Blik 1936, 2. tbl./Líkami og sál

From Heimaslóð
Revision as of 20:33, 12 October 2010 by Viglundur (talk | contribs) (Blik 1936/Líkami og sál færð á Blik 1936, 2. tbl./Líkami og sál)
(diff) ← Older revision | Latest revision (diff) | Newer revision → (diff)
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1936Líkami og sál

Eftir ÁRNA GUÐMUNDSSON kennara

M J Ö G snemma á öldum virðast menn hafa verið búnir að koma auga á nauðsyn þess, að saman fari þroski sálar og líkama. Nægir í því sambandi að benda á hinar fornu menningarþjóðir Kínverja, Hindúa og Egypta. Eða svo við tökum dæmi sem standa nær: Forn-Grikki og Rómverja.
Það sem mér þykir athygliverðast við sögu Hellena er það, að á glæsilegasta menningartímabili þjóðarinnar voru íþróttir og líkamsrækt einn af meginþáttum uppeldisins.
Er auðsæ sú þýðing, sem þetta hefur haft fyrir list þjóðarinnar og alla menningu. Mörg fegurstu listaverk Hellena eiga rætur sínar að rekja beint til íþróttanna og þeirra líkamsfegrunar, sem svo mjög var í hávegum höfð (t.d. ýmsar höggmyndir, s.s. Diskoskastarinn o.fl.). Það má segja, að sú formfegurð í líkamsbyggingu og sá glæsilegi skapnaður, sem af skynsamlegri iðkun líkamsíþrótta leiddi, hafi blásið lífsanda í hinn hellenska marmara og skapað mörg ódauðlegustu listaverk mannlegrar snilli.
En svo sem öllum er kunnugt leið þessi mikla menning undir lok. Um gjörvallar miðaldir er öll fræðsla um slík mál í kaldakoli og líkamsrækt sem uppeldismeðal þekkist naumast. Uppeldið beinist inn á nýjar brautir. Nú átti andinn að vera sjálfum sér nógur, og jafnvel hafa því betri þroskamöguleika, sem holdið væri aumara. Uppeldisstarfið beinist mjög að því að gera menn sniðuga í kappræðum um hin fánýtustu efni, sem oft voru með þeim endemum, að nútímamenn setur hljóða, er þeir lesa frásagnir um þær.
Athyglivert er það, hversu heilsufar manna á þeim öldum er stórum lakara en áður — og síðar, og mun það engin tilviljun. —
En eftir miðja 17. öldina fer aftur að rofa til. Þá koma fram menn, hver af öðrum, sem skyggnir voru á hið nána samband milli sálar og líkama, menn, sem komið höfðu auga á það, að andleg og líkamleg hreysti og vellíðan verður að fara saman, eigi vel að vera.
Nægir að nefna menn eins og John Locke (1632—1704), Rousseau (1712—1778) og Pestalozzi (1746—1827), svo aðeins nokkrir þeir merkustu séu nefndir.
Á síðustu tímum hafa svo ýmsir merkir sálfræðingar og uppeldisfræðingar tekið sér fyrir hendur að færa sönnur á nauðsyn þess, að ekki ríki misræmi í hreysti og vellíðan sálar og líkama. Þetta hefur þeim tekizt með víðtækum rannsóknum og tilraunum. Má þar fyrstan nefna Ameríkumanninn J. Porter, sem rannsakaði yfir 30 þús. pilta og stúlkur á ýmsum aldri. Kom það í ljós við rannsóknir hans, að þau börn, sem gekk bezt námið, voru að hæð og líkamsþyngd fyrir ofan meðallag í hverjum aldursflokki.
Þá má nefna prófessor Rietz í Berlín. Skoðaði hann rúmlega 20 þús. börn og unglinga og fær m.a. alveg sömu útkomu og Porter. Ennfremur bætir Rietz við: „Ég er sannfœrður um, að dugleysi unglinga við nám á mjög oft rót sína að rekja til líkamlegrar veiklunar, miklu oftar en almennt er haldið. Ef vandlega væri að þessu gætt, mundi það oftsinnis koma í ljós, að skilningsleysi og hugsunarleysi eru ekki vottur leti, heldur afleiðing af einhverskonar líkamlegri deyfð, sem unglingurinn getur ekki gert sér grein fyrir.“ Af þessum ummælum má draga margar ályktanir, sem allar hníga að því að sanna oss nauðayn þess, að líkaminn sé ekki hafður útundan í uppeldinu.
Rannsóknir, eins og þœr sem ég nefndi, hafa verið gerðar víðsvegar um heim og árangurinn allsstaðar orðið með líkum hætti. — En rúmsins vegna get ég ekki nefnt fleiri slíkar, en það, sem hér hefur verið sagt, ætti að nægja til þess að sýna fram á hið nána samband milli sálar og líkama.
Einhliða andlegt nám hefur mikla galla, það gerir unglingana að andlegum eintrjáningum, sem skortir víðsýni og kunna ekki að koma fram eins og menntaðir menn. — En einhliða líkamsrækt og íþrótta, án þess skeytt sé um „sálina“ leiðir venjulega af sér andlausa vöðvamenningu og fíflsku og elur upp slagsmálahunda.
Sérhver ungur maður ætti að kappkosta að efla þekkingu sína og auðga anda sinn —en gleyma heldur ekki að stæla og fegra líkamann, svo hann megi heita verðugur bústaður heilbrigðrar sálar.

Á.G.