Blik 1938 1.tbl./Bréf

From Heimaslóð
Revision as of 20:50, 7 May 2010 by Viglundur (talk | contribs) (Verndaði „Blik 1938 1.tbl./Bréf“ [edit=sysop:move=sysop])
(diff) ← Older revision | Latest revision (diff) | Newer revision → (diff)
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1938


BRÉF
frá Pétri Sigurðssyni erindreka til nemenda gagnfræðaskólans.

Kæru nemendur og samherjar í bindindisstarfinu. — Bestu þakkir fyrir allar greinarnar í blaðinu ykkar, sem skólastjórinn hefir sent mér annað slagið. Ég hefi lesið hvert orð í því með eftirtekt og ánægju.
Mér þótti það miklar og góðar fréttir, sem skólastjórinn ykkar flutti mér nýlega, að skólinn væri vaxandi stofnun, og að allir nemendur hans væru albindindismenn, að hver einasti nemandi skólans væri í bindindisfélagi hans, og að þið í þessu hefðuð sett met. Fyrir þetta eigið þið virðingu og hrós skilið, og vona ég, að þið haldið áfram staðföst á slíkri menntabraut.
Við verðum að skapa það almenningsálit, sem dæmir þann mann illa menntaðan eða ómenntaðan, sem ekki er reglusamur maður, vandur í öllum viðskiptum og skyldurækinn í hvaða stöðu, sem er. Menn, sem ekki standast slíkt próf, eiga ekki skilið að heita menntaðir menn — mannaðir menn — þótt þeir kunni að vera fróðir um margt og marg skólagengnir.
Æska okkar fámenna og fátæka lands verður að skilja það, að henni veitir ekki af öllu sínu viti óskertu og öllum sínum líkams og sálarkröftum óskemmdum í tilverubaráttunni framvegis. Margskonar vitfirring þjakar nú þjóðum heimsins, svo gaman væri það, ef litla þjóðin lengst í norðrinu, gæti verið leiftrandi norðurljós á himni hinna mörgu villtu vegfarenda mannkynsins, og komið í öllu fram sem algáð þjóð.
Á ferðum mínum seinustu árin hefir leið mín ekki legið til ykkar í Vestmannaeyjum, og þykir mér það miður, en ég get sagt ykkur góðar fréttir af þessum ferðum mínum. Ég hefi heimsótt flesta alþýðu- og gagnfræðaskóla landsins, og jafnvel hærri og lægri skóla, og suma þeirra oft. Ég hefi stundum talað í tveimur eða þremur skólum sama daginn. Þar hefi ég jafnan fengið hinar ágætustu viðtökur, prýðilega áheyrn, og séð þar hvarvetna hina myndarlegustu hópa ungra manna og kvenna. Allir þessir sjálegu hópar hafa fylkt sér undir merki bindindis og menningar, og er slíkt mikið gleðiefni. Við væntum góðs af slíkum kröftum í framtíðinni. Þeim embættismönnum þjóðarinnar fjölgar stöðugt, er gerast fyrirmyndir í bindindi, og er það eitthvert þýðingarmesta atriðið. Í þessum efnum verðum við að gera stranga kröfu til þjóðarinnar og stjórn hennar í framtíðinni.
Góðtemplarareglan færist nú óðum í aukana. Stúkur rísa upp hér og þar í fullum krafti. Um þetta mætti margt gott og uppörfandi segja, en nú má ég ekki eyða of miklu rúmi í blaði ykkar, því þar mun þetta bréf lenda.
Við höfum fulla ástæðu til að halda, að mikill meiri hluti þjóðarinnar, og betri hlutinn sé þegar snúinn gegn áfengisnautninni. Þeim embættismönnum ríkisins fjölgar, sem taka hina æskilegu afstöðu, blöðin og útvarpið tala máli bindindisins, og ýmis sambönd og félög, er hafa bindindi á stefnuskrá sinni færast í aukana. — Sókn er þegar hafin á ný, er góðu spáir.
En þetta má ykkur ekki gleymast, æskumenn og meyjar, að á meðan þjóðin eyðir á sjöundu miljón króna árlega fyrir áfengi og tóbak, til þess að úrkynja og afmanna œskulýð landsins, verður erfitt að ala hér upp hrausta, hyggna, dáðríka og sannmenntaða þjóð. Við skulum vona, að ís­lenska æskan, sem nú nýtur almennrar upplýsingar, sé ekki svo heimsk, illa gefin og kærulaus, að hún sjái ekki þetta, og við skulum trúa á fullnaðarsigur í náinni framtíð. Áfengisbölið þurfum við að sigra, undir því er velferð og framtíðarþroski þjóðarinnar mikið kominn, en til þess að vinna slíkan sigur, verðum við að efla alhliða, djúptæka og hlýja menningu, sem leggur þá rækt við sálarlíf mannanna, að menn verði drengir góðir og stöðugt batnandi menn. Vinnið með það mark fyrir auga, æskumenn og meyjar, í allri ykkar menningarviðleitni, og mun þá þáttur ykkar verða góður og hrósunarefni í munni komandi kynslóða. — Heill fylgi skólanum ykkar og ykkur sjálfum á menntabrautinni til blessunar fyrir land og lýð.