Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1985/ Guðlaugssund

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search
Guðlaugssund

Erindi flutt þegar Guðlaugssund var synt í fyrsta sinni í Sundhöll Vestmannaeyja 12. mars 1985.

Góðir áheyrendur.
Ég býð ykkur velkomin hingað. Eins og kunnugt er ætla 22 nemendur Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum að synda hér sömu vegalengd og Guðlaugur Friðþórsson fyrrverandi nemandi okkar synti þennan dag fyrir ári síðan h. 12. mars 1984.
Þá hafði bátur hans, Hellisey, farist rúmar 3 sml. SSA af Eyjum. Þrír af fimm skipverjum komust á kjöl og einn þeirra, Guðlaugur, afrekaði það að synda í land alla þessa vegalengd í 5° heitum sjó og frost var í lofti.
Þrautin var ekki þar með unnin. Erfið leið yfir hraun og vegleysur var til byggðar. Alls liðu um 9 klst. frá því sund Guðlaugs hófst og þar til hann bankaði hjá Atla Elíassyni og fjölskyldu hans að Suðurgerði 2.
Það er ósk Guðlaugs að með þessu sundi verði fyrst og fremst minnt á öryggismál sjómanna. Og það er von okkar í Stýrimannaskólanum að þetta geti orðið árvisst þennan dag og tilgangur þess verði alltaf að minna á hættur við sjómannsstörfin og varnir við þeim.
Í mínum huga er líka minning um ótrúlegt afrek einstaklings og aðdáunarvert hugrekki hans ásamt æðruleysi í mikilli neyð við fráfall félaganna við hlið sér. Fátt hafði þó eins mikil áhrif á mig og látlaus og falleg frásögn Guðlaugs af trúariðkunum þeirra félaganna á kili sökkvandi bátsins.
Það er gott fyrir okkur sjómenn að vita til þess að stöðugt er unnið að endurbótum og uppfinningu nýrra og betri björgunartækja. Þar leggja margir góðir drengir hönd á plóginn. Útgerðarmenn hafa alla tíð, þar sem ég þekki til, verið ósínkir á fé til öryggis manna og skipa sinna. Í minni sjómannstíð man ég ekki eftir nema einni útgerð, sem sniðgengið hefur reglur um öryggisbúnað.
Þegar við ræðum um öryggisbúnað verður því miður að viðurkennast að hjá of mörgum sjómönnum er umhirða þar ekki, sem skyldi. Útgerðarmenn, skipshafnir og skipaskoðunarmenn verða að taka höndum saman um að bæta þar um. Reglur eru einskisvirði, ef þær eru bara pappír. Það væri ekki óskynsöm athugun að kanna hvar best væri gengið um þessi tæki og kynna það rækilega. Áður en ég lýk máli mínu um þennan þátt vil ég senda Sigmund Jóhannssyni þakkir sjómanna fyrir stóran þátt hans í þessum málum. Hann hefur innt af hendi mikið starf, sem hann hefur gefið íslenskum sjómönnum. Uppfinning hans, öryggisloki við netaspil, er margoft búinn að forða slysum. Það fer ekki milli mála. Sjósetningarbúnaður hans er að mínum dómi mikið gott tæki. Einfalt og sterkt. Það var stórkostlegt að verða vitni að því hve Vestmanneyskir útgerðarmenn tóku því strax fegins hendi og settu það í skip sín án hvatningar af reglugerð og án þess að spyrja um kostnað.
Það er ekki vilji Guðlaugs að ég tíundi hér afrek hans. Það lýsir honum vel. Í orðum sínum á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja eftir atburðinn dró hann mjög úr sínum þætti, en sagðist fyrst og fremst þakka almættinu af auðmýkt björgun sína.
Látlaus frásögn hans af samræðum þeirra félaganna á kili snart alþjóð á sínum tíma.
Biskupinn okkar, herra Pétur Sigurgeirsson, sagði m.a. í ræðu sinni á síðasta sjómannadegi: „Þessi bænastund sjómannanna, þar sem þeir báðu saman komnir á kjöl vélbátsins Helliseyjar er ein áhrifaríkasta Guðsþjónustu, sem ég hef heyrt um að flutt hafi verið.“
Tveir þeirra höfðu numið við skólann okkar. Þeir kunnu að setja stefnur í kort og sigla hvert sem var, en þarna í neyðinni var aðeins ein átt, eitt strik.
Bænin Faðir vor var haldreipið sem sjómennirnir áttu. Og í trúarsannfæringu og af lítillæti báðu þeir saman.
Þetta er eðlilegt og ætti að vera gert oftar. Það er mín sannfæring. Frásögn Guðlaugs af samveru þeirra félaganna var sönn og æðrulaus.
Árið 1627 þegar Tyrkjaránið var hér var fólkið flutt sjóleiðis í þrældóm til Alsír. Presturinn séra Ólafur Egilsson tók með sér Guðbrandsbiblíuna sína og las fyrir fólkið og hughreysti það. Þetta fólk hafði í neyð sinni, siglandi skip, prestinn sinn og Biblíu. Neyð félaganna á kili Helliseyjar var stærri. Án aðstoðar hughreystu þeir hver annan og báðu Faðir vor.
Gott fólk. Það er von mín að þetta sund fari vel fram. Yfir því verði reisn. Annað sæmir ekki. Við viljum líka vekja athygli á nauðsyn góðrar sundkunnáttu sjómanna.

Þátttakendur og aðstandendur Guðlaugssunds, aftari röð t.f.v.: Snorri Snorrason, Jón Óli Halldórsson, séra Kjartan Örn Sigurbjörnsson, Jóhannes Steingrímsson, Hallgrímur Guðmundsson í hvarfi, Kristján Marinó Önundarson, Tryggvi Ársælsson í hvarfi, Jón Kristjánsson í hvarfi, Bjarni Jónasson kennari, Rúnar H. Jóhannsson, Hjalti Hávarðsson, Guðlaugur Friðþórsson, Magnús Ö. Guðmundsson, Páll Þór Guðmundsson, Friðrik Ásmundsson skólastjóri, Kristján Haraldsson, Ólafur Þ. Ólafsson, Viðar Sigurjónsson, Jóhannes Hermannsson. Fremri röð frá vinstri: Sigurður Samúelsson, Ebenezer Guðmundsson, Einar Jónsson, Ágúst Ingi Sigurðsson, Sigurgeir Jónsson kennari. Ólafur H. Ingimarsson, Björn Guðmundsson.

Frumkvöðull slysavarna á Íslandi, presturinn og sjómaðurinn séra Oddur V. Gíslason frá Stað í Grindavík, var mikill sundmaður og í bjargráðatillögum sínum hvatti hann til aukinnar sundkunnáttu sjómanna. Það gerum við hér í dag.
Það kom fram áðan að það væri von okkar í Stýrimannaskólanum að þetta sund verði hér árviss viðburður.
Það má segja að hjónin Anna og Þorsteinn á Blátindi hafi í gær innsiglað að svo yrði. Þau ákváðu að gefa í þessu skyni mjög vandaða bók. Kápa hennar verður af vandaðasta skinni og blöð hennar af bestu gerð. Framan á kápu verður letrað með gylltum stöfum: Guðlaugssund 12. mars 1984. Fyrst í bókinni verður fæðingardagur og nafn Guðlaugs. Síðan hvert ár nöfn sundmanna og dagbók hvers sunds. Aftan á kápu verður letrað gylltu letri: Með þökk og virðingu fyrir björgun Guðlaugs Friðþórssonar frá Önnu og Þorsteini á Blátindi. Bókin á alla tíð að vera í vörslu Skjalasafns Vestmannaeyja.
H. 10. febrúar s.l. var samþykkt tillaga Einars okkar á Arnarhóli í stjórn Hins íslenska Biblíufélags þess efnis að á þessu ári gæfi félagið öllum Stýrimannaskólanemum þessa árs Biblíu í tilefni af sundi Guðlaugs.
Þegar stjórnarmenn fréttu af þessu sundi hér í dag óskuðu þeir eftir því að við upphaf þess yrði afhending þeirra hér.
Sóknarpresturinn okkar séra Kjartan Örn Sigurbjörnsson annast nú þann þátt.

Friðrik Ásmundsson