Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1961/ Björgun „Elísabetar”

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search
EINAR SIGURFINNSSON:

Björgun „ELÍSABETAR“

Skömmu fyrir jól árið 1920 strandaði á Meðallandsfjörum dönsk skonnorta. Byggð úr eik, mjög nýleg. Þrísigld var hún með seglaútbúnaði og hjálparvél. Skipverjar voru 7. Allir komust þeir slysalaust á land og óskemmdir en þreyttir og þjakaðir komust þeir til bæja þar sem þeir fengu hjúkrun og næringu eftir því sem hægt var. Þeir hresstust furðu fljótt og voru að nokkrum dögum liðnum fluttir á hestum til Reykjavíkur.
Skipið hafði strandað um háflóð og rekið svo hátt upp að þurrt var að því um fjöruna og enginn sjór var kominn í það. Nafn þess var „Elísabet“. Farmurinn var timbur. Lestir fullar af hefluðum og plægðum við, en plankar og óhefluð borð á þilfari, skorðað enda á milli jafnhátt borðstokkum eða vel það. Ekki var hreyft við neinu fyrst um sinn. Ekki fyrr en fyrirskipanir kæmu frá eigendum eða umboðsmönnum þeirra. Liðu svo nokkrir dagar.
Þá var hafizt handa og tekið á land allt sem ofan dekks var, farmur, segl, kaðlar og annað lauslegt, frá þessu var gengið svo vel sem hægt var þar sem lítil hætta var að sjór gæti náð til þess. Lestum skipsins var vandlega lokað svo og káetu- og lúkarsdyrum. Svo leið og beið.
Þegar kom fram á næsta vor, sást að gufuskip hélt kyrru fyrir útaf staðnum þar sem Elísabet lá. Var farið að grennslast eftir hverju þetta sætti. Þarna var þá komið björgunarskipið „Geir“ og menn af því komnir á land og kváðust ætla að reyna að ná þessu strandaða skipi á flot. „Geir“ var danskt skip en var hér við land við björgunarstörf nokkur ár. Skipverjar voru danskir. Þarna voru komnir á land: Wittrup skipstjóri og nokkrir af skipshöfn „Geirs“ með honum ásamt 4 verkamönnum úr Reykjavík. Hann bað um að útvegaðir væru a. m. k. 4 menn til viðbótar og fengust þeir fljótlega. Auðséð var að þarna var mikið verk fyrir hendi. „Elísabet“ lá því nær sandkafin og nú orðin það fjarri sjó að 50-70 m. voru að háflæðarmáli. Svo hafði ströndin gengið fram frá því um veturinn. Framstafn sneri í vestur og sandurinn var jafnhár þilfarinu sjávarmegin, en hinumegin var um mannhæð upp að þilfari. Nú var tekið að losa farminn. Timbrið var tekið upp úr lestinni og fært upp á sandinn. Þetta var mikið af panel og gólfborðum mismunandi lengdir og breiddir. Margar dívangrindur voru þar líka o. fl.

Frá björgun Elísabetar.

Þegar búið var að losa skipið við farminn var farið að moka frá því sandinum, var það mikið verk og erfitt því ekki var um önnur verkfæri að ræða en skóflur og hjólbörur. „Geir“ lá úti fyrir, skipstjóri hans Wittrup stjórnaði vinnunni, auk hans voru Petersen kafari og undirverkstjóri, Sörensen timburmeistari, Larsen vélstjóri og Jensen matreiðslumaður. Þessir voru allir danskir. Liprir í umgengni og góðir viðskiptis.
Menn bjuggu í skipinu og eldhús þess var notað til matreiðslu. Við Meðallendingarnir höfðum nesti að heiman - skrínukost.
Veðrátta var góð og verkið gekk vel eftir atvikum, en mikinn sand þurfti að færa til þar til loksins að búið var að grafa svo allt um kring að kjölurinn kom í ljós. Öflugar skorður voru settar við skipssíðurnar svo ekki hallaðist. Og nú voru grafnar holur undir kjölinn. Þar var komið fyrir „dúnkraftvélum“ er stóðu á sterkum flekum er smíðaðir voru úr plönkum.
Hægt og hægt lyftist „Elísabet“ upp og undir kjölinn milli „dúnkraftanna“ var hlaðið plankabútum og fleygar reknir með þungum sleggjum ef einhvers staðar kom bil undir kjölinn. Jafnframt var sandinum mokað ofan í gryfjuna svo hún fylltist smátt og smátt. Loks var skipið komið upp úr sandinum, slysa- og óhappalaust og stóð þar á réttum kili á sterkum eikarplönkum.
Nú var það næsta að jafna sandinn frá skipskjölnum og niður að flæðarmáli. Þetta var gjört mjög vandlega svo hvergi væri hæð né lægð eða hliðarhalli. Að því loknu var smíðuð einskonar dráttarbraut - „sliskjur“ kölluðu þeir dönsku það -. Þetta voru sterkir hlerar eða flekar og ofan á lagðir eikarplankar. Þeir voru vandlega smurðir með fitu og sápu eða einhverju slíku.

Skipbrotsmenn af togaranum Marie Jose Rosetti, sem björgunarsveit Vestmannaeyja bjargaði.

Nú voru 4 „dúnkraftvélar“ látnar liggja á hliðinni og skorðaðar rammlega við kjölinn og svo var skrúfað og skrúfað og hægt og hægt mjakaðist í áttina til sjávar. Þetta var erfitt verk og skiptust menn á að skrúfa. Sliskjupartarnir voru færðir til hvað eftir að af slapp þessum og þessum flekanum. Alls öryggis var vandlega gætt enda gekk þetta allt slysalaust og loksins liggur „Elísabet“ aftur fast við flæðarmál. Þá var fjara og dauður sjór. Sterkir strengir voru vandlega festir í skútuna og náðu þeir út í „Geir“ sem nú var svo nærri landi sem fært þótti. Þegar að var fallið og flóð komið fór að losna um „Betu“ og Geir togaði í af öllum kröftum og smátt og smátt þokaðist hún út yfir boða og blindeyrar og á haf út, eftir að hafa legið í sandinum lamin af alls konar veðrum í fulla 6 mánuði.
Ekki veit ég sögu „Elísabetar“ eftir þetta. En til Reykjavíkur komst Geir með hana. Efalaust hefur björgunin kostað mjög mikið og skipið sjálft og vél þess þurft mikla viðgerð, áður en sjófært yrði.