Sigurður Einarsson (forstjóri)

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search
Sigurður hjálpar til í vinnslunni.
Guðbjörg og Sigurður.

Sigurður Einarsson fæddist í Reykjavík 1. nóvember 1950. Hann lést á heimili sínu í Vestmannaeyjum 4. október 2000. Foreldrar hans voru hjónin Svava Ágústsdóttir og Einar Sigurðsson útgerðarmaður frá Heiði í Vestmannaeyjum. Þau eignuðust 11 börn á 15 árum. Einar, faðir Sigurðar, átti sjávarútvegsfyrirtæki víða um land en mest voru umsvifin í Vestmannaeyjum. Árið 1976 kvæntist Sigurður Guðbjörgu Matthíasdóttur kennara. Þau bjuggu allan sinn búskap í Vestmannaeyjum og eignuðust fjóra syni, Einar, Sigurð, Magnús og Kristinn.

Sigurður ólst upp í Reykjavík og þar fór hann í Menntaskólann í Reykjavík og lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1974. Eftir lögfræðinám Sigurðar settust hann og Guðbjörg að í Vestmannaeyjum þar sem Sigurður tók við stjórn fyrirtækis föður síns, Hraðfrystistöð Vestmannaeyja. Strax á fyrstu árum Sigurðar í Vestmannaeyjum sáu Eyjamenn hve heppnir þeir voru með þennan unga mann sem forstjóra þessa öfluga fyrirtækis. Enginn borgarhroki var í Sigurði og sýndi hann að hann var svo sannarlega Eyjapeyi í raun.

Árið 1992 sameinaðist Hraðfrystistöðin Ísfélagi Vestmannaeyja og tók Sigurður við stjórn þessa sameinaða fyrirtækis sem hlaut nafn Ísfélagsins.

Sigurður sat í bæjarstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá 1986-1994 og frá 1998 þar til hann lést. Hann starfaði auk þess mikið fyrir flokkinn og var í ýmsum nefndum og ráðum. Sigurður var formaður fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna 1984-8 og sat í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins um árabil.Heimildir

  • Friðrik Ásmundsson. Sjómannadagsblað Vestmannaeyja. 2001.
  • Sigurður Einarsson útgerðarmaður í Vestmannaeyjum. Dagur. 14. okt 2000.