Blik 1965/Saga barnafræðslunnar í Vestmannaeyjum, 5. kafli, síðari hluti

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1965ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Saga barnafræðslunnar
í Vestmannaeyjum


5. kafli, 1914-1920
(síðari hluti)


Björn skólastjóri átti við margháttaða erfiðleika að etja þau ár, er hann starfaði í Eyjum. Áður hefi ég drepið á eldsneytisskortinn af völdum heimsstyrjaldarinnar. Hér er annað dæmi:
Haustið 1916 gengu hér í bæ mislingar, svo að fjölmargir veiktust. Tók þá sýslumaður skólahúsið (Heimagata 3) með valdi og gerði það að sóttvarnarhúsi. Var það nokkrum dögum áður en skólinn skyldi hefjast.
Skólanefnd sá sér ekki annað fært, en að kæra þetta framferði lögreglustjóra fyrir stjórnarráðinu og beiðast úrskurðar.
Hinn 29. sept. barst skólanefnd eftirfarandi skeyti:

„Lögreglustjóri hefur enga heimild til að taka skólahúsið til neinnar notkunar. Stjórnarráðið vill ekki skólahús nokkru sinni sé brúkað sem sóttvarnarhús. Hefur símað sýslumanni láta þegar í stað laust skólahúsið í hendur skólanefnd sem ber að hafa húsið í fullu lagi til skólabrúkunar 1. okt.

Stjórnarráðið.“

Að sjálfsögðu varð lögreglustjóri að láta undan skipunum yfirboðara sinna, en ekki mun það hafa gerzt reiðilaust og ýmislegt gefur grun um það, að „lifað hafi í kolunum“ nokkuð lengi vegna þessa atburðar. Þá ályktun dreg ég af fréttatilkynningu vorið 1917, sem drepið er á hér á öðrum stað. Hún er nokkurn veginn vissa fyrir því, að lögreglustjóri, sem jafnframt var valdamesti maður um bæjarmálin, eftir að kauptúnið í Eyjum fékk kaupstaðarréttindin, var Birni H. Jónssyni skólastjóra þungur ljár í þúfu eftir þetta og þeir í vitund almennings á öndverðum meiði í skólamálum og fl. Á þessari andstöðu var alið af illviljuðum mönnum, en ritlingurinn Á krossgötum var fyrst og fremst níð um Karl Einarsson, sýslumann og alþingismann Vestmannaeyja. Var ef til vill deilan um sóttvarnarhúsið þess valdandi, að semingur komst á allar framkvæmdir við bygginguna næstu 2—3 árin, þegar lánsféð var gengið til þurrðar?
Í maí 1917 ræddi skólanefndin á fundi sínum eldsneytisvandræðin, sem þá steðjuðu að. Hún samþykkti að reyna skyldi, ef kleift yrði, að halda uppi næsta skólaár lítilsháttar kennslu. Sagt skyldi upp í tæka tíð öllum kennurum skólans, en þó skyldi gefa 3 eða 4 kennurum kost á að taka hálf kennslulaun, hvort sem kennsla yrði nokkur eða engin. Þessa samþykkt gerði hreppsnefndin með skólanefndinni. Þessir kennarar skyldu ráðnir með þessum kjörum, ef þeir vildu gefa kost á sér: Björn H. Jónsson, skólastjóri, Ágúst Árnason í Baldurshaga og Eiríkur Hjálmarsson. Ef úr rættist eitthvað um eldsneyti, áttu þeir að stunda kennsluna, og svo var hugsað til þess að ráða að auki frú Jónínu G. Þórhallsdóttur, kennslukonu, eiginkonu skólastjórans, ef með þyrfti.
Jafnframt þessari samþykkt var þeirri ósk beint til stjórnarráðsins, að það veitti undanþágu frá skólahaldi eða stuðlaði að því öðrum kosti að kol fengjust til upphitunar skólahússins.
Haustið 1917 hófst skólastarfið 20. okt. með því að Gunnar Ólafsson, kaupm., bauðst þá til þess að lána hreppnum 2 smálestir af kolum handa skólanum með greiðslu í sama, þegar kol fengjust. Afráðið var að kenna aðeins í tveim kennslustofum til þess að spara eldsneyti, og tvísetja í þær. Kennsla skyldi hefjast kl. 10 að morgni og hvor bekkjarsögn hljóta 4 kennslustundir á dag. Einungis tveim efstu bekkjardeildum skólans var kennt.
Það átti sér stað víðast hvar á landinu, að börnin 10 ára voru mjög illa undirbúin, er þau hófu barnaskólanám. Það var mjög algengt fyrirbrigði, að börn þekktu ekki stafina, er þau komu í skólana og því síður kunnu þau að draga til stafs eða fara með tölur. Heimilin, eða foreldrarnir og aðrir aðstandendur barnanna, voru þá í ríkum mæli tekin að velta áhyggjum sínum og skyldum af þessum þætti uppeldisstarfsins á skólakennarana.
Síðla árs 1917 sendi fræðslumálastjóri umburðarbréf um landið varðandi þessa vanrækslu heimilanna. Bréfið var sent prestum, skólanefndum og kennurum. Efni bréfsins var á þessa leið:
1. Hve mörg heimili í yðar fræðsluhéraði, skólahéraði eða prestakalli teljið þér ekki fær um að veita börnum þá fræðslu, sem ætlazt er til af 14 ára börnum til fullnaðarprófs, annað hvort sakir vankunnáttu, vanefna eða af öðrum ástæðum?
2. Hve mörg heimili teljið þér af sömu ástæðum ekki fær um að kenna börnum það, sem þeim er gert að skyldu að kunna með núgildandi fræðslulögum?
3. Viljið þér láta færa skólaskylduna frá barnsaldrinum til aldursins 16—20 ára? Og hve margar vikur á þeim árum teljið þér þá hæfilegt að skylda hvern nemanda til skólanáms.
4. Hverja teljið þér verstu galla á því fyrirkomulagi, sem nú er á barnafræðslunni, og á hvern veg ætlið þér, að bætt verði úr þeim?

Skólanefndarformaður boðaði til sameiginlegs fundar með kennurum og skólastjóra barnaskólans, sóknarprestinum og nefndarmönnunum.
Kennararnir, skólastjóri og 4 skólanefndarmennirnir samþykktu einróma þessi svör við spurningunum:
„1. Yfirleitt geta heimilin ekki tekið að sér fræðsluna á þessum aldri.
2. Sama svar og við 1. spurningu.
3. Nei.
4. Vér teljum sjálfsagt að gera skarpari greinarmun en nú er á fræðslufyrirkomulagi í kauptúnum og sveitum.
Í eftirfarandi svörum og tillögum göngum vér út frá fyrrirkomulagi í kauptúnum:
Vér teljum rétt að færa skólaskylduna niður að 8. ári. Skólinn standi a.m.k. 7 mánuði. Skólaskyldum börnum í hverju kauptúni sé skipt í 3 flokka, þ.e. 8—10 ára, 11—12 ára, 13—14 ára. Yngsti flokkurinn sæki skóla 2 tíma á dag, annar flokkurinn 3 tíma og þriðji flokkurinn 4—5 tíma. Í kauptúnunum skulu unglingar eldri en 14 ára, þ.e.a.s. á aldrinum 14—18 ára skyldir til að ganga í framhaldsskóla a.m.k. 3 mánuði á ári í 2 ár á fyrrgreindum aldri (14—18 ára). Þó geti kennarar og prófdómarar í samráði veitt gáfnasljóvum unglingum undanþágu frá því.
Launa- og ráðningakjör kennara verði bætt svo, að þjóðfélagið geti tryggt sér menntaða og vel hæfa kennara, sem haft geti kennarastarf að aðalstarfi. Núverandi launa og ráðningakjör álítum vér óhafandi með öllu.“
Mér hefur vissulega þótt taka því að afráða Bliki til birtingar þessi svör fjögurra skólanefndarmanna í Vestmannaeyjum og kennaranna við spurningum fræðslumálastjóra. Þau sanna okkur víðsýni þeirra, trú á aukna menntun með þjóðinni og hina miklu þörf hennar á hæfu kennaraliði. Það hlotnast henni því aðeins, að hæfileikamenn, sem hvarvetna standa opnar leiðir til viðgangs og velgengni, veljist í kennarastéttina uppeldis- og fræðslustarfi skólanna til blessunar.
Undir þessi svör skrifuðu þessir skólanefndarmenn:
Árni Filippusson í Ásgarði, Sveinn Scheving, Hjalla, Brynjúlfur Sigfússon, organisti, og Jes A. Gíslason, Hóli. Og kennararnir: Björn H. Jónsson skólastjóri, Ágúst Árnason, Baldurshaga, Eiríkur Hjálmarsson, Vegamótum, og frú Jónína Þórhallsdóttir.
Sóknarpresturinn séra Oddgeir Guðmundsen og skólanefndarmaðurinn Gunnar Ólafsson, kaupmaður, létu bóka:
„Ósamþykkir því að færa skólaskylduna niður í 8 ár. Teldum réttara að færa hana upp um eitt ár eða meira og séu börnin þá skyld að ganga í skóla til 16 ára aldurs.“
Íslenzki löggjafinn hefur með árunum fallizt á, að báðir aðilar hafi haft nokkuð til síns máls. Skólaskyldan á Íslandi er nú frá 7—15 ára aldurs.
Allur sá hópur barna, eða nemendur í neðri deildum barnaskólans, sem urðu án kennslu í skólanum veturinn 1917—1918 sökum eldsneytisskorts, áttu að nema heima með aðstoð foreldra eða annarra aðstandenda. Þessi börn þreyttu síðan próf í barnaskólanum vorið 1918.
Á skólanefndarfundi í júnílokin 1918 voru til umræðu kennsluskýrslur skólans frá umliðnu skólaári. Rætt var þar m.a. um próf þeirra nemenda, sem áttu að nema heima um veturinn. Reyndust þau börn svo vankunnandi, stendur þar, að engin leið þótti að taka slík börn til náms í skóla. Nefndin og skólastjóri voru á eitt sátt um, að brýna nauðsyn bæri til að veita þessum börnum meiri fræðslu á kostnað aðstandendanna eða sveitarfélagsins.
Þetta mál var síðan tekið til ítarlegrar athugunar og haft samráð við aðstandendur barnanna, og þá einnig um fræðslu þeirra barna, sem ekki voru skólaskyld. Um haustið samþykkti síðan skólanefnd að fjölga deildum í barnaskólanum og ráða aukakennara til þess að kenna yngstu börnunum. Þannig voru mótaðar 9 bekkjardeildir alls við barnaskóla Vestmannaeyja haustið 1918. Kennt skyldi daglega allan veturinn 1918—1919 í þrem efstu deildunum (7., 8. og 9 bekk), en annan hvorn dag í 6 neðri deildunum.
Sérstakur kennari var ráðinn til þess að kenna í stöfunardeildunum um veturinn, ungfrú Dýrfinna Gunnarsdóttir frá Hólmum í Austur-Landeyjum. Jafnframt skyldi hún kenna handavinnu í efstu bekkjum skólans.
Skólagjald fyrir óskólaskyldu börnin, 8 og 9 ára nemendurna, var afráðið kr. 5,00 á mánuði, alls kr. 30,00 yfir veturinn.
Flest þau ár, sem Björn H. Jónsson hafði til þessa starfað í Eyjum, reyndi hann að starfrækja þar unglingaskóla fram að jólum a.m.k. Sú tilraun hans tókst sæmilega, þegar eldsneytisskorturinn hamlaði ekki. Barnaskólinn lagði unglingaskólanum til húsnæði, ljós og hita, líklega ókeypis með öllu.
Haustið 1918 leit vel út með eldsneyti, enda styrjöldin á enda kljáð. Vildi þá skólastjóri koma nýrri skipan á unglingafræðsluna og fella hana í fastara mót. Samdi hann þá uppkast að reglugerð fyrir unglingaskólann. Skólanefnd tjáði sig mjög fylgjandi málinu og studdi skólastjóra í starfinu af festu og drengskap. Í september um haustið undirritaði skólanefnd reglugerðaruppkastið og var það síðan sent stjórnarráðinu til staðfestingar. Þar dagaði það uppi, — fékkst ekki staðfest. Ástæðurnar eru mér ekki fyllilega ljósar, en grun hef ég um það, að ákvæðin í uppkastinu um vissar árlegar tekjur skólans, starfrækslustyrk, hafi verið óákveðin og losaraleg, enda ekki á valdi skólastjóra eða skólanefndar að ákvarða skólanum fast árlegt framlag úr hreppssjóði.
Skólanefndin sá engin tök á að kenna leikfimi í barnaskólanum veturinn 1919—1920 sökum húsnæðisleysis. En Brynjúlfur Sigfússon var ráðinn til að annast kennslu í söng þann vetur.
Síðast í marz 1920 ræddi skólanefnd, hvort halda skyldi kennslu áfram í skólanum, þó að liðnir væru þeir 6 mánuðir, sem afráðið var um haustið að skólinn starfaði. Þrír skólanefndarmennirnir voru því samþykkir, að skólinn yrði starfræktur sjöunda mánuðinn, þar sem börnin höfðu misst af mikilli kennslu á undanförnum vetrum sökum eldsneytisskorts og veikinda á inflúensuárinu 1918. Tveir skólanefndarmennirnir gátu ekki fallizt á að framlengja kennslutímann, þrátt fyrir kennslutap og losaralegan skólarekstur á undanförnum árum af ástæðum, sem enginn gat ráðið við. Skólinn var starfræktur til aprílloka þetta skólaár.
Eftir að skólanum lauk í apríllokin 1920 sagði Björn H. Jónsson af sér skólastjórastöðunni. Ekki er getið einu orði um þá uppsögn í fundargjörðum skólanefndar, þótt undarlegt sé.
Staða Björns skólastjóra var nú aldrei auglýst laus til umsóknar, en Páll Bjarnason ráðinn í hana „þegjandi og hljóðalaust“, eins og beðið hefði verið með óþreyju eftir því að Björn segði af sér og Páll gæti tekið við.
Nýtt tímabil hefst í sögu Barnaskóla Vestmannaeyja.
Meðan Björn H. Jónsson var skólastjóri í Eyjum, létu prófdómendur á stundum orð falla til fræðslumálastjórnarinnar um stjórnina á skólanum og uppeldisáhrif hans. Þar stóð skráð skýrlega, að stjórn skólans færi sérlega vel úr hendi, börnunum haldið til náms, hlýðni, aga og vinnu.
Betra varð naumast á kosið.
Jafnframt því að koma nemendum sínum til „nokkurs þroska“ með góðri stjórn og mikilli reglusemi, kenna þeim kurteisi í daglegri framkomu og háttprýði, kenna þeim að virða foreldra sína og rækja heimili sín, — eins og glöggur gamall nemandi Björns skólastjóra orðaði það eitt sinn í mín eyru, þá beitti Björn skólastjóri áhrifum sínum og persónuleika einnig til þess að útvega hreppnum lán til byggingarframkvæmdanna og stjórnaði þeim framkvæmdum án nokkurs endurgjalds. Á þeim tímum var vissulega ekki auðvelt að útvega stórlán í íslenzkum bönkum eða sparisjóðum, enda hafði það reynzt ráðandi mönnum Vestmannaeyjahrepps ógjörningur til þessa.
Síðasta vorið, sem Björn skólastjóri dvaldist í Eyjum, mótaði hann framkvæmdir við leikvöll skólans og umhverfi. Ekkert hafði til þessa verið unnið að leikvelli skólans. Hann var enginn og allt umhverfi skólans óð út í bleytu og foræði í votviðratíð. Var þá afráðið að hefjast handa um þær framkvæmdir, er á sumarið leið.

Hér birti ég reikninga barnaskólans í Vestmannaeyjum fyrir 4 ár, — fyrir og eftir að nýja skólabyggingin var tekin í notkun. Þeir eiga að veita okkur m.a. nokkra hugmynd um hina öru þróun, sem stóð í sambandi við hið nýja og stóra barnaskólahús, þar sem allt var stærra og myndarlegra í sniðum og kennslutæki margfalt meiri en áður og vonandi hefur árangur starfsins verið að sama skapi meiri. Reikningurinn 1918—1919 gefur okkur eilitla hugmynd um, hversu erfitt var að kynda skólahúsið nægilega eða afla viðunandi eldsneytis.

Tekjur Gjöld
Árið 1914—1915 kr. kr.
Landssjóðsstyrkur 600,00
Framlag úr sveitarsjóði 2.507,32
Laun kennara 2.272,00
Þvottur 203,60
Hiti 221,88
Ýmislegt 334,84
Vátryggingargjald 75,00
Alls kr. 3.107,32 3.107,32
Tekjur Gjöld
Árið 1916—1917 kr. kr.
Landssjóðsstyrkur 553,00
Framlag úr sveitarsjóði 5.612,78
Laun kennara 4.890,00
Húsaleiga (B.H.J.) ) 200,00
Ljós, hiti og fl. 1.049,19
Kennsluáhöld 19,24
Önnur gjöld 7,85
Alls kr. 6.166,28 6.166,28
Tekjur Gjöld
Árið 1918—1919 kr. kr.
Landsssjóðsstyrkur 1.000,00
Framlag úr bæjarsjóði 15.133,70
Kennslugjald barna 8—10 ára 161,25
Laun kennara (hluti bæjarsjóðs)
Björn H. Jónsson 1500,00
Jónína G. Þórhallsdóttir 800,00
Ágúst Árnason 1000,00
Eiríkur Hjálmarsson 1000,00
Dýrfinna Gunnarsdóttir 800,00
Ljósagjöld 1038,00
Kol (4,14 smál. á 375,00) 1.552,50
13,5 smálestir af mó 1.485,00
400 stk. torfur til eldkveikju 132,00
6 lítrar olía á kr. 0,75 4,50
Eldsneytisflutningar til skólans 146,57
Kynding og hirðing eldstóar 100,00
Ræstingarvinna 311,10
Ræstingartæki 33,58
Brunabótagjald 151,88
Vextir og afborgun 6.077,82
Þrír stólar kr. 9,50 28,50
Ritföng 21,05
Ýms önnur gjöld 82,95
Alls kr. 16.294,95 16.294,95
Tekjur Gjöld
Kr. Kr.
Árið 1919—1920
Ríkissjóðsstyrkur 1.000,00
Framlag úr bæjarsjóði 14.782,56
Vextir og afborganir af skuldum 5.562,75
Laun kennara 8.555,58
Ljósagjöld 1.038,00
Eldsneyti 2.477,60
Kynding 200,00
Ræsting og tæki 636,80
Til viðhalds skólahúsinu 108,75
Brunabótagjald 151,88
Vextir og afborganir 5.562,75
45 ósamsett skólaborð frá Hafnarfirði 2.529,80
Ýmislegt 84,15
Alls kr. 21.345,31 21.345,31


Kennarar við barnaskóla Vestmannaeyja í tíð Björns H. Jónssonar, skólastj.:
Ágúst Árnason, Baldurshaga, 1914—1920.
Eiríkur Hjálmarsson, Vegamótum, 1914—1920.
Frú Jónína Þórhallsdóttir, 1914—1920 (nema árið 1915—1916).
Guðný Jónsdóttir frá Galtafelli í Hrunamannahreppi, 1915—1916.
Guðjón Guðjónsson, fyrrv. skólastj. í Hafnarf. o.v. 1916—1917.
Dýrfinna Gunnarsdóttir frá Hólmum í A.- Landeyjum 1914—1920.
Sigurbjörn Sveinsson, rithöfundur, 1919—1920.
Páll Bjarnason, síðar skólastjóri í Eyjum, 1919—1920.
Brynjúlfur Sigfússon, organisti, kenndi söng 1914—1916.
Bjarni Björnsson, leikari, kenndi fimleika 1915—1916.

Ekki er mér fyllilega ljóst, hvenær barnaskóla Vestmannaeyja var slitið vorið 1918. Starfið allan veturinn var meira og minna í molum sökum eldiviðarskorts annars vegar og frostanna miklu hins vegar þennan kaldasta vetur, sem komið hefur það sem af er þessari öld. Þá hamlaði einnig inflúensan það ár skólastarfinu svo að um munaði.
Næsta skólaár voru 9 bekkir starfræktir í skólanum, eins og á er drepið hér á öðrum stað, til þess að bæta yngri nemendunum upp kennslutapið hinn fyrri veturinn. Í yngstu deildunum tveim voru börnin 8—10 ára, samtals 40 nemendur. Nemendur skólaskyldunnar voru samtals þann vetur 174 á aldrinum 10—14 ára, í 6 deildum, í 3.-9. bekk. Skólaárinu breytt haustið 1916. Þá hófst skólaárið með októbermánuði.

Yfirlit yfir árslaun kennaranna í skólastjóratíð Björns H. Jónssonar. Þessar tölur gefa til kynna þær greiðslur, sem kennararnir fengu úr sveitarsjóði eða bæjarsjóði, 2/3 launanna.

1914—1915 1915—1916 1916—1917 1917—1918 1918—1919 1919—1920
Björn H. Jónsson 750,00 1050,00 1500,00 1500,00 1500,00 1555,56
Ágúst Árnason 525,00 825,00 850,00 850,00 1000,00 1166,67
Jónína G. Þórhallsdóttir 525,44 689,50 700,00 800,00 1166,67
Eiríkur Hjálmarsson 400,00 600,00 850,00 850,00 1000,00 1166,67
Guðný Jónsdóttir 625,00
Dýrfinna Gunnarsdóttir 800,00 1166,67
Guðjón Guðjónsson 900,00
Sigurbjörn Sveinsson 1166,67
Páll Bjarnason 1166,67
Brynjúlfur Sigfússon 72,00

Skipting í bekki, nemendafjöldi og starfstími skólans.

Skólaár 1. b. 2. b. 3. b. 4. b. 5. b. 6. b. 7. b. 8. b. 9. b. Nem. alls Kennsluvikur Skóli hófst

Skólaslit

1914—1915 26 30 27 23 14 16 136 26 1. sept. 28. febr.
1915—1916 19 24 28 19 26 22 138 26 1. sept. 28. febr.
1916—1917 19 24 29 27 22 22 143 26 4. okt. 4. apríl
1917—1918 26 26 28 23 27 22 152 20.okt. ?
1918—1919 17 23 17 20 23 27 30 28 29 214 28 8. okt. 19.apríl
1919—1920 40 24 20 17 24 30 155 30 l. okt. 30. apríl

Hvað olli því, að Björn H. Jónsson, skólastjóri, hinn mæti skólamaður, sagði lausri stöðu sinni og hvarf úr Eyjum þegar að loknu starfi vorið 1920?
Á vertíð 1917 kom út í Vestmannaeyjum dálítill bæklingur, þar sem höfundar var ekki getið né útgefanda. Bæklingur þessi var skrifaður til hnjóðs og níðs vissum mönnum í Eyjum. Menn veltu vöngum yfir útgáfu þessari og athæfi því að gefa út nafnlaust níð í bókarformi um meðborgara sína. Hvílíkur ókindarskapur. Bæklingurinn hét Á krossgötum.
Þegar leið á veturinn, eða 5. apríl, var borið fréttablað um bæinn. Börnin hrópuðu: Nýjar fréttir, nýjar fréttir. Björn hefur skrifað bæklinginn, sjálfur skólastjórinn okkar. Fólk flykktist til og keypti blaðið. Þar stóð skrifað skýrum orðum um bækling þennan:
„... ekki er nafn höfundarins eða höfundanna sjáanlegt, né heldur „forleggjarans“, allt er þetta með nokkurri leynd, alls staðar sama prúðmennskan og lítillætið og óeigingirnin, því að enginn vill eiga ritið ... En ritið sver sig í ættina til þeirra heiðursmanna, er gefið hafa tóninn bak við tjöldin ...
Aðrir segja, að það sé Björn kennari, og þykjast þeir hafa mikið til síns máls ...
Ég trúi því ekki, að barnakennarinn, sem ætlað er jafnt kennslunni, að innræta krökkunum heilbrigðan hugsunarhátt, vilji vera þekktur fyrir þann andlega vesaldóm, er lýsir sér í þessu riti. En hvað skal segja?
Fjöldinn fyrirlítur svona skrif. Fólkið segir eins og er, að þannig löguð skrif komist héðan á prent og ekkert annað. Þetta er því miður satt, þó leitt sé til þess að vita.
En þótt níðrit héðan í líkum anda og þetta hafi þótt góð áður fyrri, þá er hugsunarháttur fjöldans svo breyttur, að þeir, sem þetta hafa iðkað í seinni tíð, hafa hlotið óvirðingu fyrir starf sitt, enda eru það einu launin, sem slíkir menn verðskulda ...
Þannig var þá almenningi í byggðarlaginu sagt frá því, að Björn skólastjóri væri höfundur níðritsins. Þessu gátu Eyjabúar ekki trúað svo vel hafði Björn skólastjóri kynnt sig í Eyjum undanfarin tvö og hálft ár, sem hann hafði verið þar. Menn höfðu ekki til þessa kynnzt öðru en drengskap og veglyndi hjá þessum manni bæði í skólastarfi og utan þess.
Sjálfur hlaut Björn skólastjóri nú að finna ljóslega, hvað að honum sneri frá vissum valdamönnum í bæjarfélaginu. Opinberlega var hér verið að hnekkja honum persónulega og grafa undan starfi hans. Óþurftaraflið var hér að verki.
Björn skólastjóri mótmælti kröftuglega þessum sakargiftum og ódrengilegu illkvittni, sem miðaði að því að skerða æru hans og almennt traust. Þeim mótmælum kom skólastjórinn út til almennings í Eyjum, svo að öllum varð kunnugt, að hann var saklaus af því að hafa skrifað níðritið eða eiga nokkurn þátt í því, að það var gefið út.
Þá var seinni þátturinn eftir. Í fréttablaði, er borið var um þorpið og selt á götum þess nokkru síðar, birti sami greinarhöfundur, er troða vildi skóinn niður af skólastjóranum og gera honum uppeldisstarfið í sveitarfélaginu sem allra erfiðast, aðra grein, er hann nefndi: „Björn svarar fyrir sig“. Þar stóð þetta m.a.:
„Yfirlýsing hans (þ.e. Björns skólastjóra) um það, að hann hafi ekki skrifað Krossgatnagreinina, er sjálfsagt þörf. Hann segist ekki eiga ritið, og það ætti að vera nóg fyrir þá, sem höfðu eignað honum það. Hins vegar ber yfirlýsing hans það með sér, að honum tekur sárt til þess, og verður það þá trúanlegra, sem einn af nábúum hans sagði mér um daginn, að Birni hefði þótt ritið ágætt“ (Fréttir 1917).
Samt sem áður skyldi skólastjórinn bera það orð, að níðið hefði fallið honum vel í geð. Það skyldu nemendur hans hafa í huga, er hann beitti áhrifum sínum þeim til uppeldis og þroska. Og foreldrunum skyldi þá einnig vera það ljóst, hvaða mann skólastjórinn hefði að geyma svona innra með sér.
Skólastjóra duldist það nú ekki lengur, hvers kyns öfl í sveitarfélaginu steðjuðu að og beittu áhrifum sínum honum og starfi hans til óþurftar og niðurrifs. Þó hélt hann áfram ótrauður starfi sínu fyrst um sinn, sem lítið hefði í skorizt. En andinn lifði í glæðunum og gerði honum flest til miska, ef hann mátti því við koma, og spyrnti gegn broddunum.
Vorið 1920 var séra Ólafi Ólafssyni prófasti að Hjarðarholti í Dölum veitt lausn frá embætti. Þessi mæti klerkur hafði rekið alþýðuskóla á heimili sínu í Hjarðarholti um 20 ára bil við mikinn og góðan orðstír. Átti sá skóli nú að hætta störfum? Nú var úr vöndu að ráða fyrir hugsjónamanninn Björn H. Jónsson, skólastjóra í Vestmannaeyjum. Lýðháskólahugsjónin hafði alltaf heillað hann, síðan hann kynntist henni í Danmörku. Nú glæddist hún á ný, togaði og dró, er hann átti þess kost að klæða hana veruleikanum, starfrækja skóla í hennar anda og leita ávaxtanna, njóta þeirra.
Hins vegar hafði skólastjórahjónunum alltaf fallið vel við allan almenning í Eyjum og ýmsir áhrifamenn þar sýnt þeim og starfi þeirra góðvilja og drenglund og metið störf þeirra. Þetta var staðreynd, þrátt fyrir allan ókindarháttinn og illkvittnina hjá vissum eiginhagsmuna- og gróðahyggjumönnum, sem voru á öndverðri lífsskoðun við skólastjórahjónin. Þessi óvild í garð þeirra, sem lét á sér kræla í grófara lagi vorið 1917, hafði magnazt aftur, eftir að Björn skólastjóri sat fund samvinnumanna á Þingvöllum sumarið 1919.
Skólastjóri var drengskapar- og friðsemdarmaður, sem hafði viðurstyggð á illu innræti og getsakahneigð. Enda fannst honum sjálfum, að hann hefði með starfi sínu til annars unnið en hnjóðs, níðs og árása.
Annað aflið togaði, hitt ýtti.
Og skólastjórahjónin fluttu burt úr Eyjum og settust að í Hjarðarholti í Dölum með þann lofstír alls þorra Eyjabúa, að bæði hafi þau reynzt byggðarlaginu afburða góðir uppeldis- og kennslukraftar og starf þeirra í heild orðið kaupstaðnum til mikillar blessunar. Að þeim var mikil eftirsjá.
Enn lifir orðstír þeirra í Eyjum.

Til baka