Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1960/ Þótt einhver verði ýtingin, - er óviss lendingin

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search
RUNÓLFUR JÓHANNSSON:

Þótt einhver verði ýtingin, er óviss lendingin

Þessi vísnastef Fornólfs komu mér í hug sem yfirskrift á eftirfarandi frásögn.
Höfundur þeirra á að sjálfsögðu við áraskipin, en þó sérstaklega, að ég hygg, beinist hugur hans að hinni brimasömu og vályndu strönd Skaftafellssýslna, þótt kveðnar séu í annarri merkingu.
Með tilkomu vélanna lögðu áraskipin árar í bát, en hætta og vos, sem þeim fylgdi að jafni, læddist yfir á vélbátana illu heilli og lét allmikið til sín taka á gelgjuskeiði þeirra.
Enn á ný má segja, að öldin sé önnur í þessu tilliti, svo ört fleygir tækninni fram. Með hverri nýrri fleytu fljóta vonir, þær vonir fyrst og fremst, að öryggi sjómannsins sé tryggt.
Læt ég svo þessu spjalli lokið, og hefst nú frásögnin.

Í útdrætti á m/b Ingólfi, V.E. 216 14.febrúar 1931.

Almennt var ekki róið á tímanum þennan morgun, veðurspáin var vond, eða stormfrétt, eins og slíkar veðurspár voru þá kallaðar.
Við fórum nærri birtingu, vildum sjá til, hvort veðrið breyttist, en logn var á og mjög dimmt í lofti.
Stefnan var tekin sunnan við Bjarnarey og ferðin huguð eitthvað austur á bóginn. Venja flestra var að fara stutt í útdrættinum.
Þegar við vorum komnir austur undir eyna, tókum við eftir sel stafn fram, og þóttu okkur hreyfingar hans sérkennilegar, hann strókaði sig upp fyrir máka, hentist svo til hliðar með busli og látum.

Unnið við hvalskurð á bryggju hér í Eyjum sumarið 1958.- Ljósm.: Sigurgeir Jónasson

Einhver okkar hafði orð á, að svona nokkuð hefði eldri mönnum ekki fallið í geð, og talið til óheilla í ferðinni. Sjálfir höfðum við ekki trú á slíku og hlógum aðeins að slíku hindurvitni, einu af mörgum, sem við kölluðum.
Eftir klukkutíma keyrslu var línan lögð, og lögð í sömu stefnu, ekkert sérstakt hafði frekar borið til tíðinda, og veðrið hélzt óbreytt.
Við vorum nýbyrjaðir að draga, er tók að hvessa á SV og fylgdi þar með svarta bylur. Okkur gekk þó vel að draga, höfðum línuna aðeins til hlés og andæfðum uppí. Við höfðum lokið drættinum um tvöleytið, enda línan ekki löng, a. m. k. eftir nútíðarmælikvarða.
Var nú gengið sem bezt frá öllu og haldið í áttina. Veðrið harðnaði jafnt og þétt og sást ekki út fyrir borðstokkinn að heita mátti fyrir hríðinni.
Fljótlega kom að því, að lensidælan hafði ekki við, og varð nú að ganga í og dæla með dekkdælunni. Dælt var hvíldarlítið að heita mátti alla heimleiðina, og var það erfitt verk með þeim dæluútbúnaði, sem á bátnum var, eða pokapumpu, en þær voru þá notaðar á mörgum bátum.
Eftir sex tíma fór aðeins að grisja í hríðina við og við. Við sáum grilla í Bjarnarey, og vorum á réttri leið. Þegar heim fyrir eyna kom, stöðvaðist vélin, jós á sig, því ekki hafðist við að dæla. Sögðust piltarnir nú uppgefnir og ekki geta meira. Mér fannst þetta engin furða, og þó að fyrr hefði verið. Ég bað þá nú samt að reyna að þurrka úr bátnum, svo að hægt yrði að setja vélina í gang, og þyrfti nú skjót handtök, því að okkur ræki að eynni. Ég sagðist svo lofa þeim hvíld á eftir, ef þetta tækist, á það mættu þeir reiða sig.
Þeir fóru nú að dæla, og drógu ekki af sér, og mátti furðulegt heita, hvað þeim gekk það vel, eins þreyttir og hraktir sem þeir voru, og að sjálfsögðu blautir inn að skinni.
Á meðan þessu fór fram, var reynt að kveikja bál og blússa, því að þetta leit alls ekki sem bezt út.
Ekki tókst okkur að kveikja í, þó rennbleytt væri með steinolíu. Allt sem við gripum til var svo rennblautt. Við máttum heldur ekki mikinn tíma missa, og hættum fljótlega við þær tilraunir.

Hvalur rekinn á land í Vestmannaeyjum 6. ágúst 1958. Ljósm.: Sigurgeir Jónasson.
Þeir reistu syðsta vita landsins á Geirfuglaskeri.

Nú var búið að dæla svo úr bátnum, að vélin komst í gang, og við gátum dregið okkur frá eynni. Ég bað nú piltana að fara úr kápunum og niður í vélarhús. Tveir skyldu koma sér fyrir beggja vegna við kasthjólið, halda svo kápunum yfir því og freista þess, að austurinn rynni út frá því, en ekki yfir vélina. Einn skyldi vera við koplingarhjólið aftan við vélina og fara eins að. Mótoristann bað ég svo að smyrja óspart. Þeir gerðu nú þetta án nokkurra athugasemda, komu sér sem bezt fyrir, eftir því sem föng voru á, og komu ekki upp, fyrr en hægt var á við bryggjuna, og var þá klukkan 9.
Þetta, sem hér átti sér stað, var að segja mætti örþrifaráð, en þar sem stutt var heim, og veðrið tekið að lægja, átti það að geta heppnazt, sem það og gerði.
Við hófðum nú verið sjö tíma heim og komizt rúma sjómílu á klukkustund, og var þó báturinn talinn með þeim gangbetri hér á þeim árum.
Þegar við höfðum tal af mönnum, var okkur sagt, að á tímabili hefði veðrið verið það hvasst, að óstætt hefði verið í mestu hviðunum, ekki hefði orðið tjón á mönnum og allir komnir að, og værum við þeir síðustu.
En innanhafnar skeði það, að tveim bátum hvolfdi, þar sem þeir lágu við festar sínar. Voru það þessir bátar: m/b Skuld VE 163 og m/b Ester VE 208, sjö og níu lesta bátar. Munu þeir hafa snúizt niður á festunum, kentrað sem kallað var, og var sagt, að annar þeirra hefði næstum tekizt á loft um leið og honum hvolfdi.
Það er gott að koma heim að lokinni votri og vondri sjóferð, heim til sín og sinna. Og þegar ég svo í þetta skipti varð þess var, að fleiri voru mættir af velvildarfóiki en venjulegt var þó ég kæmi af sjó, var sem ég fyrst skynjaði í alvöru, að í sjóferðinni hefði víst litlu munað, að allt fór sem fór.
Það, að ég fór að ryfja upp þessa fyrstu sjóferð okkar vertíðina 1931, var ekki beinlínis af því, að hún væri svo mjög frábrugðin öðrum slíkum. Það var svo algengt að lenda í ýmiss konar hrakningum, á einn og annan hátt, á meðan bátarnir enn voru litlir og verr búnir að ýmsu leyti en nú tíðkast.
En það var þetta með selinn, sem í byrjun ferðarinnar setti sig fyrir stafn, það var sem hann vildi með tilburðum sínum aðvara okkur og jafnvel segja hingað og ekki lengra. Eða var þetta kannske allt tilviljun, og einnig það að þetta átti sér stað á sama svæði og okkur rak í mestan vanda í ferðinni. Við köllum selinn og önnur dýr til lands og sjávar skynlausar skepnur og álítum, að okkar sé allt, sem heitir skynsemi, en ég held, að hér megum við fara varlega.
Allir þeir, sem eitthvað hafa stundað sjó, komust varla hjá að veita því svo oft athygli, að lífverurnar. sem urðu á vegi þeirra, vissu sínu viti, og meira en það, skynjuðu ókomna hluti, og nær er mér að halda, að eitthvað slíkt hafi átt sér stað í það skipti, sem hér um ræðir.