslunefnd afréð, að svæði þetta skyldi ræktað í atvinnubótavinnu, mótmælti presturinn, séra Brynjólfur Jónsson, þessu „landnámi“ á þeim grundvelli, að hann hefði gengizt undir það heit, er hann varð sóknarprestur í Eyjum, að sjá um og vinna gegn því, að sameiginlegt útland bænda á Heimaey og prestssetranna Ofanleitis og Kirkjubæjar yrði skert. (Sjá sögu prestsins hér í ritinu). Aldrei skyldi á rétt bændanna gengið, en þeir höfðu byggingu fyrir öllu Heimeyjarlandi með úteyjum. Þennan rétt bænda og prests vildi nú ríkisvaldið sjálft skerða, þrátt fyrir byggingarbréfin, sem umboðsmaður þess hafði undirritað í þess umboði og svo það heit, sem sjálft ríkisvaldið hafði látið prestinn vinna, er hann fékk embætti sitt í hendur.

Afstaða prestsins og andstaða olli nokkrum ágreiningi innan sýslunefndarinnar, en prestur var þar ofurliði borinn. Hins vegar er rétt að geta þess, að land það, sem sýslunefnd valdi til ræktunar, var örsnautt öllum gróðri og því bændum mjög lítils virði, svo að leiguréttur þeirra skertist sem allra minnst. Ræktunarskilyrði á svæði þessu voru mjög erfið sökum þess, hve jarðvegur var grunnur og landið hraunríkt og grýtt.
Árið eftir (1871) var lokið við að rækta túnið. Þá reyndust engir peningar til að greiða þau vinnulaun, sem eftir stóðu ógreidd.
Árið eftir urðu sýslumannsskipti í Vestmannaeyjum. M.M. Aagaard tók við embættinu af Bjarna E. Magnússyni, sem gerðist sýslumaður í Húnavatnssýslu (1872).
Alltaf dróst úr hömlu að greiða eftirstöðvar vinnulaunanna, og þurftu erfiðismennirnir þeirra þó sáran með.
Girðingin um nýja túnið voru hlaðnir grjótgarðar. Grjótið, sem rifið var upp úr jarðveginum, var notað í þá garða. Sérstaklega dróst á langinn að greiða fyrir hleðslu þeirra. Einn af hleðslumönnunum var Jón bóndi Jónsson í Presthúsum, afi Stefáns útvegsbónda í Gerði. Hann var verkstjórinn við ræktun túnsins. Haustið 1874 stóðu enn eftir ógreidd vinnulaun fyrir garðahleðsluna o.fl. Þá var Jóni bónda falið að skrifa sýslumanni og gera enn tilraun til að fá þau greidd. Eftirstöðvarnar námu 17 ríkisdölum og 2 mörkum, sem dregizt hafði í 3 ár að greiða eða síðan túnið sjálft var ræktað. Þar að auki áttu verkamenn eftir ógreidd vinnulaun fyrir ræktunarstarfið.
Jón bóndi skrifaði sýslumanni gagnort bréf 25. nóv. 1874 og krafðist greiðslna á vinnulaununum. Ekki hef ég séð sannanir fyrir greiðslum þessum, en geri hins vegar fastlega ráð fyrir, að þær hafi þá verið inntar af hendi. Annað væri ólíkt hin um heiðarlega danska sýslumanni, sem Aagaard var.
Tún þetta kallaði almenningur í Eyjum Nýjatún. — Það skyldi svo sýslunefnd leigja til afnota og landsjóði til tekna.
Fyrstir tóku það á leigu þessir menn:
C. Roed, veitingamaður í Frydendal, leigði 1/3 túnsins,
Þorsteinn Jónsson, bóndi og hreppstjóri í Nýjabæ, leigði 1/6,
Árni hreppstjóri Einarsson á Vilborgarstöðum 1/6,
Jón verzlunarstjóri Salomonssen í Jómsborg og ekkjan Vilborg Þórðardóttir í Elínarhúsi 1/6, frá fardögum 1871.
Heildarleigan nam 20 ríkisdölum á ári eða 3 ríkisdölum og 2 mörkum fyrir hvern 1/6 hluta túnsins. Að öðru leyti voru leiguskilmálar þessir:
1. Yrkja skyldi túnið vandlega með nægum áburði.
2. Halda skyldi vel við hinum hlöðnu grjótgörðum umhverfis túnið.
3. Verja skyldi túnið fyrir átroðningi manna og skepna a.m.k. á vorin, sumrin og haustin.
Árið 1876 skyldi Nýjatún leigjast á ný. Að mestu leyti höfðu sömu leigjendur það framvegis næstu 5 árin. En 1875 höfðu orðið peningaskipti í landinu svo að nú var það leigt fyrir krónur og aura en ekki ríkisdali, mörk og skildinga. Ársleigan varð nú kr. 71,91 samkv. tilboði leigjendanna sjálfra.
Þegar Nýjatún gekk úr leigu 1881, vildi enginn leigja það fyrir það eftirgjald, sem amtráð krafðist, en það voru 85 álnir á landvísu eða sem svarar nú.
Þá var beðið um leigutilboð í túnið. Guðmundur Ögmundsson í Brandshúsi (nú Batavía eða Heimagata 8) bauðst til þess að greiða 20 króna árlegt gjald fyrir túnið fyrstu 3 árin og síðan 35 krónur á ári ævilangt. Ögmundur sjómaður Ögmundsson (þá í Fagurlyst, síðar í Landakoti) bauðst til að greiða fyrir túnið 16 krónur árlega fyrstu 3 árin og síðan 35 krónur á ári ævilangt.
Sýslunefnd taldi hið framboðna eftirgjald meira en nægilega hátt, þar sem jarðvegur túnsins reyndist alls staðar mjög grunnur og ófrjór og kostnaðarsamt að verja það fyrir ágangi sauðfjár. Sýslunefndin mælti með því að túnið yrði leigt Ögmundi í Fagurlyst ævilangt með ofangreindum skilmálum, þar sem hann var talinn „ákjósanlegri leiguliði fyrir landssjóðinn“ en Guðmundur í Brandshúsi, eins og stendur skráð í gildri heimild.
Ögmundur var talinn hafa betri aðstöðu til að verja túnið fyrir ágangi, þar sem hann óskaði að byggja sér kot í því eða við jaðar þess, eins og hann gerði (Landakot). (Sjá grein um Ögmund hér í ritinu).

Árin liðu. Hverja vetrarvertíðina eftir aðra reri Ögmundur á áttæringnum Gideon með Hannesi Jónssyni, reri þar í sama rúmi og með sömu ár. Á sumrin stundaði hann sjó með öðrum formönnum og heyjaði svo milli róðra leigutúnið sitt.

Vélbátaútvegurinn hófst í Vestmannaeyjum 1906. Vélbátunum fjölgaði þar mjög ört á næstu árum. Árið 1912 voru þeir orðnir 58, og 5 árum síðar 67 alls. Fólkið streymdi til bæjarins og búsetti sig í hinu aflasæla sveitarfélagi. Húsbyggingar þar fóru sífellt vaxandi. Þá var mjög sótt eftir húslóðum í Nýjatúni. Fyrsta húsið, sem þar var byggt, svo að mér sé kunnugt, voru Garðar (Vestmannabraut 32), líklega árið 1904. Brátt reis þarna þétt hverfi húsa, sem í daglegu tali var kallað Þykkvibær. Það bæjarhverfi byggðist mest á árunum 1904—1909. Þessi hús standa þar enn: Garðar (1904), Baldurshagi (Vesturvegur 5) (1905,) Fagridalur (1908), Landamót (1904-1905), Múli, Sandprýði, Fell, Laugardalur (Vesturvegur 5 B).
Þar sem Ögmundur sjómaður í Landakoti hafði lífstíðarábúð á Nýjatúni, var honum í lófa lagið að selja húsbyggjendunum leiguréttinn á húslóðunum, afnotaréttinn, eins og enn er gert í kaupstaðnum. Þetta gerði Ögmundur í Landakoti þó ekki. Hann hafði aldrei lært þá list að græða á þörfum annarra. Hann afhenti lóðirnar endurgjaldslaust. Þannig fór Nýjatún minnkandi ár frá ári, án þess að hjónin í Landakoti bæru annað úr býtum en þakklæti þeirra er þágu húslóðirnir, og stundum munu þakkirnar hafa verið færðar þeim hjónum svona heldur tómlátlega, eins og ekkert væri að þakka.
Á svæði Nýjatúns munu nú standa 40—50 íbúðarhús.