Blik 1967/IV. Brynjólfur Sigfússon organisti og söngstjóri, III. hluti

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit Bliks 1967


ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


IV. Brynjólfur Sigfússon organisti og söngstjóri


Söngfélagið Vestmannakór
(síðari hluti)


Auk greinarloka um Brynjólf Sigfússon


Undirbúin frægðarför


Þegar organistinn hafði sagt af sér starfinu og útent tímann, tók hann til að undirbúa söngför til meginlandsins. Söngæfingum fjölgaði og æft var af kappi. Um sumarið 1941 ferðaðist Vestmannakór síðan um Suðurlandssveitir og söng þar á ýmsum stöðum. Sungið var á Stokkseyri, í Þjórsártúni, samkomuhúsinu Goðasteini í Fljótshlíð og í Vík í Mýrdal. Hvarvetna gat kórinn sér hinn bezta orðstír, og þótti mörgum undurskemmtilegt á hann að hlusta. Söngför þessi varpaði vissulega nokkrum menningarbjarma á Vestmannaeyjar og fólkið þar. Það var ávöxtur þrotlauss starfs Brynjólfs Sigfússonar og söngfólks hans.
Og árin liðu, - eitt og tvö og þrjú. Söngförin til Suðurlandsins efldi hug og kjark. Ný viðhorf, - nýjar hugsjónir vakna. Nú skyldi efla dáð og dug með söngfélögunum í Vestmannakór. Undirbúin skyldi söngför til Reykjavíkur. Radd- og söngæfingar með Vestmannakór urðu nú fleiri en nokkru sinni fyrr. Starfsárið 1943-1944 hafði söngstjórinn alls 77 æfingar með kórfélögunum, 31 raddæfingu og 46 samæfingar. Mikil vinna, látlaust starf, - mikið slit á taugum og starfskröftum.
Og svo loks taldi söngstjórinn söngkrafta Vestmannakórs nægilega þjálfaða eða æfða til söngfararinnar suður undir „smásjá“ hinna færustu söng- og tónlistarmanna í höfuðstaðnum.


Söngförin 1944


Sumarið 1944 í júnímánuði var afráðið að leggja upp í söngförina til Reykjavíkur. Kórinn hafði verið æfður eftir föngum um lengri tíma. Förin var undirbúin að öðru leyti eftir því sem bezt voru tök á.
Fararstjórinn í för þessari var formaður kórsins Sveinn Guðmundsson. Söngförin hófst 8. júní með för frá Eyjum til Stokkseyrar með v./b. Gísla Johnsen. Skipstjóri var Sigurjón Ingvarsson. Lagt var af stað nokkru eftir hádegi og komið að bryggju á Stokkseyri eftir 4 tíma ferð. Sjóveiki gerði töluvert vart við sig hjá söngfólkinu, enda þótt stillt væri veður, sólskin og kyrrlátur sjór.
Til Reykjavíkur kom flokkurinn kl. nálega 11 um kvöldið. Stjórn Landsambands blandaðra kóra tók á móti Vestmannakór við Iðnskólann. Þar var hann boðinn velkominn til höfuðborgarinnar. Annars lítið um dýrðir, enda ferðafólkið þreytt og mest hugað til hvíldar. Söngstjórinn var „illa fyrir kallaður“ eftir veikindi undanfarna daga og sjóveiki á leiðinni yfir sundið.
Daginn eftir, 9. júní, var veður bjart og fagurt. Þá fékk kórinn inni í Gamla bíóhúsinu til æfingar. Síðan hélt kórinn samsöng um kvöldið í Gamla bíó. Þar söng fyrst Söngfélagið Harpa móttökuljóð undir stjórn Róberts Abrahams, og Jón Alexandersson, formaður L.B.K. ávarpaði Vestmannakór og alveg sérstaklega Brynjólf söngstjóra.
Brynjólfur segir sjálfur, að fyrri hluti söngsins hafi tekizt framar öllum vonum, enda létu áheyrendur óspart hrifningu sína í ljós. Sigurður Birkis, söngmálastjóri Þjóðkirkjunnar, tók til máls milli þátta og lét í ljós aðdáun sína og þakklæti.
Á samsöng þessum bárust Vestmannakór fagrir blómvendir, t.d. frá Vestmannaeyingafélaginu í Reykjavík, Söngfélaginu Kátum félögum, L.B.K., og fegursti blómvöndurinn barst frá Gísla J. Johnsen og frú, eftir því sem mér er tjáð.
Annan samsöng hélt kórinn í Gamla bíó 11. júní. Húsið var næstum fullsetið og voru undirtektir verulega góðar. Um kvöldið fór Kórinn til Vífilsstaða og söng þar fyrir sjúklinga og starfsfólk.
Daginn eftir, 12. júní, ferðaðist Vestmannakór til Keflavíkur. Þar hófst samsöngur hans kl. 9 um kvöldið fyrir yfirfullu húsi. Sá söngur tókst mjög vel og dáðist söngstjórinn að því, hve gott var að syngja þarna í Ungmennafélagshúsinu.
Daginn eftir, 13. júní, hélt L.B.K. samsæti með ræðuhöldum og öðrum gleðskap. Í gildi þessu færði L.B.K. söngstjóra Vestmannakórs veglegan taktstokk og kórnum sjálfum einskonar „sigurmerki“, tvær fánastengur á útskornum stalli og mynduðu þær V á milli sín.
Þriðja samsönginn í Reykjavík hélt svo Vestmannakór hinn 14. júní. Hófst hann hálftíma fyrir lágnætti. Aðsókn var lítil að öðru leyti en því, að margir voru þar boðsgestirnir. Undirtektir voru þar ágætar.
Söngstjóri segir sjálfur, að fyrri hluti söngsins hafi tekizt mjög vel. Seinni hlutinn miður.
Síðasti viðburður í söngför þessari var söngur Vestmannakórs í Útvarpssal. Þar söng hann kl. 8.20 um kvöldið 16. júní fyrir alþjóð. Kórinn söng 7 lög. Mér er tjáð, að 6 af þeim hafi tekizt mæta vel. Þar með var söngför þessari lokið.
Í frægðarför þessari var stjórn Vestmannakórs þannig skipuð:

Formaður: Sveinn Guðmundsson
Ritari: Ingólfur Guðmundsson
Gjaldkeri: Hermann Guðjónsson
Og raddir þannig skipaðar:

Sópran
Aðalheiður Árnadóttir,
Alda Björnsdóttir,
Anna Jónsdóttir,
Áslaug Johnsen,
Ásta Sigurðardóttir,
Bergþóra Árnadóttir
Birna Björnsdóttir,
Klara Tryggvadóttir,
Margrét Eiríksdóttir,
Margrét Gestsdóttir,
Margrét Johnsen,
Ósk Pétursdóttir,
Ragnhildur Eyjólfsdóttir og
Svava Jónsdóttir.

Alt
Ása Torfadóttir,
Ásta Guðmundsdóttir,
Freyja Kristófersdóttir,
Guðrún Ágústsdóttir,
Guðrún Kristófersdóttir,
Ingibjörg Guðlaugsdóttir,
Ingrid Sigfússon,
Ingveldur Þórarinsdóttir,
Njála Guðjónsdóttir,
Sigríður Steinsdóttir,
Vilborg Guðjónsdóttir og
Torfhildur Sigurðardóttir.

Tenor
Hermann Guðjónsson,
Júlíus Þórarinsson,
Konráð Bjarnason,
Oddgeir Hjartarson,
Sigurður Bogason,
Sveinn Guðmundsson,
Vigfús Jónsson,
Þorsteinn Guðjónsson og
Ingólfur Guðmundsson.

Bassi
Ármann Guðmundsson,
Árni Johnsen,
Hannes Hreinsson,
Kjartan Jónsson,
Matthías Jónsson,
Ragnar Benediktsson,
Sigurður Sæmundsson,
Vilhjálmur Jónsson og
Þorsteinn Sigurðsson.


SÖNGSKRÁ
á kveðjuhljómleikum 14. júní 1944
- í Gamla Bíó.

 1. Kaldalóns: Reykjavík.
 2. Körling: Vér göngum. Freyst. Gunnarsson.
 3. Merikanto: Er bjarkirnar kveða: Úr sænsku.
 4. Laxdal: Bergljót.
 5. W. Kolle. Í Eyjum.
 6. Bellman. Öldungnum hnignar. Guðmundur Magnússon þýddi.
 7. Bellman: Heill sé oss. H. Hafstein.
 8. Ahlström: Aftanóður.
 9. Ole Bull: Sunnudagur selsstúlkunnar. (Einsöngur: Áslaug og Torfhildur).
 10. Mozart: Menuet úr „Don Juan“. Bj. Thor.
 11. Peters: Söngur járnsmiðsins.
 12. Brynj. Sigfússon: Vestmannaeyjar. Undirleikur: Frú Sísí Gísladóttir.


Eftir söngförina fékk söngstjórinn þakkarorð frá ýmsum, sem notið höfðu þess að hlusta á Vestmannakór. Meðal þeirra var biskupinn yfir Íslandi hr. Sigurgeir Sigurðsson. Hann sendi söngstjóranum þakkarorð í bréfi og sagði þar m.a.:

„Ég hafði mikla ánægju af söngnum, og það gladdi mig að heyra og finna, hversu mikið verk þér hafið lagt í að æfa kórinn. Dylst mér ekki, að hinn góði söngur kórsins er mjög mikið yður að þakka. Söngstjórn yðar er örugg og góð og framkoma yðar sem söngstjóra er eðlileg (látlaus) og falleg.
Innilegar hamingjuóskir með framtíðarstarfið, - fyrir sönginn - drottningu listarinnar.

Með kærum kveðjum til Vestmannakórs.
Yðar einlægur
Sigurgeir Sigurðsson.“


Breyting í aðsigi


Haustið 1944 tók söngstjórinn enn til að æfa kórinn af ódeigum áhuga og ötulleik. Starfsárið hófst þá 9. október. Næstu 11 mánuði hafði söngstjóri 28 raddæfingar með söngfólkinu og 22 samæfingar. Ýmsum nýjum lögum var þá bætt við lagaforðann. Almennan samsöng hélt Vestmannakór á páskadag 1945 við mikinn fagnað Eyjabúa.
En nú er breyting í aðsigi um starf Vestmannakórs og framtíð. Lasleiki söngstjórans fer vaxandi. Æfingar falla iðulega niður vegna veikinda hans. Þá fer áhugi söngfólksins einnig dvínandi, svo að illa er mætt á æfingum. Stundum fellur söngstjóranum „allur ketill í eld“ af þessum sökum. Slén er í kórnum, þreyta í mannskapnum og heilsuleysi þjáir söngstjórann.
Brynjólfur Sigfússon varð sextugur 1. marz 1945. Þá vildu söngfélagar hans í Vestmannakór halda honum samsæti, en hann hafnaði því. Söngflokkurinn færði honum að gjöf í tilefni afmælisins mjög vandað og fagurt gullúr. Góðar eru gjafir þínar, gat söngstjórinn sagt með sanni, en meira fannst honum vert um þá dyggð og vináttu, sem söngfélagar hans sýndu honum jafnan. Þau eigindi voru honum ómetanleg hvatning til dugs og dáða fyrir hina göfugu hugsjón. Veturinn 1946 neyddist söngstjórinn til þess að leggja starfið fyrir Vestmannakór alveg á hilluna. Heilsa hans leyfði ekki, að lengur yrði starfað að sinni a.m.k.

Brynjólfur Sigfússon stjórnar Vestmannakór á Þjóðhátíð Vestmannaeyja.

Í júlímánuði 1946 fór Brynjólfur söngstjóri til Danmerkur til þess að leita sér lækninga. Mest mun hafa þjáð hann of hár blóðþrýstingur með taugasléni. Hann kom aftur heim 31. ágúst um sumarið og fékk litlar bætur meina sinna.
Brynjólfur Sigfússon lézt í Sjúkrahúsi Vestmannaeyja 27. febrúar 1951 eftir mikil og langvarandi veikindi. Bæjarsjóður Vestmannaeyja kostaði útförina í virðingar- og þakklætisskyni við þennan son Eyjanna.
Sveinn Guðmundsson, formaður Vestmannakórs og um árabil í Kirkjukórnum, skrifaði langa minningargrein um Brynjólf Sigfússon í Framsóknarblaðið 14. marz 1951. Þar segir hann m.a. um organistastarf hans: „... Það starf rækti hann af slíkri alúð og samvizkusemi, að fátítt er, svo að orð var á gert. Það er á allra vitorði, að flest kvöld vikunnar, önnur en þau, er hann hafði söngæfingar, fór Brynjólfur upp í Landakirkju og spilaði þar lengi kvölds, og fyrir hverja messugjörð lék hann þau sálmalög og annað, er leika þurfti við guðsþjónustuna. Jafnvel á sunnudagskvöldum eftir guðsþjónustur fór Brynjólfur upp í Landakirkju og lék á orgelið...“
Í nefndri grein segir formaður Vestmannakórs þetta um áhuga Brynjólfs og starf fyrir kórinn: „.. . Brynjólfur unni tónlistinni og fórnaði öllum frístundum sínum í hennar þágu, meðan kraftar entust. Þegar annir dagsins voru úti og flestir þrá hvíld og mega njóta heimilisánægju, gaf Brynjólfur sig óskiptan að hugðarmálum sínum, tónlistinni. Vestmannakórinn var fósturbarn hans. Hann var stofnandi hans og stjórnandi og lífið og sálin í starfi hans. Hann skóp kórinn og ól hann við brjóst sitt til þess dags, er hann lét af störfum. Vestmannakórinn og Brynjólfur voru ódeilanleg eining. Einn snarasti þáttur í lífi Brynjólfs var helgaður kórnum um tugi ára skeið. Ég hygg, að ég megi fullyrða, að um margra ára skeið hafi Vestmannakórinn sett svip sinn á vel flesta tyllidaga, er Vestmannaeyingar komu saman til að minnast vissra atburða í þjóðlífi voru...“
Oddgeir heitinn Kristjánsson hljómsveitarstjóri skrifaði minningargrein um Brynjólf heitinn Sigfússon í Eyjablaðið 4. tbl. 1951. Þar segir hljómsveitarstjórinn m.a.: „... mátti flest kvöld vikunnar heyra hann (organistann) leika verk meistaranna miklu, Bachs og Hendels, ef gengið var að Landakirkju. Söngflokkur kirkjunnar var ágætur og hið bezta samstarf hjá honum og söngflokknum ... Átti kirkjukórinn oft á að skipa ágætum raddmönnum, og starfaði sumt söngfólkið með Brynjólfi um áratugi. Það var því flestum Eyjaskeggjum óskiljanleg ráðstöfun, svo að ekki sé meira sagt, þegar Brynjólfi var gert ókleift að starfa þar áfram eftir 37 ára starf unnið af framúrskarandi trúmennsku og alúð. Brottförin frá orgelstarfinu mun Brynjólfur hafa tekið mjög nærri sér, en hann var dulur og flíkaði ekki tilfinningum sínum við hvern, sem var. Hann var vinavandur og vinafastur.
Brynjólfur var ágætur söngstjóri, smekkvís, svipmikill og eldfjörugur. Það krefst mikillar ósérhlífni, dugnaðar og lagni að halda saman söngfélagi áhugamanna, sem vinna hin ólíkustu störf. Hinn brennandi áhugi og ósérhlífni ruddi hverri hindrun úr vegi. Starf brautryðjandans er oft hörð barátta við tómlæti og skilningsskort samferðamannanna.“
Þetta voru orð okkar ágæta lúðrasveitastjóra. Við, sem kynntumst lítilsháttar hinu fórnfúsa starfi hans sjálfs fyrir hljómlistarlíf bæjarins um tugi ára, erum þess vísir, að hann vissi hvað hann sagði um tómlætið og skilningsskortinn annars vegar og hins vegar að halda kröftunum einhuga og skylduræknum við málefnið.
Þegar Brynjólfur Sigfússon lét af stjórn Vestmannakórs árið 1946 vegna vanheilsu, var leitað til Oddgeirs Kristjánssonar, hljómsveitarstjóra. Var það gjört að vilja Brynjólfs að biðja hann að taka að sér stjórn kórsins. Með því að takmörk eru fyrir því, hversu mikið starf einstaklingurinn getur innt af hendi, þóttist Oddgeir sjá það fyrir, að hann annaði ekki að stjórna bæði Kórnum og Lúðrasveit Vestmannaeyja, sem hann hafði þá stjórnað í 6 ár. Hún var óskabarn hans.
Þrátt fyrir miklar annir lét Oddgeir tilleiðast að stjórna kórnum, æfa raddir og samæfa. En brátt kom í ljós, að engin leið var til þess að hann annaði því svo, að hvorki Lúðrasveitin né Kórinn liði við það.
Sumarið 1949 (14. maí) kom hingað Mandólínshljómsveit Reykjavíkur undir stjórn Haraldar Guðmundssonar og hélt hljómleika í Samkomuhúsinu. Báðir voru þeir áheyrendur fyrrverandi stjórnandi Vestmannakórs, Brynjólfur Sigfússon, og formaður hans Sveinn Guðmundsson.
Eftir hljómleikana færði Brynjólfur það í tal við Svein, hvort ekki væru tök á því að fá stjórnanda Mandólínshljómsveitarinnar til þess að flytja hingað til Eyja og taka að sér stjórn Vestmannakórs. Vitaskuld þurftu að vera tök á að bjóða stjórnandanum Haraldi Guðmundssyni góða atvinnu við hans hæfi, en hann var prentari að iðn. Þetta færði formaður Vestmannakórs í tal við Harald Guðmundsson. Prentarastarf var þá á lausu í Prentsmiðjunni Eyrún hf. hér í Eyjum.
Með því að ráðandi menn prentsmiðjunnar hétu Haraldi Guðmundssyni góðum launum og ekki var alveg án metnaðar fyrir hann að taka að sér stjórn Vestmannakórs, sem hafði getið sér svo góðs orðstírs og var þekktur, ekki sízt sökum hinna tveggja söngferða til meginlandsins og getið hefur verið um hér. Hugsað, ráðgert og framkvæmt.
Haraldur prentari Guðmundsson flutti til Eyja 1949 og tók til starfa í Prentsmiðjunni Eyrúnu, eins og ráð var fyrir gert. Jafnframt var nokkur undirbúningur hafinn að söngstjórastarfi hans. Raddæfingar hófust og samæfingar áttu sér stað.
Við útför Sigurbjörns kennara Sveinssonar, barnabókarithöfundar og skálds, sem fram fór 16. febr. 1950, mun Vestmannakór hafa sungið opinberlega fyrsta sinni undir stjórn Haraldar Guðmundssonar. Þá söng Kórinn ljóð skáldsins: Yndislega Eyjan mín, við lag Brynjólfs Sigfússonar.
Þetta sumar, 17. júní, héldu Eyjabúar þjóðlega samkomu á Stakkagerðistúni til þess að minnast sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Þá söng Vestmannakór undir stjórn nýja söngstjórans og gat sér góðan orðstír. Einnig á Þjóðhátíð Vesmannaeyja í ágúst um sumarið.
Síðan var æft kappsamlega síðari hluta sumars 1950 og fram að áramótum. Allt virtist leika í lyndi fyrir Vestmannakór og okkur Eyjabúum í sambandi við hann. Kórinn var satt að segja orðinn augasteinn Eyjabúa og óskabarn þeirra.
Laust eftir áramótin 1951 barst forustuliði Vestmannakórs sú tilkynning, að Ríkisútvarpið óskaði þess, að Vestmannakór syngi inn á segulband nokkur lög og yrði Gunnar Stefánsson, starfsmaður Ríkisútvarpsins, sendur til Eyja til þess að taka upp lögin. - Æft var af kappi allan janúarmánuð, svo að söngurinn fyrir Ríkisúrvarpið mætti takast sem bezt.
Einhvern síðasta daginn í janúarmánuði kom Gunnar Stefánsson til Eyja, eins og ráðið hafði verið, og söng Vestmannakór nokkur lög inn á segulband þriðjudaginn 30. jan. Eftir að hafa hlustað á sönginn af segulbandinu voru kórfélagar sammála um það, að söngurinn hefði tekizt mjög vel. Ánægt yfir unnu afreki hlakkaði fólkið í Vestmannakór til þeirrar stundar, er Ríkisútvarpið helgaði Vestmannaeyjum stutta dagskrástund, þar sem fólkinu í landinu gæfist kostur á að kynnast getu kórsins og sönghæfni. Það var sem eilítil uppskera, launavottur, fyrir langt og fórnfúst starf í þágu þessa menningarþáttar í lífi og starfi Eyjafólksins.
Næsta dag, miðvikudaginn 31. jan., flaug Glitfaxi milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja, og suður flaug Gunnar Stefánsson með segulbandsspólurnar, sem Vestmannakór hafði sungið inn á.
Harmasagan mikla dundi yfir. Glitfaxi fórst og allir og allt, sem með honum var.
Þetta voðalega slys hafði lamandi áhrif í Eyjum. Fólk var felmtri slegið og sorg grúfði yfir mörgum heimilum. Þar sem hver þekkir annan, slær voða-atburður ekki aðeins hið syrgjandi heimili, heldur alla meira og minna. Þá loks erum við eitt, sameinuð í samúð og harmi.
Ekki söng Vestmannakór meira þennan vetur (1951), enda engin tök á slíku menningar- og félagsstarfi á vetrarvertíð.
Um vorið, þegar hugsanlegt var að hefjast handa á ný, æfa raddir og samhæfa þær, kom í ljós, að söngstjórinn var orðinn afhuga starfinu með Vestmannakór og hugðist flytja burt úr bænum. Flutti stuttu síðar alfarinn austur í Neskaupstað. Vestmannakór sat eftir í sárum forustulaus. Lífsvonin lítil og lágt ris á starfsfólki og stjórnarforustu. Þannig liðu 6 ár. Var það nú víst, að Vestmannakór væri gjörsamlega dauður? Voru ekki andvörpin eftir?
Jú, vissulega.
Vestmannakór hafði á sínum tíma verið einn af hinum 6 blönduðu kórum í landinu, sem mynduðu Samband blandaðra kóra. Alltaf hafði Kórinn greitt ársgjald sitt til Sambandsins og haldið þannig réttindum sínum til liðsinnis og aðstoðar, ef stjórn Sambandsins kynni að geta eitthvað fyrir Kórinn gert honum til lífs og starfs.
Í ágústmánuði (1957) bauðst stjórn kórasambandsins til þess að senda Vestmannakór söngstjóra, ef vera kynni að takast mætti að blása lífi í Kórinn á ný. Þessu boði var tekið fegins hendi.
Jónas Tómasson, tónskáld á Ísafirði, tókst þessa Eyjaför á hendur.
Um mánaðamótin sept./okt. 1957 kom Jónas tónskáld til Eyja og hóf þegar „lífgunarstarfið“ með raddæfingum og samæfingum og vann sleitulaust næstu þrjár vikurnar. Að þeim tíma liðnum hélt Kórinn samsöng í Samkomuhúsinu við dágóða aðsókn og mikla hrifningu áheyrenda.
Þessi átök reyndust fyrsta andvarp Kórsins, og ef til vill annað.
Haustið 1957 reyndi Leifur Þórarinsson að lífga við starfið og efla kórinn. Sú tilraun mistókst með öllu. Ástæðurnar verða ekki greindar hér. Þetta var síðasta andvarpið. Síðan hefur Vestmannakór ekki látið á sér kræla eða til sín heyra. Á þessu ári eru sem sé ein 10 ár, síðan hinn mæti blandaði söngkór Brynjólfs Sigfússonar dó að fullu drottni sínum.


Annað tómstundagaman


Söngstjórinn Brynjólfur Sigfússon fór hvert ár í ferðalag á góðviðrisdegi með samstarfsfólki sínu í Kirkjukórnum um Heimaey. Hin fyrri árin var þessi árlega ferð farin á hestum, vestmannaeyiskum gæðingum. – Hér er áð, hestar hópsins bíða á næstu grösum.

Enda þótt Brynjólfur Sigfússon verði flestum tómstundum sínum til þess að iðka tón- og sönglist, brá þó út af því endur og eins. Stundum þreytti hann skautahlaup á Vilpu og Daltjörninni, þegar svell var þar. Stundum synti hann í sjónum fyrir norðan Eiði, austur í Skanslónum eða undir Löngu.
Á sumrum dvaldist Brynjólfur vikum saman í Elliðaey við lundaveiðar. Þar undi hann sér vel og átti þaðan lengst af hugljúfar endurminningar. Hann unni eynni sérstaklega og félögum sínum þar og tileinkaði þeim lög sín, sem gefin voru út árið eftir að hann andaðist.
Oft fékk Brynjólfur söngfélaga sína með sér til þess að ferðast um Heimaey á fögrum sumardegi. Þá var ferðast á hestum, en seinni árin á bifreiðum, enda þá minna um hesta í Eyjum. Oftast voru það söngkraftar í Kirkjukórnum, sem tóku þátt í ferðum þessum um Heimaey. Þannig svalaði tónlistarmaðurinn öðrum þræði hinni fölskvalausu átthagaást sinni.


Síðari hjúskapur


Árið 1933 giftist Brynjólfur Sigfússon söngstjóri öðru sinni. Þá gekk hann að eiga Ingrid Maria Einarsson frá Seyðisfirði eystra. Faðir hennar var Íslendingur, sem fluttist til Danmerkur á yngri árum sínum og giftist þar þarlendri konu. Þau hjón bjuggu um árabil í Maribo í Danmörku.
Hjónavígsla Ingrid og Brynjólfs fór fram í Anskerskirkjunni í Bramminge í Danmörku 11. júní 1933. Nýgiftu hjónin komu heim til Vestmannaeyja í september um haustið.

Brynjólfur og síðari kona hans frú Ingrid Sigfússon með elzta barn þeirra Aðalstein.

Þeim hjónum varð fjögurra barna auðið. Þau eru þessi:

 1. Aðalsteinn, f. 1. nóv. 1936.
 2. Bryndís, f. 26. apríl 1941.
 3. Hersteinn, f. 22. júní 1945.
 4. Þorsteinn, f. 3. des. 1947.

Frú Ingrid Sigfússon og synir fluttust alfarin frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur á s.l. hausti (skrifað 1967). Áður hafði dóttir hennar, Bryndís, verið búsett í Reykjavík í nokkur ár.


Tónskáldið


Um tónskáldið Brynjólf Sigfússon vísa ég til skýringar við mynd hér í ritinu af laginu „Yndislega eyjan mín“, bls. 73.
Minning feðranna skal vera framhvöt niðjanna.


ctr