Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1961/ Guðmundur Tómasson: Sjósókn í 60 ár – skipstjóri í 50 ár

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search
Guðmundur Tómasson

Sjósókn í 60 ár – Skipstjóri í 50 ár

Sjómannablaðið er blað sjómannastéttarinnar, og á því vel við að þeirra manna sé getið, er helgað hafa sjósókn ævistarfið.
Hér í Eyjum er þekktur og vinsæll borgari er á að baki sextíu ára sjósókn og hálfrar aldar skipstjórnarafmæli, nær óslitið. Maðurinn er Guðmundur Tómasson, Urðaveg 24. Guðmundur er fæddur 24. júní 1886 að Gerði í Landeyjum. Faðir hans, Tómas Jónsson, var þekktur sjósóknari og bóndi frá Arnarhóli í Landeyjum, hafði formennsku á hendi, bæði frá Landeyjasandi og héðan úr Eyjum. Í mörg ár var hann vaktmaður í Sandinum.

Guðmundur Tómasson, skipstjóri.png

Hugur Guðmundar hneigðist snemma til sjós. Ungur hóf hann sjóróðra og 15 ára hélt Guðmundur til Vestmannaeyja og gerðist sjómaður og hefur verið það síðan. Fyrsta árið sem Guðmundur stundaði sjó, var hann á áraskipinu Trú, sem gert var út frá Landeyjasandi og Vestmannaeyjum. Á áraskipum var hann hér, unz vélbátaöldin hófst, og varð hann þá háseti hjá Guðjóni á Sandfelli og óslitið með honum, unz hann gerðist formaður á vetrarvertíðinni 1912, og þá með v/b Víking. Með hann var hann eitt ár. Þá tók Guðmundur við skipstjórn á m/b Marz, og var með hann allmörg ár og eignaðist jafnframt 1/3 hluta í bátnum. Þegar Guðmundur seldi sinn hluta í Marz, eignaðist hann, ásamt Kristjáni heitnum á Hóli m/b Soffíu og var formaður á henni allmörg ár. Þeir félagar seldu m/b Soffíu og síðan hefur Guðmundur verið formaður á ýmsum bátum. En nú nokkur síðustu árin á Guðmundur ásamt syni sínum Óskari, v/b Heimir, og verið formaður á honum.
Svo sem hér hefur verið frá sagt, á Guðmundur rúmlega 60 ára sjómannsferil að baki, þar af um 50 ár formaður.
Guðmundur hefur verið farsæll sjómaður og formaður. Aldrei hefur orðið slys á þeim skipum, er hann hefur stjórnað, né önnur áföll, svo sem og títt var á fyrstu árum vélbátaútgerðarinnar. Guðmundur stundaði hér allmörg ár lúðuveiði með línu, og mun hann hafa verið með þeim fyrstu, er stundaði lúðuveiðar að staðaldri austur við Ingólfshöfða. En þar hafa að jafnaði verið fengsæl lúðumið.
Guðmundur er nú farinn að heilsu og hefur síðustu árin horfið aftur til upphafs sjómennskunnar: handfæraveiða. Þær hefur hann stundað öðrum þræði síðustu árin. Hann lætur þó í það skína nú, að hann hyggi á dragnótaveiðar í sumar. Sjórinn á hug hans allan. Þar hefur starfsvettvangur hans verið langa ævi. Hann er einn af þeim mörgu er hafa lifað og lagt hönd að atvinnubyltingunni í sjávarútvegi í Vestmannaeyjum.
Guðmundur Tómasson er mikið prúðmenni, hlédrægur og hógvær og leggur hverjum manni gott til. Guðmundur er kvæntur Elínu Sigurðardóttur. Eignuðust þau 6 börn og eru fjögur á lífi.
Sjómannablaðið sendir honum beztu árnaðaróskir.

S. G.