Difference between revisions of "Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2005/Léttir 70 ára 1935-2005"

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search
 
Line 1: Line 1:
 
<center>'''FRIÐRIK ÁSMUNDSSON'''</center><br>
 
<center>'''FRIÐRIK ÁSMUNDSSON'''</center><br>
<big><big><BIG><center>'''Léttir 70 ára 1935 - 2005'''</center><br><br>
+
<big><big><big><center>'''Léttir 70 ára 1935 - 2005'''</center></big></big><br>
 
   
 
   
 
'''FYRIR DAGA LÉTTIS'''<br><br>
 
'''FYRIR DAGA LÉTTIS'''<br><br>

Latest revision as of 15:02, 9 August 2019

FRIÐRIK ÁSMUNDSSON

Léttir 70 ára 1935 - 2005

FYRIR DAGA LÉTTIS

Í mörg ár áður en Vestmannaeyjahöfn varð nægjanlega stór og djúp til þess að koma þar inn farm - og stærri fiskiskipum sem hingað leituðu, varð að þjónusta þau á ytri höfninni (Víkinni). Vörur voru fluttar frá borði og um borð í vélarlausum, opnum, bátum (uppskipunarbátum) sem vélbátar drógu. Embættismenn,
Þetta líkan af Létti smíðaði Þór Ástþórsson (Fúddi á Sóla). Það er eftir upphaflegri teikningu, ekki búið að hækka hann upp að framan og ekki er búið að loka honum að aftan. Þór lauk við líkanið í nóvember 1996 og gaf æskuvini sínum, Árna, syni Filippussar útgerðarmanns Léttis til margra ára
tollverðir, héraðslæknar og lóðsar voru fluttir út í þau á árabátum. Oft þurfti að sinna sjúkum og slösuðum sjómönnum og flytja þá í land til frekari aðhlynningar. Nærri má geta hvernig það hefur gengið þegar ylgja hefur verið í sjóinn, að róa út og taka hina slösuðu og veiku um borð í árabátana. Í austanbrælum lögðust skipin undir Eiðið og var þá árabáturinn dreginn yfir það og síðan róið þaðan að skipshlið og til baka þegar erindum lauk. Eftir að vélbátarnir komu, var oft leitað til útgerðarmanna þeirra vegna þessara starfa en þeir voru tregir að lána þá. Alltaf var sú hætta fyrir hendi að þeir brotnuðu við skipshlið þegar kaldi var og engar tryggingar tóku yfir þess háttar tjón.
Ólafur Ólafsson, skipstjóri á Létti
Filippus Gunnar Árnason, útgerðarmaður Léttis
Kristján Linnet, bæjarfógeti meðeigandi fyrstu árin
Þegar Kristján Linnet varð bæjarfógeti í Vestmannaeyjum árið 1924, varð það honum kappsmál að bæta þessa flutninga á tollvörðum, héraðslæknum og lóðsum um borð í skipin sem hingað komu. Bæði farm - og fiskiskip hvers konar. Í staðinn fyrir opinn árabát vildi hann fá lokaðan vélbát. Hann ræddi þetta oft við Filippus Gunnar Árnason í Ásgarði sem hafði starfað við þessa flutninga fyrir bæjarfógeta - og héraðslæknisembættin. Filippus var síðar tollvörður í mörg ár. Hann leitaði eftir aðstoð ríkisvaldsins til þess að kaupa eða smíða vélbát til þessara ferða en fékk enga úrlausn um fjárstuðning eða fyrirgreiðslu. Svona gekk það fyrstu 4 ár Kristjáns í embættinu, hvorki rak né gekk. Allir sem þekkja til þessara starfa í dag, geta ímyndað sér hvernig þetta var. Róa um borð í skipin austur á Vík eða inn fyrir Eiði, taka slasaða eða sjúka menn niður í opinn árabátinn og róa svo aftur í land. Stundum var eingöngu um farþega að ræða í þessum ferðum. Ferðirnar og erindin voru mismunandi hverju sinni. Árið 1928 ákváðu þeir Filippus og Óskar Bjarnasen, skrifstofumaður hjá
Brimill
bæjarfógeta, að láta smíða bát til þessara ferða fyrir eigið fé. Báturinn var smíðaður í Vestmannaeyjum og fékk hann nafnið Brimill. Hann var úr furu, 4 brl með 2 x 20 hestafla Fordvélar. Árið 1932 var þeim skipt út fyrir 25 hestafla Skandiavél. Um borð var rúmgóð káeta, farþegarými, fyrir sjúkrarúm og aðstöðu til aðhlynningar og hjúkrunar. Brimill þótti traustur og góður bátur í sjó að leggja en hans naut ekki lengi við. Í vikublaðinu Víði, sem gefið var út í Vestmannaeyjum, er eftirfarandi hinn 27. apríl 1934.

SORGLEGT SLYS
Sl. sunnudagskvöld, (það var 22. apríl 1934 þegar bátar voru að koma af sjó, vildi svo til að m.b. Veiga mætti í Faxasundi litla vélbátnum „Brimli.“ Dimmt var orðið og auk þess kafaldsfjúk. Vildi þá svo slysalega til að bátarnir rákust saman og það svo hastarlega að „Brimill“ sökk samstundis. Á bátnum var aðeins einn maður, James White Halldórsson frá Björgvin hér í bæ, og fórst hann með bátnum. Var J. White ungur maður, ötull og talinn drengur góður. (Sjá mynd á bls. 60).

LÉTTIR
Strax um sumarið 1934 fór Kristján Linnet aftur af stað og leitaði stuðnings opinberra aðila um kaup eða smíði báts í staðinn fyrir Brimil. En ekkert gekk. Þá ákváðu þeir Filippus og Linnet að láta smíða hafnarbát fyrir eigið fé. Samið var við aðila í Raa í Svíþjóð um smíðina. Og í framhaldi af því gerðu þeir mágarnir, Filippus og Ólafur ólafsson, bæjarfógetaembættinu tilboð í starfsemina þegar báturinn kæmi. Var það samþykkt og gekk það eftir til margra ára. Þessi hafnarbátur fékk nafnið Léttir og einkennisstafina VE 327. Hann kom hingað til Eyja með flutninga - og farþegaskipinu Íslandi 4. febrúar 1935. Raa er sunnarlega á vesturströnd Svíþjóðar, á móts við Kaupmannahöfn, svo trúlega hefur fyrsta sigling Léttis verið þar yfir Eyrarsundið til Kaupmannahafnar þaðan sem Íslandið sigldi til Íslands með viðkomu í Leith í Skotlandi og Þórshöfn í Færeyjum.
Í virðingarbókum Bátaábyrgðarfélags Vestmannaeyja kemur eftirfarandi fram eftir komu Léttis:

LÉTTIR VE 327
Eigendur Filippus G. Árnason
Kristján Linnet Form. Olafur Ólafsson
Virðing:

1. Báturinn sjálfur 5800,00
2. Akkeri til sjóferða með tilh. 200,00
3. Raflýsing áttaviti og þokuhorn 650,00
4. Ýmisleg fargögn 200,00
5. Mótorinn með tilh. 5450,00
Samtalskr 12300,00 Báturinn er að stærð 5 smálestir með 25 - 30 hk. Skandiavél.
Af því sem fylgja ber vantar ekkert og allt í standi. Hann telst til 1 fl. A
Vestmannaeyjum 7. febrúar 1935
Jónatan Snorrason Guðmundur Jónsson
Tryggður frá 7/2 - '35 til 6/2 - '36

Eins og áður kom fram, áttu þeir Filippus og Kristján Linnet Létti saman í upphafi, sinn helminginn hvor. Þegar Kristján hætti sem bæjarfógeti hér 1940 og Sigfús M. Johnsen frá Frydendal tók við, keypti hann hlut Linnets. Og þegar Sigfús lét af embætti og flutti til Reykjavíkur 1949 keypti Filippus hlut hans og varð þá einn eigandi Léttis.
Það var svo 28. apríl 1950 að Filippus seldi hafnarsjóði Vestmannaeyja helminginn í Létti fyrir 26.500,00 kr. Og 29. mai 1959 seldi hann hafnarsjóði seinni helminginn fyrir 100,000,00 kr. Frá þeim tíma hefur hafnarsjóður verið einn eigandi hans.
Ólafur Ólafsson á Hvanneyri, mágur Filippusar, Jóna systir Ólafs var kona Filippusar, var með Létti frá upphafi til 1967 í 32 ár. Samstarf þeirra máganna var, frá fyrstu tíð, einstaklega farsælt. Filippus annaðist reksturinn og Óli á Létti, eins og hann var oftast kallaður alla tíð, mjög farsæll formaður. Allt viðhald og umgengni um bát og vél var til fyrirmyndar. Að því býr hann enn. Ólafur var með hann áfram fyrir hafnarsjóð og farnaðist vel, sem fyrr, til ársins 1967 að hann hætti.
Í upphafi var Léttir yfirbyggður að hluta, aftur fyrir miðju, en þar fyrir aftan var hann opinn. Árið 1963 var honum alveg lokað hjá Skipaviðgerðum. Vélin var frammi í og gaf 6,5 sml. hraða. Árið 1944 var skipt um vél og í staðinn fyrir Skandiavélina kom Caterpillarvél, 40 hestöfl, og var hún líka höfð frammi í. Skandiavélin' fór síðar í bát sem þeir mágarnir Filippus og Ólafur voru að smíða hér í Eyjum og fékk nafnið Haddi.
Árið 1948 var Léttir tekinn upp í Dráttarbraut Vestmannaeyja til viðgerðar og lagfæringar hjá Gunnari Marel Jónssyni. Byrðingurinn var hækkaður um átta tommur, tvo planka, frá framstefni að miðri yfirbyggingu. Þessi breyting varð til mikilla bóta sérstaklega á mótstími í brælum. Enn var hann tekinn til lagfæringa og endurbóta á árinu 1964 og 1975 var enn skipt um vél. Nýr Caterpillar, 99 hestöfl, kom um borð og var hann settur aftur í,þar sem hann er enn. Skv. nýjustu mælingu er hann 8,38 bt., lengdin er 9,78 m, breiddin 2,84 m og dýptin er 1,13 m.

STÖRFIN GEGNUM TÍÐINA

Léttir var tekinn í notkun, þegar hann kom, við flutning á tollvörðum, læknum og lóðsum í hin mörgu skip sem hingað áttu erindi. Sérstaklega voru skipakomur margar, erlendis frá, á stríðsárunum. Tollarar voru alltaf fluttir um borð til að tollskoða við hverja komu. Þá voru skipin tollskoðuð áður en þau komu inn í höfnina. Var það í mörg ár eftir stríðsárin. Annaðhvort var það gert á Víkinni, austur í Flóa, eða fyrir innan Eiði eftir veðuraðstæðum. Oft hafa þeir á Létti siglt þarna um í björtu og fallegu veðri á einstaklega fallegri og tignarlegri leið. Margir erlendir farmenn hafa sagt að innsiglingin í Vestmannaeyjahöfn sé sú fallegasta sem þeir hafi augum litið. Menn sem hafa komið til fjölda hafna í öllum heimsálfum. Hún var líka oft hrikaleg og erfið fyrir eldgosið 1973 og er enn erfið fyrir smáfleytu eins og Létti fyrir Klettinn og í Faxasundi. En hann hefur reynst afburðavel í verstu veðrum. Stjórnendur hans hafa líka alltaf verið góðir og klárir sjómenn. Stundum hefur hann lent í mjög slæmu. Jón Í Sigurðsson lóðs segir m.a. í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja 1983:
„Og í þrjú skipti hefur m.b. Léttir verið allnærri að fara sína síðustu ferð. Má þar tilnefna er hann slapp naumlega við að fara upp á Skelli er bátinn rak vélarvana, hálffullan af sjó, í náttmyrkri, stormi og haugasjó í gegnum Faxasund. En þetta gæfufley stóðst alla raun og komst heilt til hafnar.“
Léttir eins og hann lítur út í dag

Og í Ratsjá,blaði nemenda Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum, 1984, kemur fram hjá Jóni.
Það var árið 1957 að strandferðaskipið Esja var að koma að austan. Jón fór um borð og lóðsaði skipið inn. Þetta var um miðnætti. Vindur var austan og fór vaxandi. Lagst var við austurkant Básaskersbryggju og losun farms var þegar hafin. Áður en því var lokið, var veðurhæð orðin slík, stormur og bylur ásamt sjógangi í höfninni að skipið sleit sig laust að framan. Með harðfylgi tókst að binda aftur og losun varð lokið. Kl. 2 um nóttina var sleppt og haldið úr höfn. Fyrst var keyrt í spring og síðan bakkað hart frá bryggjunni en við endann lá hollenskt skip. Þegar Esja var laus við það lét Jón akkeri detta og þegar Esjan hafði snúist upp í vindinn á því, var það híft upp og jafnframt sett á ferð út. Lítið sást fram fyrir skipið fyrir stormi, særoki og byl. Þegar syðri hafnargarðurinn var þvert á stjór og hvarf, sást ekkert frá skipinu og radarinn var bilaður. Bátsmanninum, sem var við stýrið, var gefin skipun um að stýra 110 gráður. Á eftir Esju fylgdi Léttir litli með hinn dugmikla formann Ólaf Ólafsson á Hvanneyri í sínum venjulegu erindum að sækja lóðsinn þegar leiðsögn hans lyki. Þegar komið var austur í Flóa, sást Léttir aftan við skipið og Jón hljóp ásamt stýrimanni niður í stjórnborðsganginn en þaðan ætlaði hann um borð í Létti. Meðan beðið var eftir Létti, urðu þeir Jón og stýrimaður varir við að vindátt hafði breyst, að því þeir fyrst héldu. Þeir hlupu með það sama upp í brú. Þegar þangað kom, blöstu Urðirnar fram af þurrkhúsinu við sjónum þeirra út um bakborðsglugga stjórnpallsins. Skipið hafði snúið við. Vindátt hafði ekki breyst. Skipstjórinn hafði beygt skipinu til stjórnborða, þegar Jón fór af stjórnpalli, til þess að gefa hlésíðu. En í veðurofsanum og á hægu ferðinni hafði það alveg snúið við. Þarna blöstu klappirnar við í nálægð og um borð voru, auk áhafnar, 300 farþegar. Á stjórnpalli tók Jón þá ákvörðun að setja á fulla ferð áfram og stýrið hart í stjór. Skipið náðist frá Urðunum og komst aftur austur í Flóa. Þar rákust þeir á Létti í myrkrinu og Jón fór frá borði. Þá munaði minnstu að hann færi í sjóinn. Hann náði handfestu, þó lítil væri, á loftneti Léttis, það bjargaði. Á leiðinni til hafnar var sami bylurinn og myrkrið og þá munaði minnstu að þeir félagarnir, á Létti, lentu á Hrognaskeri sem er austan við syðri hafnargarðinn. Svona gat það verið á Létti.
Einu sinni fór Óli með Jón austur í Flóa að enskum togara sem þurfti að leita hafnar. Veður var vaxandi af suðaustri svo ekki var árennilegt fyrir Jón að fara þarna um borð. Það fór líka svo að þeir sögðu togaramönnum að elta Létti í var, inn fyrir (norður fyrir) Eiði. Þarna hlýtur brælan að hafa verið orðin töluverð. Óli var snillingur í að Ieggja að skipum við erfiðar aðstæður og Jón eins og færasti fimleikamaður, og þá upp á sitt besta, að fara um borð eða frá borði skipa við slæmar aðstæður. Í staðinn fyrir að lensa vestur mitt Faxasund fór Óli milli Lats og Kletts, (Latur er klettadrangur syðst í Faxasundi). Það er í lagi á smábátum en þröngt. Togaraskipstjórinn fylgdi nákvæmlega á eftir Létti þarna á milli sem er mjög þröng leið fyrir slík skip, um 600 tonn, þó dýpið sé nóg. Latur hefur verið þétt við stjórnborðssíðuna og bergið í Ystakletti, að norðan, þétt við bakborðssíðuna á togaranum. Ótrúlegt að hann skyldi sleppa. Sá sem hefur verið við stýrið hefur verið snillingur á rattinu.

Á stríðsárunum var Léttir leigður bandaríska hernum, eitt vorið, til Reykjavíkur, til starfa þar fyrir setuliðið. Jón Guðmundsson í Sjólyst, sem oft var með Létti, leysti Ólaf af þegar þess þurfti, segir að Helgi VE 333, eign Helga Benediktssonar útgerðarmanns, hafi dregið hann til Reykjavíkur. Ekki kemur fram í skipakomubókum Reykjavíkurhafnar hvenær hann kom þangað. Þeir mágarnir, Filippus og Ólafur, létu smíða lítinn bát, Hadda VE 50, 7 brl. hér í Eyjum. Ólafur og bróðir hans Runólfur voru aðalsmiðirnir en Runólfur Jóhannsson var yfirsmiðurinn. Þá var Jón í Sjólyst með Létti. Hann var svo með Hadda á línu alla vertíðina 1943, fyrir þá mágana, og fiskaði mikið. Um sumarið fóru þeir Jón og Ólafur með Hadda til Reykjavíkur að leysa Létti af. Skv. skipakomubók Reykjavíkurhafnar kom Haddi þangað 1. júlí 1943. Þeir félagarnir sigldu Létti þá til Eyja þar sem hann tók upp fyrri störf að nýju. Haddi fór síðan frá Reykjavík 30. júní 1944 skv. áðurnefndum bókum Reykjavíkurhafnar. Ragnar Eyjólfsson í Laugardal athugaði þessi gögn fyrir undirritaðan. Léttir og Haddi voru í transporti fyrir herinn í Reykjavík og nágrenni þennan tíma. Jónas Sigurðsson í Skuld var með þá og með honum var Guðmundur í Ásgarði bróðir Filippusar.
Þessir eru með Létti í dag. f.v.: Óli Sveinn Bernharðsson, gísli Einarsson, Ágúst Bergsson og Sveinn Halldórsson

Eftir að gamli Lóðsinn kom 1961, tók hann við mörgum verkefnum Léttis eins og flutningum lóðsa um borð og frá borði skipa. En enn gegnir hann fjölmörgum störfum. Alltaf í prammadrætti frá grafskipinu austur í Flóa með sandinn sem það sogar upp og margt tilfallandi við höfnina. Og þegar Lóðsinn þarf að fara að aðstoða skip og báta, sem þarf að draga til hafnar, fer Léttir í gömlu störfin sín. Farmennirnir spyrja oft um aldur hans o.fl. í sambandi við hann þegar hann kemur að skipshlið. Á sl. sumri, þegar Léttir sótti undirritaðan í Helgafellið, sagði skipstjórinn, Valdimar Olgeirsson, að sér fyndist alltaf vinalegt að fá hann að skipshlið og bætti við. „Þetta er örugglega elsti og virðulegasti lóðsbáturinn í öllum heiminum.“ Fjölmargir aðrir bera hlýjar tilfinningar til hans. Ekki síst þeir sem hafa beðið sjúkir og slasaðir eftir flutningi í land undir læknishendur á sjúkrahús.
Eftir að Ólafur Ólafsson hætti 1967, hafa skipstjórinn á Lóðsinum og vélstjórinn þar, aðallega, verið með Létti og í fjarveru þeirra aðrir hafnarstarfsmenn sem flestir eru gamlir sjómenn og hafa réttindi til þess. Óhætt er að fullyrða að hafnarkörlunum þyki vænt um þessa ágætu fleytu. Á hverju sumri sjá þeir um að skvera hana og mála eins og hún á sannarlega skilið. Þórólfur Vilhjálmsson, skipasmíðameistari, sem hefur annast viðhald hans undanfarin ár, segir að auðvitað sé eikin í honum ekki eins og ný en ótrúlega góð-. „Yfirbyggingin er þó orðin lúin og þreytt," bætir hann við.
Það er ekki ótrúlegt að Léttir sinni störfum sínum enn um ókomin ár. Vonandi verður hann alltaf sama happafleytan. Það taka allir undir sem til hans þekkja. Hér hefur verið stuðst við grein Þorsteins Þ. Víglundssonar í Bliki 1978 og grein Jóns I. Sigurðssonar í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja 1983.

Friðrik Ásmundsson