Geirmundur Ólafsson (Oddsstöðum)

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Geirmundur Ólafsson vinnumaður á Oddsstöðum fæddist 1785 á Loftsstöðum í Flóa og lést 20. ágúst 1842.
Foreldrar hans voru Ólafur Vernharðsson bóndi á Eystri Loftsstöðum 1801, f. 1748, d. 13. september 1836, og kona hans Sesselja Aradóttir húsfreyja, f. 1752, d. 17. október 1841.

Geirmundur var 15 ára vinnumaður í Hólshúsum í Flóa 1801.
Hann var kominn til Eyja 1828 og var þá vinnumaður hjá Bóel Jensdóttur ekkju Jóns Þorleifssonar sýslumanns á Oddsstöðum, sjómaður þar 1835, „sjálfs sín“ þar 1836, vinnumaður þar 1837, fyrirvinna 1838 og 1839, vinnumaður þar 1840 og 1841.
Geirmundur var meðal tveggja annarra, sem fengu sektir fyrir drykkjuskap og ósæmilega hegðun við guðsþjónustur á gamlársdag og nýjársdag um áramótin 1831. Þeim var einnig bannað að sitja í kór kirkjunnar af sömu sökum.
Hinir voru Ólafur Jónsson í Dölum og Sigurður Sigurðsson, þá vinnumaður í Hólmfríðarhjalli.
Geirmundur var ókvæntur og barnlaus. Hann lést 1842 úr taugaveiki.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.