Eyjólfur Eiríksson (Vesturhúsum)

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search
Eyjólfur Eiríksson frá Vesturhúsum.

Eyjólfur Eiríksson frá Vesturhúsum fæddist 26. febrúar 1854 í Nýjabæ u. Eyjafjöllum og lést 21. ágúst 1908.
Foreldrar hans voru Eiríkur Eiríksson tómthúsmaður, síðar bóndi á Vesturhúsum, skírður 3. mars 1827, d. 15. nóvember 1882, og barnsmóðir hans Katrín Hafliðadóttir vinnukona, ættuð úr Mýrdal, f. 20. júlí 1828, d. 20. nóvember 1902.

Eyjólfur var með vinnukonunni móður sinni á Þingskálum á Rangárvöllum 1855, var fluttur til Eyja úr Keldnasókn 1856, fósturbarn að Vesturhúsum; hjá tengdaforeldrum föður síns Eyjólfi Erasmussyni og Valgerði Jónsdóttur og var þar enn 1869, var léttadrengur hjá föður sínum og Katrínu konu hans á Vesturhúsum 1870-1873.
Hann var vinnumaður á Vilborgarstöðum 1874-1878, á Oddsstöðum hjá Árna Þórarinssyni og Steinunni Oddsdóttur 1879 og 1880 og þar var Guðrún vinnukona með Karl Jón barn þeirra. Þau voru í Hólshúsi 1881, eignuðust Valgerði á árinu.
Þau Guðrún tóku trú mormóna og fluttist til Utah, hann 1882 með börn þeirra frá Hólshúsi. Guðrún barnsmóðir hans veiktist, fluttist vestur 1883, varð sjúklingur og lést 1887.
Eyjólfur kvæntist Jarþrúði 1887. Þau eignuðust 6 börn, misstu tvö nýfædd.
Eyjólfur var járnbrautarstarfsmaður vestra, fjarri heimili sínu og kom heim um helgar. Þau Jarþrúður ræktuðu jörðina og eignuðust lítið býli og fjölda búpenings.
Þau eignuðust 6 börn.
Eyjólfur lést 1908.

I. Barnsmóðir Eyjólfs var Guðrún Erlendsdóttir, f. 8. júlí 1850, d. 4. september 1887.
Börn þeirra fædd í Eyjum:
1. Karl Jón Eyjólfsson, f. 24. nóvember 1879, fluttist vestur með föður sínum 1882, d. 24. desember 1924 í Eureka í Utah-fylki.
2. Valgerður Eyjólfsdóttir, f. 5. september 1881, fluttist vestur með föður sínum 1882. Hún dó á leiðinni, var jarðset í Council Bluffs í Iowa-fylki.

II. Kona Eyjólfs, (30. desember 1887), var Jarþrúður Runólfsdóttir frá Mýrarholti á Kjalarnesi, f. 21. ágúst 1852, d. 17. apríl 1927. Foreldrar hennar voru Runólfur Jónsson tómthúsmaður í Nýjabæ á Kjalarnesi 1860, f. 17. ágúst 1828, d. 2. desember 1866, og kona hans Ragnhildur Þorláksdóttir húsfreyja, f. 1. nóvember 1825. Hún fluttist til Utah 1887 og giftist Eyjólfi á árinu.
Börn þeirra voru:
1. Elínborg (Ellenburg), f. 18. október 1888, d. 20. ágúst 1889.
2. Maria (Mary), f. 18. febrúar 1890 í Spanish Fork.
3. Noah Erastus, f. 28. nóvember 1891, d. 21. maí 1892.
4. Sigurveig (Sarah Vae), f. 28. desember 1892, d. 24. apríl 1974.
5. Eiríkur (Eric Ronald), f. 14. febrúar 1895, d. 3. ágúst 1922, sleginn af eldingu í Idaho, 27 ára.
6. Matthew Thorgeir, f. 28. september 1897, d. 23. maí 1966.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.