Blik 1962/Saga barnafræðslunnar í Vestmannaeyjum, 3. kafli, II. hluti

From Heimaslóð
Revision as of 16:56, 1 September 2015 by Viglundur (talk | contribs)
(diff) ← Older revision | Latest revision (diff) | Newer revision → (diff)
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1962ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Saga barnafræðslunnar
í Vestmannaeyjum


III. kafli, 1880-1903
(2. hluti)BYGGT BARNASKÓLAHÚS Í VESTMANNAEYJUM.
(Sjá: Dvergasteinn, síðar).


Haustið 1880, 6. okt, samþykkti sýslunefnd Vestmannaeyja á fundi sínum að sækja um lán úr landssjóði, allt að kr. 1.500,00, til skólabyggingar. Séra Brynjólfi Jónssyni var falið að hafa orð fyrir sýslunefnd og sækja um lánið til landshöfðingja. Jafnframt var beðið um þá greiðsluskilmála, að lánið mætti greiðast á 28 árum.
Eftir 5 daga, 11. okt. 1880, svaraði landshöfðingi sýslunefndinni og hét henni láninu. Bréfið var svohljóðandi:

„Með bréfi frá 6. þ.m. hefur séra Brynjólfur Jónsson fyrir hönd sýslunefndarinnar farið þess á leit, að sýslunefndinni verði veitt úr landssjóði 1.500 króna lán til að byggja barnaskóla í Vestmannaeyjum gegn því, að lánið ávaxtist og endurborgist með 6% árlega af hinni upphaflegu upphæð lánsins.
Fyrir því skal sýslunefndinni hér með tjáð, að ég er fús á að veita hið umbeðna lán, þegar hin nauðsynlegu skilyrði hér, samkvæmt 43. gr. sbr. 26. gr. nr. 7 tilskipunarinnar um sveitastjórn, eru fyrir hendi, og hefi ég í dag leitað hinnar nauðsynlegu skýrslu hér að lútandi hjá amtsráðinu.

Hilmar Finsen.
Til sýslunefndarinnar
í Vestmannaeyjum.“


Sökum samgöngutregðu barst þetta bréf landshöfðingja ekki sýslunefndinni fyrr en eftir 5—6 mánuði. Ef til vill hefur bréfið verið sent austur í Landeyjar og beðið vertíðarskipa, svo sem algengt var þá á þessum tíma árs um bréfapóst. Bréfið lá þess vegna ekki fyrir fundi í sýslunefnd fyrr en 10. apríl árið eftir (1881).
Þegar hinn danski selstöðukaupmaður í Danska-Garði í Eyjum frétti það, að landssjóður mundi lána fé til byggingar barnaskóla í sveitarfélaginu, hugðist hann fá sýslunefndina til að hætta við áform sitt um að byggja barnaskólahús með því að bjóða henni til kaups húseign eina í Eyjum við góðu verði að hans áliti.
Um miðjan júní 1881 lá sem sé fyrir fundi sýslunefndar bréf frá J.P.T. Bryde kaupmanni, þar sem hann bauð sýslunefnd til kaups tómthúsið Uppsali til skólahalds fyrir kr. 1.400,00 út í hönd.
Með því að vitað var, að tómthús þetta var í alla staði illa byggt og léleg vistarvera, þó að sýslumaðurinn M.M. Aagaard hefði búið þar um hríð, afréð sýslunefndin að hafna boði kaupmannsins, enda talið vafasamt, að Uppsalir yrðu ódýrari en hið fyrirhugaða skólahús, þegar þeir höfðu verið gerðir nothæfir til skólahalds.
Haustið 1881 fól sýslunefnd aftur séra Brynjólfi Jónssyni að gera á ný kostnaðaráætlun um efniskaup í skólabygginguna. Presti til aðstoðar um áætlunina skyldu þeir vera Sigurður Sveinsson í Nýborg, hinn væntanlegi byggingarmeistari hússins, og Jósef Valdason, skipstjóri*. Ástæðan fyrir þessari nýju áætlun var sú, að gerðar höfðu verið breytingar á hugmyndinni um gerð hússins og stærð. Það skyldi verða 6 álnum (3,8 m) styttra en upphaflega var ætlað og 2 álnum (1,25 m) hærra að veggjum, þ.e. tveggja hæða, aðalhæð og rishæð, en án kjallara.
Síðari hluta nóvembermánaðar 1881 var síðan efniskaupaáætlun þessi lögð fram á fundi sýslunefndar. Á þeim fundi var sýslumanninum, oddvita nefndarinnar (M.M. Aagaard), falið að panta nauðsynlegt efni til byggingarframkvæmdanna frá Danmörku. Skyldi hann reyna að fá mann í Kaupmannahöfn til þess að annast kaup á efninu og sendingu þess til landsins næsta ár.
Í aprílmánuði 1882 kom síðan hið útlenda byggingarefni í skólahúsið til Eyja með verzlunarskipi. Sýslunefnd fól þá tveim mönnum að „taka efnið út“ og bera magn þess saman við reikninginn. Til þess verks voru kjörnir þeir Þorsteinn Jónsson alþingismaður, Nýjabæ, og Lárus Jónsson hreppstjóri á Búastöðum. Þá var einnig kjörin þriggja manna nefnd til þess að standa fyrir byggingarframkvæmdum. Til þess trúnaðarstarfs kaus sýslunefndin einum rómi þá Þorstein Jónsson, héraðslækni og oddvita, Þorstein Jónsson, alþingismann og hreppstjóra, og Gísla Stefánsson, verzlunarmann í Hlíðarhúsi.
Hinu nýja skólahúsi hafði verið valinn staður skammt sunnan við þinghúsið, austanvert við troðningana eða götuna, sem lá úr Sandi í stefnu á Helgafell og farin var upp á Gerðisbæi og austur á byggð. Sá vegur heitir nú Heimagata, þar sem húsið var byggt. Fyrra hluta sumars 1882 var leskjað það kalk, sem kom um vorið með verzlunarskipinu frá Danmörku. Brátt kom í ljós, að það var alltof lítið að magni. Var því Jósef Valdason skipstjóri sendur til Reykjavíkur um haustið á jakt sinni Josephine til þess að sækja 25 tunnur af kalki til viðbótar. Það var leskjað um haustið.
Í september 1882 voru smíðaðir gluggarnir í skólahúsið. Það gerði Jón smiður Vigfússon í Túni.
Múrverk við grunn hússins unnu þeir tómthúsmennirnir Guðmundur á Fögruvöllum, Guðmundur í Batavíu og Jón í Landlyst.
Vinnulaun daglaunamanna árið 1882 voru kr. 1,50 fyrir að ætla má 10 tíma vinnu. Trésmiðir og múrverksmenn fengu kr. 2,00—2,25 fyrir dagsverkið, en meistarinn sjálfur (Sigurður Sveinsson) hafði kr. 2,75 í daglaun.
Aðstoðarmenn múrverksmanna voru kallaðir handlangarar. Þeir voru 5 þetta sumar og báru úr býtum kaup sem hverjir aðrir daglaunamenn.
Haustið 1882 og fram yfir áramót var mikið unnið að grjóthögginu, bæði í þegnskylduvinnu samkv. fundarsamþykkt 1880 og áður er getið, og svo unnu þar margir menn fyrir fullt kaup, en við þá vinnu var greitt kr. 1,82 fyrir dagsverkið.
Móbergið í húsið var sprengt og brotið úr svokölluðum Hettugrjótum niður af Hettu vestan Hettusands, sem er norðan undir Heimakletti. Í febrúar og marz 1883 voru fluttir 204 tilhöggnir steinar, sem höggnir höfðu verið í þegnskylduvinnu, og 750 tilhöggnir steinar aðrir á byggingarstað. Einnig 25 móbergssteinar óhöggnir, ætlaðir í reykháf hússins og síðar höggnir. Grjótið var flutt á juli yfir Botninn og síðan borið á handbörum úr Sandi suður að grunninum.
M.a. sem þarna unnu við grjótburð, var Herdís Magnúsdóttir, vinnukona Sigurðar í Nýborg, og bar úr býtum 84 aura fyrir dagsverkið. Grjótflutningar þessir stóðu í 7 daga. Fyrir flutninginn á grjótinu yfir Botninn var greitt kr. 1,60 á hvert hundrað steina. Julið var lánað endurgjaldslaust, en dagsleiga þess metin á kr. 1,75.
Hleðsluvinnan við bygginguna hófst upp úr vertíðarlokum 1883, og þá sérstaklega með júnímánuði. Í þeim mánuði unnu alls 18 menn við bygginguna, og innt voru af hendi á 2. hundrað dagsverk. Þetta var því ígripavinna hjá mörgum þessara manna.
Í júlímánuði voru unnin 30— 40 dagsverk trésmíði, 30 dagsverk múrverk og 34 dagsverk handlangarastörf. Alls unnu þá 12 menn við bygginguna fleiri og færri daga. Annars var gert nokkurt hlé á byggingarframkvæmdum um miðsumarið. Eyjamenn stunduðu sjó, slátt og svo fuglaveiðar. Bjargræðið þurfti síns vinnuafls við. En með septembermánuði var aftur tekið til óspilltra málanna við byggingarstörfin.
Í septemberlok 1883 var skólabyggingunni svo langt komið, að sperrur voru reistar og reisugildi haldið. Það kostaði sýslusjóðinn 12 krónur.
Í októbermánuði 1883 var svo unnið að því að fullgera þak skólahússins. Það var lagt borðum og svo klætt tjörupappa einvörðungu fyrst í stað.
Í nóvembermánuði um haustið voru unnin 54 dagsverk við trésmíði, og 34 dagsverk handlangarastörf. Í þeim mánuði vann Jósef Valdason, skipstj.* að því að höggva til steina í reykháf hússins og hlaða hann.
* Faðir Jóhanns Þ. Jósefssonar.

Þetta sumar voru keyptar 3 tunnur af sementi í Brydeverzlun til byggingarinnar. Verðið var 14 kr. hver tunna. Annað sement mun að sjálfsögðu hafa verið í dönsku vörusendingunni, en þann vörulista hefi ég ekki rekizt á eða séð.
Þetta sumar voru einnig keyptar í Brydeverzlun 26 rúður í húsið á 75 aura hver þeirra.
Í árslok 1883 nam byggingarkostnaðurinn kr. 2.790,10. Hér á eftir fer reikningurinn yfir byggingarframkvæmdirnar, eins og Þorsteinn læknir Jónsson, oddviti Vestmannaeyjahrepps, lagði hann fyrir sýslunefnd í jan. 1884.

Gjöld: Krónur
1. Reikningur frá kaupm. H.E. Thomsen til sýslunefndarinnar yfir við, saum, pappa m.m. 786,77
2. Reikningur frá sama yfir kalk m.m. 352,24
3. Reikningur yfir flutning á kalki frá Reykjavík 60,65
4. Reikn. frá O. Finsen yfir kostn. við kalkið í Reykjavík 12,50
5. Uppskipun á kalkinu hér 23,10
6. Til Sigurðar Sveinssonar fyrir að búa til kalkgryfju, tæma kalkið í hana m.m. 17,48
7. Til sama fyrir við og vinnu 117,48
8. Í Miðbúð tekið út sement, gler m.m. 61,10
9. Í Austurbúð úttekið 1.439,28
Til jafnaðar tvíritað tekjumegin 129,78
Kr. 3.000,38
TEKJUR: Krónur
1. Lán úr landssjóði 1.500,00
2. Lagt í reikning skólahússins í Austurbúð 1.439,28
3. Í Miðbúð 61,10
3.000,38

Athugasemd: Upphæð reikningsins er svo, sem að ofan er ritað, kr. 3.000,38, en allur kostnaður við byggingu hússins er þó aðeins kr. 2.790,10, sem kemur til af því, að tekjumegin eru tvíritaðar kr. 129,78 sökum þess, að sýslumaður hefur skrifað téða upphæð af láninu úr landssjóði inn í reikning skólans í Austurbúð. Fyrir seldar tunnur og eina afturskilaða er tekjumegin í fylgjskjölum 9 og 10 kr. 72,00, og fyrir júffertu, er aftur var skilað, kr. 7,00 og málskostnaður kr. 1,50. Skólinn á enn 9 tunnur, sem eigi eru seldar eða aftur skilað.

Vestmannaeyjum í jan. 1884.
Þorsteinn Jónsson, G. Engilbertsson, G. Stefánsson.

Að sjálfsögðu er vitnað til fylgiskjala í reikningi þessum.
Gjaldaliður nr. 9, kr. 1.439,28, er, sem séð verður, greiddur með tekjulið 2. Þessir peningar eru ekki nema að nokkru leyti framlag úr hreppssjóði og sýslusjóði. Árið 1880, að bezt verður vitað, tóku nokkrir menn í Eyjum sig saman, þegar sýnt var, að skriður kæmist á um stofnun barnaskóla þar, og mynduðu með sér félagsskap, sem safna skyldi fé til að styrkja fátæk börn í Eyjum til náms í barnaskólanum. Þennan félagsskap kölluðu þeir dönsku nafni e.t.v. til þess að glæða áhuga dönsku kaupmannanna og verzlunarþjónanna á því að leggja fé í sjóðinn. Þeir kölluðu félagsskapinn „Foreningen for fattige Börns Undervisning.“ Þessi félagsskapur safnaði fé til skólabyggingarinnar. Sá sjóður nam með vöxtum og gjöfum einstaklinga kr. 325,77 í árslok 1881.
Svo sem tekjuliðirnir bera með sér, hafði þá þegar verið fengið lánið hjá landssjóði, enda þótt skuldabréfið væri ekki undirritað fyrr en 27. maí 1884.
Sumarið 1884 var unnið að skólabyggingunni og henni lokið þá síðsumars. Þá var húsið „sementerað“ utan og „hvíttað“ og málaðir gluggar utan og innan og innveggir. Það verk allt kostaði rúmlega 100 kr. Alls mun húsið hafa kostað tæpar kr. 3.000,00 í stað tveggja, eins og áætlað var, en kostnaður farið nær 50% fram úr áætlun.
Á fjárhagsári sýslunnar 1883-1884 voru greiddar úr sýslusjóði kr. 795,40 til skólabyggingarinnar og kr. 433,00 árið eftir (1884—1885).
Árið 1883, þegar meginbyggingarframkvæmdirnar voru inntar af hendi, voru teknar út í verzlun J.P.T. Bryde, Garðsverzlun, allskyns byggingarvörur fyrir kr. 1.380,62. Í úttekt þessari felast einnig vinnulaun, sem verzlunin greiddi fyrir byggingarsjóð eða sýslusjóð, lánaði honum til bráðabirgða. Vinnulaun voru skrifuð á milli reikninga, en ekki greidd í peningum, sem naumast sáust manna á milli. Einnig gáfu menn smáupphæðir til byggingarinnar og voru þær gjafir skrifaðar út af reikningi gefandans hjá verzluninni og inn á skólareikninginn. Við áramót greiddi síðan sýslunefnd að fullu skuld sína við verzlunina og nam hún kr. 734,30.
Sumarið 1884 samþykkti hreppsnefnd Vestmannaeyja að verja skyldi árlega kr. 200,00 úr hreppssjóði til reksturs barnaskólanum. Þá samþykkti sýslunefnd að sækja um jafnháan styrk úr landssjóði handa honum.
Haustið 1884 var barnaskóli Vestmannaeyja fluttur úr hinni gömlu Nöjsomhed (1833) í hið nýja skólahús.
Sýslunefndin auglýsti eftir kennara að skólanum í „Þjóðólfi“. Ein umsókn barst henni. Hún var frá fjórða Vilborgarstaðabróðurnum, Lárusi stúdent Árnasyni. Þar sem þessi umsókn er á ýmsan hátt sérstæð, leyfi ég mér að birta hana hér:
„Samkvæmt auglýsingu sýslunefndar á (sic) Vestmannaeyjum, sem dagsett er 4. dag júnímánaðar þ.á. og prentuð í 35. árg. „Þjóðólfs“, 23. blaði, leyfi ég mér að bjóðast til að hafa á hendi barnakennslu hér í Eyjum í vetur, ef sýslunefndin og ég skyldi verða ásátt um kaupið.
Með því að ég hefi í hyggju að fara héðan við fyrsta landleiði, ef sýslunefndin og ég getum ekki orðið á eitt sátt með kaupið, leyfi ég mér að óska, að sýslunefndinni þóknist að gera út um þetta sem fyrst.

Vestmannaeyjum, 16. sept. 1884
Lárus Árnason.
Til sýslunefndarinnar í Vestmannaeyjum.“
1962 b 92.jpg

Lárus Árnason á Vilborgarstöðum, — barnakennari í Vestmannaeyjum 1884—'85.
Lárus var fæddur að Vilborgarstöðum 24. jan. 1862, albróðir hinna fyrri barnakennara í Eyjum. Þegar Lárus gerðist barnakennari, hafði hann lokið stúdentsprófi. — Sumarið eða haustið 1885 sigldi Lárus Árnason til Kaupmannahafnar og tók að lesa lyfjafræði við Háskólann. Að því námi loknu fór hann til Ameríku og settist þar að. Hann var lengi lyfsali í Grand Forks í Kaliforníu.
Samningar tókust milli Lárusar Árnasonar og sýslunefndar, enda ekki annað vitað, en að umsókn hans sé sú eina, sem barst sýslunefndinni og hart nær tveim og hálfum mánuði eftir að auglýsingin birtist almenningi.
Laun kennarans voru kr. 70.00 á mánuði, meðan skólinn starfaði eða í 5 mánuði (1. okt. —1. marz). Kenna skyldi hann 4 stundir á dag. Eiginlegur skólastjóri var séra Brynjólfur Jónsson, enda þótt hann kenndi ekkert við skólann og hefði þar ekki daglegt eftirlit. Það er tekið fram í fundargerð sýslunefndar, að kennarinn skuli haga allri kennslunni eftir fyrirmælum prestsins, sem sýslunefnd hefur falið umsjón skólans. Sýslunefndin afréð, að skólagjald skyldi vera kr. 15 sem áður fyrir hvert barn allan skólatímann eða 3 krónur á mánuði. Greiða skyldi alls 25 krónur, væru börnin tvö frá sama aðila og kr. 32,00 væru þau þrjú. Skólagjaldið skyldi greiðast fyrir fram eða áður en barnið hóf nám í skólanum.
Sigurður Sveinsson í Nýborg var kjörinn innheimtumaður skólagjaldanna fyrir hönd sýslunefndarinnar. Um var samið, að Lárus kennari skyldi „annast húsvörzlu í skólanum og annast að öllu leyti þjónustu skólans gegn 20 króna greiðslu fyrir allan kennslutímann.“
Sýslunefndin fól hreppsnefnd með forustu Þorsteins læknis að útvega skólanum hin nauðsynlegustu áhöld og hafa lokið því fyrir 1. okt., en þá skyldi skólinn settur fyrsta sinni í nýja skólahúsinu. Allt fór það eftir áætlun hjá Þorsteini lækni og oddvita. Nemendum, sem voru innan við 20 á aldrinum 10—15 ára, var öllum kennt í einni deild sem áður og í kennslustofunni á aðalhæð (neðri hæð) hússins. Rishæð hússins, loftið, fékk sýslumaður til afnota. Þar geymdi hann skjalasafn embættisins á gólfinu.
Svo sem áður er drepið á, þá höfðu fátækir foreldrar ekki efni á að greiða skólagjaldið fyrir börn sín og unglinga. Af þeim sökum urðu margir af skólavistinni.
Eftir veturinn 1884—1885 gaf Lárus Árnason ekki kost á sér lengur í kennarastarfið. Haustið 1885 sigldi hann til Kaupmannahafnar til þess að lesa lyfjafræði.
Sumarið 1885 var Þorsteini alþingismanni Jónssyni í Nýjabæ falið að útvega kennara að barnaskólanum, er hann væri kominn til þings. Launin skyldu vera hin sömu og Lárus Árnason hafði, eða 70 krónur á mánuði frá 1. okt. til 1. marz.
Síðari hluta júlímánaðar barst sýslunefndinni bréf frá alþingismanninum varðandi ráðningu kennarans. Einn maður bauðst til starfans, Jón Jónasson Thorsteinsen guðfræðikandidat. Launakröfur hans voru 100 krónur á mánuði, meðan skólinn starfaði, eða 70 kr. í peningum og ókeypis fæði, húsnæði og þjónusta. Sýslunefnd gekk að þessu síðara boði, og var skólaárið afráðið frá 1. okt.—28. febr. sem áður. En sýslunefndin gerði þær gagnkröfur, að kennarinn veitti einum unglingi í húsi því, er hann kæmi til að búa í, ókeypis tilsögn eftir nánara samkomulagi. Tekið er fram, að greiða megi kennaranum 20 krónur úr sýslusjóði í ferðastyrk til Eyja, ef nauðsyn ber til. Sóknarpresti var falið að skrifa alþingismanninum og tjá honum þessa samþykkt sýslunefndar. Þetta varð allt að samkomulagi, og Jón J. Thorsteinsen kom til Eyja haustið 1885 og var þar barnakennari það skólaár, (1885—1886). (Sjá grein hér síðar um J.Th.: Kennaratal).
Séra Brynjólfur Jónsson lézt 19. nóvember 1884.
Sýslunefndin fann þar stórt skarð fyrir skildi, er séra Brynjólfur var fallinn frá, svo vel og dyggilega hafði hann starfað og unnið að þessum hugsjóna- og menningarmálum, þar sem var barnaskóli Vestmannaeyja, og félagsmálum sveitarfélagsins í heild. — Nú vildi sýslunefnd reyna að fylla að einhverju leyti þetta mikla skarð. Í byrjun júnímánaðar 1885 kaus hún skólanefnd fyrsta sinni. Skólanefndarmennirnir skyldu í sameiningu annast þau störf í þágu skólans, sem séra Brynjólfur hafði að mestu leyti annazt einn áður fyrir hönd sýslunefndar.
Fyrsta skólanefnd Vestmannaeyja var skipuð þrem mönnum, þeim séra Stefáni Thordersen, biskupssyni, sem varð prestur í Eyjum 1885, og sýslunefndarmönnunum Gísla Stefánssyni í Hlíðarhúsi og Sigurði Sveinssyni í Nýborg. Þeir skiptu sjálfir með sér verkum innan nefndarinnar. Varð prestur formaður hennar, Sigurður gjaldkeri og Gísli ritari. Þessir menn skyldu veita skólanum forstöðu, eins og komizt er að orði um verksvið nefndarinnar: „skipta störfum við forstöðu skólans á milli sín.“
Skólanefndinni bar að leggja fyrir sýslunefndina tillögur sínar um kennsluna í skólanum, áætlun um tekjur og gjöld við rekstur hans fyrir komandi ár og svo reikning umliðins árs.
Árið 1885 sótti sýslunefnd Vestmannaeyja fyrsta sinni um styrk úr landssjóði til handa skólanum fyrir árið 1884. Engan styrk fékk skólinn það ár sökum þess, hve seint var um hann sótt.
Jón Thorsteinsen gaf ekki kost á sér til kennslustarfa nema þetta eina ár. Í lok skólaársins fékk hann greitt kaupið sitt í verzlun J.P.T. Bryde og þar að auki kr. 20,00 í ferðastyrk.
Ég birti hér stuttan reikning frá verzluninni til þess að gefa lesendum gleggri hugmynd um verzlunarhættina á þessum árum í Eyjum. Þannig munu þeir hafa verið allt frá upphafi einokunarinnar og voru þannig til enda tímabils dönsku selstöðukaupmannanna. Greiðslur inn á reikninginn munu að mestu leyti vera skólagjöld, sem feður greiða fyrir börn sín.

„Reikningur Barnaskólans í V.Ö.
Frá J.P.T. Bryde verzlan
Westmannaeyia.

1886 Úttekið Kr. aur.
Jan. 2. 8 pd. þakjárn 1/60 1,60
Febr. 19. 9 pt. steinolía 0/18 1,62
— 25. Til Sig.
snikkara
fyrir að smyrja tré
3,00
— — Til Séra
Stephans
Thordersens
45,00
—28. Til Jóns
Thorsteinsens
280.00
— — Til Gísla
Stephanssonar
20,00
— — Til Jóns
Thorsteinsens
fyrir bækur
2,40
— — Til Jóns
Thorsteinsens
ferðakostnaður
20,00
Mismunur 139,88
Kr. 513,50
1886 Innlátið Kr. aur
Til ágóða frá f. ári 397,50
Febr. 24. Frá Pétri
Þorlaugar
gerði
5,00
— — 25. Frá Sigurði
Boston
15,00
— — 27. Frá Jóni
beyki
5,00
— — Guðríði
Helgad.
2,00
Marz 31. Frá Ingimundi
Gjábakka
6,00
— — Frá Einari
Sveinss.
3,00
— — Frá Ólafi
Litlakoti
25,00
— — Frá sýslumanni
M. Aagaard
25,00
— — Frá Magnúsi
Gíslas.
15,00
— — Frá Lárusi
á Búast.
15,00
Kr. 513,50
Til ágóða 139,88
2/4 ‘86
Helgi Jónsson.“


Á fundi sýslunefndar Vestmannaeyja 30. maí 1886 skýrði Stefán Thordersen, formaður skólanefndar, sýslunefndinni frá því, að maður nokkur, sem hann kvaðst ekki nefna að svo stöddu, gæfi kost á sér í kennslustarfið næsta skólaár (1886—1887). Taldi prestur mann þennan vel hæfan til að kenna börnum. Kaupkröfur þessa manns voru kr. 50,00 á mánuði. Sýslunefndin treysti svo vel dómgreind og orðum prestsins, að hún samþykkti ráðningu mannsins í kennarastöðuna og fól skólanefndinni að ganga að öðru leyti frá ráðningu kennarans. Maður þessi reyndist vera Árni Filippusson, „umgangskennari“ úr Holtum í Rangárvallasýslu, þrítugur að aldri.
Árni Filippusson var síðan kennari við barnaskóla Vestmannaeyja í 7 ár (1886—1893) við góðan orðstír. Segja má, að hann væri skólastjóri þessi árin, því að hann naut bráðlega óskipts trausts skólanefndarinnar.
Árni Filippusson þótti stjórnsamur og góður kennari og sýndi góðan vilja til að efla siðgæðisvitund barnanna og trúarleg áhrif. Til þess m.a. lét hann fram fara í skólanum trúarlega morgunstund hvern starfsdag, áður en kennsla hófst. Elztu börnin voru látin skiptast á að lesa morgunbæn og Faðir vor. Sungið var sálmavers á undan og eftir. Námsgreinar skólans voru hinar sömu og jafnan áður: lestur, skrift, reikningur, biblíusögur og kverið. Nemendur Árna voru oftast 15—18 en sum árin þó yfir 20, t.d. fyrsta veturinn, sem Árni var kennari við skólann. Þá voru nemndurnir 22. Ástæðan fyrir nemendafjölguninni mun hafa verið sú að einhverju leyti, að sýslunefnd lækkaði skólagjaldið haustið 1886. Skyldu þá greiddar 12 kr. fyrir hvert barn í stað 15 kr. áður, 20 krónur fyrir tvö börn frá sama aðila og 25 krónur fyrir þrjú börn, allt skólaárið. Það skólaár fengu 10 börn ókeypis kennslu og 4 börn nokkra eftirgjöf á skólagjaldinu. Alls nam skólagjaldið það ár 94 krónum eða rúmlega árlegri greiðslu í landssjóð af byggingarláninu, en sú greiðsla nam 90 krónum árlega, vextir og afborgun, eins og áður er drepið á.
Haustið, sem Árni Filippusson réðist kennari að skólanum (1886), hófst hann ekki fyrr en í septemberlok, enda þótt hann skyldi taka til starfa um miðjan september. Ástæðan var sú, að Árni, sem kom þá úr Holtum, heimabyggð sinni, beið í tvær vikur í Landeyjum eftir leiði til Eyja, eða allan síðari hluta septembermánaðar. Þó greiddi sýslunefndin honum laun fyrir þennan hálfa mánuð. Skólinn starfaði til febrúarloka sem áður. Aðra tíma ársins var Árni Filippusson fastur starfsmaður við Austurbúðina í Eyjum, Brydeverzlun. Hann var vigtarmaður þar á vertíðum og vó sérstaklega salt og kol til kaupenda og aðra svokallaða þungavöru. Fyrir kom, að hann fékk sig lausan frá skólastarfinu, ef vertíð hófst snemma og vel aflaðist. Hljóp þá séra Oddgeir að Ofanleiti (1889—1924) undir annabaggann með barnakennaranum og annaðist kennslustörfin, þegar svo atvikaðist.
Sumarið 1887 sóttu þessir menn um kennarastöðuna við barnaskólann: Páll Bjarnason, skipstjóri á jaktinni Josephine, Eiríkur Hjálmarsson , verzlunarmaður, og Árni Filippusson, kennari. Sá síðasti hlaut stöðuna eins og fyrra ár. (Sjá grein um Á.F.: Kennaratal).
Eins og fyrr segir voru kennaralaun Árna Filippussonar kr. 50,00 á mánuði eða alls kr. 275,00 fyrsta árið. En haustið 1887 lækkaði sýslunefnd launin í kr. 40,00 á mánuði. Af þessari launalækkun spratt óánægja, sem leiddi til átaka og orðaskaks milli sýslunefndar og skólanefndar. Skólanefndin taldi skólanum vel borgið í höndum Árna Filippussonar, sem reyndist svo vel kennslustarfinu vaxinn, að skólanefndin sá ekki ástæður til að hafa þar hönd í bagga um stjórn og kennslu. Hún vildi því ógjarnan eiga það á hættu, að Árni hyrfi frá skólanum sökum launakúgunar. Sýslunefndin taldi sig hinsvegar hafa öll fjármál skólans, ráð og völd í sínum höndum, eins og satt var, og væri skólanefndin því nafnið tómt, ef á milli bæri.
Á fundi sýslunefndar 8. ágúst 1888 lét oddviti hennar, sýslumaðurinn M.M. Aagaard, þau orð falla í eyru séra Stefáns og annarra sýslunefndar- og skólanefndarmanna, að skólanefndin réði engu um launamál kennarans, því að hún hefði hyorki fjárveitingavald né önnur völd, nema sýslunefndinni þóknaðist að veita henni þau.
Skólanefndarmönnunum fannst sér stórlega misboðið með þessum orðum sýslumanns. Bréf, sem presturinn skrifaði oddvita sýslunefndar daginn eftir hinn sögulega fund, gefur hugmynd um valdastreitu þessa um laun kennarans og ráðningu. Bréf prestsins fer hér á eftir. (Allar leturbreytingar eru bréfritarans).
,,Á sýslunefndarfundinum í gær gat ég þess, að hinn núverandi barnakennari, Árni Filippusson, mundi fáanlegur til að taka að sér barnakennsluna í ár með sömu kjörum og að undanförnu. Að afloknum fundi fór ég til hans og talaði við hann um þetta. Þóttist hann þá misskilinn af mér og kvaðst ekki hafa boðizt til að verða kennari í ár með sömu launum sem í fyrra, heldur krafðist hann 50 kr. um mánuðinn í stað 40.
Það kemur ekki þessu máli við, að ég fari að bera hönd fyrir höfuð mér um réttan skilning minn eða skilningsleysi á orðum og gjörðum kennarans, en þar sem ég engar lagasannanir get borið fram fyrir réttum skilningi mínum á og rétthermi í þessu efni, enda ekki vildi þó gæti, því að allt átti sér stað aðeins „prívat“ milli okkar, og geta báðir hafa misskilið hvor annan, — svona í munnlegri samræðu, enda gleymzt ýmis orð og atvik þar að lútandi, þá verð ég, fyrst svona er komið, að skýra hinni heiðruðu sýslunefnd frá þessu og biðja oddvitann að kalla saman fund sem allra fyrst að kostur er á, því að í eindaga má heita komið með að útvega annan, ef nefndinni ekki semur við kennarann, sem nú er.
Ég skal aðeins leyfa mér að láta í ljós þá skoðun mína, að mér virðist það næsta óheppilegt fyrir kennsluna í skólanum, ef menn verða að láta 10 (tíu) krónur um mánuðinn standa fyrir því að fá að halda kennara, sem að góðu er reyndur, og taka svo einhvern nýjan, sem, hversu góður, sem hann kann að verða, þó ennþá er með öllu óreyndur. Slíkt væri að minni hyggju beinlínis tilraun til að eyðileggja kennsluna í skólanum, svo að hann yrði aðeins til að nafninu, og slíkur skóli er snöggtum verri en enginn.
Skólanefndin mundi að öðru leyti hafa leitt hjá sér að ónáða sýslunefndina í þessu máli, hefði hún ekki heyrt í gær á fundinum út talað af herra oddvitanum, að hún (skólanefndin) ekkert hefði að segja, þar sem hún ekkert fjárveitingavald hefði. Munum vér því á hinum fyrirhugaða fundi biðja sýslunefndina um að skýra oss gjör frá því, hver sé vor verkahringur sem skólanefnd, því að vér viljum ekki sitja í skólanefnd aðeins að nafninu fyrir þann skóla, sem mönnum kynni að þóknast að gjöra að skóla aðeinsnafninu.
Það er ósk vor undirritaðra sýslunefndarmanna, að aukasýslunefndarfundur verði haldinn sem allra fyrst til að ræða út um þetta mál og fleira, er skólann snertir.

Vestmannaeyjum, 9. ágúst 1888
Stefán Thordersen,
Gísli Stefánsson,
G. Engilbertsson.
Til oddvita sýslunefndarinnar
í Vestmannaeyjum.“

Sætzt var á að greiða Árna kennara kr. 250,00 fyrir skólaárið eða kr. 45,45 á mánuði frá 15. sept. til 1. marz. Færi tala nemenda fram úr 15, skyldi greidd launauppbót. Vantaði hinsvegar á töluna, var skólanefnd heimilt að veita utanhéraðsbörnum skólavist, þar til tölunni 15 væri náð.

III. hluti

Til baka