Blik 1940, 7. tbl./Eitur fyrir 8 aura ~ sykur fyrir 6 aura

From Heimaslóð
Revision as of 20:16, 25 April 2012 by Viglundur (talk | contribs)
(diff) ← Older revision | Latest revision (diff) | Newer revision → (diff)
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1940


ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Eitur fyrir 8 aura ~ sykur fyrir 6 aura


Ég er staddur í búð hér í kaupstaðnum. Inn kemur lítill stúlka á að gizka 7 ára. — Hún er fátæklega klædd og mögur, þessi litla, góðlega stúlka. Andlitið er skinið og glærir baugar kringum augun, sem eru rauðleit og döpur. Hér leynir sér ekki skorturinn. — Hvað hefir hún í hendinni? Egg! Hún yrðir á búðarstúlkuna: „Mamma biður þig að kaupa þetta egg af sér. — Hvað fæ ég marga aura fyrir það?“ „Fjórtán aura,“ segir búðarstúlkan. „Ég á þá að fá eina cigarettu og strausykur fyrir afganginn,“ sagði barnið. Það fékk hún. Vindlingurinn kostaði þá 8 aura.
Síðan hefir litla stúlkan verið mér umhugsunarefni. Hún á sárfátæka foreldra, sem bæði eru ánauðugir þrælar tóbaksnautnarinnar. Bágt á sú móðir, sem veit barnið sitt skorta föt og fæði, en er svo langt leidd sjálf, að hún neyðist til að taka bitann frá munninum á því til þess að fullnægja nautnaástríðum sínum. Þeirri móður er meir en lítið ábótavant. Og sterk er sú ástríða, sem svæfir þannig móðurástina og móðurumhyggjuna.
Það er órannsakað mál, hve mikið börnin líða fyrir eiturlyfjanautnir foreldranna. — Hvernig geta t.d. heimilisfeður, sem hafa innan við 2000 kr. árslaun, og konu og 2-4 börn á framfæri, leyft sér að eyða 2–400 krónum af árstekjum sínum fyrir tóbak? Þess munu mörg dæmi. Þessi sóun á fé fátæks manns hlýtur að bitna á börnunum hans. Þau verða að líða á einn eða annan hátt fyrir það, að faðirinn eða báðir foreldrarnir eyða af ónógum framfærslueyri meira eða minna fyrir tóbak og önnur eiturlyf.
Íslenzka þjóðin er illa stödd. Hún eyðir milljónum króna á ári fyrir tóbak og áfengi. Þrátt fyrir alla baráttu og starf verður varla annað greint, en að eiturlyfjanotkun fari vaxandi með æsku þjóðarinnar. Íslenzka konan, íslenzka móðirin, hefir verið hollvættur og verndari íslenzku æskunnar frá landnámstíð. —Sómatilfinning íslenzku mæðranna og skapfesta hefir bjargað þrásinnis, þegar við, hið grófgerða kyn, höfum tapað siðferðisjafnvæginu og ekki vitað okkar rjúkandi ráð. — Nú er þetta breytt. Nú er það algengt að sjá íslenzka móður reykja, og það við vöggu hvítvoðungsins, og ekki óalgengt að sjá hana viti sínu fjær vegna ofdrykkju. Þetta er sorgleg saga.
Við löstum einokunarkaupmennina fyrir það að halda að þjóðinni tóbaki og brennivíni, en hirða minna um hitt, þótt matvöru skorti í landinu. En hvað gerir íslenzka þjóðin nú sjálf? Hún verður að skammta sér nauðsynlegar vistir, en enginn skortur er á tóbaki, — og áfengið flæðir um landið. Er ekki þetta gort okkar af íslenzkri menningu ómerkilegt karlagrobb? — Lifum við Íslendingar ekki eins og skækja, sem selur líf sitt og líkama til þess að afla sér lífsviðurværis eða nauðsynlegra tekna, en uppgötvar það ekki fyrr en of seint, að hún hefir sólundað lífi sínu eða lífsmætti á viðurstyggilegan hátt?