Sigurður K. Árnason

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search
Sigurður Kristján Árnason.
Sigurður K. Árnason.

Sigurður Kristján Árnason húsasmíðameistari og listmálari á Seltjarnarnesi fæddist 20. september 1925 að Bergstöðum og lést 11. nóvember 2017.
Foreldrar hans voru Árni Magnússon sjómaður í Eyjum, síðar bóndi á Kröggólfsstöðum í Ölfusi og sjómaður í Þorlákshöfn, f. 26. febrúar 1902 að Steinum u. Eyjafjöllum, d. 1. október 1961 í Þorlákshöfn, og kona hans Helga Sveinsdóttir húsfreyja og bóndi, f. 10. ágúst 1900 í Framnesi á Eyrarbakka, d. 2. ágúst 1974 í Reykjavík.

Börn Helgu og Árna voru:
1. Sigurður Kristján Árnason húsasmíðameistari, listmálari, f. 20. september 1925 á Bergstöðum.
2. Ragnar Guðbjartur Árnason verkamaður í Þorlákshöfn, f. 24. september 1926 á Bergstöðum, d. 31. desember 2004.
3. Magnús Sveinberg Árnason, f. 17. apríl 1929 í Langa-Hvammi, (Magnús Sveinbjörn, f. 24. apríl, segir Magnea systir hans), d. 16. febrúar 1930.
4. Magnea Sveinbjörg Árnadóttir húsfreyja, ættfræðingur, f. 12. september 1930 í Skálanesi.
5. Sigrún Árnadóttir öryrki, f. 25. janúar 1932 í Varmadal, d. 15. janúar 2004.
6. Jónína Helga Árnadóttir húsfreyja, f. 7. ágúst 1935 á Hásteinsvegi 17, d. 7. desember 2009.
7. Ragnhildur Árnadóttir húsfreyja, sjúkraliði, f. 6. ágúst 1938 í Reykjavík, d. 14. janúar 2013.

Sigurður Kristján var með foreldrum sínum í æsku, var með þeim á Bergstöðum, í Langa-Hvammi 1929, í Skálanesi 1930, á Skólavegi 24, (Varmadal) í lok ársins og enn 1934, á Hásteinsvegi 17 (Fjósinu) 1935.
Fjölskyldan fluttist til Reykjavíkur 1937, en að Kröggólfsstöðum í Ölfusi 1942.
Sigurður fór til náms í húsasmíði í Reykjavík í lok stríðsins og lauk námi í húsasmíðum 1949.
Hann var m.a. yfirsmiður við byggingu Bændahallarinnar í Reykjavík.
Árni faðir Sigurðar var listhagur og hafði mikil áhrif á listsköpun hans í æsku. Magnús Jónsson (Grjót-Mangi) afi hans var listamaður við steinhleðslur í Eyjum, en mest af hans verkum, einkum við Skansinn, lentu undir hrauni í Gosinu 1973.
Sigurður hefur stundað myndlist af mikilli nautn. Hann nam við Myndlistarskólann í Reykjavík og í Myndlista-og handíðaskólanum. Hann hefur birt verk sín á fjölda sýninga, bæði heima og erlendis, m.a. í Bogasal Þjóðminjasafnsins, Gallerí Borg, á Kjarvalsstöðum, í Danmörku og Þýskalandi, í Eyjum 1996 með sýningunni ,,Dagar lita og tóna“. Hann var sæmdur gullmedalíu Academia Italia delle Arti e Lavoro 4. mars 1980.
Sigurður tók saman, ásamt Gunnari Dal, bókina ,,Íslenskir myndlistarmenn - Stofnfélagar Myndlistarfélagsins“ og gaf hana út 1998.

I. Barnsmóðir Sigurðar Kristjáns var Ragnheiður Björnsdóttir, f. 25. júní 1933, d. 2. mars 2004.
Barn þeirra var
1. Guðný Sólveig Sigurðardóttir húsfreyja og bóndi í Veisuseli í Fnjóskadal, f. 27. mars 1952, d. 6. apríl 2007. Maður hennar var Gunnlaugur Friðrik Lúthersson bóndi.

II. Kona Sigurðar Kristjáns, (12. júní 1956), er Vilborg Vigfúsdóttir húsfreyja, gjaldkeri, frá Húsatóftum á Skeiðum, f. 9. nóvember 1929. Foreldrar hennar voru Þórunn Jónsdóttir húsfreyja, bóndi, f. 28. september 1905, d. 13. janúar 2001, og Vigfús Þorsteinsson bóndi, símstöðvarstjóri, f. 14. ágúst 1894, d. 3. febrúar 1974.
Börn þeirra:
1. Þór Sigurðsson húsasmiður, f. 28. júlí 1954. Kona hans er Birna Elísabet Óskarsdóttir húsfreyja, skifstofumaður.
2. Árni Sigurðsson húsasmiður, jarðeðlisfræðingur, veðurfræðingur, f. 30. nóvember 1955. Fyrri kona hans var Sesselja Þóra Sigurðardóttir húsfreyja. Síðari kona hans er Kristín Björg Guðmundsdóttir húsfreyja, dýralæknir.
3. Sigríður Sigurðardóttir húsfreyja, leikskólakennari, f. 16. september 1958. Maður hennar var Daniel Pollock hljómlistarmaður.
4. Geir Sigurðsson húsasmíðameistari, sjómaður, öryggisvörður, f. 13. febrúar 1960. Kona hans var Aðalheiður Sveinbjörnsdóttir húsfreyja.
5. Örn Sigurðsson kerfisfræðingur, f. 31. október 1964, d. 2. september 2017. Kona hans var Jelena Kuzminova húsfreyja.
6. Helga Sigurðardóttir, f. 4. september 1966, d. 14. september 1969.
7. Helgi Sigurðsson tölvufræðingur í Vestmannaeyjum, f. 6. október 1970. Kona hans er Evelyn Consuelo Brynner kennari, f. 30. mars 1968.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.is.
  • Íslenskir Myndlistarmenn - Stofnfélagar Myndlistarfélagsins. Tekið hafa saman Gunnar Dal og Sigurður K. Árnason. Útg. Sigurður K. Árnason ehf. Reykjavík. Prentsmiðjan Oddi hf.
  • Magnea Sveinbjörg Árnadóttir. Valdaætt, í handriti. 1992.
  • Manntöl
  • Prestþjónustubækur.
  • Sigurður K. Árnason og Vilborg Vigfúsdóttir.
  • Ölfusingar - búendatal Ölfushrepps 1703-1980. Eiríkur Einarsson. Reykjavík. Sögusteinn 1985.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.