Blik 1939, 4. tbl./Gæfusmiðurinn og lífið

From Heimaslóð
Revision as of 20:37, 8 May 2010 by Viglundur (talk | contribs)
(diff) ← Older revision | Latest revision (diff) | Newer revision → (diff)
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1939


Gæfusmiðurinn og lífið

„Sérhver er sinnar eigin gæfu smiður.“
„Það er dögg á sumum blómum, en ekki öðrum,“ er haft eftir vitrum manni, „vegna þess að þau opna bikar sinn og draga döggina til sín, meðan hin loka bikar sínum og láta dropann renna af.“
Líkt er okkur mönnunum farið. Við erum móttækilegir fyrir allskonar utanaðkomandi áhrif. Við uppskerum eins og við sáum. Ef við erum ánægð með dagsverkið, erum glöð, þá sýnist okkur allt umhverfið vingjarnlegra og bjartara. Ef við erum aftur á móti í vondu skapi, erum ólundarleg, þá fær heimurinn sama svip fyrir augum okkar. Þess vegna er okkur nauðsynlegt að temja okkur iðjusemi, reglusemi, háttprýði og gott hugarfar. Ef við tölum illa um náungann, verður útkoman sú sama: hann talar illa um okkur. Við eigum að taka lífinu eins og það er, mikilvægt, alvarlegt og þýðingarmikið mál. Nota hvert tækifæri til þess að gera það, sem rétt er.
Sumir menn finna gleði alls staðar og við öll tækifæri, meðan aðrir eru ólundarlegir og líta út eins og þeir væru að koma frá jarðarför. Eins og maðurinn getur heyrt, án þess þó að hlusta, getur hann unnið gott verk án þess að hafa eiginlega nokkuð fyrir því, aðeins með hlýju hugarfari og fágaðri framkomu.
Lífið er eins og tré, sem þroskast af því fræi, sem til þess var sáð. Sætindi ávaxtar þess, og ilmur blóma þess er fyrst og fremst komið undir næringunni, sem það hefir fengið.

Ásta Engilberts, III. b.