Blik 1965/Séra Jón Þorsteinsson, prestur að Kirkjubæ, fyrri hluti

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1965ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Séra Jón Þorsteinsson
prestur að Kirkjubæ
í Vestmannaeyjum
(fyrri hluti)


Eldri steinninn, sem fannst 20. maí 1924. Hann er geymdur á fornminjasafninu í Reykjavík.


Það var árið 1924, 20. maí, að Magnús bóndi Eyjólfsson á Kirkjubæ var að pæla matjurtagarðinn sinn, sem var norðarlega í Kirkjubæjahverfinu. Rak bóndi þá reku sína í flatan stein, sem lá naumlega rekustungu undir yfirborði moldarinnar. Áður hafði Magnús orðið var við stein þennan, er hann pældi garðinn sinn, en þá var dýpra á honum. Nú skóf Magnús moldina ofan af steininum með þeirri ætlan að fjarlægja hann úr garðinum. Þá kom í ljós, að steinninn var úr móbergi og á honum var krot, sem benti til þess, að um mannaverk væri að ræða.
Ýmsir málsmetandi menn í Eyjum voru nú kallaðir til að líta á steininn og athuga hann. Meðal þeirra var Gísli gullsmiður Lárusson, bóndi í Stakkagerði. Hann var þekktur að miklum áhuga á sögulegum minjum í Eyjum, sögu þeirra og örnefnum. Þeim safnaði hann um eitt skeið og varð mikil hjálparhella dr. Þorkeli Jóhannessyni, prófessor, þegar hann tók að safna örnefnum í Eyjum.
Athugun á steini þessum leiddi það í ljós, að hér var fundinn legsteinn, er reistur hafði verið á gröf séra Jóns Þorsteinssonar píslarvotts, er hinir afríkönsku ræningjar myrtu 17. júlí 1627, fyrsta daginn, sem þeir frömdu mannránið mikla hér í Eyjum.
Sex dögum eftir að steinninn fannst, eða 26. maí, var hann tekinn úr moldinni í samráði við þjóðminjavörð, sem þá var Matthías Þórðarson, og fluttur niður í bæ. Þar var hann hafður til sýnis almenningi í skrifstofu kaupfélagsins Bjarma. Dagana 7. og 8. ágúst um sumarið dvaldist þjóðminjavörður hér í Eyjum. Var þá grafin gröf, þar sem steinninn fannst. Hún var höfð 1x2,25 m. að ferhyrningsmáli. Þegar komið var 1 m niður í moldina, fundust mjög fúnar leifar af kistu og mannsbeinum. Kistan hafði verið smíðuð úr eik. Talin var hún líkleg til að vera kista séra Jóns píslarvotts. Vottur örfúinna beina sást í eikarkistunni, en ekkert bein var svo heillegt, að lögun þess sæist. Helzt virtist mega greina hægri framhandlegg. Af höfði fundust engar leifar. Eftir að kistan hafði verið hjúpuð hvítum dúk, var hún aftur hulin moldu og gröfin fyllt. (Sjá blaðið Þór 1924).
Ein heimildin segir, að fundizt hafi tennur „úr mjög gamalli manneskju“ í gröfinni. Ekki geta þær hafa verið úr séra Jóni, því að hann var ekki nema 57 ára, er hann var veginn.
Sjálfur ræddi ég um fund þennan og gröfina við Gísla heitinn Lárusson í Stakkagerði sumarið 1928 eða 4 árum eftir að steinninn fannst og gröfin var rannsökuð. Ég minnist þess glögglega, að Gísli gerði mjög lítið úr því, sem fundizt hafði af jarðneskum leifum. Ég man einnig, að Gísli tók það fram, að þeir hefðu séð ljósa rák í moldinni, þar sem þeir héldu gröf prests hafa verið. Þeir ályktuðu, að hér væri um að ræða leifar af ullarbandsborða, sem legið hefði í kistunni hjá líkinu. Frásögn Gísla finnst mér einnig trúlegust, — ekki einungis sökum þess, hve hann var sérlega glöggur maður, heldur einnig vegna hins, hve jarðvegur er þarna rakur og rotsamur.
Ýmsir Eyjabúar skrifuðu um fund þennan og töldu jafnvel, að forsjónin sjálf hefði með honum minnt Eyjabúa á, að nú bæri þeim að minnast rækilega séra Jóns Þorsteinssonar, prestsins mæta, sálmaskáldsins og píslarvottsins, er 300 ár væru liðin frá því hann var veginn, sem sé eftir þrjú ár (17. júlí 1927).

ctr

Minnisvarðinn, sem Gísli J. Johnsen lét reisa á gröf
séra Jóns Þorsteinssonar og afhjúpaður var 17. júli 1927.
Teikning eftir Trausta Eyjólfsson.

Einn var sá Eyjabúi, sem gerði meira en ræða um þetta og skrifa um fundinn. Það var Gísli J. Johnsen, útgerðarmaður m.m. að Breiðabliki. Hann hafði samráð við þjóðminjavörð um gerð á nýjum bautasteini til minningar um prestinn, en gamli steinninn var fluttur í Þjóðminjasafnið í Reykjavík og er þar til sýnis almenningi. Nýja steininn fékk Gísli gjörðan í Reykjavík. Hann gjörði Magnús Guðnason steinsmiður. Steinninn kostaði kr. 300,00, sem Gísli greiddi úr eigin vasa. Síðan sendi hann steininn til Eyja og fól Eyjabúum að koma honum fyrir á Kirkjubæ.
Séra Jes A. Gíslason, mágur Gísla J. Johnsen og verzlunarstjóri hans, hafði mest fyrir því að láta gera stall undir steininn og steypa í kring um hann. Allt hefur það verk verið unnið á kostnað Gísla J. Johnsens. Ekki er annað vitað a.m.k. Steinninn var síðan afhjúpaður á 300 ára dánardegi séra Jóns 17. júlí 1927. Fjölmenntu þá Eyjabúar að Kirkjubæ. Þar flutti séra Jes ræðu og afhenti Eyjabúum bautasteininn til eignar og varðveizlu. Þar hefur hann nú staðið í 38 ár.

—————


Nálægt miðri 16. öldinni bjuggu bóndahjón í Höfn í Melasveit er hétu Torfi Brandsson og Ásta Eiríksdóttir. Húsfreyjan var dóttir séra Eiríks Jónssonar, sem var prestur í Skálholti 1530—1536 og fékk þá Gilsbakka. Þar var hann prestur í 6 ár eða til ársins 1542, er hann fékk Reykholt.
Ekki er mér kunnugt, hvenær Torfi bóndi í Höfn lézt, en víst er um það, að Ásta húsfreyja bjó ekkja í Höfn um árabil eða þar til hún giftist seinni manni sínum Þorsteini Sighvatssyni, sem varð gildur bóndi í Höfn og lögréttumaður í Þverárþingi um langt skeið.
Áður en Þorsteinn Sighvatsson kvæntist Ástu ekkju í Höfn, hafði hann getið tvær dætur með Guðrúnu Þorbjarnardóttur, er síðar giftist Jóni smið í Fellsöxl. Sonur þeirra var Bjarni Borgfirðingaskáld (Húsafells-Bjarni). Önnur laundóttir þeirra Þorsteins og Guðrúnar hét Helga, móðir Þórhalla skálds Hildibrandssonar. Hin dóttirin hét Sigurborg. Skáldin Bjarni Jónsson og Þórhalli Hildibrandsson sanna okkur skáldgáfuna í kynstofnum þeirra Guðrúnar Þorbjarnardóttur annars vegar og Þorsteins Sighvatssonar hinsvegar, og sérstaklega hans, sem síðar gat af sér annað mesta skáld 17. aldarinnar næst séra Hallgrími Péturssyni, séra Jón Þorsteinsson, prest og skáld að Kirkjubæ í Vestmannaeyjum.
Séra Jón Þorsteinsson fæddist í Melasveit um 1570. Fátt er vitað um bernsku hans og unglingsár. Hann mun hafa sem önnur börn og unglingar þá, verið látinn inna af hendi ýmis störf við bú foreldra sinna, svo sem vallargæzlu, smölun, snúninga innan bæjar sem utan, kúarekstur og — sókn og síðan slátt og fjárhirðingu, eftir því sem þroskinn og þrótturinn óx með árunum, þar til hann var sendur í skóla.
Freistandi er að álykta, að Ásta húsfreyja Eiríksdóttir í Höfn, móðir séra Jóns, hafi verið sérstaklega trúrækin kona, einlæg og guðhrædd og samband þeirra mæðgina náið, og hún orkað mjög á sálarlíf og lífsviðhorf hins gáfaða sonar síns. Eldri sonur þeirra hjóna í Höfn, Torfi, varð einnig prestur, séra Torfi Þorsteinsson að Gilsbakka í Borgarfirði.
Ekki ber heimildum saman um giftingarár séra Jóns Þorsteinssonar. Þó mun það sanni næst, að hann kvæntist í október 1596 eða 18. sunnudag eftir trinitatis, þ.e. 10. október. Kona hans var Margrét Jónsdóttir frá Hæli í Flókadal Péturssonar.
Árið 1598 tók séra Jón Þorsteinsson prestsvígslu, og sama árið fékk hann Húsafell í Borgarfirði. Hálfsystir prestsins, Sigurborg Þorsteinsdóttir, var þá húsfreyja í Kalmanstungu, gift Jóni bónda Grímssyni þar.
Þegar séra Jón Þorsteinsson fékk Húsafell, var allt óvíst um framtíð hans þar á staðnum. Séra Böðvar Jónsson prestur í Reykholti og prófastur í Þverárþingi sunnan Hvítár ætlaði öðrum presti Húsafell. Það vissi séra Jón. Sá prestur var séra Sigurður Finnsson, stjúpsonur prófastsins og tengdasonur sýslumannsins, Sigurðar Jónssonar í Einarsnesi. Þeir höfðu völdin eða áhrifaaðstöðuna og gegn dómaranum tjóaði þá ekki að spyrna eða við hann að deila fremur en endranær. Þessi óvissa séra Jóns Þorsteinssonar mun hafa valdið því, að hann flutti ekki konu sína og barn með sér að Húsafelli fyrsta árið, er hann var prestur þar. Það mun hafa villt suma, sem fjallað hafa um ævi séra Jóns og ætlað hann kvænast það árið, sem hann flytur konu sína og barn til sín að Húsafelli, þ.e. 1599. En þá höfðu þau hjón verið gift í 3 ár.
Fyrsta árið, sem séra Jón Þorsteinsson hélt Húsafell, mun hann hafa matazt öðrum þræði hjá systur sinni Sigurborgu að Kalmanstungu og manni hennar, Jóni bónda. Aðeins 5 km eru milli bæjanna. Þessa ætlan mína styðja ljóðlínur í kvæði, er séra Jón orti til þeirra hjóna. Þar segir m.a.: „... af einu vorum við blóði bæði borin á þetta Íslandsfrón. ... Þau voru ei treg að veita mér fæði, þá vegur minn lá til fjalla ...“
Eftir tveggja ára prestsskap að Húsafelli varð séra Jón Þorsteinsson að víkja þaðan fyrir stjúpsyni prófasts og tengdasyni sýslumannsins. Sú valdbeiting leiddi til kala mikils milli prófastsins að Reykholti og séra Torfa Þorsteinssonar að Gilsbakka, bróður séra Jóns.
Árið 1600 fluttist því séra Jón frá Húsafelli og mun þá fyrst í stað hafa leitað heim að Höfn með konu og barn til foreldra sinna. Um haustið þetta ár eða vorið eftir fékk séra Jón Torfastaði í Biskupstungum og fluttist þangað árið 1601.

—————


Þegar um miðja 16. öldina tók konungsvaldið mjög að þrengja kosti Vestmannaeyinga. Árið 1558 gerðist maður nokkur, Simon Surbeck, kaupmaður í Eyjum og umboðsmaður konungsvaldsins. Þá hófst þar danskt einræði og einokunarverzlun. Simon Surbeck var ágengur í meira lagi. Hann skaraði ótrauður eld að sinni köku og konungs og svipti Eyjabændur ýmsum réttindum, sem þeir höfðu haft frá ómunatíð.
S. Surbeck rak útgerð konungs í Eyjunum með takmarkalausum kvöðum og látlausum kröfum um vinnuafl sjómanna og bænda fyrir lítið og ekki neitt í aðra hönd, — kúgun, ofbeldi, rangsleitni, fjárplógsstarfsemi, sem hvergi í landinu varð betur við komið en hér í Eyjum sökum einangrunarinnar. Þessi danski valdamaður ríkti hér til 1582, en þá var hann tekinn að ganga á hlut sjálfs konungsins til eigin hagsbóta í verzlunar- og útgerðarrekstri. Var hann þá sviftur umboðsvaldinu. En ekki tók betra við gagnvart Eyjabúum. Frá 1582 fram til aldamótanna urðu fjórir menn umboðsmenn konungsvaldsins í Eyjum, hver eftir annan. Tveim árum áður en hin eiginlega einokunarverzlun breiddi hramma sína yfir allt landið, voru Vestmannaeyjar leigðar sérstaklega eða árið 1600.
Um verzlunarhagi í Vestmannaeyjum síðari hluta 16. aldarinnar segir sagnfræðingurinn Jón Aðils: „Hafði Símon (Surbeck) eða umboðsmenn hans í eyjunum þyngt svo kvaðir og gjöld á mönnum, að eyjaskeggjar fengu varla undir risið, og verzlunarhagir voru hinir þungbærustu. Erlend nauðsynjavara var seld rándýrt, en afurðir landsmanna teknar með afföllum, og hótað fjötrum og fangelsi, ef menn reyndu að krækja sér í eitthvert lítilræði hjá Englendingum, sem buðu margt við vægu verði, svo sem færi fyrir 6 fiska, eða jafnvel stundum fyrir eina sjóvettlinga, og annað þessu líkt.“ Ekki var annað fyrir, en að Eyjarnar mundi leggjast í eyði, ef þessu héldi fram.
Óskaplegt hatur ríkti með mörgum Eyjabúum gegn hinum dönsku ofbeldisseggjum og fjárplógsmönnum. Tár og kveinstafir þrautpínds almennings hrópuðu í himininn. Sumir urðu hamstola af heift og hefndarhug, svo að handalögmál hlutust af og stundum jafnvel líftjón.
Þegar svo til Eyja fluttust prestar, sem annast skyldu sálusorgun hins sárþjáða og þrautpínda fólks, hlusta á kvein þess og klaganir, vita nauð þess annars vegar og sjá hins vegar blóðsugurnar eflast að auði og völdum á kostnað hinna vesælu sóknarbarna, skipti stundum í tvö horn um framferði prestanna gagnvart kaupmönnum og umboðsmönnum konungsvaldsins. Fór sú framkoma að sjálfsögðu eftir skaplyndi prestanna, hyggjuviti og andlegri heilsu, ef svo mætti segja. Stundum kom það fyrir, að prestarnir tóku óstinnt upp hanzkann fyrir landsmenn, gerðu kaupmönnum flest til skapraunar og æstu fólkið upp til mótþróa gegn þeim, enda þótt slíkt framferði bitnaði sárast á prestinum sjálfum og skjólstæðingum hans, sóknarbörnunum. Flestir prestanna ráðlögðu þó fólkinu að beygja sig í auðmýkt fyrir valdinu, treysta guðdóminum til hjálpar sér og draga úr sárasta sviðanum með fyrirbænum og áköllunum. Sumir prestanna tóku jafnvel óbeint upp varnir fyrir einokunarvaldið og þrældómsokið með því að tjá fólkinu, að þetta væru óhjákvæmilegar afleiðingar af stórsyndum þess og brotum gegn guðsvilja og boðum.
Árið 1593 fékk séra Ormur Ófeigsson Kirkjubæ í Vestmannaeyjum. Hann hafði áður verið prestur á Þingvöllum og víðar og var kunnur af margháttuðu gerræði í framkomu sinni og óbilgirni annars vegar, framtakssemi, dugnaði og þátttöku í kjörum almennings hins vegar.
Þegar séra Ormur fékk Kirkjubæ, var prestssetrið svo að segja moldarrústir. Hann byggði upp staðarhúsin fyrstu 3 árin, sem hann sat í Kirkjubæ.
Hin bágu kjör almennings í Eyjum og reyndar allra í Eyjabyggð undir veldi einokunarherranna fór ekki framhjá prestinum á Kirkjubæ, séra Ormi Ófeigssyni. Fyrirlitningin á kaupmannavaldinu danska, mótþróinn gegn valdi þeirra, reglum og gjörðum, þjónum þeirra eða starfsliði, magnaðist ár frá ári í sálarlífi prestsins. Hann æsti upp almenning gegn kaupmannavaldinu og verður að teljast fyrsti Íslendingurinn, sem reis upp gegn því og starfsháttum þess.
Séra Ormur hikaði ekki við að flytja fisk sinn á sumrin til meginlandsins og selja hann þar kaupmönnum, þrátt fyrir boð konungs og verzlunarsamninga, þar sem afráðið var, að enginn, sem aflaði fisks í Eyjum, hefði leyfi til að flytja hann burtu þaðan og selja hann annars staðar. Ekki einu sinni bændur og búaliðar úr sveitum Suðurlandsins, sem lágu við í Eyjum á vertíðum til að afla sér og sínum lífsbjargar, höfðu rétt til að flytja heim til sín fiskmetið. Seinna leiddi þó barátta þeirra til leiðréttingar á því.
Prestur þverskallaðist jafnan við að greiða kaupmönnum verzlunarskuldir sínar. Á ýmsum öðrum sviðum í mótþróa sínum og hatri á einokunarvaldinu fóru aðgjörðir prests út í öfgar og voru stundum á takmörkum vits og vitfirringar. Prestur fullyrti, að kaupmennirnir seldu skemmdar vörur. Þegar leiða skyldi neytendur til vitnis um þann sannleika, þorði enginn að vitna með presti, „heldur var allt uppspunnið frá séra Orms ókristilega hjarta.“ Hvað hefði beðið þeirra, sem voguðu að bera þeim sannleika vitni á þeim tímum?
Árið 1607 sendi fulltrúi einokunarvaldsins kæru á séra Orm Ófeigsson. Kæran var í 16 atriðum og kom fyrir alþingi um sumarið. Þar var séra Ormur kærður fyrir skuldseiglu, brot á verzlunarsamningunum með því að selja fisk sinn öðrum en Eyjakaupmönnum og það, að æsa alþýðu manna gegn þeim.
Eitt kæruatriðið var það, að prestur liði syni sínum að drýgja hór heima á prestssetrinu. Þennan son sinn tæki prestur síðan til altaris, veitti honum sakramentið, án þess að hann skriftaði fyrst. Eitt sinn hefði séra Ormi orðið það á að fullyrða í ræðustóli, að Kristur hefði verið skapaður í móðurlífi. Þessu mótmælti einn af Eyjabúum, er hann kvaddi prest við kirkjudyr eftir messuna. Þessi fullyrðing prests var eitt af kæruatriðunum. Stundum varð séra Ormi á að neyta víns meira en góðu hófi gegndi og hafði þá litla stjórn á skapsmunum sínum og gjörðum, ef starfslið kaupmanna varð á vegi hans eða þeir sjálfir.
Einn af hinum 16 liðum kærunnar var þessi, sem ég leyfi mér að birta hér orðréttan á móðurmáli kærandans eða réttara sagt skjólstæðings hans og með hans réttritun.
„Er handt (þ.e. hann, séra Ormur) saadan Vforschammet oc Wærachig scallock, att handt thör ssig wnnderstaae att indtgaae vdi Konng: Ma: Murstuffue, ssom scheedt er 1607, och wdtagett ssinn hemmelige thingh och offuerpissett kockenn hoes maden ssom stodt paa ildenn och ssom kocken stoed medt maden och thendt handtteritt huor om otte mendt ther aff Öen deriss beseiglede och wnderschreffne breff och thingswinnde vider vduisser.“
Kæran leiddi til þess, að séra Ormur var sviftur embætti síðla sumars 1607 og varð að hröklast burt úr Eyjum.
Ég hefi farið nokkrum orðum hér um séra Orm Ófeigsson og drepið á verzlunaráþján Eyjafólks, ófrelsi og fátækt á þeim tímum, er prestur þessi hvarf úr Eyjum og séra Jón Þorsteinsson prestur á Torfastöðum fékk Kirkjubæ í Vestmannaeyjum. Það var haustið 1607 eða vorið 1608 að hann flutti til Eyja. Þá var séra Ólafur Egilsson prestur að Ofanleiti (1594). Seinni kona hans var Ásta (Ástríður) Þorsteinsdóttir, systurdóttir séra Jóns Þorsteinssonar, — dóttir Guðrúnar Þorsteinsdóttur frá Höfn í Melasveit og m.h. séra Þorsteins Einarssonar að Mosfelli.
Prestshjónin, séra Jón Þorsteinsson og maddama Margrét, nutu vissulega dugnaðar séra Orms Ófeigssonar, er þau fluttu til Vestmannaeyja og settust þar að. Að sjálfsögðu fluttu þau í staðarhúsin á Kirkjubæ, er séra Ormur hafði lokið við að byggja upp af grunni fyrir 11 árum.
Fátt er til frásagnar svo vitað sé um prestskap séra Jóns Þorsteinssonar að Kirkjubæ. Prestur var mikill friðsemdarmaður og mun hafa umborið ágengni kaupmannavaldsins með meiri ljúfmennsku og minni mótþróa en fyrirrennari hans, séra Ormur Ófeigsson.
Einn söguskráður atburður átti sér stað í Vestmannaeyjum, er séra Jón hafði verið þar prestur í 7 ár. Það var rán Englendinga árið 1614, þegar Jón Gentleman og félagar hans fóru ránshendi um byggðina en þyrmdu þó lífi fólksins. Ræningjar þessir dvöldust í Eyjum vikum saman og stálu öllu, sem þeim fannst nokkurt verðmæti í. M.a. stálu þeir klukku úr Landakirkju og flestum eða öllum kirkjugripum. Rán þetta varð að milliríkjamáli milli konungsvaldsins danska og enska og leiddi til þess, að foringi ræningjanna, Gentleman, og svo félagar hans, voru teknir af lífi. Óefað hafa prestarnir í Eyjum, séra Jón og séra Ólafur Egilsson, verið látnir votta og leggja mikilvæg orð til í þeim kærumálum.
Séra Jón orti kvæði um ránskap þennan og sagði hann hefnd Guðs fyrir drýgðar syndir Eyjabúa.
Eftir að séra Jón Þorsteinsson fluttist til Vestmannaeyja, stundaði hann skáldskap af miklum hug og dug, orti marga sálma og kvæði, og gat sér mikinn orðstír fyrir skáldskap sinn. Prestur þótti með afbrigðum snjall ræðumaður, heittrúaður og kjarnyrtur, sem boðaði guðshefnd fyrir drýgðar syndir, svo sem hórdóm, drykkjuskap, lauslæti, þjófnað og margskyns rangsnúning og rangsleitni í daglegu lífi fólks. Guð var kröfuharður og hefnigjarn, refsaði miskunnarlítið hinum grásyndugu börnum sínum, sem brutu boð hans, já, refsaði þeim jafnvel í 3. og 4. lið, en var annars algóður og miskunnsamur, alvitur, umburðarlyndur og sáttfús, — og gladdist innilega, þegar börnin hans tóku sinnaskiptum og bættu ráð sitt. Guð boðaði fyrirfram stóratburði til refsingar og hefndar. Þannig fullyrti prestur, að Kötlugosið 1612 hefði verið fyrirboði hinnar miklu refsingar, ránsins 1614, sem Eyjafólk varð að þola fyrir syndir sínar og spillt líferni.

„Guð, þú sendir bæði sverð og pínu,
hirtir þín börn með kross,
svo hefir þú, faðir, gjört við oss
að þig því betur við biðjum.


Heyrið nú frómir, hvað ég verð
hrópa út og fram segja:
Hér er nú stærri hefnd á ferð,
í hverri menn munu deyja,
ef vér gerum ei yfirbót
afleggjum skammarverkin ljót,
þar yfir má ei þegja.
Við vorum hlaupnir vítt og breitt frá boði þínu
og höfum þig til hefnda reitt
iðkandi hvers kyns last og skamm.
Gjörum iðrun, straff vorra lasta, —
við gjörum yfirbót,
afleggjum skemmdarverkin ljót.“


Ræningjar frá Algeirsborg sigldu á þrem skipum að Vestmannaeyjum 16. júlí 1627. Ótti og skelfing gagntók allt Eyjafólk. Þennan dag flýði Jón Þorsteinsson með fjölskyldu sína í hellisskúta nokkurn, er hann vissi af í bjargbrúninni austur af Kirkjubæ. Þennan helli nefndu Eyjabúar Rauðhelli frá fornu fari sökum þess, að rauðir vikurmolar voru á víð og dreif fastir í veggjum hans. Með presti var kona hans, maddama Margrét Jónsdóttir og dóttir þeirra, sem líka hét Margrét eftir móðurömmu sinni, og yngsti sonur prestshjónanna, Jón (yngri). Þá fylgdu prestshjónunum tvær vinnukonur þeirra og e.t.v. fleira þjónustufólk.
Á heimili prestshjónanna dvaldist aldraður maður, sem fyrrum hafði verið skipstjóri í Eyjum, segir sögnin, en var nú próventukarl hjá prestshjónunum, þverlyndur og mótþróagjarn, og vildi ógjarnan lúta boði eða beiðni annarra. Hefur líklega verið því vanari, að aðrir lytu hans boðum. Þessi aldraði maður hét Snorri Eyjólfsson. Hann varð þess valdandi með þvermóðsku sinni og sjálfbirgingi, að ræningjarnir fundu dvalarstað prestsfjölskyldunnar, og hún sætti fyrir bragðið hinum ömurlegustu og hörðustu örlögum.
Nóttin milli 16. og 17. júlí leið þarna í hellinum við frumstæðan aðbúnað, raka í veggjum og svalt sjávarloftið, sem lék óhindrað um hellinn, — ótti og ömurleiki, angist og skelfing.
Svo rann upp örlagadagurinn mikli 17. júlí. Þann dag stigu ræningjarnir á land á Ræningjatanga. Síðari hluta dagsins eða undir kvöldið sigldu svo ræningjaskipin inn á ytri höfnina í Eyjum. Þá gátu „hellisbúarnir“ fylgzt með öllu, sem átti sér stað í kringum skipin og á þilfari þeirra án þess að þeir sæjust.
En próventukarlinn Snorri Eyjólfsson undi illa í hellinum, taldi slíkan feluleik fyrir neðan virðingu sína og ósamrýmanlegan fortíð hans. Hann hélt sig því á þaki hellisins eða í nánd við hann. Þar komu ræningjarnir auga á hann. Þá var ekki að sökum spurt. Í hellisþakinu var rauf.
Allt í einu veitti fólkið því eftirtekt, að blóð lak niður í hellinn um rauf þessa. Í ljós kom, að ræningjarnir höfðu þegar myrt gamla manninn þarna á hellisþakinu og það var blóð hans, sem nú lak niður um þakraufina. Ekki þurftu ræningjarnir lengi að leita til þess að finna hellismunnann.
Frá þeim hörmulega atburði segir í Tyrkjaránssögu á þessa lund:
„Þann 18. dag julii voru illvirkjarnir uppi með sólu að gagnleita um eyna, um fjöll og byggðir, og fluttu þá enn fólk til skipanna. En í fyrstu, þá varð vart við ófriðinn, flýði sá annar prestur, sem var það merkilega skáldmenni séra Jón Þorsteinsson, burt af sínu heimili Kirkjubæ í urð nokkra undir einum hamri í helli einn með sinni kvinnu Margrétu og dóttur og syni, ásamt öðru heimkynni og hjúum. Og sem hann var þar kominn, las hann og prédikaði fyrir sínu fólki og huggaði það. Síðast las hann litaniuna*. Á meðal þessa fólks var einn, sem var próventumaður. Sá hét Snorri Eyjólfsson. Hann vildi ekki inn ganga í hellinn, heldur var hann sífelldlega úti fyrir hellisdyrunum, þó séra Jón honum inn skipaði. Og innan stundar gekk prestur fram í hellinn. Sá hann þá, hvar blóðlækir runnu inn um hellisþakið. Gekk prestur þá út og sá, hvar Snorri lá höfuðlaus fyrir hellismunnanum. Höfðu þá ræningjarnir séð hann og skutu af honum höfuðið, og hefur hann verið þeim skálkum svo sem ávísan til hellisins. Gekk þá séra Jón inn aftur, segjandi þennan atburð, skipaði og áminnti alla að biðja almáttugan guð sér til hjálpar, því nú mætti það sjá, hvar komið væri og hver óþjóð að því drifi. Strax eftir þetta stefndu þessir blóðhundar að hellinum, svo hann heyrði þeirra fótadunk. Þá mælti hann: „Þar koma þeir, Margrét! með sínu fótasparki. Nú skal ég óskelfdur í móti þeim ganga. Hún bað hann guðs vegna ekki frá sér fara. En sem þau voru að tala, komu þessir blóðhundar þangað að hellisdyrunum og ætla að rannsaka hellirinn, en presturinn gekk út í móti þeim. Nú sem þeir sjá hann, mælti einn þeirra: „Því ertu hér, séra Jón? Skyldir þú nú ekki vera heima í kirkju þinni?“ Prestur svaraði: „Ég hefi verið þar í morgun.“ Þá er talið, að morðinginn hafi sagt: „Þú skalt ekki vera þar á morgun.“ Skipti þá ekki fleiri orðum. Morðinginn hjó beint í hans höfuð. Presturinn breiddi út sínar hendur og mælti: „Ég befala mig mínum guði. Þú mátt gera það hið frekasta.“ Níðingurinn hjó þá annað högg. Við þessi höfuðsár mælti séra Jón: „Ég befala mig mínum herra Jesu Christo.“ Hér jafnframt skreið Margrét, kvinna prestsins, að þess morðingja fótum og hélt um þá, meinandi hann mundi heldur mýkjast, en þar var engin vægð á ferðum.
Hjó þá fordæðan þriðja höggið. Þá sagði presturinn: „Það er nóg, herra Jesú! Meðtak þú minn anda.“ Hafði hann þá í sundur klofið hans höfuð. Lét hann svo líf sitt. Hans kvinna tók trafið af höfði sér og batt um þess framliðna höfuð, en þeir hröktu þær mæðgur frá líkamanum og hans son með því fleira fólki, er þar var, bundu og ráku til Dönsku-húsa. Hafði ein lítil smuga verið þar hærra uppi í hamrinum fyrir ofan hellinn, sem þetta fólk var í. Þar leyndust inni tvær konur. Þær heyrðu og sáu alla þessa atburði.“
Þessi frásögn í Tyrkjaránssögu ber það með sér, að ruglað er saman dögum að því er snertir morðið á prestinum. Það er vitað, að hann var myrtur daginn, sem ræningjarnir gengu á land á Heimaey, þ.e. 17. júlí. Séra Ólafur Egilsson getur þess, að maddama Margrét hafi á ræningjaskipinu bent sér á ódæðismanninn, sem myrti séra Jón mann hennar. Aðrar heimildir gefa í skyn, að Íslendingur sá, sem sagt er, að vísað hafi ræningjunum á lendinguna við Ræningjatangann, hafi mælt þau orð við prestinn, sem hér eru hermd og síðan myrt hann. Á sá Íslendingur að hafa verið í Eyjum áður og staðið þar í útistöðum við séra Jón. Þá á morðið að hafa verið hefnd og svölun.
Hvað sem rétt er um þessar frásagnir, þá verður sjálfsagt þeirri spurningu seint svarað: Hvers vegna hnepptu ræningjarnir ekki séra Jón Þorsteinsson í ánauð eins og séra Ólaf á Ofanleiti í stað þess að myrða hann?
Maddama Margrét var flutt til Algeirsborgar og seld þar mansali ásamt þeim tveim börnum þeirra hjóna, Margréti og Jóni (yngra), er hjá þeim voru í Rauðhelli. Prestsfrúin mun ekki hafa lifað mörg ár í þrældómi. Hún leið miklar andlegar þjáningar og nauð, en hélt til síðustu stundar trú sinni og rækti hana í leyndum.
* Ákall til guðs um vernd og frelsun. Við guðþjónustur er litanian höfð að víxlbæn milli prestsins og safnaðarins (söngflokksins).


Síðari hluti