Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1988/30 ára Gæfu-spor

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Georg Stanley Aðalsteinsson

30 ára Gæfuspor

Það er alltaf ánœgjuefni þegar starfandi sjómenn senda blaðinu efni. Þessar hugljúfu endurminningar sendir Georg Stanley Aðalsteinsson, blaðinu til birtingar. Greinarhöfundur er nú háseti á Herjólfi.

Bræðurnir Óskar og Einar J. Gíslasynir við bát sinn Gæfu VE 9. Hinir húfulausu eru sænskir ferðamenn.

Einn sólríkan laugardag seinnihluta maí 1958 var ég á gangi hér niður á Básaskersbryggju. Góðri vetrarvertíð var lokið og hafði ég þann vetur verið háseti á m/b Frigg með þeim virtu sóma bræðrum Svenna og Alla frá Geithálsi, um áframhaldandi veru á Frigg var ekki að ræða. fyrr cn að hausti komandi og þá á reknetaveiðum suður með sjó. Þess vegna var ég í og með að líta eftir skipsrúmi yfir sumarið. Hafði ég mjög í huga að komast á einhvern af minni bátunum, sem stunduðu togveiðar, eða humar. Ekki var um mörg pláss að ræða því ég hafði ekki haft fyrirhyggju um veturinn með að ná í skipsrúm fyrir sumarið. Þar sem ég var þarna á gangi heyrði ég að nafn mitt var kallað úr bát scm lá vestan við bryggjuna. Ég rölti í rólegheitum að bátnum og hváði eftir hvort kallað hefði verið í mig. Á dekki bátsins stóðu tveir menn og ræddu saman. Í þá tíð var ég svo ókunnugur hér í Eyjum að ég vissi ekki hverjir þessir menn voru.
En þetta voru þeir bræður, Einar J. Gíslason og Óskar Gíslason frá Arnarhóli, báðir kenndir við Betel. Einar svaraði spurningu minni og sagði ,,Já, heyrðu vinur, tengdafaðir þinn sagði mér að þú kynnir til verka á trolli og að þig myndi fýsa að fá pláss á bát sem verður heima við í sumar. Ef svo er þá getur þú fengið pláss hér hjá okkur í sumar, sem kokkur og háseti. Þetta er hann Óskar bróðir hann er formaður en ég er vélstjóri, svo vantar okkur einn í viðbót ef þú vilt vera", Ég tók tilboðinu og fastmælum var bundið að ég mætti til vinnu á mánudagsmorguninn þann næsta. Þegar ég hafði skoðað fleyið og kynnt mér allar aðstæður mcð þeim bræðrum kvöddumst við og ég fór heim. Er heim var komið sagði ég konunni að ég væri búinn að ráða mig yfir sumarið til humarveiða á Gæfuna með þeim Betelbræðrum. Hún tók því afar vel enda kannski svolítið öruggara að hafa ,,peyjan" heima, en vita af honum drabbandi í einhverjum síldarbragganum á Dalvík og Dagverðareyri.
Ekki renndi mig þá grun í að nú væri ég búinn að ráða mig í það skipsrúm, þar sem ég ætti eftir að eiga skemmtilegustu og bestu stundir sjómennsku minnar og að ég ætti alla tíð síðar eftir að minnast þeirra tveggja sumra, sem ég var með þeim bræðrum, með hlýhug og virðingu. Því er frá leið og ég kynntist þessum ágætu bræðrum nánar varð mér ljóst að þar fóru saman dugnaðar og atorku menn, sem höfðu trúar sinnar vegna dálítið sérstakan lífsstíl, en hann var lífsgleði og húmor sem birtist mér í ótal myndum. Einar var og er einhver snjallasti ræðumaður sem ég hef heyrt til og sama var að segja um Óskar. Þó þar væri blæbrigðamunur á. Á mánudagsmorguninn umrædda mætti ég til skips og byrjuðum við strax að gera bátinn kláran fyrir úthaldið. Fann ég fljótlega að engin deyfð eða drungi var yfir bræðrunum og gekk vinnan vel með léttu spjalli og miklum húmor og var svo bæði sumurin sem ég var með þeim. Óskar var heljarmenni að burðum og hæglátari en Einar og traustur mjög. Einar var léttari og spaugsamari og fannst mér æði oft örla á léttri stríðni bæði gagnvart mér og öðrum. Seinni hluta mánudagsins bættist við í áhöfnina, það var Hrafn Pálsson mágur minn. Þar með var áhöfnin fullskipuð.
Ekki liðu margir dagar þar til við vorum klárir til veiða og var ákveðið að byrja á laugardegi svo að öllum ,,formúlum" væri fullnægt. Aldrei var róið á sunnudögum né öðrum helgidögum og fannst mér það mikill munur og í ljós kom síðar að ekki vorum við neinir eftirbátar annarra um afla og afkomu þó þessi háttur væri hafður á. Margt skemmtilegt og spaugsamt kom uppá hjá okkur og hafa um það spunnist margar sögur, sumar sannar, aðrar lognar. En ég hef látið þær liggja milli hluta. Ég ætla nú að segja nokkrar af þessum spaugsögum frá mínu sjónarhorni, vona ég að enginn verði ósáttur við, en ef svo verður, þá verður sá hinn sami að eiga það við sig. Einari var sérlega lagið að grínast og gantast og það svo að Óskari var oft nóg boðið.
Eitt sinn vorum við að landa við Nausthamarinn í blíðskaparveðri. Ég var niðri í lest ásamt Hrafni, löndun gekk vel og þegar hún var búin og ég kominn upp á dekk leit ég yfir höfnina og sá að við Bæjarbryggjuna lá Gunnar E.A. Verið var að mála bátinn og skvera. ,,Hann er fallegur þessi", sagði Einar við mig. Ég játaði því. ,,Hann Ingi á Haukabergi var að kaupa hann hingað að norðan", sagði Einar. Já, einmitt, sagði ég. Þegar við höfðum lokið við að ganga frá og vorum á leiðinni heim stönsuðum við nálægt Fiskiðjunni. ,,Þú ættir að skjótast og spyrja hann Inga hvað báturinn á að heita", sagði Einar. Ég hef heyrt að hann eigi að heita", bætti hann við. Ég brá skjótt við og hljóp niður að bátnum og sagði hinn roggnasti við manninn sem var að munda sig til að stilla af skapalónið fyrir nafnið. ,,Á hann að heita Grímur þessi?" Maðurinn tók þvílíkt viðbragð að engu var líkara en að ég hafði stungið hann með hníf. Henti frá sér málningargræjunum og hljóp inn yfir lunninguna um leið og hann svaraði, Ó, nei ekki aldeilis!! Ég hrökk í kút af viðbrögðum mannsins, snautaði til baka upp að Fiskiðju þar sem Einar og Hrafn biðu mín báðir skellihlæjandi. Eg hirði ekki um að útskýra nánar hvað lá að baki.

Gæfuspor SDBL. 1988.jpg


Eitt sinn vorum við að toga austur við Pétursey vorum þá komnir á fiskitroll. Veður var gott og afli sæmilegur. Þegar verið var að taka trollið í eitt skiptið var mikill afli í. Rösklega var tekið til hendinni við að innbyrða aflann, þá segir Óskar: ,,Nú er ljótt í efni, þarna kemur varðskip að vestan og við erum rétt við landhelgislínuna". Mikið fát kom á okkur því ekki yrði efnilegt að verða hirtir í landhelgi. Síðasti pokinn var hífður inn. Hvað eigum við að gera!, sagði Óskar við Einar bróðir sinn. Við látum Stanley tala við þá, svaraði Einar og þar með fóru þeir og Sigurður Jónsson, sem þá var með okkur, niður í lúkkar.
Ég tók þetta á þann veg að Einar ályktaði að ég yrði eitthvað skálkaskjól, þar sem ég hafði verið þrjú sumur á varðskipunum og þar að auki er svili minn Þröstur Sigtryggsson, skipherra, "Gráni" keyrði viðstöðulaust austur fyrir okkur og tók tvo eða þrjá báta í landhelgi austan við okkur. Hvort Þröstur var skipherra í þessari ferð veit ég ekki, enda hefðu tengsl lítt dugað ef um brot hefði verið að ræða hjá okkur.
Ekki löngu eftir þetta atvik vorum við að veiðum á svipuðum slóðum, síðla dags, veður sæmilegt, SA kaldi en fór vaxandi. Ég sinnti matseld eins og vant var, hafði keypt lærisneiðar á Tanganum og var búinn að steikja þær og sett í pönnu í ofninn. Ætlaði ég að við borðuðum þegar við hefðum lokið við að gera að. Veður óx og hífðum við og ætlaði Óskar að keyra inn í krók við Portlandið í var. Aðgerð var ekki lokið þegar í var var komið, þess vegna fór Óskar niður til að borða á undan okkur. Eftir drjúga stund kom hann upp aftur og sagði, ,,Þetta var mikill og góður matur Stanley!" Þegar aðgerð og þrifum var lokið drifum við okkur niður til að borða lærisneiðarnar. Eitthvað hef ég áætlað naumt því þær voru búnar og steikti ég því fisk í snatri. Mikið var gantast með þetta atvik um borð og haft gaman að. Lengi væri hægt að halda áfram og tína til spaugileg atvik sem skeðu hjá okkur en nú er mál að linni.
Lifið heil
Stanley