Guðrún Magnúsdóttir (Löndum)

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Guðrún Magnúdóttir húsfreyja á Löndum, síðan í Utah, fæddist 5. júlí 1840 í Berjanesi u. Eyjafjöllum og lést 18. maí 1930 í Utah.
Foreldrar hennar voru Magnús Sigmundsson vinnumaður, sjómaður á Oddsstöðum við andlát, f. 15. ágúst 1810, drukknaði 18. nóvember 1842 með Vigfúsi Bergssyni og fleiri á leið í Elliðaey. Barnsmóðir hans og móðir Guðrúnar var Halldóra Jónsdóttir vinnukona, síðar húsfreyja í Berjaneskoti, f. 16. september 1814 í Hátúnum í Landbroti, d. 7. október 1867.

Guðrún var 10 ára niðursetningur í Miðbæli u. Eyjafjöllum 1850, vinnukona þar 1860. Hún fluttist til Eyja 1869 og var bústýra hjá Einari Eiríkssyni 1870, en þá var Guðrún móðir hans komin til hans.
Þau Einar giftust á því ári. Þau bjuggu í Fagurlyst 1871 og 1872, á Miðhúsum 1875 og 1878, Fögruvöllum 1879, en síðan á Löndum. Hjá þeim dvaldi Guðrún móðir Einars.
Þau gerðust mormónar og fluttust til Utah 1880 frá Fögruvöllum. Þá höfðu þau eignast 5 börn í Eyjum, en misstu fyrsta barnið úr kíghósta. Með þeim fóru 4 börn Vestur. Þar eignuðust þau 2 börn.
Þau fluttust til Castle Valley í Utah, námu land og stunduðu landbúnað og farnaðist vel.

Maður Guðrúnar, (6. nóvember 1870), var Einar Eiríksson gull- og silfursmiður, f. 30. desember 1847, d. 8. október 1931 Vestanhafs.
Börn þeirra hér:
1. Halldóra Helga Einarsdóttir, f. 9. apríl 1871, d. 29. nóvember 1871 úr kíghósta.
2. Lilja Einarsdóttir, f. 8. október 1872, d. 26. mars 1948 í Utah.
3. Bárður Einarsson, f. 10. september 1875, d. 22. júlí 1970 í Utah.
4. Eiríkur Einarsson, f. 12. júlí 1878, d. 27. mars 1965 í Utah.
5. Helga Eiríksdóttir, f. 3. september 1879, d. 31. maí 1962 í Utah.
Börn fædd í Utah:
6. Magna Sina Einarsdóttir Eiriksson, f. 3. janúar 1884 í Spanish Fork, d. 14. maí 1890 þar.
7. Elias W. Einarsson Eiriksson, f. 8. september 1887 í Spanish Fork, d. 9. janúar 1975 í Salt Lake City, Utah.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • FamilySearch - Community Tree.
  • Manntöl.
  • Prestþjónustubækur.
  • The Icelanders in Utah.
  • Vesturfaraskrá 1870-1914. Júníus H. Kristinsson. Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands 1983.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.