Blik 1937, 1. tbl./Holtsós

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1937HOLTSÓS


HOLTSÓS er á takmörkum Vestur- og Austur-Eyjafjallasveitar. Hann nær frá sjó og hér um bil upp undir fjallsrætur, þar sem Suðurlandsundirlendið er mjóst. Hann er um 4 km. á lengd, en 2 km. á breidd, þar sem hann er breiðastur. Hann er 2 m. á dýpt, þar sem hann er dýpstur. Fyrir ofan hann eru blómlegar brekkur og háir fjallatindar, sem gnæfa við himin, og er Ingimundur þeirra tignarlegastur. Hann dregur nafn af einum þræla Rúts landnámsmanns, sem átti heima í Rútshelli undir Austur-Eyjafjöllum, en þrælarnir voru átta, og drap Rútur þá alla, er hann komst að því, að þeir sátu á svikráðum við hann, og eru ýmis önnur örnefni undir Eyjafjöllum kennd við þá. Einnig er þar einkennilegur hellir, sem heitir Steinahellir. Hann var áður fyrr þingstaður Eyfellinga, en nú er hann notaður fyrir fjárhús.
Munnmæli segja, að stór steinn, sem liggur rétt við ósinn, hafi losnað úr fjallinu og lent á konu, er Þornlaug hét, og dregur steinninn síðan nafn af henni, og heitir Þornlaugarsteinn. Rétt við hann er smávatn, er heitir Hellisvatn. Einkennilegt er það, að það frýs ekki, og er oft mikil mergð af sundfuglum á því í miklum frostum. Munnmæli segja að í því sé nykur, grár hestur. Arnarhóll er höfði, er gengur út í ósinn að norðvestan. Að austan og vestan eru votlend og grösug engi, og að sunnan skilur fjörukampurinn hann frá sjónum.
Á einum stað hefir ósinn brotið skarð í sandhrygginn (kampinn) og hefir myndað þar útfall sitt.
Vatnið í ósnum er dálítið skolleitt, svo að ekki sést til botns. Það er af því að í hann renna margar skolleitar jökulár, og svo mórautt mýrarvatnið. Einnig er það dálítið salt, af því að sjórinn flæðir inn um útfallið og síast í gegnum sandinn, og í aftaka brimi flæðir hann yfir kampinn og upp í ós. Í honum gætir töluvert flóðs og fjöru. Í ládeyðu er hægt að róa á bát inn um útfallið. Stundum kemur fyrir í stórbrimi og vestanroki, að útfallið stíflast. Hækkar þá í ósnum og flæðir hann þá yfir engið, og komið hefir fyrir, að hann flæðir í kringum bæ, sem stendur skammt frá honum uppi á háum hól, og verður fólkið þá að fara á bát til næstu bæja. En það er engin hætta að búa þarna, því ósinn flæðir aldrei yfir hólinn, fyrr flæðir hann yfir kampinn. Framh.

F.J. (2. b.)