Westy Petreus

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Westy Petreus kaupmaður og eigandi Garðsverzlunar.
Hann og Peter Ludvig Svane keyptu Garðsverzlun af nefnd þeirri, sem hafði með höndum sölu konungsverzlunarinnar. Hafði Hans Klog kaupmaður komist í þrot og nefndin tekið verzlunina af honum 1798.
Þeir Svane skrifuðu undir skuldabréf fyrir kaupunum 30. ágúst 1799. Svane veitti Eyjaverzluninni forstöðu í nokkur ár og hafði umboðið. Hafði hann ábúð á umboðsjörðinni Kornhól og einnig hafði verzlunin ábúðarréttinn á Miðhúsum. Hann var búsettur í Kaupmannahöfn, en staddur í Reykjavík á mt 1801. Hann gekk úr félaginu 1803 og afsal fyrir hlut Svane fékk Petreus 9. ágúst 1805.
Verzlunin gekk illa. Vestmannaeyjar misstu réttindi kaupstaða 1807 og urðu þær einskonar útibú frá verzlun Petreusar í Reykjavík, en þar rak hann stórverzlun.

Westy Petreus var talinn viðsjárverður nokkuð. Hann þóttist mikill vinur Jörundar hundadagakonungs og var skipaður yfirmaður ensku verzlunarinnar, en ef út af bar þóttist hann hvergi hafa komið nærri og kenndi verzlunarstjórum sínum um. Þannig fór um Grím Pálsson faktor hans, sem síðar varð prestur og prófastur. Hann var kærður fyrir verzlunaránauð, þó að hann færi eftir fyrirmælum Petreus um verðlag og annað, er að rekstrinum laut.
Aðeins ein verzlun var í Eyjum frá því að verzlunin var gefin frjáls 1788 og sízt betri en á einokunartímunum. Var oft mikill hörgull á öðrum vörum en tóbaki og brennivíni. Varð af þambinu mikill ófriður, svo að friðsamir kaupmenn treystust vart til að leita til Eyja í verzlunarerindum, þó að þeim væri það frjálst. Er þetta staðfest í bréfi stiftamtmanns til sýslumanns 19. maí 1790.

Samtök voru með kaupmönnum alla 19. öldina og hliðruðu þeir til hver fyrir öðrum í verzlunarháttum sínum. Sama gilti, er verzlanirnar voru orðnar þrjár. Var alþýða manna sem ánauðugir þrælar kaupmanna. Var algengt, að menn yrðu að veðsetja kaupmanni afla sinn fyrirfram til að fá vöruúttekt.
Westy Petreus rak síðan verzlunina til dauðadags 1829. Kom þá Sören Jakobsen til skjalanna.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.