Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1960/ Þegar mb. Farsæll og mb. Ísland fórust

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search
JÓN SIGURÐSSON

Þegar mb. Farsæll og mb. Ísland fórust

M/b „FARSÆLL“
Árið 1908 voru vélbátar í Vestmannaeyjum orðnir yfir 30 talsins. Svo ört hafði þeim fjölgað, frá því að vélbátar fóru að koma hingað til lands. Allir voru þessir bátar um 7 smálestir að stærð og höfðu 8 hestafla vélar. Heldur þóttu þessir bátar litlir til sjósóknar og ganghraði þeirra lítill, svo að menn fóru að fá sér bæði stærri og gangmeiri báta.
Haustið 1908 keyptu þeir sér vélbát, Högni Sigurðsson í Baldurshaga, Jón Einarsson í Hrauni. Magnús Ísleifsson í London. Ágúst Arnason í Baldurshaga og Helgi Jónsson í Jaðri. Átti Helgi að vera formaður með bátinn. Helgi var sonur Jóns dannebrogsmanns, Árnasonar í Þorlákshöfn. Þessi bátur þeirra félaga hét „Farsæll“ VE 134. Hann var um 8 smálestir að stærð og óvenju gangmikill, enda hafði hann tveggja strokka Dan-vél.
Helgi var með „Farsæl“ tvær vertíðir, þ.e.a.s. vertíðirnar 1909 og 1910, og gengu aflabrögð illa hjá honum báðar þessar vertíðir.
Um vorið 1910 kom millilandaskipið „Ceres“ til Vestmannaeyja og lagðist á ytri höfnina. Vélbáturinn „Gústaf“ annaðist flutninga milli skips og lands. Margt manna fór um borð i „Ceres“, svo sem títt var þegar millilandaskip komu. Meðal þeirra, sem fóru um borð, var Helgi Jónsson, og var hann þá klæddur sínum venjulegu hversdagsfötum. Um kvöldið, þegar „Ceres“ fór af höfninni, fóru allir, sem í land ætluðu, niður í „Gústaf“, sem skyldi flytja fólkið í land. En er „Ceres“ létti akkerum sáu þeir á „Gústaf“ hvar Helgi stóð uppi á brúarvæng á „Ceres“. Hafði hann skipt um föt og stóð þarna „uppábúinn“. Siðan lét „Ceres“ í haf, og sigldi Helgi með skipinu til Englands. Það var ekki fyrr en löngu seinna, að fréttir bárust um það, að Helgi væri í Glasgow.
Eigendur „Farsæls“ vildu nú fá afsal fyrir eignarhluta Helga í bátnum og skrifuðu honum bréf þar um. Hann svaraði þeim með þessu stutta og laggóða bréfi: „Farið þið með allt til andskotans.“ Önnur svör fengu þeir ekki við málaleitan sinni.
Eigi að síður seldu eigendur „Farsæls“ eignarhluta Helga, og var kaupandinn Sigurður Einarsson frá Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum, og var jafnframt ákveðið, að hann skyldi verða vélamaður á bátnum. Átti Sigurður heima í Hrauni, hjá Jóni Einarssyni.
Nú vantaði formann fyrir „Farsæl“. Fengu þeir til þess Bergstein Bergsteinsson á Tjörnum. Var hann með bátinn á vertíðinni 1911 og aflaði svo vel, að „Farsæll“ varð hæstur allra báta með aflamagn. Var nú Bergsteinn ráðinn áfram til formennsku á bátnum vertíðina 1912.
Hinn 27. desember 1911 var bezta veður og talinn sandadauður sjór. Fór „Farsæll“ þá upp að Fjallasandi þeirra erinda að sækja Bergstein formann og tvo háseta hans, þá Kristján Ólafsson í ]Eyvindarholti og Júlíus Einarsson í Stóru-Mörk. Var vélstjórinn Sigurður Einarsson formaður í þessari ferð.

Farsæll VE. 134. Teikning: J. Sig.

Lagt var af stað í blíðviðri, og gekk ferðin vel austur að Fjallasandi, að öðru leyti en því, að vélin stöðvaðist einu sinni á leiðinni. Tókst fljótlega að koma henni í gang aftur, svo að litlar tafir urðu af þessu atviki.
Þegar upp að sandinum kom hafði brimað það mikið, að sjór var orðinn ófær og ekki viðlit að lenda. Margt manna var komið í sandinn og meðal þeirra var Bergsteinn formaður og hásetarnir, sem áður er getið. „Farsæll“ varð nú að snúa frá sandinum aftur án þess að fá þá afgreiðslu þar, sem til var ætlazt. Stefna var nú tekin á Vestmannaeyjar, en þá var tekið að hvessa á suðaustan, og sjór allmjög tekinn að þyngjast. Þegar komið var út undir Elliðaey stöðvaðist vélin. Rak bátinn þá fyrir vindi og sjó. Skipar Sigurður þá svo fyrir, að akkeri skuli látin falla, en þá var „Farsæll“ kominn fast upp undir Elliðaey. Segir Sigurður þá öllum að fara í léttbátinn, en það var jul, sem haft var með í þessari ferð. Fóru nú allir í léttbátinn og réru til Eyja, en Sigurður var eftir um borð í „Farsæl“ til þess að reyna að koma vélinni í gang á ný. Þeir, sem í léttbátnum voru báðu Sigurð að koma með og Iögðu allfast að honum, en hann var ófáanlegur til þess að yfirgefa „Farsæl“.
Ferðin heim til Eyja á julinu gekk vel. Þegar þeir komu að bryggju, var vélbáturinn „Karl“, formaður Magnús Þórðarson í Dal, að koma úr róðri með fullan bát af fiski. Var hann beðinn að fara austur að Elliðaey, og varð Magnús skjótt við þeim tilmælum. Þegar Magnús kom austur fyrir Elliðaey var komið rok og „Farsæll“ kominn upp að eynni, svo nálægt, að ómögulegt var að að hafast nokkuð til björgunar. Varð „Karl‘‘ því að snúa við heim aftur.
Ekki voru eigendur „Farsæls“ ánægðir með þessi málalok og báðu þeir nú Þorstein Jónsson í Laufási að fara og reyna björgun. Þorsteinn var þá á nýjum bát „Unni II“ og fór Þorsteinn með skjögtbát með í ferðina. Einnig báðu þeir Svein Jónsson á Landamótum að fara. Sveinn var þá nýkominn úr róðri. Hann var á nýjum bát eins og Þorsteinn. Bátur sá hét „Sæfari“. Brugðu þeir nú við og héldu austur fyrir Elliðaey, en allt fór á sömu leið. „Farsæll“ var kominn svo nærri eynni, að björgun varð alls ekki við komið, enda kominn stórsjór og rok. Var því snúið heim við svo búið.
Morguninn eftir fór Þorsteinn aftur á slysstaðinn, til þess að freista þess að reyna björgun, enda þótt enn væri mjög vont veður og stórsjór. Var þá ekkert lengur sjáanlegt eftir af „Farsæl“. Urðu þar ævilok Sigurðar Einarssonar og endalok „Farsæls“.
„Farsæll“ var mjög illa búinn til þess að fara þessa ferð. Hafði hann staðið uppi í Hrófunum allt haustið, en var settur ofan þennan morgun. Segl voru óundirslegin og vélin hafði ekki verið reynd að öðru leyti en því, að farin hafði verið ein hringferð innan hafnar.

Unnur VE 150 Teikning: J. Sig.

Þeir, sem með Sigurði fóru í þessa síðustu för hans voru: Páll Einarsson í Nýjabæ undir Eyjafjöllum og stjórnaði hann julinu til Eyja. Sveinn Sigurhansson, nú á Bakkastíg 11 í Vestmannaeyjum, Eyjólfur Jónsson, Syðri-Rotum undir Eyjafjöllum, Kristmundur Jónsson, Hrauni, nú í Skógum í Vestmannaeyjum og Albert Ingvarsson frá Grímsey.
Var Albert mikill skákmaður og fékk eitt sinn viðurkenningu erlendis frá fyrir leikni sína í þeirri íþrótt.
Julið, sem mennirnir fóru á til Eyja, átti Hannes Sigurðsson í Brimhól og hafði hann haft formennsku á því við Fjallasand.
Um nóttina, meðan „Farsæll“ var að berjast við Elliðaey, dreymdi Svein Sigurhansson að Sigurður kæmi til sín og segði við sig: „Það var hart á meðan á þessu stóð.“ Við þessi orð hrökk Sveinn upp af svefninum, og var klukkan þá tvö.
Sigurður Einarsson var fæddur í Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum 11. júlí 1885. Foreldrar hans voru Einar Ólafsson og Katrín Sæmundsdóttir. Ólst Sigurður upp með þeim. Hann var harðduglegur maður og byrjaði að stunda sjó hér í Vestmannaeyjum á unga aldri, fyrst á opnum skipum og síðan á vélbátum, eftir að þeir komu til sögunnar. Hann var smiður góður og einn þeirra, er smíðaði húsið Breiðablik fvrir Gísla J. Johnsen, en það var stórhýsi í þá daga.

M/b „ÍSLAND“
Leið nú fram yfir áramótin 1911 og 1912. Menn áttu í miklum önnum við að standsetja fyrir næstu vertíð. Að mörgu þurfti að huga, bæði viðkomandi bátum og veiðarfærum, svo að allir höfðu nóg að starfa.
Árið 1907 hafði Sigurður Sigurðsson í Frydendal keypt vélbát við sjötta mann. Hét sá bátur „Ísland“. Hafði Sigurður sjálfur formennsku á honum í fimm vertíðir, og var vertíð sú er nú fór í hönd sú sjötta.

Ísland VE 118 Teikning: J. Sig.

Þessa vertíð hafði Hermann Benediktsson, sem nú er látinn fyrir skömmu, ráðizt aðgerðarmaður til Sigurðar, og var þetta ein af fyrstu vertíðum Hermanns í Eyjum. Hermann var þegar kominn til vertíðar og seztur að í Frydendal, þar sem hann skyldi vera til húsa. Oft tóku þeir tal saman við matborðið í Frydendal, Sigurður og Hermann.
Laugardaginn 8. janúar 1912 hóf Sigurður róðra á „Íslandi“. Um klukkan þrjú þann dag kemur Sigurður að landi, og skipa þeir upp afla sínum á lítilli skektu, sem hann hafði að láni. Skjögtbátur hans var til viðgerðar heima við Sandprýði, en hann var stórt fjögurra manna far. Hermann keyrði fiskinn upp í aðgerðarkró á handvagni, svo sem þá tíðkaðist. Stóð króin austan við Formannabraut. Gerði Hermann að aflanum, gekk síðan heim í Frydendal og settist við matborðið hjá Sigurði, þar sem þeir tóku tal saman, svo sem oft áður.
Spyr Hermann þá Sigurð: „Hvernig kom það út hjá þér í dag?“
Sigurður svarar: „Það kom nú engan veginn út. Við fiskuðum heldur lítið og svo var sjóveðrið ekki vel gott. Svo kunni ég ekki vel við bátinn, en hann var nú ballestarlaus. Svo dreymdi mig svo illa í nótt, að ég hélt að ég kæmi ekki meira að landi.“

Sigurður Einarsson formaður, Frydendal, Vestmannaeyjum, fæddur 1. apríl 1869.


Sigurður Sigurðsson formaður, Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum, fæddur 11. júlí 1885.
Einar Halldórsson, Sandprýði, Vestmannaeyjum, fæddur 25. okt. 1866.

„Hvað dreymdi þig?“ spyr Hermann.
„Mig dreymdi, að ég kæmi út í bátinn minn. þar sem hann liggur á höfninni.“ svarar Sigurður. - Sá ég þá, að hann var allur blóðugur utan og innan. En við erum nú komnir heim, og oft er ljótur draumur fyrir litlu efni.“
Daginn eftir. sunnudaginn 9. janúar, var austan stormur og var ekki róið þann dag. Daginn þar á eftir, mánudaginn 10. janúar, var komið austan rok og brim. Var þá mjög ókyrrt orðið í höfninnil, enda voru hafnargarðarnir þá ekki komnir, svo að sjórinn gekk óbrotinn inn alla höfn, og jafnvel alla leið inn í Botn.
Á höfninni lá stórt skip, sem „Norðurljós“ hét. Var það farið að reka, svo að bátunum, sem á höfninni voru, stafaði mikil hætta af því. Klukkan fjögur um daginn kom Einar Halldórsson að Frydendal, en Einar var eini af eigendum að „Íslandi. Einar var mjög aðgætinn og traustur maður. Farið var að bregða birtu er Einar kom að Frydendal. Spyr Einar þá Sigurð, hvort hann ætli ekki að fara út á höfn að bjarga bátnum, því „Norðurljósið“ sé farið að reka og margir formenn þegar farnir út á höfn. Sigurður svarar: „Ég er vanur að kalla mína háseta sjálfur, en úr því þú ert kominn, þá er bezt að þú kallir þá og látir þá koma niður að beituskúr.“ En beituskúrinn stóð sunnan við Strandveginn, móti Geirseyri.
Komu nú allir hásetar Sigurðar niður í beituskúr. svo sem kallið bauð þeim. Klæddust þeir sjóklæðum sínum og sáu menn það síðast til þeirra, að þeir ýttu skektunni á flot úr hrófunum austan við Geirseyri. Var þá alldimmt orðið.
Klukkan fimm heyrðu menn, sem bjuggu í Tangasjóbúðinni, hvað eftir annað köll mikil úti á höfninni. Brugðu þeir skjótt við og settu niður bát í Tangafjörunni. En svo var sjórinn mikill, að bátinn fyllti tvisvar, þegar þeir ætluðu að setja hann á flot. Urðu þeir þá að hætta við að koma honum á flot. Komust mennirnir nú út á Básasker, þar sem þeir fundu brotna skektu og einn látinn mann. Var það vélamaðurinn af „Íslandi“. Vissu þá allir hvað gerzt hafði. Við Edinborgarbryggjuna höfðu drukknað fimm menn. Vélamaðurinn hafði komizt á kjöl skektunnar og rekið með henni vestur að Básaskeri og drukknað þar. Sigurður Sigurðsson var vel syndur.
Þegar líkin fundust morguninn eftir, hélt Einar Halldórsson dauðahaldi um fót Sigurðar.

Magnús Ingimundarsson, Hvoli, Vestmannaeyjum, fæddur 24. apríl 1879.


Guðmundur Guðmundsson, Lambhaga, Vestmannaeyjum, fæddur 10. júlí 1874.
Vilhjálmur Jónsson, Gerðisstekk, Norðfirði, fæddur 28. ágúst 1885.


Daginn eftir fundust lík allra mannanna rekin meðfram Strandveginum. Voru þau öll jarðsett 19. janúar. Þeir, sem drukknuðu, voru: Sigurður Sigurðsson í Frydendal, Einar Halldórsson í Sandprýði, Magnús Ingimundarson í Hvoli, Guðmundur Guðmundsson í Lambhaga, en þessir fjórir menn voru allir meðeigendur að „ÍsIandi“, Vilhjálmur Jónsson frá Norðfirði og Hans Einarsson frá Norðfirði, en það var hann, sem var vélamaðurinn.

Sigurður Sigurðsson var fæddur í Austur-Búðarhólshjáleigu í Landeyjum 1. apríl 1869. Foreldrar hans voru Sigurður Sigurðsson og Sigríður Pétursdóttir, sem þar bjuggu. Hann kom ungur til Vestmannaeyja og tók strax að stunda sjó. Fljótlega gerðist hann formaður á opnu skipi og síðan á vélbát, strax eftir að þeir komu. Hann átti fyrsta vísi að vélbát í Vestmannaeyjum. Var það „Eros“. Hann var einnig formaður á Austfjörðum. Var hann talinn gætinn og góður formaður.
Sigurður bjó með Sigríði Árnadóttur, móður Gísla J. Johnsens og þeirra bræðra. Þau áttu einn son, sem Jóhann hét, og er nú búsettur í Ameríku.
Nú var vélbáturinn „Ísland“ orðinn formannslaus og skipshafnarlaus. Var þá Bergsteinn Bergsteinsson í Tjörnum undir Eyjafjöllum falaður til formennsku fyrir bátinn og tók hann því. Lagði Bergsteinn af stað fótgangandi til Reykjavíkur, því ekki voru þá bílar til að ferðast með. Ætlaði hann svo að fara með skipi til Eyja. Þegar til Reykjavíkur kom brá Bergsteinn sér suður til Hafnarfjarðar til þess að heilsa upp á Guðbjörgu systur sína, sem þar átti heima og býr þar nú á Selvogsgötu 3. Dvaldi hann hjá systur sinni nokkra stund.
Þegar hann kvaddi Guðbjörgu sagði hann: „Þetta er nú í síðasta sinn, sem við sjáumst.“
„Heldur þú það, Bergsteinn minn?“ svarar hún.
„Já, það er áreiðanlegt,“ segir Bergsteinn. „Mig dreymdi áður en ég fór að heiman, að ég væri ríðandi á bleikum hesti fyrir austan Elliðaey við Vestmannaeyjar.“
Síðan kvaddi Bergsteinn og hélt til Vestmannaeyja.

Hans Einarsson vélamaður, Vík, Norðfirði, 25 ára
Bregsteinn Bergsteinsson formaður, Tjörnum, Eyjafjöllum, fæddur 16. október 1877.


Páll Einarsson, Fornusöndum, Eyjafjöllum, fæddur 12. júlí 1891.


Þegar til Eyja kom vantaði alla háseta og beitumenn á „Ísland“. Gekk Bergsteini vel að fá menn, en þó vantaði vélamann. Friðrik Jónsson í Látrum hafði pantað sér nýjan bát fyrir þessa vertíð, en hann var enn ókominn og ekki væntanlegur fyrr en seint í marz. Á þann bát var Ólafur Jónsson í Landamótum ráðinn vélamaður, þegar hann kæmi. Fór Bergsteinn nú til Ólafs og talar hann fyrir vélamann hjá sér. Lofar Ólafur, að hann skuli vera hjá honum, þar til „Íslendingur“, hinn nýi bátur Friðriks, komi.
Byrjaði nú Bergsteinn róðra á „Íslandi“ og gekk allt vel. Sótti hann mikið sjó og kom oft seint að landi, oftast síðasti bátur.

Leið nú fram á seinni hluta marzmánaðar. Kom þá bátur Friðriks, og varð Ólafur þá að fara af „Íslandi“ á þann bát. Um sama leyti brotnaði vélin í vélbátnum „Skarphéðni“, og fékk þá Bergsteinn vélamanninn af honum. Var það Sigbjörn Davíðsson frá Norðfirði.
Gekk nú allt sinn vanagang, og líður svo fram til 11. apríl. Hitti þá Bjarni Eiríksson frá Ásólfsskála undir Eyjafjöllum Bergstein að máli og talast eftir að fá að róa með honum næsta dag, því Bjarni „gekk með skipum“, eins og kallað var. Tók Bjarni það fram, að þetta yrði ekki nema þennan róður, því hann ætlaði til Stefáns Þórðarsonar, sem þá var formaður með „Jóhönnu“. Bergsteinn sagði Bjarna, að þetta væri velkomið.
Klukkan tvö þennan dag, 12. apríl, kallar Bergsteinn skipshöfn sína. Var þá farið að róa á kvöldin og legið úti yfir nóttina og komið að landi morguninn eftir. Klukkan þrjú lagði „Ísland“ af stað út úr höfninni. Þegar Bergsteinn fór út úr höfninni voru drengir að leika sér á bát út af Austurbúðarbryggju. Sagði Bergsteinn þeim að fara í land og eru það síðustu orðin, sem fólk í landi heyrði Bergstein mæla áður en hann fór í þennan róður.
Það sást til bátsins, að hann hélt austur á milli eyja, þ.e.a.s. Elliðaeyjar og Bjarnareyjar. Veður var þá hið bezta, logn og blíða, hélzt svo allan daginn, alla næstu nótt og allan næsta dag, en þó grúfði myrk þoka yfir legi og landi.
Ekki kom „Ísland“ að landi daginn eftir. Þó var ekki óttazt um bátinn, bæði vegna þess hve veðrið var gott, og svo líka vegna hins, að eins og áður er sagt, sótti Bergsteinn mikið sjó og kom yfirleitt með síðustu bátum að landi. Var því ekki hafin leit að bátnum, eins og ef til vill hefði annars orðið.
Ekki var „Ísland“ enn komið að landi að kvöldi næsta dags. En um klukkan tólf þá nótt gerði versta veður á suðvestan með brimi.

Páll Pálsson, Hrísnesi, Skaftártungu, 22. ára
Bjarni Eiriksson, Ásólfsskála, Eyjafjöllum, fæddur 15. ágúst 1884
Sigurbjörn Davíðsson, vélamaður, Norðfirði, 35. ára

Af „Íslandi“ hefur ekkert spurzt síðan báturinn lagði upp í þennan róður, að öðru leyti en því, að löngu seinna rak eitt bjóð frá bátnum vestur á Torfmýri.
Mörgum getum var að því leitt, hver orðið hefðu afdrif „Íslands“. Sumir álitu að þeir hefðu villzt í þokunni, en aðrir álitu, að leki hefði komið að bátnum. En hvort tveggja er ágizkun ein.
Fórust þarna aðrir sex menn, sem störfuðu við þennan sama bát, á þessari sömu vertíð. Voru það þessir: Bergsteinn Bergsteinsson frá Tjörnum undir Eyjafjöllum, Páll Einarsson frá Fornusöndum undir Eyjafjöllum, Páll Pálsson frá Hrísnesi í Skaftártungu, Bjarni Eiríksson frá Ásólfsskála undir Eyjafjöllum, Guðmundur Eyjólfsson. var fæddur á Stórahrauni á Eyrarbakka, en ólst upp á ýmsum bæjum í Arnessýslu, og Sigbjörn Davíðsson frá Norðfirði, en hann var vélamaður, eins og fyrr er sagt.
Er Bergsteinn tók við formennsku á „Íslandi“, fékk hann beituskúr „Farsæls“ til afnota fyrir „Ísland“. Var beituskúr þessi á svonefndum Pöllum. Árið 1916 fórst þriðji báturinn, sem hafði fengið þennan sama skúr til afnota. Eftir það var hann lagður niður sem beituskúr.
Bergsteinn Bergsteinsson var fæddur að Tjörnum undir Eyjafjöllum 16. október 1877. Foreldrar hans voru Bergsteinn Einarsson og Anna Þorleifsdóttir. Ólst Bergsteinn upp með foreldrum sínum ásamt stórum systkinahóp.
Bergsteinn hóf snemma að stunda sjómennsku, fyrst undan Fjallasandi og síðan frá Vestmannaeyjum á vertíðarskipinu „Ísak“. Þegar vélbátarnir komu til sögunnar, hóf hann strax að stunda sjómennsku á þeim. Hann var mesti dugnaðarmaður, kappsamur og fylginn sér við öll störf. Kona hans var Sigríður Tómasdóttir. Börn þeirra eru Bergsteinn, núverandi fiskmatsstjóri, og Sigríður, sem búsett er á Eyrarbakka.
Það hefur ekki tekizt að fá mynd af Guðmundi Eyjólfssyni. En hann var Árnesingur að ætt og uppruna. eins og áður er getið, og getur Guðni prófessor Jónsson hans í bók sinni Bergsætt á blaðsíðu 351.
Einnig var hann nákominn ættingi þeirra Gamlahraunsbræðra. Ég hef reynt að lýsa þessu mikla slysi og bið lesendur velvilunar á því sem hér hefur verið lýst.