Blik 1936, 3. tbl./Lagðar

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1936


LAGÐAR

Undir þessari fyrirsögn eru birtir nokkrir kaflar úr ritgjörðum nemendanna um ýmis efni. Mættu þessar skoðanir þeirra verða dálítið íhugunarefni góðra lesenda.

MARGT er það, sem hægt er að gera til að efla sinn andlega þroska, manndóm sinn og manngildi. Fyrst og fremst ber unglingum að efla góðvild sína og vitsmuni. Sá, sem spyr samvizku sína og breytir eftir henni, getur ekki betur gert. Unglingurinn þarf að hafa hiklausan áhuga fyrir því, að vinna öll sín verk vel og vandlega, hvort sem það er í annara hag eða eiginn. Hann á að vera áreiðanlegur og sanngjarn, og hann má ekki vera ánægður með sjálfan sig, fyrr en hann finnur, að hann verðakuldar að sér sé treyst. Viljaþrek og hófleg sjálfsafneitun eru góðir eiginleikar og hverjum skylt að efla þá eftir mætti. Unglingum, mörgum að minnsta kosti, er það trygging til stöðuglyndis að stefna að einhverju göfugu takmarki í lífinu. Það er um að gera að beita viljanum að því, sem skynsemin eða samvizkan segir manni, að sé satt og rétt. Við eigum að reyna að sigra sem fyrst jafnvægisleysi æskuáranna og læra að einbeita huganum sem ákveðnast að vissu takmarki. Annars eigum við á hættu að verða andlega löt.
Sízt unglingar eiga rétt á því að „njóta letinnar.“ Við eigum í stytztu máli að kappkosta, að tileinka okkur manndyggð, þekkingu og atorku, en hafna því gagnstæða.

G.F. 2. b.


ÍÞRÓTTAMENN eiga ekki að vera óreglumenn, og það eiga engir að vera.
Unglingurinn á að læra eitthvað nytsamt, ef hann getur. Með því eykur hann manngildi sitt.

B.Þ. 2. b.


Unglingar eyða aurum sínum fyrir vindlinga og sækja kvikmyndahúsin. Þeir fara oft í felur tveir og þrír saman, þegar þeir eru að byrja að reykja. Stundum er það eins og þessir unglingar, drengir og stúlkur, þykist meiri menn af að reykja. Þessir andlega voluðu aumingjar virðast ekki hafa neina hugmynd um þá hættu, sem af þessu stafar. Í vindlingunum er eitur. Það lamar viljakraft mannsins, sérstaklega unglingsins. Hann á svo bágt með að stefna huganum að nokkru ákveðnu marki. Hann verður latur og nennir ekki að vinna. Þeir unglingar, sem byrjaðir eru að læra, en fara síðan að reykja, missa allan hug til náms. Það fer út um þúfur. Þeir gutla við það til málamynda. Þeir missa oft alla virðingu fyrir sjálfum sér og leiðast til drykkjuskapar. Þannig sökkva þeir dýpra og dýpra. Enginn, sem reykir eða neytir áfengis, getur orðið góður íþróttamaður.

P.S. 3. b.


Þegar menn eru undir áhrifum víns, segja þeir oft margt eða gera, sem þeir hefðu annars hvorki sagt eða gert. Það er sorglegt að vita til þess, en þó á það sér stundum stað, að heimilisfeður drekka fyrir alla peningana, sem þeir vinna sér inn, en konur þeirra og börn verða að svelta.

M.H. 1. b.


Það besta, sem nokkur á, er góð móðir. Hún vakir nótt og dag yfir velferð barnsins síns, eins þó það sé orðinn fullorðinn maður eða kona. Hún hjúkrar barninu í veikindum þess. Hún gefur því hollasta og besta matinn, hlýustu og beztu fötin og heldur því hreinu, svo því líði sem bezt. Sum börn kunna að meta allt, sem hún gerir fyrir þau. Þá gera þau allt, sem í þeirra valdi stendur til þess að gera henni lífið þægilegt og skemmtilegt. Þau eru henni trú og góð og gefa henni aldrei ástæðu til að óttast, að þau aðhafist nokkuð það, sem illt er eða siðspillandi. En sum börn kunna alls ekki að meta alla umhyggju móður sinnar. Þau fara ekkert að ráðum hennar, heldur fara fram sínum vilja. Þau eru kannske úti fram eftir nóttunni í miður góðum félagsskap. Þannig leiðast unglingarnir út í ýmiskonar óreglu, t.d. tóbaks- og áfengisnautn. Allar andvökunætur eru ekki á enda fyrir mæðrum, sem eiga óreglusöm börn, þó þau hafi slitið barnsskónum.

G.Þ. 3. b.


Ef allir unglingar reyndu að setja sér það að neyta hvorki tóbaks né áfengis, mundi öll slík eiturlyfjanautn hverfa brátt í landinu.
Það er hryllilegt að hugsa til þess, að margir menn hafa ekki fyrir mat sínum vegna óreglu.

Á.J. 3. b.


Sá, sem verða vill góður íþróttamaður, verður að vera stöðuglyndur og þrautseigur. Hann má ekki ætlast til þess, að allt vinnist strax. Hann verður að þjálfa sig stöðugt og vera þolinmóður. Fyrsta skilyrðið til þess að verða góður íþróttamaður er að lifa reglusömu lífi og vera hreinlegur, hirða vel líkama sinn.
Íþróttamaður skal hvorki neyta tóbaks né áfengis eða neins þess, sem eitrar líkamann og sljóvgar sálar- og líkamskraftana.

V.Á. 2. b.
                ——————————
Ábyrg ritstjórn:
Stjórn Málfundafélags Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum.
Eyjaprentsmiðjan h.f.