Blik 1973/Sparisjóður Vestmannaeyja 30 ára, III. hluti

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1973ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Sparisjóður Vestmannaeyja 30 ára
(3. hluti)


Breyttir tímar í Vestmannaeyjum.
Batnandi fjárhagur.
Tæknimenning heimilanna fer vaxandi.
Sparisjóður Vestmannaeyia leggur sitt til.


Gunnar Marel Jónsson, skipasmíðameistari, Vestmannabraut 1 (Brúarhúsi).
Efnalaugin Straumur, nr. 4 við Skólaveg. Í húsi þessu var Sparisjóðurinn starfræktur frá því í febrúar 1945 til marzloka 1951. (Sjá Blik 1963, bls. 33, um aðbúð stofnunarinnar í húsi þessu).
Kjartan Ólafsson, útgerðarmaður, Hrauni (Landagötu 4), í stjórn Sparisjóðsins 1943-1944.
Guðni Grímsson, útgerðarmaður, Helgafellsbraut 8.
Sigurður G. Bjarnason, útgerðarmaður, Svanhóli
Bjarni G. Magnússon, síðar bankamaður, frá Lágafelli, (Vestmannabraut 10).
Þorbjörn Guðjónsson, bóndi, Kirkjubæ.
Konráð Bjarnason, verzlunarmaður frá Selvogi.
Þorsteinn Þ. Víglundsson, Goðasteini, sparisjóðsstjóri. Í stjórn Sparisjóðsins síðan 1943, gjaldkeri hans 1943-1960 og formaður sparisjóðsstjórnar 1943 til 1965.

Áður en lengra er haldið um viðgang og rekstur Sparisjóðsins, óska ég að nema eilítið staðar og hugleiða vist tímabil liðinnar tíðar.
Eins og skráin um upphæðir fasteignalánanna og tölu þeirra frá ári til árs ber með sér (sjá bls. 41—42), þá veitti Sparisjóðurinn þegar á fyrstu árum rekstursins nokkur fasteignalán árlega. Lág voru þessi lán og þættu ekki mikill skildingur núna. En tímarnir voru þá aðrir og peningarnir verðmeiri en nú. Upphæðir fasteignalánanna námu þá til jafnaðar frá kr. 8.500,00 til kr. 16.000,00. Þau fóru síðan smám saman hækkandi eftir því sem fjármagn stofnunarinnar fór vaxandi, og bolmagn hennar óx samtímis.
Fæst þessara fasteignalána voru þó notuð til nýbygginga. Fyrst og fremst var fé þessu varið til endurbóta á eldri íbúðarhúsum og til viðbyggingar.
Á styrjaldarárunum (1939—1945) breyttust tímarnir mjög mikið og snögglega, þegar á þau leið. Það er víst og satt. Efnahagur almennings fór batnandi ár frá ári og mennirnir breyttust með, eins og þar stendur. Ný viðhorf komu til sögunnar í efnahagsmálum eftir fjárkreppuárin óskaplegu. Og hins batnandi fjárhags skyldu heimilin njóta. Húseigendur tóku að endurbæta íbúðarhús sín. Keypt voru nýtízkuheimilistæki.
Heimilisfeður og -mæður kostuðu kapps um að létta heimilisstörfin með nýrri heimilistækni. Þannig fór tæknimenning vestmanneyskra heimila vaxandi ár frá ári. Vatnssalerni urðu almenn og útisalerni hurfu að sama skapi. Sumir urðu að byggja við hús sín, stækka þau með viðbyggingu, svo að þessi þægindi heimilanna og tæknimenning skerti ekki um of húsrýmið, sem fyrir var.
Sparisjóðurinn bauð þá fram lán til þessara breytinga og tæknitækjakaupa, og margir heimilisfeður í kaupstaðnum notfærðu sér þau góðu boð. Útisalernum (náðhúsum) í kaupstaðnum fór fækkandi ár frá ári. Þau hurfu þó ekki með öllu fyrr en á síðasta áratugnum. Þá loks hætti bæjarsjóður að kosta menn til hreinsunar á þeim. Sparisjóðurinn átti sem sé ríkan þátt í hvarfi þeirra með framboði á lánum til aukinnar menningar í þessum efnum.
Þó að þessi fyrstu fasteignalán Sparisjóðsins væru ekki há eða veigamikil, þá urðu þau þó óneitanlega mikil hvatning til byggingarframtaks og annarra framfara í bænum. Húsbyggjendurnir hér hafa ávallt metið þá tilhögun sparisjóðsstjórnarinnar um lánakjörin, að einvörðungu verða greiddir vextir af húsbygginga- eða húsakaupalánunum fyrsta lánsárið. Hér er hagur lántakandans hafður í huga.
Húsbyggjendur hér leggja oft nótt við dag og nota allt fé sitt umfram nauðþurftir heimilanna til þess að greiða hið nauðsynlega til byggingarframkvæmdanna. Þarna kemur Sparisjóðurinn á móti þeim með því að skerða ekki fjármagn þeirra fvrsta árið með því að skylda þá til að greiða afborganir af láninu. Vestmannaeyingar hafa ávallt kunnað að meta þetta hagsmunatillit sparisjóðsstjórnarinnar gagnvart þeim.
Auk nýbyggingarinnar lutu margar framkvæmdir hins vestmanneyiska heimilisföður að aukinni innri heimilismenningu í tæknilegum efnum.
Margt tók býsna miklum framförum hjá okkur hér í bæ á þessum árum. Margt það framtak hefur nú sett svip sinn á bæjarfélagið í heild, ekki sízt heimilin, - þægindin innan veggja þeirra.
Ekki vil ég láta skilja þessi orð mín á þá lund, að lánakjör Sparisjóðsins til almennra framfara í bænum hafi valdið þessum breytingum. Fjarri fer því, — ekki einvörðungu a.m.k. Ýmislegt fleira hafði og hefur haft gagnger áhrif á þessa hallkvæmu þróun. Efnahagur almennings í bænum fór t.d. batnandi ár frá ári, þegar leið frá styrjaldarlokum, eins og ég drap á. Aukin fyrirgreiðsla Útvegsbankaútibúsins hér við allan almenning í bænum átti einnig ríkan þátt í hinum auknu framförum. — Með auknum samgöngum og samneyti við aðra landsmenn fór víðsýni Eyjabúa vaxandi. Sjóndeildarhringur, hinn andlegi, víkkaði og það hafði verulega heillavænleg áhrif á hug og hjarta Eyjafólks.


,,Eins hátt og lágt má falla fyrir kraftinum þeim“


Ekki er því að neita, að Sparisjóði Vestmannaeyja áskotnaðist fljótlega öflugir andstæðingar og áróðursmenn til hnekkis honum. Hrakspánum rigndi yfir og ábyrgðarmennirnir, sumir hverjir, urðu fyrir hnútukasti og hótunum. Aðeins einn þeirra krafðist þess að fá ábyrgðarfé sitt endurgreitt og nafn sitt strikað út af undirskriftarlista samþykktanna. Það fékk hann ekki, og það vil ég fullyrða til lofs og dýrðar Eyjafólki, að það lét ekki andróðurinn hafa nein teljandi áhrif á sig. Stofnunin festi smám saman ríkar rætur í bæjarfélaginu og átti með tíð og tíma gæfu og gengi að fagna. Hvaða Eyjamaður vildi nú, að bæjarfélagið okkar væri án þessarar stofnunar?
En því skal ekki neitað, að bæði þurfti að þola og þrauka, meðan fjárvana stofnun í fátæklegu og ófullkomnu húsnæði umlukin andúð og illum spám, klóraði í bakkann og reyndi eftir megni að vera til og koma að eilitlu liði í kaupstaðnum.
Viss hundraðshluti Eyjafólks var um langt árabil haldinn ímugust og andúð á öllum menningarlegum nýjungum, nema af þeim stafaði eða kynni að stafa einhver hagnaðarvon, fjárhagsleg eða stjórnmálaleg.
En rótgróinni ómenningu verður ekki breytt í menningu með áhlaupi, heldur seiglu og þrotlausu starfi, meðan hugur fólksins er að samlaga sig nýjum siðum, nýjum háttum, nýjum tökum og tækjum, — nýjum mennilegum framförum. „Sá sem veit sitt hlutverk á helgast afl um heim, eins hátt og lágt má falla fyrir kraftinum þeim,“ segir skáldið okkar svo fagurlega. Það hefur vissulega sannazt á okkur, sem staðið höfum fastast að Sparisjóði Vestmannaeyja, vexti hans og viðgangi. Með starfi sínu einu megnaði Sparisjóðurinn að þagga niður í andróðursöflunum og láta allar hrakspár verða sér til skammar. Þetta þori ég nú persónulega að minna á og fullyrða úr því sem komið er, og það geri ég með innilegu þakklæti til handleiðslunnar miklu, því að nú dregur að endalokum mínum í þessu starfi, dregur að leikslokum af gildum ástæðum.
Já, það hlakkar í mér, er ég minnist þess, þegar tindarnir tóku að hrynja og fúadíkin að fyllast upp í bæjarlífinu okkar, þegar fólkið í heild hætti að krjúpa á kné fyrir peningavaldi og maurapúkahætti. Eyjafólk tók smámsaman að hugsa sjálfstætt, skapa sér sínar eigin skoðanir, draga sínar eigin ályktanir. Í þeim eigindum fólksins fólst og felst mátturinn mesti hjá Sparisjóði Vestmannaeyja. Þá reyndist honum sigurinn vís, því að þessi stofnun er gildur þáttur í myndugleik Eyjabúa sjálfra og persónulegri og efnahagslegri sjálfstæðisbaráttu þeirra í heild.


Reikningar Sparisjóðsins,
vöxtur hans og viðgangur


Þá þykir hlýða, að ég fari nokkrum orðum um vöxt og viðgang Sparisjóðsins og bendi lesendum mínum á nokkrar staðreyndir úr reikningum hans.
Svo sem skuldahlið eigna- og skuldaskýrslunnar, sem hér er birt, ber með sér, hefur vöxtur Sparisjóðsins verið jafn og mikill síðustu 10—12 árin, nema árið 1967, en þá minnkaði fjármagn hans sökum ills árferðis, og dróst þá saman að sama skapi liðsinni stofnunarinnar við Eyjamenn í heild.
Í reyndinni olli þó ekki hið erfiða árferði mestu um þennan skaðlega samdrátt í vexti og viðgangi Sparisjóðsins, heldur voru það lögbrot og bellibrögð þáverandi bankastjóra Útvegsbankans í kaupstaðnum. Þessi „samkeppnismaður“ þoldi ekki hina frjálsu samkeppni við Sparisjóðinn. Svo sem kunnugt var og er, þá varð að hnekkja bolabrögðum hans með hæstaréttardómi.
Á seinustu árum hafa aðeins fáir sparisjóðir í landinu tekið öðrum eins vexti og þróun fram á við til öflugri þjónustu við almenning eins og Sparisjóður Vestmannaeyja. Hefur þar miklu um valdið aflasæl fiskiár og aukinn skilningur bæjarbúa í heild á hagfræðilegu starfi þessarar stofnunar.
Í árslok 1971 voru aðeins fjórir sparisjóðir í landinu utan Reykjavíkur stærri eða fjármagnsríkari en Sparisjóður Vestmannaeyja. Og allir eru þeir mun eldri að árum en sparisjóðurinn okkar.
Það skal tekið fram og viðurkennt, að við höfum lítið gert að því að lána beint til reksturs útvegsins. Til þess höfum við of lítið fjármagn.
En fleira er matur en feitt kjöt, stendur þar. Fleira er stuðningur við útgerðina í bænum en bein peningalán til hennar. Ég fullyrði, að Sparisjóðurinn á sinn ríka þátt í því, að bæjarbúum hefur fjölgað og vinnuaflið í bænum farið vaxandi ár frá ári. Ekki eiga fastar lánveitingar Sparisjóðsins til húsbyggjenda og íbúðakaupa lítinn þátt í þeirri hallkvæmu þróun, sem er staðreynd.
Lítum á skýrsluna um heildarútlán Sparisjóðsins við árslok 1972.
Um 55% af fjármagninu er varið til nýbygginga og íbúðakaupa. Jafnframt því að athuga þessa lánaskýrslu er rétt að líta á og hugleiða skrána eða skýrsluna yfir fasteignalánin, árlegar heildarupphæðir þeirra og fjölda. Þrjú síðustu árin, já, aðeins þrjú síðustu árin, hefur Sparisjóður Vestmannaeyja lánað hvorki meira né minna en 43,5 milljónir króna til nýbygginga og íbúðakaupa í bænum. — Atvinnulífið í heild hefur notið sérlega góðs af fyrirgreiðslu þessari og þjónustu.
Víst er það rétt, að lán Sparisjóðsins til húsbygginga og íbúðarkaupa hafa til þessa verið lág, sérstaklega í seinni tíð vegna örtvaxandi dýrtíðar í landinu. Þó hafa þau jafnan farið stighækkandi eftir því sem Sparisjóðnum hefur vaxið fiskur um hrygg. Um nokkurt skeið námu nýbyggingarlánin kr. 70.000,00, síðar um árabil kr. 100.000,00 og nú seinustu árin kr. 130.000,00.
Alltaf hefur Sparisjóðurinn veitt byggingarlánið út á grunninn eða gefið kost á því, þegar platan undir íbúðarhæðina er að fullu steypt. Lánin eru veitt til 6 ára og aðeins greiddir vextir 1. árið.
Öll lán Sparisjóðsins eru víxillán og hafa aldrei verið öðruvísi veitt.
Um síðustu áramót voru lán þessi hækkuð í kr. 160.000,00 og kr. 130.000,00 til íbúðakaupa.
Allir Eyjabúar, fátækir sem ríkir, hafa frá stofnun Sparisjóðsins notið hinna sömu lána og lánakjara. Þar hefur aldrei manngreinarálitið látið á sér kræla eða stjórnmálaskoðanir, og hafa þó jafnan stjórnmálaforingjar skipað stjórn Sparisjóðsins að meira eða minna leyti.
Ekki er því að neita, að stundum er hreyft óánægju yfir þessum reglum Sparisjóðsins um algjört jafnrétti í viðskiptalífinu og samskiptum innan veggja hans. Ein slík rödd verður mér alltaf minnisstæðust.
Inni á skrifstofu hjá mér situr einn allra ríkasti maður bæjarins, gamall kunningi minn, sem nú er orðinn margfaldur milljónamæringur.
„Nú ætla ég að fara að byggja mér íbúðarhús,“ segir milljónamæringurinn. „Gott er það og blessað,“ segi ég, „því að ekki ferðu með það yfirum til æðri heima, þegar þú flytur.“ — Svona spaugi anzaði hann ekki, og álasa ég honum ekki fyrir það. —
„Ég þarf lán,“ segir hann. „Auðvitað,“ segi ég kíminn. „Hvað fæ ég mikið lán hjá ykkur hér í Sparisjóðnum?“ spyr hann. „Þú færð þínar hundrað þúsundir út á grunninn eins og aðrir, sem byggja sér íbúðarhús.“ (Þá lánuðum við öllum þessa upphæð). Þá sagði hann orð, sem ég gleymi aldrei: „Ertu vitlaus, Þorsteinn, heldurðu að ég taki við lánum eins og þurfalingar bæjarins?“ — Þá varð mér skemmt. Ég fann til metnaðar. Fátækir sem ríkir njóta sama réttar innan veggja Sparisjóðs Vestmannaeyja. Öðruvísi mér áður brá hér í Vestmannaeyjum um jafnrétti Eyjabúa til lána.
Þegar milljónamæringurinn var horfinn út úr stofunni, tók ég að hugleiða lífsferil hans og hinn mikla gróða. Hverjir voru þessir „þurfalingar bæjarins?“ Verkafólkið til sjós og lands, sem vann hjá þessum atvinnurekanda og hafði um leið skotið styrkustu stoðunum undir ríkidæmi hans og velmegun. Blindni okkar fyrir þessum staðreyndum er oft átakanleg.


Samskiptin við Seðlabankann


Ég get með góðri samvizku endurtekið þau orð mín, sem ég skráði, þegar Sparisjóður Vestmannaeyja fyllti 25 starfsárin, að viðskipti hans við Seðlabankann hafa jafnan verið hin ánægjulegustu, — verið örugg og árekstrarlaus, enda gildandi reglur í heiðri hafðar í viðskiptunum frá báðum hliðum.
Sparisjóðurinn hefur í rekstri og starfi lotið settum viðskiptareglum Seðlabankans, þó að við höfum að sjálfsögðu harmað oft þá ágengni, sem við teljum bankann hafa sýnt í vaxtakjörum, e.t.v. af illri nauðsyn. Blessunarlega hefur stjórn Sambandsins okkar tekizt að þoka upp vaxtagreiðslunum, bætt vaxtakjörin, svo að við unum sæmilega nú þessum þætti í viðskiptunum.
Meðan vaxtakjör Seðlabankans voru okkur hin óhallkvæmustu, svo að okkur fannst höggva nærri ofbeldisbeitingu, vil ég fúslega viðurkenna, að ég lét þar í starfinu koma nokkurn krók á móti bragði. Þegar binda skyldi fé í Seðlabankanum, sem gerðist við hver ársfjórðungsskipti, tók ég út sparifé svo að nam nokkrum milljónum króna. Sparisjóðsbækur þessar voru og eru geymdar hjá mér persónulega í þessu skyni. Þannig hlunnfór ég bankann um bindifé árum saman, meðan hann beitti sparisjóðinn kverkatökunum mestu. Úttekt þessa fjár er lögleg, þar sem bækurnar eru lykillinn að sparifénu. Sumir Eyjabúar, — vildarmenn mínir, — lögðu inn í sparisjóðinn fúlgur fjár oft á tíðum, en settu þau skilyrði, að af fé þessu yrðu ekki sendar „skattfúlgur til Reykjavíkur.“ eins og það var stundum orðað. Síðan vaxtakjör Seðlabankans breyttust og gerðust viðunandi, hefi ég lagt niður þessar „brellur“, sem ég bar parsónulega ábyrgð á og verð þá sakfelldur fyrir. Þar er stofnunin sýkn saka.


Samskiptin við Útvegsbankann


Húseignin Gefjun, nr. 42 við Strandveg. Hér var Sparisjóður Vestmannaeyja til húsa á árunum 1951 (apríl), (suðurendi hússins, neðri hæð, gluggar lengst til hægri).

Sparisjóður Vestmannaeyja hefur jafnan haft þann hátt á að geyma laust fé eða „varasjóð“ frá einum tíma til annars í Útvegsbankanum í kaupstaðnum, svo að m.a. bankinn gæti notað það í þágu Eyjabúa þann tíma, sem Sparisjóðurinn sjálfur hefur ekki þurft til þess að grípa. Það fullyrði ég með ánægju, að samstaða og samstarf starfsfólksins í báðum þessum stofnunum hefur alltaf verið með ágætum. — Ekki er þó fyrir það að synja, að ég hafi ekki sjálfur átt að mæta nokkrum kulda sumra bankastjóranna, sem þarna hafa ríkt þennan tæpa aldarþriðjung. Ég óska ekki að ræða nema sem allra minnst um þau fyrirbrigði, þó að þau hafi á stundum verið kátbrosleg af mínum sjónarhóli séð.
Ég get þess þó með ánægju, að ég mat ávallt mikils Viggó Björnsson, bankastjóra, fyrir persónuleika hans, hreinlyndi og drengskap ásamt festu í starfi og fjárhagslegt hyggjuvit. Vissulega var hann mér sár um sinn sökum stofnunar og starfrækslu Sparisjóðsins. Frændur eru frændum verstir, gat hann e.t.v. sagt, ef hann hefði vitað, að við vorum og erum báðir af sama bergi brotnir, Ásgarðsættinni í Grímsnesinu (sjá BLIK 1971). En sem betur fór var sú staðreynd hulin honum.
Hin ánægjulegu viðskipti Sparisjóðsins og Útvegsbankans eru fyrst og fremst hagsmunalegs eðlis báðum stofnununum og byggjast á gagnkvæmu trausti og sameiginlegu markmiði, sem sé: Heill og hagur Eyjabúa og byggðarlagsins í heild er mark og mið þessara peningastofnana.
Hreinskilnislega sagt þykjumst við mega vænta heillavænlegs samstarfs við núverandi bankastjóra Útvegsbankans, Ólaf Helgason. Þau ár, sem hann hefur verið hér bankastjóri, hefur hann sýnt okkur samvinnuvilja og velvild. Það hefur vissulega verið báðum stofnununum til góðs.


Bundna féð


Rétt er að benda á það, að við síðustu áramót nam hið bundna fé Sparisjóðs Vestmannaeyja í Seðlabankanum kr. 21.871.064,00 eða um 20% af heildarinnstæðunum. Þakka megum við samtökum sparisjóðanna og dugnaði og einbeitni forustumanna þeirra, að hundraðshl. hins bundna fjár nema nú aðeins 1/5 af heildarfjármagninu. Svo að mikið hefur áunnizt frá fyrsta áhlaupinu og fyrstu átökunum. Persónulega er ég ekki óánægður með bindingu þessa. Og býst ég við, að fleiri sparisjóðsstjórar séu sama sinnis í þeim efnum. Viðskipti okkar við Seðlabankann hafa á seinni árum verið hin ánægjulegustu. Og með þeim velviljuðu viðskiptaháttum, sem hingað til hafa ríkt af hans hálfu gagnvart þessum stofnunum, þá verður það að teljast öryggi að eiga þetta fé þar geymt með því að stofnanirnar geta fengið að yfirdraga með það að bakhjarli, ef í álinn syrtir og í harðbakka slær um styttri tíma í rekstri stofnananna. Bundna féð, þessi skerðing á valdi, skapar óneitanlega aðhald, sem er hverri peningastofnun mikil nauðsyn. En hvar eru takmörkin? Mundi ekki láta nærri, að þeim væri í hóf stillt með þessum 20%.
Ég persónulega tel svo vera.


ctr

Húseign Mjólkursamsölunnar, nr. 38 við Vestmannabraut. Í húsi þessu var Sparisjóður Vestmannaeyja til húsa á árunum 1956 (apríl) til 8. júlí 1962, en þá flutti hann í eigið hús að Bárugötu 15. Bezt fer á, að ég láti þessa stuttu sögu fylgja þessari mynd: Veturinn 1952—1953 festi formaður Sparisjóðsins (þá Þ.Þ.V.) kaup á lóðinni nr. 38 við Vestmannabraut fyrir eigið fé. Ætlun hans var sú, að þarna risi hús Sparisjóðsins, þar sem hann gæti vaxið og eflzt. Sjálfur vann hann að því sumarið 1953 að grafa fyrir húsinu og steypa grunn undir vænlanlega Sparisjóðsbyggingu. Síðan bauð hann stjórn Sparisjóðsins að kaupa grunninn á kostnaðarverði. Á það gat þáverandi stjórn sparisjóðsins ekki fallizt. Þá keypti Mjólkursamsalan í Rvík grunninn og hélt svo Þ.Þ.V. áfram byggingarframkvœmdum. Jafnframt tryggði hann Sparisjóðnum húsnæði í byggingu þessari næstu 6 árin. — Í byggingu þessari hefur svo Mjólkursamsalan haft aðalbækistöð sína síðan hér í bænum, en gegnir nú því mikilvæga hlutverki að flytja mjólkurvörur til Vestmannaeyja og selja þær þar.

IV. hluti

Til baka