Blik 1976/Bréf til vinar míns og frænda, II. hluti

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit Blik 1976ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Bréf til vinar míns og frænda


(Æviþáttur)
(2. hluti)


Fyrsta lota


Fyrsta stefna.
Málsóknin mikla og vörnin sögulega.
Meinsærisfólk!
Mánuði eftir kjördag eða í febrúarlokin (1950) bar gesti að garði í Goðasteini, heimili okkar hjóna. Stefnuvottarnir í bænum afhentu konu minni, í fjarveru minni við skyldustörf, afrit af stefnu, sem héraðsdómslögmaðurinn, skattstjórinn sjálfur, gaf út f.h. fjármálaráðherra, sem jafnframt var þingmaður kjördæmisins og formaður hins mektuga Nýbyggingarráðs ríkisins. Hér skorti því hvorki háa titla né makt og veldi. Og ólíklegir voru svona miklir mektarmenn og yfirmáta virðulegir borgarar til þess að leggja sig niður við að sverta eða mannskemma smáborgara þjóðfélagsins eins og aumustu „barnafræðara“ og „hugsjónaangurgapa“. Já, héraðsdómslögmaðurinn var enginn annar en sjálfur skattstjórinn í bænum, virðulegur embættismaður ríkisins, sem veitt hafði fjármálaráðherranum alla fræðslu um „skattsvik“ mín. Það vitnaðist síðar, og þau bréf færðu að lesa bráðum.
Í stefnunni var fullyrt, að ég hefði sagt á bæjarmálafundinum, að fjármálaráðherra, bréfritarinn, stefnandinn sjálfur, vœri talinn vera stœrsti faktúrufalsari og gjaldeyrisþjófur landsins. Ég fullyrti hins vegar fyrir rétti, að ég hefði sagt, að hann hefði verið sakaður um að vera o.s.frv. Hér stóð hnífurinn í kúnni.
Ég mætti ekki á sáttanefndarfundinum til þess að gefa til kynna, að engar sættir eða um málamiðlun yrði að ræða af minni hálfu. Mál þetta skyldi fá að ganga sér til húðar eins og til þess var stofnað. Þar með hlaut málið að fara fyrir bæjarþing Vestmannaeyja. - Mér var svo stefnt fyrir þá virðulegu stofnun einhvern næsta dag.
Þá þurfti ég að taka ákvörðun: Átti ég að ráða mér málafærslumann mér til varnar og sóknar í málastappi þessu? - Nei, það gat ég ekki. Ég hafði engin efni á því. Ég þóttist þekkja vel „allt mitt heimafólk“, líka á sviði hins lögfræðilega réttlætis í bæjarfélaginu, - þekkja réttarfarið. Ég vissi fyrirfram, að ég yrði dæmdur til að greiða sektir og málskostnað, enda þótt stefnandinn ætti algjörlega upptökin að málaferlum þessum og hefði brotið á mér gildandi landslög, sjálfur ráðherrann, og gert sitt ítrasta til að svipta mig ærunni, fá mig stimplaðan skattsvikara og þjóf. Ég afréð að verja mig sjálfur.
Öðrum þræði brann ég í skinninu af forvitni. Ég vildi fá tækifæri til að kynnast málarekstri, fá eilitla hugmynd um það starf. Svo brann fyrir brjósti mér löngunin sú, að eiga þess kost, að sálgreina lögfræðiklíkuna í bænum, umboðsmann stefnanda, skattstjórann, og svo dómarann sjálfan.
Mér var aldrei „list sú léð“ að vera snefill að listamanni, hvorki á einu eða öðru sviði. En engum er alls varnað stendur þar, og heldur ekki mér. Ég á innra auga. Með því gengur mér furðu vel að sálgreina menn, sjá í gegn innri manninn. Þar sem ég er nú hættur öllu fjármálastússi sökum elli, er mér óhætt að skýra frá því hér, að ég á mikið að þakka þessu innra auga, að Sparisjóður Vestmannaeyja tapaði aldrei í lánum einni einustu krónu þau 31 ár, sem ég starfaði þar og annaðist lánveitingar og rekstur þeirrar stofnunar. Væri hið innra ekki tryggt, var krafizt meiri tryggingar, því að allir fengu lán, öllum lánað jafnt, ef um nytsamar framkvæmdir var um að ræða.
Eins og ég tók fram, þá stóðu fimm þekktir og „góðir Flokksmenn“ að því að senda fjármálaráðherra skeytið og votta það, að ég hefði fullyrt, að hann vœri talinn ... o.s.frv. - Þegar á hólminn kom og vitni þessi skyldu vinna eið að fullyrðingu sinni, vantaði óvart fyrirliðann, sjálfan brauðgerðarmeistarann. Hann hafði þá óvart stungið sér burt úr bænum. Við fréttum af honum vestur í Stykkishólmi. Þá hló skálkurinn í mér. Fíflunum skyldi sem sé á foraðið etja. - Þessi fjögur vitni stefnda og héraðsdómslögmannsins staðfestu síðan fullyrðingar sínar með eiði samkvæmt kröfu minni. Þessir fjórir mektarmenn í fulltrúaráði Flokksins kölluðu þannig guð til vitnis um það, að þeir segðu satt.
Síðan fékk ég málsskjölin lánuð, meðan ég vann að málsvörn minni, sem ég hafði hugsað mér að snúa upp í sókn, svona öðrum þræði a.m. kosti.
Nú fannst mér sannarlega færast líf í tuskurnar. Ég lærði strax heilmikið á þessu málavafstri. Og mér fannst satt að segja mál til komið að kynnast slíku lögfræðilegu málaþrasi fyrir dómstóli, orðinn fimmtugur.
Næst mætti ég í bæjarþinginu með þrjú vitni, sem setið höfðu umræddan bæjarmálafund og hlustað vel á málflutninginn þar. Þessi vitni mín fullyrtu öll, að ég hefði sagt stefnanda hafa verið sakaðan um að vera o.s.frv.
Að þessum framburði sínum unnu þessi vitni mín einnig eið. Hér stóðu því eiðar gegn eiðum. Einhvern veginn fannst mér í lögfræðilegri fávizku minni, að slíkir svardagar hlytu að fara í bága við heilbrigða skynsemi. Gátu slíkir svardagar átt sér stað í „kristilegu“ réttarfari? Mér fannst guðsnafni misboðið. En lögfræðingarnir vissu auðvitað sínu viti og vel það! Hvað var um það að efast? - Önnur hvor vitnin hlutu að verða úrskurðuð meinsærisfólk. Skrípaleikur og grátt gaman! Ég hlífist við að nefna vitnin með nafni. Í stað þess nota ég titla eða eitthvað annað.
Ég leyfði mér að gera þessar athugasemdir við framburð þeirra vitna, sem héraðsdómslögmaðurinn, skattstjórinn, umboðsmaður stefnanda, leiddi fram í bæjarþingið til staðfestingar á sannleiksgildi símskeytisins og fullyrðingum á sakargiftum gegn mér, og tek ég þetta orðrétt upp úr málskjölum mínum:
Fyrsta vitnið, yfirlögregluþjónninn, sem mun vera formaður fulltrúaráðs Flokksins hér eða hefur verið það, mætti í réttinum með fítungi miklum og lét þar og þá fara um mig ósæmileg orð og niðrandi, svo sem vitnaleiðslan ber með sér. Sú framkoma ber glöggan vott um persónulega óvild til mín, og er því ekki nema ofur mannlegt, að sá vitnisburður sé litaður af þeirri óvild og þess vegna allur hæpinn. Svo sem svör vitnisins við spurningum mínum í réttinum bera með sér, er frásögn hans um bréfið, sem Guðlaugur Gíslason las upp á fundinum og málarekstur þessi er sprottinn af, allur þoku- og fálmkenndur. Ég óskaði að benda dómaranum á þessar staðreyndir:
Vitnið segir frá umræddu bréfi, hver það hafi lesið, og að það hafi verið frá ráðuneytinu. Þá setti ég fram þessa spurningu með undrunar- og efablæ til þess að prófa hugsun vitnisins: „Á, var það frá ráðuneytinu?“ - Þá fullyrti vitnið, að bréfið hafi verið frá stefnanda, þingmanni kjördæmisins. Þá endurtók ég spurningu mína með sama raddblæ. Þá fullyrti vitnið, að bréfið kynni að hafa verið frá öðrum, kveðst ekki muna það greinilega.
Þetta allt er athyglisverður framhurður vitnis. Það man bréfið og afleiðingarnar af upplestri þess. Það vinnur eið að sjö orðum, sem það fullyrðir, að ég hafi sagt á fundinum, en það man ekki eða vill ekki muna aðilann, sem G. G. fullyrti, að skrifað hefði bréfið og sent það til upplesturs á fundinum. Þar á ofan var vitnið annar fundarstjórinn og ber þó ekki saman við hinn fundarstjórann, sem sat við hlið þess og skrifaði niður hin stóru orð mín um stefnanda, höfund bréfsins. Hugsanir vitnisins eru meira en lítið vingulslegar.
Að því leyti, sem framburður vitnis þessa fer í bága við málsrök mín og málflutning, mótmæli ég honum lið fyrir lið og orði til orðs, enda er allur vitnisburðurinn mengaður skútyrðum og persónulegri óvild.
Annað vitnið, bátasmíðameistarinn, sem mun vera í fulltrúaráði Flokksins hér, fullyrti fyrst í réttinum, að það hefði séð menn skrifa niður umdeild orð rétt við hliðina á sér í fundarsalnum. Þann framburð tekur svo vitnið aftur, í þess stað gefur vitnið í skyn eða segir berum orðum, að það hafi séð menn um allan sal með blað og ritföng skrifandi niður umdeild orð. Þegar ég svo fyrir réttinum óskaði þess, að vitnið nefndi aðeins einn af þessum mörgu skriffinnum með nafni, gat vitnið engan nefnt en fékk í þess stað ákafan hjartslátt, svo að greinilega heyrðist á mæli vitnisins. Því leið auðsjáanlega illa í stólnum við hliðina á mér. Þarf nokkrum að líða illa við það að bera sannleikanum vitni?
Ástæða er til að ætla, að dómarinn hafi sjálfur veitt líðan vitnisins athygli, því að hann hafði lengri formála fyrir eiðnum við þetta vitni en hin og minnti það á möguleika til vondrar samvizku eftir að hafa svarið eið, ef ekki væri allt með felldu. Vitnið sjálft segist ekki hafa skrifað niður orðin, sem ég á að hafa sagt um stefnanda á framboðsfundinum og eru málsrök hans. Jafnframt lýsir vitnið yfir þvi í réttinum ótilhvatt, að það sé óglöggt, enda ber vitnisburður þess glögglega vott um það. Allur framburður þess er mótsagnakenndur og umslæddur þoku og sljóleik og sýnilega sprottinn af vilja fremur en mætti. Athyglisverð er sú yfirlýsing vitnisins, að málskjal nr. 3, skeytið til stefnanda, hafi verið vélritað á skrifstofu Flokksins hér.
Ég mótmæli framburði þessa vitnis lið fyrir lið og orði til orðs.
Þá er það þriðja vitnið, húsasmíðameistarinn. Hann er einn af kotrosknustu foringjum Flokksins hér í bæ. Hann fullyrti í réttinum, að hann hefði ekki skrifað niður umdeild orð og engan séð gera það. Mætti ég mælast til þess, að háttvirtur dómari beri þessa fullyrðingu hans saman við vitnishurð bátasmíðameistarans, annars vitnis, sem sá menn um allan sal skrifa niður orðin. Annað hvort vitnið hlýtur að segja ósatt, nema svo eigi að skilja þetta, að húsasmíðameistarinn sé svo nærsýnn, að hann sjái tæpast fram á nefbroddinn á sér.
Þetta vitni vottar eindregið, að Guðlaugur Gíslason hafi á fundinum lesið upp bréf „frá ráðuneytinu“ eða stefnanda, og í bréfi þessu hafi verið dróttað að mér skattsvikum eða tilraun til skattsvika.
Fjórða vitni stefnanda, bóndinn, sem skipar sæti sitt í fulltrúaráði Flokksins hér, er nær áttrætt að aldri og þess vegna ekki líklegt til að hafa óskert minni. Enda fullyrðir þessi veslings gamli maður, að hann hafi undirritað réttarskjal nr. 3, - skeytið, - sama kvöldið og fundurinn var haldinn, en skjal þetta er óvart dagsett daginn eftir eða 28. janúar. Sem vænta mátti af jafngömlum manni, minnist vitnið þess ekki, að umrætt bréf væri lesið upp á fundinum!
Að því er virtist af einskærum sljóleik virðist vitnið ekki hafa náð neinu samhengi í umræður fundarins eða það, sem þar fór fram, og lái ég vitninu það ekki, en áfelli þá, sem leyfa sér að draga áttrætt gamalmenni til réttarhalda, vitnaleiðslu og svardaga. Það ber sízt vitni um nóg vitni.
Allur framburður þessa vitnis snýst um það „að halda“, „að halda“, en veit lítið með vissu. Þarna ríkir því sannarlega rík þjónslund fram í rauðan dauðann og meiri vilji en máttur.
Ég mótmæli framburði vitnisins í einu og öllu og óska því góðrar heimfarar og náðar eftir svardagann.
Allir þessir menn, sem báru vitni í þessu máli 13. marz s.l. til fulltingis og sönnunar mínu máli, höfðu ýmist skrifað niður orðin, sem ég sagði um stefnanda og deilt er um, eða rætt þau við aðra á fundinum eða strax eftir fundinn, hugleitt þau og sannfærzt um það þá þegar, að auðvelt yrði að sanna, að stefnandi hafi verið sakaður um gjaldeyrisþjófnað og faktúrusvik eða -fölsun.“
Héraðsdómslögmaðurinn fann það helzt að málflutningi mínum, að hann væri saminn og skrifaður eins og um blaðagrein væri að ræða. Hann fann þef og bragð að lögfræðilegri fáfræði minni, sem naumast væri svaraverð, sízt fyrir hann! Og nú var það dómarans, fulltrúa bæjarfógetans í kaupstaðnum, að úrskurða og dæma. Og hvað gerðist? Málinu var vísað frá dómi á þeim forsendum, að vitnum mínum bæri saman við sjálfan mig, sökudólginn, um hin umdeildu orð, og skyldu mínar fullyrðingar þess vegna leggjast til grundvallar málshöfðuninni. En orðin voru, að stefnandi hefði verið sakaður um að vera o.s.frv.
Nú gaf maður sér sannarlega tíma til að hlæja. Og svo hugsaði maður með hryllingi til meinsærisfólks Flokksins. Það var vissulega grátt gaman, að misnota þannig guðsnafn í þágu valdafíkinna flokksforingja, þó að þeir drægjust með háa titla í tignarstöðum. Það á sér stað, að fylgispektin blindar menn gjörsamlega. Og svo grályndur er ég, að enn get ég brosað að meinsærinu. „Mikið gerir þú fyrir Höskuld, gæzka,“ sagði bóndi nokkur við konu sína, sem stundi þungan. Hún var að ala vinnumanni þeirra barn.


III. hluti

Til baka