Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1951/Minnismerkið

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search
Minnismerkið

Minnismerki drukknaðra sjómanna og manna hrapaðra í björgum er nú eftir 16 ár, frá því að Páll Oddgeirsson ber fyrst upp hugmyndina, komið það langt á veg, að ef ekki hamla fjárráð, verður merkið reist og afhjúpað í sumar.
Eins og kunnugt er hafa allmargar hugmyndir komizt á kreik um gerð merkisins, en endanleg niðurstaða varð sjómannastytta sem hr. Guðmundur Einarsson frá Miðdal hefir gert.
Styttan er af glæsilegum sjómanni í „embættisskrúða“, það er að segja í stígvélum og stakki með tilheyrandi sjóhatt.
Aldur virðist vera í blóma lífsins eins og vera ber, þegar minnst skal þeirra, sem falla í starfi.
Það fer vel á því, að fyrsta standmyndin sem hér í Eyjum verður reist, skuli einmitt vera af sjómanni, því án þeirra væru hér aðeins nokkrir kotbændur með fjölskyldur sínar, og flestir sem látið hafa lífið í björgum við eggja eða fuglatekju munu hafa verið sjómenn.
Eyjabúar, nú er síðasta ástakið eftir, að koma þessu máli sómasamlega í höfn.
Enn vantar nokkra fjárhæð til framkvæmdanna, sem ekki má bregðast að fáist, svo hægt verði að afhjúpa merkið í sumar.

Vestmannaeyingur.