Blik 1965/Saga barnafræðslunnar í Vestmannaeyjum, 5. kafli, fyrri hluti

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1965ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Saga barnafræðslunnar
í Vestmannaeyjum


5. kafli, 1914-1920
(Fyrri hluti)


Þegar Steinn Sigurðsson varð að hverfa frá barnaskóla Vestmannaeyja (1914), voru nemendur alls 109 í skólanum, svo sem sagt er í 4. kafla fræðslusögunnar í Bliki 1963.
Í skólahúsinu Borg (Heimagata 3) voru aðeins 3 kennslustofur, tvær á efri og ein á neðri hæð austan við þingsalinn. Hins vegar voru 5 bekkjardeildir í skólanum, svo að tvísetja varð í hann. Sá hluti skólans, er starfræktur var síðari hluta dagsins, var kallaður eftirskóli.
Yngstu deildir skólans höfðu kennslustofuna á neðri hæð byggingarinnar til afnota.
Skólastjórastaða var auglýst og sóttu um hana 8 menn. Þeir voru þessir:
Einar Loftsson, Grímsnesingur, f. 1890.
Björn Jóhannsson frá Skarði í Dalsmynni í S.Þing., f. 1882.
Egill Hallgrímsson, Vogum á Vatnsleysuströnd, f. 1890.
Jónas Magnússon frá Örlygshöfn við Patreksfjörð, f. 1891.
Jóhannes Friðlaugsson frá Hafralæk í Aðaldal í S.-Þing., f. 1882.
Björn Hermann Jónsson frá Núpsdalstungu í Miðfirði, f. 1888.
Jóhann Einarsson frá Finnastöðum á Látraströnd, f. 1885.
Einar G. Þórðarson frá Kirkjuvogi í Höfnum, f. 1863.
Björn H. Jónsson hlaut atkvæði allra skólanefndarmanna og var ráðinn skólastjóri barnaskóla Vestmannaeyja (Sjá æviágrip hans á öðrum stað hér í ritinu).
Hinn nýráðni skólastjóri sat fyrsta fund með skólanefnd kauptúnsins 31. ágúst um sumarið. Þar lagði hann fram stundaskrá barnaskólans fyrir næsta skólaár, svo að skólanefndin gæti um hana fjallað, ef hún kærði sig um. Það var samkvæmr gildandi reglum.
Á þessum sama skólanefndarfundi var Brynjúlfur Sigfússon, organisti í Landakirkju, ráðinn söngkennari við barnaskólann.

Nýtt barnaskólahús.
Karl Einarsson, sýslumaður.


Árið 1912, 15. júní, var til umræðu á fundi sýslunefndar framtíðarhúsnæði barnaskólans í Vestmannaeyjum. Þar var ríkjandi einhuga álit nefndarinnar, að óhjákvæmilegt væri að byggja nýtt barnaskólahús, sem væri svo stórt og vandað að nægði til langrar framtíðar. Karl Einarsson, sýslumaður og oddviti sýslunefndar, hafði orð fyrir þessum framtíðar og framfaramálum, sem leiddi til varanlegra byggingarframkvæmda að 4 árum liðnum. Að loknum umræðum fól sýslunefnd oddvita sínum að snúa sér til skólanefndar og hreppsnefndar og biðja þær að setja fram tillögur sínar um endurreisn barnaskólans, sem allra fyrst, væntanlega í sambandi við unglingaskóla.
Mér vitanlega er hér fyrst hreyft því framtíðarmáli, að unglingaskóli eða framhaldsskóli eignist hér framtíðarstað í kauptúninu.
Þann 13. ágúst 1912 lá bréf fyrir skólanefnd Vestmannaeyja. Bréfið var frá sýslumanni, Karli J. Einarssyni, og var dags. 27. júlí eða fyrir 17 dögum. Í bréfinu bað hann skólanefndina að láta sér í té tillögur hennar um byggingu nýs barnaskólahúss í Vestmannaeyjum. Í byggingunni skyldi einnig vera kostur á að skjóta skjólshúsi yfir unglingaskóladeild eða deildir.
Sýslumaður mæltist til þess, að skólanefndin sendi honum tillögur sínar, eftir að hún hefði ráðfært sig við hreppsnefndina.
Skólanefndin ræddi þörfina á auknu húsrými barnaskólans og taldi, að ekki yrði hjá því komizt að byggja nýtt barnaskólahús. Einnig ræddi hún um það, hvar bygging þessi skyldi standa, svo að nægilegt svigrúm fengist fyrir leikvöll handa skólanum. Helzt hallaðist skólanefndin að því þá að staðsetja nýju skólabygginguna „fyrir ofan Reynivelli vestan Kirkjuvegar“. Áður hafði eitthvað verið ymprað á þessu byggingarmáli á skólanefndarfundi, því að ár frá ári þrengdist í barnaskólahúsinu Borg (Heimagata 3) við síaukið aðstreymi fólks til kauptúnsins á þessum uppgangsárum vélbátaútvegsins.
Svar skólanefndar til sýslumannsins virðist fremur kuldalegt, hvort sem þar hefur valdið skoðanamunur í stjórnmálum eða annað gagnvart sýslumanninum Karli J. Einarssyni, sem jafnframt var alþingismaður Eyjaskeggja.
Skólanefndin svaraði því til, að hún sinnti ekki neinu erindi varðandi byggingu nýs skólahúss, fyrr en fyrir lægi vissa fyrir nægilegu láni til byggingarframkvæmdanna með löngum og góðum lánskjörum.
Eftir að hafa fengið þetta svar skólanefndar, sneri sýslumaður sér til hreppsnefndarinnar og æskti þess, að hún beitti sér fyrir málinu. Hét hann henni aðstoð sinni. Hreppsnefndaroddviti í Vestmannaeyjum var þá Sigurður Sigurfinnsson, hreppstjóri. Hann og sýslumaður munu í sameiningu hafa haft samband og samráð við Rögnvald Ólafsson, byggingameistara í Reykjavík, og óskað eftir tillögum hans um gerð skólahúss, sem rúmaði allt að 200 nemendur.
Með bréfi dagsettu 10. febrúar 1913 til oddvitans, S.S., sendi húsameistarinn tvo tillöguuppdrætti að skólahúsi. Ég óska að birta hér glefsur úr þessu bréfi Rögnvalds byggingameistara, með því að þar eru fyrst bornar fram tillögur um þá barnaskólabyggingu, sem byggð var í Eyjum til frambúðar, þó að síðar yrði og með nokkru öðru sniði, þótt mikið bæri þar ekki á milli. Hinn samvizkusami mannkostamaður, Rögnvaldur Ólafsson, húsameistari, hygginn og gætinn, lýsir sér vel í bréfi þessu.

Reykjavík, 10. febr. 1913.
Herra oddviti
Sigurður Sigurfinnsson,
Vestmannaeyjum.

Hér með sendi ég yður tvö uppdráttarfrumvörp (skissur) að skólahúsi í Vestmannaeyjum ... Þér töluðuð um 200 barna skóla. Hann þarf helzt að hafa 8 bekki, því að sögn umsjónarmanns fræðslumálanna er hentugra, að bekkirnir séu svolítið misstórir, stærstir 30, en aðrir 20—25 barna ílát, ef svo mætti segja. Með því móti verður húsið að mínu viti hentugast ... Húsið er tvær hæðir, kjallari og þakloft. Á hvorri hæð eru í miðju húsi sunnan megin tveir bekkir eða stofur fyrir 30 börn hvor. Stærð þeirra 10 1/2 sinnum 9 1/2 alin. Í vesturenda ein stofa á hvorri hæð með gluggum á vesturgafli, tæpar 8 áln. á breidd og freklega 9 1/2 al. á lengd. Í austurenda er stofa með gluggum á austurstafni, jafnbreið vesturstofunni. — Alls rúma því kennslustofurnar ... 212 börn hér um bil, mætti fjölga dálítið, ef þyrfti. Slöjdstofur í kjallara, einnig eldhús og íbúð, fataskiptaherbergi fyrir væntanlegt leikfimihús, hitavél, baðherbergi o.fl. Í útbyggingu til norðurs salerni og gangurinn milli þeirra og húss þakinn og lokaður að vestan.
Uppi í þakinu er hægt að koma töluverðum herbergjum fyrir til matreiðslukennslu handa stúlkubörnum, — eru venjulega höfð uppi undir þaki vegna dauns og gufu. — En bæði mun nú þykja ef til vill óþarflega mikið ílagt að hugsa fyrir svo mörgu og miklu og svo sýnist mér að komast muni mega af með minna. En eigi skólinn að rúma 200 börn og vera til frambúðar, þá ætti hann ekki að vera öllu minni, ef efni leyfðu.
Stofurnar mega sama sem ekkert minnka, og stigar, gangur, kennarastofa og áhaldaherbergi varla heldur að neinu ráði ...
En eftir því sem ég skildi yður, er þetta hús of dýrt, og býst ég þá naumast við, að það verði nokkurn tíma byggt. Það kostar, að ég hygg, að öllu fullgert og notkunarfært um 42 þúsund (41—43 þús. eftir því, hve vandað er), þar í miðstöðvarhitun upp á 4—5 þúsundir króna.
Þá sýnist mér ekki hægt að gera húsið einfaldara eða minna en það sem sýnt er á hinu blaðinu, en það hefur aðeins 6 kennslustofur handa 30 börnum hverja eða alls 180 barna rúm. Þó að æskilegt sé eða kunni að vera að hafa misstórar stofur, held ég nú fyrir mitt leyti, að fullt eins hentugt sé að hafa þær allar jafnar að stærð, og þar sem um er að gera að rúma sem mest í sem minnstu húsi, getur það orðið drýgst. Enda sést varla í stórum skólum annað en nokkurn veginn jafnstórar stofur.
Þér sjáið, að stofurnar eru í þessu húsi mjórri og lengri en í hinu. Þær eru sem sé miklu betri upp á birtuna með því móti, að þær rúmi aðeins tvær raðir tveggja barna borða á breiddina heldur en þrjár, því að birtumagnið þverr miklu meir en í beinu hlutfalli við fjarlægðina frá ljósgjafanum eða gluggunum. Einnig betra yfirlit frá kennarasætinu ...
Hús þetta er að utanmáli 37 3/4 alin x 13 1/4 al. Í kjallara eru handavinnustofa og svo herbergi svipuð og í hinu. Á hvorri hæð þrjár 30 barna stofur; á þaklofti ekkert. Ég skil varla, að þetta hús megi ekki duga. Svo er hér hægt að komast af með 6 kennara, sem ég hygg að hljóti að vera fullmikið í ekki stærra plássi.
Mér telst svo til, að hús þetta kosti 28—30 þúsundir.
Í báðum húsunum hef ég gert ráð fyrri gólfum öllum ofan kjallara úr timbri, 1 1/2 þumlungs gólfborðum, neðan á bitum 1 þm. borðum og reyrvef og kalkhúð, nema í forstofunni. Í þeim hef ég áætlað alla palla og stiga úr járnskotinni steinsteypu. Veggir allir úr steinsteypu, húðaðir utan með sementi og þéttiefni í, innan jarðbikaðir og með kalkhúð, en neðan til á veggjunum sé helzt brjóstþil til hlífðar, húðinni hættara við að sprákast af misjöfnum umgangi í stigum og göngum. Nærgluggar innan við nálega alla glugga.
Milli stofanna, ef óskað er, — stórar vængjahurðir, svo að slá megi þeim saman tveimur að minnsta kosti. En þann ókost hafa þessar hurðir, að þær auka heldur hljóðburð á milli bekkjanna, nema þær séu tvöfaldar, en það er alldýrt.
Þér töluðuð um miðstöðvarhitun og gerði ég ráð fyrir góðri vatnshitun. Lofthitun getur varla komið til mála í svo löngum húsum, með því að loftrásir yrðu að liggja svo mikið lárétt eða á hlið og þá eru þær öldungis óáreiðanlegar, nema með þrýstivélum, en þær geta alls ekki komið til greina í svo smáum húsum. En nú er ég á báðum áttum um, hversu ráðlegt sé að hafa miðstöðvarhitun, hvort heldur er með vatni eða gufu, þar sem svo lítið er um vatn og það óvíst. Það er auðvitað meira umstang með ofna, en þeir mundu í byrjun kosta um 2 þús. króna minna. Aftur hefur miðstöðvarhitun þann kost, að hún heldur öllu húsinu hlýju, jafnt forstofum og göngum sem öðru, og er það meðal annars endingu hússins til mikillar tryggingar.
Ef leikfimihús yrði byggt, ætti það að koma í beinu framhaldi austur af þessu húsi og vera jafnbreitt því (13 1/2 al.) og 24—25 álnir á lengd. Það mundi líklega kosta um 6 þúsundir króna, ef það væri byggt um leið, en nokkru meira, yrði það byggt síðar. Yrði með þessu móti engir gluggar til austurs.
Þetta minna hús er auðvitað ekki eins sélegt og hið stærra, en ef til vill má þó eitthvað um útlitið bæta. Þó vil ég ekki gera neitt, sem eingöngu er prjál, því að það er aldrei til bóta. Hitt vildi ég gjarnan reyna, eftir því sem ég frekast get, að stuðla að því að hús þetta yrði sem vænzt, hentugast og sélegast, að því er kostur væri og efni og aðrar aðstæður leyfðu.
Þessi tvö „form“ hef ég fundið einna líklegust.
Áríðandi er að möl og sandur sé gott og tjáir ekki að horfa í, þó að nokkru sé til þess kostað, því að styrkur og ending hússins er að svo miklu leyti undir því komið.
Í stærra húsið áætla ég allt að 3.800 tn. (sementstunnur) eða liðug 12 þúsund teningsfet af möl, og ef tunnan væri á 0,66 krónur, yrðu þetta 2.500 kr., en sand gerði ég 2.800 tunnur á 0,35, sem verður tæpar 1.000 kr. Þetta eru auðvitað töluverðar upphæðir, 3.500 kr. alls, en þó ekki nema 1/12 af húsverðinu. Og þetta er aðalmegin og styrkur húsanna, til þess verður aðeins notað hið bezta, sem hægt er að ná í.
Ég fjölyrði nú ekki meira um þetta að sinni. Vænti bréfs frá yður þegar þér hafið athugað uppdrættina.

Virðingarfyllst,
Rögnvaldur Ólafsson.

Mánuðir liðu. Ár leið og vel það. Í maímánuði 1914 skrifaði hreppsnefnd Vestmannaeyja Landsbanka Íslands og spurðist fyrir um það, hvort bankinn yrði ekki tilkippilegur að veita hreppnum kr. 20.000,00 lán til barnaskólabyggingar. Um svipað leyti skrifaði hreppsnefndaroddviti fræðslumálastjóra, Jóni Þórarinssyni, og bað hann að hlutast til um það, að hreppurinn fengi styrk úr landssjóði til skólabyggingarinnar. Jafnframt var fræðslumálastjóra sendur sá uppdráttur af væntanlegu barnaskólahúsi, er Rögnvaldur húsameistari hafði sent hreppsnefndaroddvita og hreppsnefndin kosið til þess að byggja eftir.
Svar Landsbankans til hreppsnefndarinnar við lánbeiðni hennar virðist hafa dregizt á langinn, svo að oddviti sendi bankanum skeyti 28. maí. Svarskeyti bankans hef ég í hendi mér. Það er þess vert að það sé birt orðrétt, ekki sízt sökum þess, að það er „rukkun“ um leið.

Reykjavík, 29. maí 1914.
Hreppsnefndin í Vestmannaeyjum.

Vér fengum í gær frá yður símskeyti svohljóðandi:

„Fæst ekki lán þ.á. allt að kr. 20.000 og allt að 10.000 kr. n.á. til skólabyggingar? Morgunsvar,“ er vér svöruðum samstundis með svohljóðandi símskeyti: „Nei, samanber bréf 25/5“ og staðfestum við það skeyti hér með. Svarið kostaði eina krónu, er biðst send oss við tækifæri.

Virðingarfyllst.
Landsbanki Íslands

Björn Sigurðsson. -- Jón Gunnarsson, settur.

Tveim mánuðum síðar eða 27. júlí svaraði fræðslumálastjóri hreppsnefndinni, beiðni hennar um styrk úr landssjóði til skólabyggingarinnar. Með því að það svar var afgerandi um byggingarframkvæmdirnar, þykir mér rétt að birta það hér.

Reykjavík, 27. júlí 1914.

Stjórnarráðið hefur í fyrradag skrifað mér á þessa leið:

Eftir móttöku bréfs yðar, herra fræðslumálastjóri, dags. 15. þ.m., og samkvæmt tillögum yðar, hefur stjórnarráðið veitt hreppsnefndinni í Vestmannaeyjum styrk til þess að koma þar upp fyrirhuguðu barnaskólahúsi samkvæmt uppdrætti húsameistara Rögnvaldar Ólafssonar, ásamt brunni í sambandi við húsið, allt að 1/3 kostnaðar, en hins vegar sér stjórnarráðið sér eigi fært að heita styrk til leikfimihúss og leikvallar, fyrr en fyrir liggur teikning af húsinu og nánari upplýsingar um stærð leiksvæðisins og áætlun um kostnað við lagfæringu þess og girðingu.

Virðingarfyllst.
Jón Þórarinsson.

Með því að hreppsnefndin fékk hvergi von um lán til þess að hefja byggingarframkvæmdirnar, var ekkert aðhafzt þetta sumar.
Þegar leið fram undir vorið 1915, var þetta mál enn til umræðu með ráðandi mönnum hreppsins.
Þann 18. apríl 1915 tók skólanefndin skólamálið til umræðu á fundi sínum. Þá ályktaði nefndin að fela formanni sínum að fá mælda út og afmarkaða nægilega stóra lóð undir skólahúsið með nægilegu svæði fyrir leikvöll. Jafnframt skoraði skólanefndin á hreppsnefndina að „útvega efni, verkamenn og áhöld, eftir því sem kringumstæður framast leyfa, til þess að byrjað verði á skólabyggingunni á næstkomandi sumri,“ þ.e. sumarið 1915.
Um sumarið (1915) höfðu ráðandi menn í sýslunni með forustu Karls Einarssonar, sýslumanns, ákvarðað hinni væntanlegu skólabyggingu stað „norður og vestur af kirkjunni.“ Stærð lóðarinnar var afráðin ein vallardagslátta (þ.e. 900 ferfaðmar eða um 3.200 fermetrar).
Þetta sumar var unnið að því að fullgera teikningu af hinu fyrirhugaða skólahúsi. Ýmsar breytingartillögur höfðu komið fram frá ýmsum aðilum og Rögnvaldur húsameistari viljað taka þær til greina.
Upp úr miðjum júní barst skólanefndinni enn tillöguuppdráttur af skólabyggingunni frá Einari Erlendssyni, sem var „hægri hönd“ Rögnvaldar Ólafssonar húsameistara í veikindum hans, og nefndin spurð álits um uppdrátt þennan. Mun þá nefndin ekkert haft við hann að athuga. Sumarið leið og ekkert var aðhafzt í byggingarframkvæmdunum.
Er barnaskóli Vestmannaeyja tók til starfa haustið 1915 skorti skólarými fyrir 30 börn, enda þótt tvísett væri í allar skólastofur í skólahúsinu að Heimagötu 3.
Skólanefnd fól skólastjóranum, Birni H. Jónssyni, að ráða fram úr þeim húsnæðisvandræðum. Það gerði hann eftir megni, en þurfti að fórna miklu starfi og miklum starfskröftum sjálfur til að sigrast á þeim erfiðleikum, með því að daglegur kennslutími hans óx að miklum mun við þennan húsnæðisskort barnaskólans. Jafnframt síauknu starfi sökum húsnæðisvandræðanna, tók skólastjóri að örvænta um byggingarframkvæmdirnar eins og allt var í pottinn búið í sveitarfélaginu. Engin lán fáanleg neins staðar til byggingarframkvæmdanna. Reipdráttur innan sveitarfélagsins um völd og peninga fór vaxandi ár frá ári með aukinni vélbátaútgerð, afla og auknum gróða.

1965 b 162 A.jpgLandakirkja og barnaskólahúsið haustið 1917. Ef bréf Rögnvalds Ólafssonar, húsameistara, er lesið með athygli og borið saman við mynd þessa, kemur í ljós, að helzta breyting, er gjörð hefur verið á teikningu af húsinu, áður en bygging hófst, er tilfærsla á gluggum. Gluggar á skólastofum eru allir á suðurhlið en engir á göflum. Gluggar á austurgafli eru á íbúðarherbergjum undir súð. Við austurgaflinn var fimleikasalurinn síðan byggður á árunum 1927—1929 og kennslustofur á efri hæðum og svo kennarastofa.Innbyrðis úlfúð og togstreita hinna ráðandi manna óx svo að segja daglega með brennandi óskum um meiri og kröftugri áhrifaaðstöðu og vald yfir sálum meðbræðranna. Tvö harðsnúin „skaut“ höfðu myndast í sveitarfélaginu. Annað var sprottið upp úr heimajarðveginum, unni staðnum og vildi flest gera honum til menningarauka og fjárhagslegs framdráttar. Hitt aðflutt, eigingjarnt, illkvittið og snautt flestum menningarhugsjónum og framfaraþrá, nema þær framfarir gæfu gull í greipar, fylltu pyngju og ykju völd. Það var óþurftaraflið mikla í sveitarfélaginu, eins og ég hef kallað það í 4. kafla fræðslusögunnar (sjá Blik 1963).
Síðari hluta nóvembermánaðar 1915 óskaði Björn skólastjóri eftir skólanefndarfundi. Hann var þá haldinn innan skamms. Á fundi þessum bauðst skólastjóri til að gera ítarlega tilraun til að hrinda byggingarmáli barnaskólans í framkvæmd. Hann bauð þar skólanefndinni aðstoð sína til að leita eftir láni til framkvæmdanna og tryggja sveitarfélaginu opinberan styrk, sem ríkisvaldið hafði að vísu afráðið árið áður, útvega góð kjör á efniskaupum o.fl.
Skólanefndin tók þessu boði Björns skólastjóra fegins hendi og ályktaði í einu hljóði að mæla eindregið með því, að hreppsnefnd Vestmannaeyja veitti honum umboð til að útvega lán til byggingarframkvæmdanna og vera í fararbroddi um þær, annast efniskaup og útvegun vinnuafls o.s.frv., eftir því sem hann taldi nauðsynlegt til þess að geta hafizt handa um byggingu skólahússins á næsta ári (1916).
Allt fór um byggingarframkvæmdirnar að ósk og vilja Björns skólastjóra, sem reyndist bæði laginn um útvegun alla og ötull forvígismaður í byggingarframkvæmdunum sumarið 1916. Öllu efni var ekið að á hestvögnum. Allri möl og öllum sandi ók Finnur Sigmundsson í Uppsölum hér. Hann hafði þá hestakstur að atvinnu. Langan tíma úr sumrinu 1916 vann Finnur að akstri þessum. Efnið var sótt í Botninn. —
Finnur tjáir mér, að steypuna í bygginguna hafi þeir hrært í einhvers konar sívalningi, sem hreyfill var látinn snúa. Ísleifur Jónsson í Nýjahúsi gætti vélarinnar og stjórnaði hrærunni. Einnig var vélin látin draga steypuna upp í mótin. Þetta mun hafa þótt meir en venjuleg verktækni hér á þeim tímum og hefur sparað hreppssjóði stórfé. Ef til vill hefur Björn skólastjóri kynnzt verktækni þessari á dvalarárum sínum í Danmörku.
Skólastjóra hafði tekizt að útvega hreppnum lán, kr. 50.000,00, í Sparisjóði Vestmannaeyja, þar sem Gísli J. Johnsen var stjórnarformaður og Árni Filippusson í Ásgarði stjórnarmaður og gjaldkeri. (Sjá sögu sparisjóðanna í Vestmannaeyjum í Bliki 1963). Einnig fékk Vestmannaeyjahreppur fyrir atbeina Björns skólastjóra og Gísla J. Johnsen lán í Íslandsbanka, kr. 13.000,00.
Líklega mun nýja skólahúsið hafa orðið fokhelt veturinn 1916—1917. Og um vorið 1917 gerði skólanefndin ráð fyrir að geta tekið nokkurn hluta skólahússins í notkun þá um haustið. Var þá gert ráð fyir að kenna þar 70—80 börnum, sem skipt yrði í tvo hópa. Kennsla skyldi fara fram annanhvorn dag hjá hvorum hópi til þess að spara eldsneyti, því að kolaskortur svarf nú mjög að og ekki sízt í Vestmannaeyjum á styrjaldarárunum, svo að til vandræða horfði um rekstur skólans. Reynt var að brenna mó, sem þá að sjálfsögðu var fluttur til Eyja, líklega mest frá Stokkseyri.
Allt sumarið 1917 var unnið að byggingunni. Sjálfur var Björn skólastjóri smiður, hafði meira að segja sveinsbréf. Hann vann meginið úr sumrinu að skólabyggingunni, sérstaklega að því að fullgera íbúð handa sér og fjölskyldu sinni undir súð í vesturenda byggingarinnar. Í þá íbúð gat hann flutt um haustið 1917. Næsta sumar (1918) vann hann á sama hátt að því að fullgera íbúð undir súð á austurlofti byggingarinnar. Þar skyldi verða íbúð gerð handa aðfluttum kennara við skólann. Þar voru 4 gluggar á stafni eins og myndin hér af skólahúsinu vottar. Í íbúð þessa flutti til dæmis Sigurbjörn Sveinsson, rithöfundur og skáld, er hann gerðist barnakennari í Eyjum haustið 1919.
Haustið 1918 var meginið af skólabyggingunni að mestu fullgert ofan kjallara og íbúðir tvær í hvorum stafni undir súðum. Ekkert hafði þá verið unnið að kjallaranum. Mörgu öðru var ábótavant. Engin forstofa var við húsið og olli það kulda og blæstri um dyr þess í norðan og norðvestan vindum og ágangi vatns í suðvestanátt, þar sem útidyr eru á vesturstafni. Engar vatnsleiðslur voru í húsinu og hvergi rennandi vatn. Grafinn var og múrhúðaður saurkjallari vestan við húsið og þar byggð útisalerni. Þannig var það næstu 10—12 árin. Engar skólpleiðslur eða frárennslispípur höfðu verið lagðar um skólahúsið eða tengdar því.
Þannig var þetta 1919, er fyrsta skólanefndin var kosin af hinni nýkjörnu bæjarstjórn, sem þá var kosin fyrsta sinni samkv. nýjum lögum um bæjarstjórn í Vestmannaeyjum.
Nýja skólanefndin ályktaði, að nota mætti aðra stofuna í kjallara skólabyggingarinnar til þess að kenna í henni fimleika, þótt hún væri hvorki einangruð eða þiljuð innan, — aðeins útveggirnir berir. Enginn fékkst til að taka þá kennslu að sér. Hina kjallarastofuna skyldi nota handa bókasafni hins nýstofnaða kaupstaðar, þótt hún væri ekki betur úr garði gerð. Svo var gert og er það önnur saga, — hörmulegt ómenningarfyrirbrigði í bæjarfélaginu, sem Kolka læknir kom að síðar (1923) í grein í blaði sínu Skildi.
Skólabyggingin var raflýst veturinn 1915—1916.
Ekkert hafði verið gert í kringum skólahúsið að gerð leikvallar. Þar óð allt út í for og leðju í vætutíð. Erfitt var að hafa fullkomið hreinlæti í skólabyggingunni, þar sem ekkert rennandi vatn var þar eða vatnsleiðsla um húsið.
Skólanefndin fól formanni sínum að ræða þetta vandræðaástand barnaskólans við ráðandi menn í nýju bæjarstjórninni, kosin fyrsta sinni. Skólanefndarformaðurinn sótti málið að festu og ýtni, og 3. júní 1919 tók bæjarstjórn mál þetta til umræðu. Að lokum gerði hún þessa samþykkt:

„Bæjarstjórn felur skólanefnd að útvega áætlun við fullnaðarbyggingu skólahússins eins og lýst er í bréfi hennar og fundargjörð ásamt girðingu um lóðina og leikskála.“ Af þessu spruttu framkvæmdir við bygginguna. Skólpþrær voru grafnar, vatnspípur lagðar um húsið og vatnsdæla sett á kerfið. Svo var málað og snyrt á ýmsan annan hátt. Framkvæmdir þessar kostuðu samtals kr. 6.386,28, og alls var unnið fyrir kr. 9.803,40 það ár við skólabygginguna. Það var í rauninni fúlga fjár á þeim tímum, þegar hurð með karmi og járnum kostaði kringum 46 krónur, árslaun kennara 1.200—1.500 krónur, og niðurjöfnun útsvaranna í kaupstaðnum nam kr. 96.345,00 og tæpur fjórði hluti gjaldendanna bar kr 10 í útsvar eða minna.
Haustið 1919 hafði verið brotið mikið af rúðum í skólahúsinu og ekkert gler fáanlegt í landinu. Var þá afráðið að láta tréspjöld fyrir glugga þessa til bráðabirgða. Engin kol heldur fáanleg, svo að hita mætti skólahúsið.
Um mitt sumar 1920 var gerð áætlun um framhaldsframkvæmdir við skólabygginguna og viðgerð á ýmsu, sem úrskeiðis hafði farið. Áætlað var, að framkvæmdir þær kostuðu samtals kr. 20.765,00. Afréð þá bæjarstjórn að ráða Magnús Ísleifsson, trésmíðameistara í London, til þess að annast framkvæmdir þessar og ráða jafnframt Engilbert Gíslason, málarameistara, til þess að mála það af húsinu, sem aldrei hafði komizt í kynni við þau efni. Allt kom fyrir ekki. Ekkert fékkst gert. Peningaleysi borið við. Loksins árið 1921, síðla sumars, eftir að fræðslumálastjóri hafði verið kallaður til Eyja og hann síðan knúið á um framkvæmdirnar, var hafizt handa um viðgerð og framhald byggingaframkvæmda í skólahúsinu. Þá var þetta gert: Málað þak hússins, allt húsið málað innan veggja, einangraðir og múrhúðaðir innveggir í kjallara, línoleumdúkar lagðir á öll gólf hússins og gert við miðstöðvarkyndingu, sem alltaf hafði verið í ólagi frá því húsið var byggt. Allt var þetta gert samkvæmt kröfu fræðslumálastjóra, sem skrifaði skólanefnd ítarlegt bréf um þarfir þessar, enda málið honum skylt, þar eð Landssjóður hafði styrkt bygginguna um allt að þriðjung byggingarkostnaðarins. Sýslumaður, Karl Einarsson, sem einnig var eins konar forseti eða framkvæmdastjóri bæjarstjórnar og gjaldkeri samkv. lögum um bæjarstjórn í Vestmannaeyjum, hafði tjáð fræðslumálastjóra, að bæjarstjórn væri það vel ljóst, að framkvæmdirnar við barnaskólahúsið væri nauðsyn, sem þeir hefðu átt að vera búnir að inna af hendi fyrir 2 árum, en fjárhagsvandræði kaupstaðarins hefðu til þessa hamlað framkvæmdunum.

síðari hluti