Blik 1971/Hjónin á Kirkjubæ, Helga og Þorbjörn

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1971ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Hjónin á Kirkjubæ,
Helga og Þorbjörn


Fá sveitarfélög í landinu okkar eiga sér gagnmerkari sögu á marga lund en Vestmannaeyjabyggð, enda er lega Eyjanna, gerð þeirra og landgæði nokkuð sérlegt fyrirbrigði í íslenzkum staðháttum. Samfara því einkenni eru fiskimiðin í kringum Eyjarnar að jafnaði ein hin allra fengsælustu við Ísland, og líklega í flokki fengsælustu fiskimiða um víða veröld.
En víst er það og satt, að náttúruauðæfi Vestmannaeyja til lands og sjávar hafa aldrei verið og verða aldrei nýtt að liðleskjum eða ónytjungum. Þar hefur þurft marga kosti til brunns að bera og manndóm í ríkum mæli til þess að bera sigur úr býtum í lífsbaráttunni, svo sem harðsækni og dugnað samfara hyggindum og gætni, útsjón og hugrekki. Öllum þessum eiginleikum hafa forustumenn Eyjabúa og hinn almenni búaliði orðið að búa yfir í ríkum mæli vegna hinna sérlegu staðhátta og aðstöðu til atvinnurekstrar og allrar sjálfsbjargar. Vil ég nefna þar sjósókn á opið hafið, þar sem hvergi var öryggis að leita, ef ekki náðist í heimahöfn. Allt hugsunarlaust flan og gan hafði eða gat haft opinn dauðann í för með sér. Og svo var heimahöfnin æðioft vágleg eða aðgæzluverð vegna sérlegra staðhátta, og engin tæki eða tök að bæta þar um til öryggis lífi sjómannanna, hversu sem þörfin var brýn.
Þá má nefna sókn Eyjamanna til bjargræðis í fuglabjörg, til eggjatekju og fuglaveiða, sem aldrei voru heiglum hentar, en þaðan barst ekki veigalítill skammtur hins daglega lífsviðurværis Eyjabúanna árið um kring. Það var matbjörg mikil.
Einnig sóttu Eyjabændur heyskap í úteyjar sínar, og voru þær heyannir bæði erfiðar og ekki hættulausar í hálendum eyjum umluktum bergveggjum í sjó niður. Fjárbeit var þar einnig áhættusöm.
Heima á Heimaey voru býlin smá, flest tún 2-3 dagsláttur, og búskapur allur fremur bágborinn, enda aukaverk flestra bænda og búaliða, sem beittu allri orku sinni að sjósókninni flestar stundir ársins eða að sókn í björg og berg.
Jarðabætur í Eyjum voru næstum óþekkt fyrirbæri langt fram á síðari hluta 19. aldar, er Framfarafélag Vestmannaeyja var stofnað (Búnaðarfélag 1893), og dugnaðarforkur eins og Sigurður bóndi og útgerðarmaður Sigurfinnsson, hreppstjóri, tók forustuna í þessum velferðar- og framfaramálum Eyjabænda.

Þorbjörn Guðjónsson, 23 ára.

ctr

Helga Þorsteinsdóttir,
20 ára.


Þorbjörn bóndi Guðjónsson á Kirkjubæ er einn þeirra manna hér, sem vel skipar sæti sitt og minnir ýmsum athöfnum á suma hina horfnu Eyjakappa, sem hér ruddu öðrum brautir í atvinnulífi og bjargræði til ómetanlegs hagræðis og lífsbjargar öðrum Eyjabúum. Hann var og hefur jafnan verið jafnvígur á alla þætti atvinnulífsins hér og þó stórvirkari á suma þeirra en nokkur annar einstaklingur, síðan Eyjarnar byggðust. Kem ég að því síðar.
Það er vissulega mjög ánægjulegt að láta Blik geyma nokkur orð um hjónin á Kirkjubæ, Þorbjörn Guðjónsson og Helgu Þorsteinsdóttur, sem afkastað hafa meiri ræktunarstörfum í Vestmannaeyjum en dæmi eru til þar fyrr og síðar.
Þorbjörn bóndi Guðjónsson er fæddur 6. okt. 1891 að Stóra-Moshvoli í Hvolhreppi í Rangáarvallasýslu. Foreldrar hans voru bóndahjónin þar Guðjón Einarsson og Salvör Sigurðardóttir (f. 15. ágúst 1859, d. 1923. Sjá Víkingslækjarætt, bls. 350). Faðir Þorbjörns bónda lézt árið 1901¹).
¹) Móðir Guðjóns Einarssonar var Þorbjörg Sigurðardóttir, f. í Skarðshlíð undir Eyjafjöllum 15. maí 1818, d. árið 1900. (Blanda 3. bindi).

Þá var Þorbjörn Guðjónsson á 10. árinu, elztur fjögurra systkina. Átti þá ekkjan mikið og vandasamt verkefni fram undan, framfærslu fjögurra barna á bernskuskeiði, eins og þá var háttað búskap og allri afkomu manna í sveitum landsins. En móðir Þorbjörns, Salvör Sigurðardóttir, var tápmikil dugnaðarkona, sem ekki vildi þurfa að þiggja af sveit til framfærslu börnum sínum. Hún hélt áfram búskapnum á Stóra-Moshvoli, þrátt fyrir fráfall manns síns, og féll það nú í hlut elzta barnsins að leggja hönd á plóginn með móður sinni, eftir því sem kraftar hins 9 ára drengs hrukku til.
Hjá móður sinni á Stóra-Moshvoli dvaldist Þorbjörn síðan til 18 ára aldurs. Þá réðst hann vinnumaður að Skipagerði í Vestur-Landeyjum til hinna merku hjóna þar, Salvarar Tómasdóttur og Alberts Eyvindssonar.
Frá Skipagerði fluttist Þorbjörn síðan til Vestmannaeyja í atvinnuleit árið 1911. Stóð hann þá á tvítugu.
Næstu árin í Eyjum var hann jafnan háseti á vélbátum á vetrarvertíðum, en leitaði sér atvinnu til Austfjarða á sumrum, eins og algengt var þá um fjölmarga Sunnlendinga.
Þorbjörn Guðjónsson hafði farið sparlega með fé sitt, sem hann vann sér inn með súrum sveita bæði á vertíðum í Eyjum og á Austfjörðum. Og nú varð sá höfuðstóll þess mest valdandi, að hann eignaðist hluta í vélbát og var ráðinn formaður hans. Hann keypti fimmta hluta í v/b Happasæl. Einn af meðeigendunum var Þorsteinn Ólafsson, bóndi í Háagarði (f. 16. okt. 1859. Sjá Blik 1957, bls. 123).
Kona Þorsteins bónda Ólafssonar og móðir Helgu var Ingibjörg Hjörleifsdóttir frá Rauðafelli undir Eyjafjöllum, f. 27. júlí 1862.
Hinn 21. des. 1918 kvæntist Þorbjörn Guðjónsson heimasætunni í Háagarði, Helgu Þorsteinsdóttur, dóttur meðeiganda síns í vélbátnum. Þau höfðu mikinn hug á að ná sér Eyjajörð til ábúðar. Sökum þess, að Þorbjörn gat greitt meir en flestir aðrir, sem vildu festa sér jarðnæði, fékk hann byggingu fyrir einni Kirkjubæjajörðinni. Það gerðist veturinn 1919. Þá festu hjónin ungu kaup á húseignum ekkjunnar á Kirkjubæ, Sigurlaugar Guðmundsdóttur, sem gift hafði verið bóndanum þar, Ísleifi Guðnasyni frá Hallgeirseyjarhjáleigu í Austur-Landeyjum. Þau bjuggu á einni Kirkjubæjajörðinni um árabil. Ísleifur bóndi lézt árið 1916, og hafði því Sigurlaug ekkja hans búið á jörðinni 23 ár eftir fráfall manns síns. Jafnframt kaupunum á húseignunum fengu ungu hjónin byggingu fyrir jörðinni hjá umboðsmanni Vestmannaeyjajarða, Karli Einarssyni, sýslumanni.
Fyrstu 16 búskaparárin á Kirkjubæ áttu hjónin hlut í útgerð, og var Þorbjörn bóndi formaður á bát þeirra félaga alls sjö vertíðir. Eftir það sneri hann sér einvörðungu að jarðræktinni á Kirkjubæ og félagssamtökum bænda til eflingar búskap og búnaði í Eyjum, og svo öðrum félagsmálum, sem leiddu til menningar í kaupstaðnum og batnandi lífskjara hins stritandi lýðs.
Síðan árið 1933, er þau hjón hættu þátttöku sinni í útgerð, hafa þau einvörðungu stundað mjólkurframleiðslu á Kirkjubæ og gert garðinn sinn svo frægan með ræktunarframkvæmdum sínum og öðru nýtízku framtaki í búnaðarframkvæmdum, að lengi verður þess framtaks minnzt í búnaðarsögu Eyjanna. Fram hjá hjónunum þeim verður ekki gengið eða hægt að ganga, er búnaðarsaga Vestmannaeyjabyggðar verður skráð að marki einhverju sinni.
Hjónin Þorbjörn og Helga hófu jarðyrkju á Kirkjubæ strax fyrsta haustið, sem þau bjuggu þar,(1919). En þá voru ekki mældar jarðarbætur til styrks úr opinberum sjóði. Og þá var hið eiginlega búnaðarfélag Vestmannaeyja, Framfarafélagið, dautt og dottið upp fyrir. Áður hefur Blik minnzt þess og greint frá ræktunarframkvæmdum félagsmanna þess á tímabilinu 1893-1914. (Sjá Blik 1953).
Jarðræktarlögin svokölluðu tóku gildi árið 1923. Eftir það liggja fyrir nokkurn veginn nákvæmar skýrslur um jarðabætur bænda og annarra jarðræktarmanna í landinu.
Þorbjörn Guðjónsson bóndi beitti sér fyrir stofnun Búnaðarfélags Vestmannaeyja vorið 1924 ásamt nokkrum fleiri áhugamönnum í kaupstaðnum um ræktun og aukinn búskap á Heimaey. En þá þurfti að inna af hendi margskonar undirbúning þeirra ræktunarframkvæmda í Vestmannaeyjum. Hinar 48 jarðir þar höfðu t.d. frá fornu fari byggingu fyrir öllu landi á Heimaey utan nokkurs landrýmis við höfnina, og héldu bændur fast í þann rétt sinn.
Með setningu jarðræktarlaganna 1923 rýmkaðist réttur þeirra manna, sem bjuggu í kaupstöðum landsins, þar sem lögin heimiluðu bæjarfélögum að láta fara fram mælingu og athugun á óræktuðu landi í nágrenni kaupstaðanna og taka jarðir úr ábúð, ef um semdist, og nota landið til ræktunar handa almenningi.
Frá því Framfarafélag Vestmannaeyja lognaðist út af 1914 og þar til jarðræktarlögin tóku gildi (1923 ) voru þó nokkrar jarðabætur unnar í Vestmannaeyjum, en þá voru verkfærin eingöngu handverkfæri og með þeim vannst smátt. Þáverandi umboðsmaður Vestmannaeyjajarða, Karl sýslumaður Einarsson, hvatti Eyjabúa mjög til ræktunarframkvæmda. Á þeim árum fengu líka nokkrir tómthúsmenn útmældar skákir til ræktunar úr sameiginlegu beitilandi jarðanna og þá líka í vinsamlegu samráði við bændurna flesta, enda þótt alltaf væru þeir bændur þar til, sem neituðu allri slíkri tilhliðrunarsemi við tómthúsmennina. En þörfin á aukinni mjólkurframleiðslu knúði á og rak á eftir ræktunarframkvæmdum. Árið, sem Búnaðarfélag Vestmannaeyja var stofnað, var heyfengur í Eyjum 4.154 hestburðir eða þar um bil, og heyflutningur af landi nam 2-3.000 hestburðum. Þá voru um 20 manns til uppjafnaðar um hverja kýrnyt á vertíð í Vestmannaeyjum. Börn og gamalmenni liðu af mjólkurskorti. Mest af því heyi, sem flutt var til Eyja, var keypt undan Eyjafjöllum eða úr Landeyjum. Sumir Eyjabúa heyjuðu sjálfir ,,á landi“ og fluttu heyfenginn til Eyja. Þessir heyflutningar reyndust stundum hættusamir, svo að slys hlutust af þeim. Einnig átti það sér stað, að hey var keypt til Eyja frá Noregi. Þessi heykaup og heyflutningar sönnuðu áhuga manna á því að framleiða mjólk til heimilisnota og skilning þeirra á gildi nægrar mjólkur handa heimilunum.
Allir þessir erfiðleikar Eyjamanna um öflun nægra heyja, opnuðu augu ýmissa víðsýnna framtaksmanna í byggðarlaginu fyrir þörfinni á aukinni ræktun á Heimaey í krafti hinna nýju jarðræktarlaga og með almennum samtökum allra þeirra, sem óskuðu að framleiða mjólk í bænum, þó að ekki væri nema handa heimilum sínum.
Nú var hafinn undirbúningur að stofnun búnaðarfélags í Eyjum til þess að sameina kraftana til átaka ræktunarmálunum. Og lánið var með Eyjabúum, er þeir völdu sér forustu þessum málum öllum.
Hinn fyrsti fundur til undirbúnings stofnuninni var haldinn 26. maí vorið 1924. Aðeins 15 menn sátu þann fund, en það var samhuga lið. Þeir kusu sér forustumenn til að semja lög fyrir hinn væntanlega búnaðarfélagsskap í kaupstaðnum. Einn þeirra var Þorbjörn bóndi Guðjónsson. Hann var síðan í stjórn Búnaðarfélags Vestmannaeyja í 15 ár (1924-1939), fyrst gjaldkeri og svo formaður Búnaðarfélagsins í 4 ár.
Á öðrum stað hér í ritinu er skráð meira um starfsemi Búnaðarfélags Vestmannaeyja, þar sem ritið birtir nú orð um alla forustumenn þess fyrstu árin, þá Guðmund Sigurðsson og Pál Bjarnason auk Þorbjörns bónda. Skírskota ég hér til þeirra skrifa.
Mörg voru verkefni Búnaðarfélags Vestmannaeyja, eftir að endanlega var gengið frá stofnun þess 10. júní 1924. Eitt mikilvægasta verkefnið var að fá skipt hinu ræktanlega landi á Heimaey í ræktunarskákir. Að þeirri framkvæmd var nú róið öllum árum. Landskunnur maður og merkur gisti Eyjar í október 1925. Sá var Sigurður Sigurðsson, búnaðarmálastjóri. Hann kom þangað að tilhlutan Búnaðarfélagsins til þess að kynna sér alla staðhætti. Eftir að hafa hlustað á skilgreiningu forustumanna búnaðarsamtakanna og rætt við bæjarfógetann, sem nú var þar Kristján Linnet, lagði búnaðarmálastjóri til, að hverri jörð yrði mæld út afráðin spilda til ræktunar og beitar, og öðrum kaupstaðarbúum síðan gefinn kostur á landi til ræktunar, eftir því sem það hrykki til, þegar bændur höfðu fengið sitt afmarkaða landsvæði. Umboðsmaður Eyjajarða, Kr. L., var máli þessu mjög fylgjandi, því að hann hafði mikinn áhuga á aukinni ræktun og mjólkurframleiðslu hjá Eyjabúum í heild. Vel fór því á með honum og forustumönnum búnaðarsamtakanna, svo að framkvæmdir urðu miklar í öllum þessum velferðarmálum Eyjamanna. Heill þeim, sem þar unnu mest að máli! Og svo voru það öll hin nauðsynjamálin til eflingar búnaði Eyjamanna, svo sem kaup á plógum, herfum, sáðvélum, áburðardreifurum, sláttuvélum, völturum, grasfræi, tilbúnum áburði, góðri fóðurblöndu handa kúnum og svo steypumótum, sem mjólkurframleiðendur gætu notað í sameiningu til þess að steypa sér áburðarþrær við ræktunarbletti sína til hirðingar á sjávarfangi til áburðar, svo sem fiskslógi o.fl. Margs þurfti með, ef vel átti að takast. Og í mörg horn þurfti gjaldkeri Búnaðarfélagsins að líta til þess að sjá leiðir til að standa straum af öllum aðkallandi þörfum búnaðarsamtakanna og mjólkurframleiðendanna. Búvit og hyggindi þurfti til. Svo kom fjárhagskreppan mikla 1930, þegar Eyjamenn voru svo að segja að komast á stað með allar ræktunarframkvæmdirnar, og allt fjármálalíf krepptist og dróst í dróma. Að öllum öðrum ólöstuðum reyndi þá hvað mest á þá þremenningana í búnaðarsamtökunum, Guðmund Sigurðsson, Pál Bjarnason og Þorbjörn Guðjónsson. Þegar kreppan var orðin hvað tilfinnanlegust og erfiðust viðskiptis, var Þorbjörn bóndi kjörinn til að taka að sér formennsku Búnaðarfélagsins. Það var árið 1934. Formannsstarfinu gegndi hann síðan næstu fjögur árin.
Þorbjörn bóndi Guðjónsson var kosinn í bæjarstjórn Vestmannaeyja árið 1927 og sat þá í bæjarstjórninni næstu þrjú árin eða til ársins 1930. Hann var þar fulltrúi sósíalista og málsvari verkalýðsins í bænum. Aftur var bóndinn kosinn í bæjarstjórn Vestmannaeyja árið 1950 og sat í henni það kjörtímabil (1950-1954). Þar unnum við saman og bárum giftu til að mynda meirihluta þar í samvinnu við þrjá aðra fulltrúa vinstri aflanna í bænum. Þorbjörn bóndi reyndist í bæjarstjórninni eins og í búskapnum og ýmsum félagsmálum gjörhugull og framsækinn umbóta- og framfaramaður, fastur á skoðunum sínum með hagsmunamál hinna getuminni fyrir stafni, bætt lífsskilyrði þeirra og meiri jöfnuð í þjóðfélaginu. Hann vann að rétti þeirra og bættum kjörum. Í einu orði get ég fullyrt það, að vel fór á með öllum bæjarfulltrúum vinstri aflanna í bænum þetta kjörtímabil, svo að ekkert bar þar á milli málefnalega fyrr en kom að ,,garminum honum Katli“. Þar á ég við bæjartogarana, útgerð þeirra. Því er ekki að neita, að útgerð bæjartogaranna varð um tíma nokkurt misklíðarefni milli okkar Þorbjörns bónda Guðjónssonar. Annar vildi selja þá úr eigu bæjarsjóðs, hinn ekki. En brátt nálguðumst við hvorn annan á nýjan leik og allt féll í ljúfa löð á milli okkar. Mörgum sinnum fleiri voru áhugamálin, sem sameinuðu en þau sem sundruðu.
Og svo kem ég aftur að búskap og ræktunarframkvæmdum þessara hjóna á Kirkjubæ.

1971 b 55 AA.jpg
Þorbjörn bóndi plægir móa suðaustan við Helgafell. Enskur fuglafræðingur tók myndina árið 1935.


1971 b 55 BB.jpg
Kirkjubæir í Vestmannaeyjum. Íbúðar og útihús hjónanna Helgu og Þorbjörns sjást á miðri myndinni, sem var tekin árið 1969. Hin stæðilegu íbúðarhús þrjú á myndinni voru byggð á árunum 1943-1955. Berum þau saman við gömlu járnslegnu vistarverurnar á myndinni á bls. 57. Ef til vill eru þessar myndir táknrænar um hina heillavænlegu þróun í efnahag þjóðarinnar á þessari öld.
Til vinstri er íbúðarhús það, sem Jón heitinn Valtýsson bóndi byggði að hálfu leyti árið 1943 og sonur hans, Sigurbergur Jónsson, lauk við nokkrum árum síðar. Til hægri sést á þak íbúðarhúss Péturs Guðjónssonar.


Börn hjónanna Þorbjörns og Helgu.
Aftari röð frá vinstri: 1. Leifur, 2. Þórný Unnur, 3. Engilbert.
Fremri röð frá vinstri: 1. Ingi, 2. Björn.


Fyrsta árið, sem bau bjuggu á Kirkjubæjajörð sinni (en þær teljast 8 alls), tóku þau til við jarðræktarframkvæmdirnar. Það var árið 1919, eins og áður getur. En þá voru jarðabætur hér á landi ekki mældar árlega og þess vegna dálítið erfitt að fullyrða, hversu mikið þeim varð ágengt þá í upphafi framkvæmdanna.
Eftir að jarðræktarlögin tóku gildi og Búnaðarfélag Vestmannaeyja var stofnað (1924), var ráðinn sérstakur trúnaðarmaður til þess að mæla allar jarðabætur hér árlega og senda svo skýrslur yfir þær til Búnaðarfélags Íslands. Þessi maður var í fyrstu Páll skólastjóri Bjarnason. Því trúnaðarstarfi gegndi hann á árunum 1923-1932. Og svo ég, sem þessar línur skrifa, á árunum 1933-1948, og þá í þjónustu Búnaðarsambands Suðurlands, sem sá þá um greiðslu hins opinbera atyrks til allra jarðræktarmanna í sínu umdæmi eða á félagssvæði sínu, eftir að sú skipan komst á.
Alls munu hjónin þessi á Kirkjubæ hafa ræktað um 26 hektara lands, tún og matjurtagarða, eða yfir 80 dagsláttur. Það er ekki lítill hluti alls þess lands, sem ræktað var í Eyjum á árunum 1919-1950, en þá varð stöðvun á svo að segja öllum jarðræktarframkvæmdum í Eyjum af gildum eða ógildum ástæðum, eftir því hvernig á það er litið (aðalatvinnuvegurinn skilaði miklu meiri arði). Þurrheyshlaða hjónanna á Kirkjubæ er að stærð á annað þúsund rúmmetrar og áburðarhús og safnþrær yfir eitt hundrað rúmmetrar. Vitaskuld verka þau einnig vothey svo að um munar. Þá hafa þau byggt stóra og rúmgóða verkfærageymslu, sem er mikil nauðsyn á hverri jörð, þar sem mikið er til af vélum, eigi lag að vera á búskapnum.
Árið 1926 munu hjónin hafa eignazt fyrstu sláttuvélina, og var hún þá auðvitað dregin af hestum. Nú er hestaflið ekki til þar lengur. Um árabil hafa þau flutt mjólkina til kaupenda sinna í bænum á jeppa.

1971 b 57 A.jpg


Frá landnámstíð til síðustu aldamóta voru sveitabæirnir í Vestmannaeyjum byggðir úr grjóti og torfi, eins og annars staðar í landinu. Um og eftir aldamótia síðustu var farið að byggja sveitabýlin hér upp úr timbri, sem svo var járnvarið eða járnklætt, svo sem tíðkaðist víða annars staðar í landinu.
Myndin hér að ofan gefur nokkra hugmynd, hvílíkar vistarverur þessir aldamótabæir voru t.d. austur á Kirkjubæjum. Bæjarhúsið á miðri myndinni, sex rúður á stafni, var bær Arngríms bónda Sveinbjörnssonar og konu hans Guðrúnar Jónsdóttur. Til hægri við bæ Arngríms sést nokkur hluti af bæjarhúsum Magnúsar bónda Eyjólfssonar, smiðsins mikla, en Byggðarsafn Vestmannaeyja á ýmsa góða gripi smíðaða eftir hann. Kona hans hét Guðlaug Guðmundsdóttir.
Til vinstri á myndinni sést fjós Arngríms bónda með fjögurra rúðna glugga. Að baki þess og undir sama þaki var hlaðan. Útidyrnar til hægri voru sameiginlegar báðum bæjunum og gluggi á dyraskúr. Arngrímur bóndi stendur á hlaðinu.Þegar hjónin hófu búskap á Kirkjubæ (1919), keyptu þau þar með öðrum húseignum tveggja kúa fjós, sem var hin venjulega fjósstærð í Eyjum þá og hafði verið frá fornu fari, þar sem alltaf hafði verið rekinn kotungsbúskapur. Nú hefur fjós þeirra hjóna rúmað um árabil 32 nautgripi, og mun þar jafnaðarlega hver bás staðinn eða leginn.

Hjónin Helga og Þorbjörn hafa eignazt 5 börn. Þau eru þessi:
1. Þórný Unnur, f. 16. maí 1919. Gift er hún Ingvari Jóhannessyni, sem er ættaður af Snæfellsnesi. Þau hafa alltaf verið til húsa á Kirkjubæ, og hefur Unnur verið stoð móður sinnar við annríkan búrekstur.
2. Leifur, f. 23. marz 1921. Hann er lærður bókbindari. Býr í Reykjavík. Ógiftur.
3. Engilbert, f. 4. júlí 1923, bifreiðarstjóri í Vestmannaeyjum. Kvæntur er hann Magnúsínu Guðbjörgu Magnúsdóttur bátasmiðs (sjá Bergsætt II. bls. 129). Þau hjón eru búsett að Stapa hér í Vestmannaeyjum.
4. Björn, f. 17. apríl 1929. Hann er kvæntur þýzkri konu, Kristínu Vilhjálmsdóttur. Þau hjón eru búsett í Reykjavík. Björn er húsgagnabólstrari að iðn.
5. Ingi, f. 21. jan. 1931. Ókv. Hann stjórnar nú búi foreldra sinna að Kirkjubæ og hefur verið hægri hönd þeirra við búreksturinn um langt skeið.
Megi heill og hamingja fylgja horskum bóndahjónum, þar til yfir lýkur.