Blik 1940, 8. tbl./Fréttamolar

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1940


Fréttamolar
Manndáð


Þann 7. nóv. s.l. bjargaði Gísli Guðlaugsson Vestmannabraut 69 litlum dreng frá drukknun. Drengurinn hafði fallið út af Edenborgarbryggjunni. Gísli var staddur efst á bryggjunni, þegar drengurinn féll í sjóinn. Hann hljóp þegar til, stakk sér til sunds og bjargaði drengnum.
Gísli er seytján ára gamall. Hann hefir stundað nám í Gagnfræðaskólanum hér undanfarin 3 ár, og stundar nú nám í 4. bekk skólans.
Við vonum og óskum, að þessi dáð Gísla reynist fyrirboði fleiri hetju- og dáðaverka hans og framtíðargæfu.

~

Nú hefir hafizt kennsla í smíðum við barnaskólann hér. Frá því Gagnfræðaskólinn tók til starfa fyrst, árið 1930, hafa verið kenndar smíðar við hann. Nú hefir Gagnfræðaskólinn getað greitt götu barnaskólans hér í þessum efnum með því að lána honum húsnæði og hefilbekki. Áhöld leggja skólarnir báðir til að öðru leyti, og kennir sami kennarinn smíðar í báðum skólunum.

~

Hringjari í Gagnfræðaskólanum þetta skólaár er Ásbjörn Björnsson nemandi í 3. bekk. Hringjarastarfið er eitt mesta sæmdarembætti skólans. Ásbjörn þykir rækja það með prýði.

~

Þann 16. nóv. s.l. var haldinn fundur í Menningarmálafélagi Gagnfræðaskólans. Bindindisfélag skólans er deild í því. Á fundinum sagði Haraldur Magnússon frá ferðalagi landanna heim um Petsamo. Höfðu nemendurnir mikla ánægju af þeirri ferðasögu. Fundurinn var hinn prýðilegasti, og er bindindisáhugi nemendanna mikill. Allir eru þeir í bindindisdeild skólans og margir vel starfandi í stúkunni Báru nr. 2. Formaður félagsins er Einar Halldórsson nemandi í 3. bekk.

~

Nokkrir fundir hafa þegar verið haldnir í Málfundafélagi skólans. Þar er jafnan mikið fjör, og ber þar margt á góma. Ræðumenn eru þar nokkrir góðir og sæmilegir, og margir standa til bóta. Þar má nefna Begga, Adda, Skúla, Halla, Dollý, Bíbí, Guðna, Siffa, Dodda, Gúlla og Hebba, og hvað þau heita nú öll þessi bæjarfulltrúa- og þingmannaefni. Formaður félagsins er Erlingur Eyjólfsson nemandi í 2. bekk.

Dabbi smali, fréttaritari.
            ———————————————————————————

Við þökkum
öllum, sem auglýsa í Bliki. Án þeirra hjálpar gætum við ekki gefið það út.

Lesendur Bliks! Verzlið að öðru jöfnu við þá, sem auglýsa í Bliki.
Útgefendurnir.