Blik 1965/Sparisjóður Vestmannaeyja

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1965


ctr


Við seljum ekki frumburðarrétt Eyjabúa

fyrir nokkra baunadiskaHér birtum við nokknir tölur úr reikningum Sparisjóðs Vestmannaeyja:

Eignir Skuldir
31. des
ár
Víxlaeign Bundið fé í
Seðlabanka
Aðrar eignir Sparifé og
ávísanafé
Aðrar
skuldir
1963 13.266.629,99 3.207.883,00 4.772.948,75 20.066.371,06 1.181.090,68
1964 17.871.604,62 4.749.548,00 9.213.408,12 27.963.172.32 3.871.388,42

Ef rétt er ályktað af skýrslum, sem fjalla um bankamál og önnur fjármál hér á landi þessi árin, hefur engin fjármálastofnun í landinu tekið öðrum eins vexti og Sparisjóður Vestmannaeyja s.l. þrjú ár. Ýmislegt hefur skotið stoðum undir þá öru þróun og þann mikla vöxt. Það var sem við manninn mælt, er Sparisjóðurinn flutti í eigið hús í júlí 1962. Sparifé tók að streyma inn í stofnunina, og þjónusta hennar við Eyjabúa óx að sama skapi. Það var sem bæjarbúar í heild hefðu snögglega uppgötvað þá staðreynd, sem þó hafði blasað við þeim í hartnær 20 ár, að þessa stofnun áttu þeir og gátu vissulega notið tilveru hennar nákvæmlega í sama mæli og þeir ræktu hana, sýndu henni traust með því að geyma í henni sparifé sitt, og hlynntu að henni á ýmsan annan hátt. Þetta hafa nú Eyjabúar gert eins og tölur reikninganna bera órækt vitni um. Þeir höfðu aðeins beðið þess, að Sparisjóðurinn eignaðist eigið hús, sem samrýmdist starfseminni.
Sparisjóður Vestmannaeyja er vissulega fjárhagslegt sjálfstæðismál allra Vestmannaeyinga. Það verður hann svo lengi sem Vestmannaeyingar sjálfir ráða honum. Geri ábyrgðarmenn hans hins vegar nokkurn tíma það reginaxarskaft að afhenda hann til yfirráða einhverju aðskotavaldi í hvaða mynd sem er, sem fyrst og fremst er sjálfu sér næst, þá hættir Sparisjóður Vestmannaeyja að vera stoð og hjálparhella hinna máttarminni í bæjarfélaginu, eins og hann er sannanlega nú á þessum erfiðleikatímum og að ýmsu leyti viðsjárverðu.
Stofnunin, Sparisjóður Vestmannaeyja, á að vera okkur metnaðarmál og tákn sjálfstæðis í hugsun og athöfnum. Ef við berum gæfu til þess styrkir og hugheilir að standa saman um sparisjóðinn okkar, þá þurfum við vissulega engum að krjúpa.
Bjargálnir eru hverjum einstaklingi nauðsynlegar til þess að hann geti „borið höfuðið hátt“, verið maður með mönnum og lifað mannsæmandi lífi. Eins hefur tíminn sannað okkur þá staðreynd, að Sparisjóður Vestmannaeyja er fjölmörgum hinum efnalega máttarminni í Eyjum hjálparhellan, léttinn mikli, þegar þungi leggst á eða tímabundnir erfiðleikar steðja að og aðrar leiðir lokast. Og við erum svo hamingjusamir, Eyjabúar, að þeir einstaklingar hér, sem telja má fjárhagslega sterka og trausta, eru svo vel gerðir menn og góðviljaðir almenningi að þeir styðja og hafa stutt Sparisjóð Vestmannaeyja, þó að þeir þurfi ekki sjálfir á aðstoð hans að halda í einu eða neinu.
Þegar Eyjabúar leita lána í Sparisjóð Vestmannaeyja, eru þeir engum að krjúpa eins og einstaklingur, sem leitar sveitarstyrks, gerist „sveitarómagi“. Nei, þeir leita til stofnunar, sem þeir eiga sjálfir, hafa skapað sjálfir með sparifé sínu. Þeir eiga því kröfu til þess, að stofnunin greiði götu þeirra, veiti þeim hjálp og aðstoð, eftir því sem fjármagn hennar hrekkur til hverju sinni, án þess að öryggi hennar sé skert eða máttarstoðir rýrðar á nokkurn hátt.
Ég hygg það sanni næst, að megin einkenni alls þeirra Eyjabúa séu þau að vilja standa á eigin fótum, engum háðir efnalega, engum bundnir nema tilverunni og þjóðfélaginu innan marka laga og réttar.
Eflum því sparisjóðinn okkar, og hann mun á móti efla sjálfstæði okkar, efnalega afkomu og sjálfstraust eftir efnum og getu.
Á árinu 1963 veitti Sparisjóður Vestmannaeyja Eyjabúum 118 fasteignalán til kaupa á íbúðum eða til bygginga, samtals kr. 5.074.000,00.
Á árinu 1964 veitti Sparisjóðurinn Eyjabúum 72 fasteignalán, samtals kr. 4.409.000,00. Fasteignalán alls þessi tvö ár kr. 9.483.000,00.
Þau 19 ár, sem Sparisjóðurinn hafði starfað áður, veitti hann Eyjabúum kr. 15.012.345,00 til íbúðarkaupa og íbúðarbygginga. Þannig nálgast fasteignalánin tvö síðustu árin 2/3 af lánunum öll 19 árin, sem áður var starfað. Þannig sannast þau orð, sem ég hef áður sagt Eyjabúum:
Því meira fé, sem Eyjabúar trúa Sparisjóðnum fyrir, því meira fé fá þeir til sinna nota frá stofnuninni. Við höldum ótrauðir fram sem stefnir. —

Þ.Þ.V.