Jónína Sigurbjörg Jónsdóttir (Sléttabóli)

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Jónína Sigurbjörg Jónsdóttir húsfreyja fæddist 24. maí 1868 í Miðbæ í Norðfirði og lést 4. desmber 1942.
Foreldrar hennar voru Jón Matthíasson Long bóndi á Hólum í Norðfirði, f. 26. janúar 1849, d. 16. mars 1936, og barnsmóðir hans Guðfinna Sigfúsdóttir, þá vinnukona á Hólum, f. 8. október 1828, d. 9. mars 1870.

Jónína Sigurbjörg var sveitarómagi á Skorrastað í Norðfirði 1880, var vinnukona á ýmsum bæjum í Norðfjarðarhreppi og á Reyðarfirði, var síðan á Nesi í Norðfirði.
Hún giftist Stefáni í janúar 1900, var húskona í Nesi á því ári.
Stefán veiktist og gat ekki séð sér og fjölskyldunni farborða. Hann var þá sendur sveitarflutningi með fjölskylduna á sveit sína í Mýrdal í V-Skaft. 1900. Stefán lést í nóvember sama ár.
Börnunum var komið fyrir, en Jónína Sigurbjörg var vinnukona í Skammadal í Mýrdal til 1901, í Garðakoti þar 1901-1904, á Hvoli þar 1904-1908, í Reynishjáleigu þar 1908-1910, á Höfðabrekku 1910-1912, í Hjörleifshöfða 1912-1920, í Suður-Hvammi 1920-1921.
Hún fluttist til Eyja, var hjá Margréti dóttur sinni í Hlíð 1923, í Ráðagerði 1925, hjá Guðfinnu dóttur sinni á Sléttabóli 1930 og síðan. Hún stundaði fataviðgerðir og ullarvinnu meðan kraftar entust.
Jónína Sigurbjörg lést 1942.

Maður Jónínu Sigurbjargar, (7. janúar 1900), var Stefán Þorkelsson vinnumaður, f. 5. maí 1845, d. 16. nóvember 1900.
Börn þeirra voru:
1. Þórður Stefánsson verkamaður, bókavörður sýslubókasafnsins í Vík, f. 25. júlí 1894 í Barðsnesgerði á Barðsnesi við Norðfjörð, d. 7. apríl 1981.
2. Guðfinna Stefánsdóttir húsfreyja á Sléttabóli, f. 11. október 1895, d. 5. maí 1971.
3. Margrét Stefánsdóttir húsfreyja á Hraunbóli, f. 10. febrúar 1898, d. 18. september 1979.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.is.
  • Manntöl.
  • Prestþjónustubækur.
  • Vestur-Skaftfellingar 1703-1966. Björn Magnússon. Leiftur 1970-1973.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.