Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1961/ Atvinnuhættir og breytt viðhorf

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Stökkva á: flakk, leita
GUÐLAUGUR GÍSLASON:

Atvinnuhættir og breytt viðhorf

Frá fyrstu tíð hafa þeir, sem hér búa, verið háðir sjónum með afkomu sína og þeim afla, sem þangað hefur verið sóttur.
Meðan handfæri voru eingöngu notuð, var afkoma manna vægast sagt mjög léleg og óviss, og herma gamlar heimildir, að oft hafi legið við beinu hungri, ef veður hamlaði sjósókn á vetrarvertíð eða afli á handfærin brást, eins og oft virðist hafa verið, og það stundum nokkur ár í röð. Með komu vélbátanna og eftir að farið var að stunda veiðar með línu gjörbreyttist afkoma manna til batnaðar og má segja, að gróska hafi færzt í allt atvinnu- og athafnalíf í bænum, enda óx bærinn hröðum skrefum og fólki fjölgaði strax með tilkomu vélbátanna, og hélt svo áfram um áratugabil eftir því sem flotinn stækkaði.

Þorskanetaveiðar
Um miðjan annan tug þessarar aldar hófust hér veiðar í þorskanet. Má segja, að síðan hafi hér aldrei, fram að þessu ári, verið aflabrestur, þó að heildarafli á vetrarvertíð hafi að sjálfsögðu verið misjafn.
Ef litið er aðeins 10 ár aftur í tímann, sést, að heildarafli frá 1. marz til vertíðarloka, eða þann tíma, sem veiðar eru að mestu stundaðar með netum, hefur nær þrefaldazt frá árinu 1949 til ársins 1959, en það ár barst hér á land meiri afli á þessu tímabili en nokkurn tímann hefur átt sér stað fyrr eða síðar, eða um 52 þúsund tonn, miðað við óslægðan fisk.
Árið 1949 var heildaraflinn þetta sama tímabil tæplega 18 þúsund tonn. Er í báðum tilfellum gengið út frá heildarlifrarinnleggi og reiknað með, að lifrin sé 7% af aflamagninu, miðað við óslægðan fisk. Það alvarlega við þessa aukningu á aflamagninu yfir netaveiðitímann er það, að allt bendir til þess, að hún stafi einvörðungu af aukinni tækni við veiðarnar, stækkun bátaflotans og betri búnaði hans, en ekki af auknu fiskmagni í sjónum. Virðist verða á þessu stökkbreyting eftir að farið er að nota nælonnet einvörðungu.

Fer hér á eftir skýrsla um heildarlifrar- og aflamagn á tímabilinu 1. marz til vertíðarloka árin 1949 til 1959:

1949 lifrarmagn 1243 tonn, aflam. 17.760 tonn

1950 — 1399 — — 19.985 —
1951 — 1344 — — 19.200 —
1952 — 2157 — — 30.800 —
1953 — 1939 — — 27.700 —
1954 — 2358 — — 33.250 —
1955 — 2634 — — 37.600 —
1956 — 2502 — — 35.750 —
1957 — 2816 — — 40.200 —
1958 — 3138 — — 44.800 —
1959 — 3679 — — 52.560 —

Minnkandi aflamagn
Mjög eru um það skiptar skoðanir, hvort veiðar með þorskanetum og þá sérstaklega veiðar með nælonnetum skaði eða eyði þeim veiðisvæðum, sem netin eru lögð á. Ég hef heyrt ótta hjá mörgum eldri sjómönnum um, að svo sé. Hinsvegar telja fiskifræðingar, eftir því sem ég bezt veit, að náttúruöflin sjálf séu svo mikils ráðandi í sambandi við það, hvernig klak fiskjarins tekst til og hvað mikið af ungviðinu kemst til lífs, að veiðar bátaflotans með þeim tækjum, sem nú eru notuð, hafi þar engin úrslitaáhrif.
Sannleikurinn mun sá, að þetta undirstöðuatriði undir veiðum bátaflotans mun enn svo lítið rannsakað, að hrein óvissa ríkir um, hvað veldur hinu minnkandi aflamagni á veiðisvæðinu allt frá Þorlákshöfn að Hornafirði.
Vonandi er hér um tímabundið bil að ræða, en fyrir Vestmannaeyinga er það bæði skylt og sjálfsagt að gefa því fullan gaum.

Tveir fullorðnir formenn í Eyjum

Sú staðreynd liggur fyrir, að heildaraflamagn á tímabilinu 1. marz til vertíðarloka hefur stórminnkað tvær undanfarnar vertíðir.
Árið 1960 var aflamagnið á þessu tímabili um 39 þúsund tonn, en aðeins um 20 þúsund tonn árið 1961, eða tæplega 2/5 hlutar þess, sem það var árið 1959 og að heita má það sama og það var árið 1949, fyrir 13 árum, þrátt fyrir stóraukna afkastagetu bátaflotans og stóraukna veiðitækni á öllum sviðum.
Við hljótum að vona, að hér sé aðeins um aflabrest þessa einu vertíð að ræða, sem ekki endurtaki sig. En við hvorki getum né megum loka augunum fyrir þeim staðreyndum, sem að öðru leyti liggja fyrir í þessu sambandi.

Útfærsla grunnlínunnar — verndun hrygningarsvæða
Árið 1957 gerði Skipstjóra- og stýrimannafélagið Verðandi hér ályktun um útfærslu grunnlínunnar úr Geirfuglaskeri í Eldeyjardrang og jafnhliða um friðun hrygningarsvæða hér vestan við Eyjar.
Ályktun þessi var send bæjarstjórn, sem áframsendi hana þáverandi sjávarútvegsmálaráðherra. Einnig mun hún hafa verið lögð fram á fundi, sem ráðherrann hélt þá með útvegsmönnum og sjómönnum víðsvegar að um landhelgismálið.
Ég tel þessa ályktun bæði tímabæra og skynsamlega og ekki áhorfsmál, að hún verði nú tekin til athugunar, þegar útfærsla grunnlínunnar er orðin að veruleika, og miklar líkur benda til þess, að um ofveiði á hrygningarsvæðunum sé að ræða.
Hvort slíkar aðgerðir koma til með að bera þann árangur, sem til er ætlazt, er erfitt um að segja.
Reynslan verður að skera úr um það, þegar þar að kemur.

Fjölbreytt fiskimið — miklir möguleikar
Þó að ég hafi vakið máls á hinu minnkandi aflamagni undanfarnar tvær vertíðir, er það vissulega ekki af neinum ótta um framtíð byggðarlagsins. Heldur er það vegna þess, að ég tel nauðsynlegt og heilbrigt, að menn geri sér viðhorfið ljóst, eins og það liggur fyrir á hverjum tíma, hvort heldur það er manni hagstætt eða ekki.
Það er bjargföst sannfæring mín, að svo lengi sem útgerð vélbáta verður ein af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar, verði hagstæðara að gera út frá Vestmannaeyjum en víðast hvar annars staðar. Kringum Eyjarnar eru einhver fjölbreyttustu fiskimið, sem finnast við strendur landsins, og hráefni í sumum tilfellum betra og verðmeira en annars staðar er. Sú tíð er liðin, að bátaflotinn byggði alla afkomu sína á vetrarvertíðinni einni og einhæfri saltfiskframleiðslu, sem háð var stórfelldum verðsveiflum í markaðslöndum, þannig að hvorki útgerðarmenn eða sjómenn gátu nokkuð vitað um verðmæti afla síns fyrr en allt var selt og af hendi látið.
Eftir að farið var að hraðfrysta mikinn hluta fiskjarins hefur skapazt meira öryggi um afkomu sjómanna og útgerðarinnar. Og með meiri vöruvöndun og enn frekari nýtingu aflans og lengra úthaldi flotans utan vetrarvertíðar við síldveiðar, dragnóta- og humarveiðar ætti afkoma bátanna og þeirra sjómanna, sem á þeim eru, að verða öruggari.
Allt eru þetta möguleikar, sem fullnota verður.
Breytt viðhorf hlýtur að skapa breytta atvinnuhætti og fullnýtingu allra þeirra möguleika, sem fyrir hendi eru.

Ég vil óska sjómönnum til hamingju með daginn og góðrar afkomu í framtíðinni.