Blik 1971/Hjónin frá Engey, Sigríður og Jón

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1971ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Hjónin í Engey,
Sigríður og Jón


Hjónin frá Engey, Jón og Sigríður.

Þegar ég hugleiði gömul fyrirbæri, veit ég, að það eru ekki annað en einskærir persónulegir duttlungar mínir að vilja láta Blik geyma nokkur orð um fátæk hjón, sem ég og við hjónin kynntumst bezt á fyrstu dvalarárum okkar hér í kaupstaðnum, eða fyrir nær fjórum áratugum. Þá bjuggum við að Brekku við Faxastíg, (nr. 4). Þessi heiðurshjón voru Jón Jónsson, smiður og verkamaður í Engey við Faxastíg (nr. 23) og kona hans Sigríður Sigurðardóttir.
Jú, víst voru þau fátæk, þessi mætu hjón „með fullt hús af börnum“, en heiðarleikinn og velvildin, atorkan og ósérplægnin voru áberandi eiginleikar í fari þessara hjóna í svo ríkum mæli, að ég heillaðist af.
Jón smiður Jónsson í Engey fæddist í Króktúni í Hvolhreppi 13. júni 1887. Þar bjuggu þá foreldrar hans við mikla fátækt.
Sigríður húsfreyja Sigurðardóttir, kona hans, fæddist í Yztakoti í Útlandeyjum (Vestur-Landeyjum) 17. júlí 1885. Hún, sem enn er á lífi, þegar þetta er skrifað, á ættir að rekja í marga ættliði upp á Rangárvellina.
Jón og Sigríður voru fyrstu hjónin, sem gefin voru saman í hinni nýbyggðu kirkju í Akurey í Landeyjum. Hjónavígslan átti sér stað 24. júní 1917. Þau hófu síðan búskap á jörðinni Sperðli í Vestur-Landeyjum. Þarna gátu þau þó ekki haldizt við nema stuttan tíma sökum vatnagangs úr Þverá, sem þá gerði mörgum bóndanum á svæði hennar marga skráveifuna, braut lönd og veitti aðrar þungar búsifjar. Svo fór um þessi hjón, Jón og Sigríði. Þau urðu að fá aðstoð til þess að flytja burt af jörðinni og áttu bæði einum og öðrum líf sitt og barnanna að launa, að þau tortímdust ekki sjálf, þó að fjármunir þeirra færu forgörðum þá þegar í byrjun búskaparins. Þau stóðu svo að segja öreigar eftir með þrjú börn á framfærslu, þegar hér var komið lífi þeirra.
En þeim veittist líkn í nauð, eins og stundum er að orði komizt. Presturinn í Odda, séra Erlendur Þórðarson bónda frá Svartárkoti Flóventssonar kom þeim til hjálpar af drengskap og manngæzku. Hann tók þau heim til sín í Odda með börnunum þrem.
En hvað var svo til ráða fyrir þessum örsnauðu hjónum? Styrjöldin geisaði, fyrri heimsstyrjöldin, og olli á margan hátt miklum vandræðum, líka hér á landi, t.d. um húsnæði og breytingu á búsetu og atvinnumöguleikum.
Margur Rangæingurinn hafði leitað heilladísar sinnar og gæfunnar til Vestmannaeyja þá á undanförnum áratug, eða á fyrsta tug vélbátaútvegsins þar. Hví þá ekki að leita þangað, búseta sig þar? Eyjafólk var haft á orði upp um sveitir Suðurlandsins fyrir hjálpsemi og drengilega aðstoð við margt af þessu fátæka og umkomulitla aðkomufólki á undanförnum árum. Þangað skyldi nú sótt. Þar skyldi freistað gæfunnar.
Sóknarpresturinn í Odda, séra Erlendur, hafði nú samband við sóknarprestinn í Vestmannaeyjum, séra Oddgeir Þórðarson Guðmundsen og spurðist fyrir um það, fyrst og fremst, hvort tök væru á húsaskjóli handa hjónunum, ef þau flyttu til Eyja.
Eftir að séra Oddgeir hafði misst konu sína, frú Önnu (d. 2. des. 1919), fluttist hann frá Ofanleiti niður í kaupstaðinn og fékk inni í Garðhúsum (nr. 14 við Kirkjuveg). Prestssetrið að Ofanleiti stóð því tómt að þessu sinni. Þarna lánaði presturinn Landeyjahjónunum húsnæði. Þangað fluttu hjónin Jón og Sigríður vorið 1921. Guðjón Jónsson, formaður á Reykjum hér við Vestmannabraut, sótti hjónin upp að Landeyjasandi og flutti þau til Eyja. Farkosturinn var vélbáturinn Kári, sem Guðjón var þá formaður á.
Á Ofanleiti bjuggu hjónin síðan hálft annað ár. Strax undu þau vel hag sínum hér í Eyjum og efnahagurinn batnaði stórum. Eyjafólk var þeim hjónum hjálplegt og notalegt. - Hjónin vildu gjarnan geta haft eina kú á Ofanleiti, fyrst fjósið þar var ekki notað af öðrum. En með því að þau fengu ekki nein afnot jarðarinnar, urðu þau að heyja fyrir kúnni sinni uppi í Landeyjum um sumarið.
Árið 1923 fluttu þau svo í kaupstaðinn og fengu inni í Viðey (Vestmannabraut 30) hjá hjónunum Guðmundi Einarssyni og Pálínu Jónsdóttur.
Enn bjuggu þau hjón, Jón og Sigríður, við mikla fátækt, en vinnu hafði hann stöðuga. Hins vegar voru launin lág, aðeins kr. 12,00 á dag. fyrir 10 tíma vinnu.
Eins og ég drap á, þá nutu hjónin hjálpar ýmissa Eyjabúa, sem höfðu hjartað á réttum stað gagnvart þeim, sem höllum fæti stóðu í lífsbaráttunni. Minnisstæðust er Sigríði hjálparhugur og velvild tveggja kvenna: Þorgerðar húsfreyju í Steini við Vesturveg (nr. 10) og Pálínu húsfreyju í Viðey, sem þau leigðu hjá. Nokkru eftir að hjónin höfðu greitt mánaðarhúsaleiguna, kom Pálína til Sigríðar og laumaði í lófa hennar nokkrum hluta húsaleigunnar.
Tíminn leið í önn og athöfn og von og bjartsýni óx með fátæku hjónunum í Viðey við Vestmannabraut. Ekki áttu samskiptin við Eyjafólk heild minnstan þátt í því.
Þessi bjartsýni olli því, að hjónin Jón og Sigríður hófu að byggja sér íbúðarhús sumarið 1924. Í því verki, því framtaki, treysti Jón mjög á dugnað sinn og handlagni, því að hann var smiður góður, enda þótt honum hefði aldrei fallið í skaut nein kennsla í þeirri grein. Fjármuni til húsbyggingar áttu þau enga, er þau hófu að grafa fyrir húsgrunninum síðari hluta sumars 1924. En húsinu komu þau upp með hjálp kaupmanna, sem lánuðu þeim efni nokkurnveginn eftir þörfum, bæði Verzlun Gunnars Ólafssonar og Co. og verzlun Gísla J. Johnsen.
Þegar húsið var að mestu fullgert, gekkst Gísli J. Johnsen í það persónulega að útvega þeim veðdeildarlán. Þau fluttu í hús sitt fyrir jól 1924.
Hús sitt nefndu hjónin Engey, þekkt húsnafn í bænum (nr. 23 við Faxastíg).
Ekki höfðu þau hjón, Jón og Sigríður, búið lengi í Engey, er þau tóku til að rækta skrúðgarð þar við íbúðarhúsið sitt. Um árabil var þessi fagri skrúðgarður hafður á orði í bænum og þótti markverð sönnun þess, hversu miklu er kleift að fá áorkað í slíkri ræktun hér í bæ með natni, hyggjuviti og föstum vilja.
Efnahagur hjónanna í Engey fór batnandi ár frá ári, enda þótt börnin væru mörg og heimili þeirra erfitt til framfærslu. Jón í Engey þótti jafnan með afbrigðum afkastamikill verkmaður, sem allir þóttust heppnir að fá í vinnu til sín sökum margþættra kosta verkamannsins.
Jón Jónsson, smiður í Engey, lézt 25. sept. 1951.
Hjónin Jón og Sigríður í Engey eignuðust sjö börn, sem hér verða nú nefnd:

1. Helga, fædd 18. sept. 1917. Hún er gift Einari Hannessyni, verkstjóra, frá Hvoli hér í bæ. Þau búa að Faxastíg 4.
2. Sigurður, fæddur 9. júlí 1919, kvæntur Kristborgu Jónsdóttur frá Höfn í Hornarfirði. Þau búa að Hásteinsvegi 53 hér í bæ. Sigurður er útgerðarmaður og formaður á bát sínum.
3. Stefán, fæddur 15. ágúst 1920. Dáinn 1969. Hann var rafvirkjameistari í Reykjavík, kvæntur Þorsteinu Guðrúnu Sigurðardóttur frá Súðavík.
4. Gísli Svavar, fæddur 21. sept. 1922. Hann drukknaði hér með Þórði skipstjóra Þórðarsyni á Sléttabóli 1. marz 1942.
5. Sigurjón, fæddur 21. okt. 1923. Hann kvæntist Bjarnveigu Ólafsdóttur frá Siglufirði og missti hana frá 5 börnum þeirra árið 1964.
6. Svala, fædd 3. febr. 1926. Hún er gift Runólfi Dagbjartssyni múrarameistara, og búa þau í Reykjavík.
7. Guðrún, fædd 13. okt. 1929. Hún býr í Engey við Faxastíg, gift Hjálmari Inga Jónssyni, vélvirkja. Þau hjón hafa endurbyggt Engeyjarhúsið og stækkað það að miklum mun.