Blik 1963/Lífskjör þurrabúðarmanns í Eyjum um aldamótin 1900, fyrri hluti

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1963



ÁRNI ÁRNASON, SÍMRITARI:


Lífskjör þurrabúðarmanns
í Eyjum um aldamótin 1900


Árni Árnason. Hann lézt 13. okt. á s.l. ári.
Þessa merka sonar Eyjanna verður nánar getið síðar í Bliki.

Mér hefur dottið í hug að rifja hér upp eitthvað frá liðnum árum, spjalla við þig, lesandi góður, eins og þegar kunningjar hittast eftir nokkra fjarveru og minnast þá á liðna tíma. Fram í huga mér kemur þá fyrst mynd af því, sem fyrir augun bar niður við höfnina á árunum kringum aldamótin síðustu, á vertíðinni, þegar almennt er róið. Um leið getum við kynnzt dálítið störfum og hag þess fólks, sem þá barðist harðri baráttu fyrir lífi sínu og afkomu. Við skulum því staldra svolítið við og virða fyrir okkur umhverfið eins og það var.








Fögruvellir, eitt þekktasta tómthúsið í Eyjum frá liðinni tíð.
Efri mynd er af norðurgafli. Neðri mynd af suðurgafli. Hér bjó Sigurður Vigfússon.



ctr

Sigurður Vigfússon, Fögruvöllum,
einn þekktasti þurrabúðarmaður
í Eyjum á sínum tíma.




Það er blíðviðrisdag einn í marzmánuði árið 1901, að ég geng „niður í Sand“, sem kallað var, þ.e. niður að höfninni. Þegar ég nálgast hana, geng ég niður eftir mjóum stíg, þar sem nú er Formannabrautin. Þar eru lágreistar byggingar, nær óslitnar sambyggingar, til beggja handa, aðeins örmjó sund á milli sumra þeirra. Þetta eru krærnar, mjög óásjálegir kofar og heldur óþokkalegir, en þar er gert að fiskinum. — Ég held áfram göngunni og kem niður á aðal götuna við höfnina, þ.e.a.s. Strandstíginn. Við mér blasir höfnin spegilslétt og fögur. Í baksýn er Stóra-Klif, Eiðið og Heimaklettur í allri sinni dýrð og tign.
Næst mér skerst smávogur úr höfninni inn á milli tveggja stórra klapparbelta. Það er „Lækurinn“ svonefndur, mesta athafnasvæði Eyjanna þá og síðar. Að vestan takmarkast hann af stórri þangivaxinni klöpp, sem er undir sjó á hásjávuðu. Það er svonefnd „Stokkhella“. Frá henni og nálega upp að Strandstíg liggur samfelldur klapparhryggur. Hann er nú vel geymdur undir gömlu bæjarbryggjunni. Austan við Lækinn eru háar klappir, sem eru honum til skjóls í austanveðrum. Þar ber hæst svonefndan Nausthamar. Hann er nokkuð hár og er úr hraungrýti með svolitla grashettu í kollinum, eins og grænan virtist mega sinn fífil fegri muna. Þegar norðar dregur, lækka þessar klappir og enda í lágri klöpp, sem vaxin er fjörugrösum og nefnist Brúnkolla. Hún er nú undir hinni nýju Nausthamarsbryggju, en á Nausthamri standa olíugeymar H.f. Shell og viðgerðarverkstæði Hraðfrystistöðvar Einars Sigurðssonar.

ctr

Mynd af skipum að koma í Lækinn.

Mér verður starsýnt á Lækinn. Þar iðar allt í miklu athafnalífi og miklu fjöri. Skipin eru mörg komin að landi úr róðri og önnur að koma. Öll hafa þau fiskað vel. Ég virði skipin fyrir mér um stund og sýnast mér þau fljótt á litið vera hvert öðru lík, aðeins mismunandi stór og mismunandi lit. Allt eru það áraskip og flest áttróin. Á sum þeirra hefur þó verið settur útbúnaður, svo að þau geti haft tíu árar, ef með þarf. Á hverju skipi eru 10 til 18 menn. Þá skiptist aflinn í 20 eða 22 hluti. Skipverjar eru á öllum aldri, frá nýfermdum unglingum til sjötugra manna.
Tvö af skipunum hafa þegar verið sett upp í hróf, sem er beint upp af Læknum. Annað er svart með blárri rönd. Það heitir Gnoð. Formaður þess er Jón Einarsson á Garðsstöðum, d. 9. okt. 1906. Hitt skipið er mjög stórt, svart með rauðri rönd. Það er Áróra og er formaður hennar Sigfús Árnason á Löndum, f. 29. ágúst 1856, d. 5. júní 1922. Nokkru neðar er verið að setja eitt skip. Það er fagurlega málað, grænt í sjó, svart að ofan með hvítri rönd, þar sem græni liturinn og svarti koma saman, og hvítri rönd á efsta borðinu. Það er stórskipið Farsæll. Formaður hans er Kristján Ingimundarson í Klöpp, f. 26. júní 1867, d. 14. okt. 1952. Rétt þar hjá er stórskipið Gideon, svartur með hvítri rönd, og er formaður hans Hannes lóðs á Miðhúsum, f. 21. nóv. 1852, d. 31. júlí 1937. Framar í Læknum er svo hvert skipið hjá öðru. Þar er Friður, svartur með hvíta hástokka og hálfreim. Formaður hans er Gísli Lárusson í Stakkagerði, f. 16. febr. 1865, d. 27. sept. 1935. Þar er Blíða, græn í sjó, hvít að ofan með svartri rönd, formaður Ágúst Gíslason, Hlíðarhúsi, f. 15. ágúst 1874, d. 24. des. 1924. Þar er einnig skipið Mýrdælingur, svartur með hvítt og svart „kanónuport“. Formaður hans er Guðlaugur Vigfússon á Vilborgarstöðum, f. 18. ágúst 1864, d. 4. maí 1942. Ég sé, að skipið Björg er að koma í Lækinn. Hún er eins á lit og Mýrdælingur, og er formaður hennar Jón Ingimundarson í Mandal, f. 3. ágúst 1856, d. 21. apríl 1937. Yzt í Læknum eru tvö skip nýkomin að landi drekkhlaðin af fiski. Annað þeirra er blátt í sjó, hvítt að ofan með rauðri rönd. Það er Ísak, sem Þorsteinn Jónsson í Laufási er formaður á, f. 14. okt. 1880. Mitt skipið er rautt í sjó, hvítt að ofan með rauðri rönd. Það er Ingólfur, formaður Magnús Guðmundsson á Vesturhúsum, f. 27. júní 1872, d. 24. apríl 1955. Mörg fleiri skip eru þarna, en fleiri skal ekki telja eða lýsa að sinni.
Á sumum skipunum er verið að seila fiskinn, því að hvergi fljóta þau að vegna grunnsævis, þar sem hægt er að kasta fiskinum á land. Síðan eru seilarnar dregnar á land þangað, sem hægt er að skipta aflanum. Sumir skipverjanna eru að bera upp farviði til þess að létta skipin fyrir uppsetninguna. Aðrir eru að „draga í köst“ og skipta aflanum o.fl. Allir hafa nóg að starfa kringum skipin. — Þarna er margt kvenfólk. Það er að „draga fiskinn“ upp að aðgerðarstaðnum, þ.e. krónum. Það eru jafnt giftar konur sem ógiftar, vinnukonur og ungar heimasætur. Hver þeirra dregur 4 fiska í einu eða a.m.k. langflestar.

Dráttarkrókur, seil, bjóð.


Til þessa verks nota þær svonefnda dráttarkróka (burðarkróka). Það eru járnkrókar, sem settir eru sinn í hvorn enda á tveim 5 til 6 þuml. löngum og sívölum keflum, sem haldið er sitt í hvorri hendi og hanga fiskarnir á krókunum. Þetta er þung byrði fyrir handleggina og mjög erfið, sérstaklega ef um stóran fisk er að ræða. En kvenfólkinu er ekki hlíft við fiskidrættinum frá skipunum upp í krærnar. Þegar fiskurinn var dreginn þannig á krókunum, drógust sporðar fisksins við jörð og mun orðtakið: „að draga úr sandi“ sennilega komið af því.
Yfirleitt er kvenfólkið frísklegt útlits og létt í lund. Þó er eins og það votti fyrir þreytu á sumum rosknu konunum. Ekki hygg ég, að það sé vegna erfiði þessa dags, heldur vegna langvarandi baráttu fyrir daglegum þörfum. Allar eru þær líkar í klæðaburði. Pils úr svörtu, heimaunnu efni, svunta búin til úr strigapoka, prjónuð eða hekluð þríhyrna á herðum, en á handleggjunum hafa þær smokka, sem ná upp á miðjan upphandlegg. Um höfuðið hafa þær ullarskýluklút, en á fótum íslenzka skó úr stórgripahúð. Þær eru yfirleitt glaðar og reifar, gera óspart að gamni sínu hver við aðra og kæra sig kollóttar, þótt þær verði votar í fæturna við uppdrátt fisksins. Oft verða á vegi þeirra vellandi uppsprettusjósprænur, sem þær vaða yfir, geti þær ekki stiklað á steinum yfir þær. Þeim þykir gaman að ösla yfir þessar líflegu lækjarsprænur og láta þær kitla sig um tærnar:

„Þær minna svo á lítinn læk,
er léttur rann við túnið heima ...“

Þegar ég hef athugað þetta ólgandi líf og starf í Læknum um stund, verður mér reikað að einni fiskikrónni, þar sem verið er að gera að fiski. Þar er að störfum húsmóðirin frá heimilinu, sem króna á. Þessi kró er eins og aðrar fleiri, svo lítil, að ekki er hægt að gera að fiskinum inni. Húsmóðirin er þarna ein að verki og vinnur rösklega að aðgerðinni. Króin er vegna smæðar sinnar aðeins til þess að salta þar fiskinn inni og geyma sjóklæði og fleira smálegt.
Konan er búin að hausa fiskinn, fara innan í hann og er byrjuð að fletja hann, þ.e. taka úr honum hrygginn, þegar mig ber þarna að krónni.
Það er ekkert einsdæmi, að kveðnar séu vísur um stúlkurnar, sem „gengu í Sandinn“. Aðeins fáar hef ég heyrt og búinn að gleyma þeim öllum eða flestum. Þó minnist ég þess, að eitt sinn var séra Guðmundur Torfason, síðast prestur að Torfastöðum í Biskupstungum, f. 1797, d. 1879, á ferð í Eyjum. Að sjálfsögðu sá hann kvenfólkið vinna við ýmiss konar fiskvinnu, svo sem að þvo fisk og himnudraga um leið. Það var kallað „að plokka fisk“. Um þetta kvað séra Guðmundur:

Saltfisk plokka sótsvartar,
sitja á stokkum mórauðar,
sviftar þokka, svipillar
satans kokka-píurnar.

Að vonum fannst kvenfólkinu þetta ljót vísa og báðu því séra Guðmund að gera bragarbót með annarri betri. Þær væru vægast sagt ekki ánægðar með þessa. Þá sagði Guðmundur:

Saltfisk plokka sviphýrar
sitja á stokkum prúðbúnar
sveipaðar þokka, sélegar
sjálfar „kokka-píurnar“.

Þetta fannst þeim góð bragarbót og voru ánægðar með heimsókn séra Guðmundar í fiskkróna, eða á fiskvöskunarstaðinn. Stundum var þetta líka þannig, að aðeins karlmenn þvoðu fiskinn. Þá plokkuðu stúlkurnar gjarna til flýtisauka. Það var og vægast sagt varla kvenfólks vinna að þvo fiskinn, þareð lengi varð það að gerast úti og gat verið fremur kalt starf. Þess utan þurfti svo að sækja þvottasjóinn niður í klappir og bera upp í krærnar allt þar til að tvíhjólavagnarnir komu til sögunnar rétt eftir aldamótin. Þá var sjónum ekið í stömpum upp á fiskþvottarstaðinn. Það þótti ávallt erfitt verk að sækja sjó, vart betra en sækja salt í verzlunarhúsin, sem álitin var vond vinna. Fékk margur maðurinn hér, í tíð handvagnanna, sig fullsaddan af því erfiði. Þá getur maður ímyndað sér, hve erfiðið var mikið, þegar allt þurfti að bera á bakinu eða í handleggjunum.

Fiskþvottur í Eyjum skömmu eftir aldamótin. Gömlu fiskkrærnar beggja vegna sundsins. Sér fram á „Botninn“, þ.e. innri höfnina.


Meðfylgjandi mynd sýnir fiskþvott. Þessar krær voru fyrir austan steinhús Ástþórs Matthíassonar við Strandveginn, í sundi þar.
Veggurinn yzt til hægri á myndinni mun vera á Dalahjallinum, sem var efst við sund þetta og rétt ofan við sundið og austan.

Gömlu krærnar í Sandi.

Hún lítur út fyrir að vera um fertugt, myndarleg kona og að sama skapi dugnaðarleg. Ég heilsa henni og tek hana svo tali. Hún er sérlega þægileg í viðmóti, glöð og mjög ánægð yfir aflanum þennan dag, sem var bezti afladagur til þessa á vertíðinni.
„Gera karlmennirnir ekki að fiskinum?“ spurði ég og bætti svo við: „Mér finnst fiskaðgerð ekki vera kvennavinna.“
„Yfirleitt gerir kvenfólk mest að fiskinum, nema hvað karlmennirnir salta hann, þegar þeir hafa tíma til. Annars hafa þeir meir en nóg að gera, þegar þeir koma af sjónum. Þá þurfa þeir að beita línuna fyrir næsta róður o.fl. Það tekur sinn tíma og er oftast mesta kuldaverk, því að þeir verða auðvitað að beita línuna úti. Ojá, ekki er húsaskjólið til þeirra starfa. Svo eru þeir heldur ekki alveg óþreyttir, þegar þeir koma af sjónum, blessaðir. Þau eru erfið undir árum, þessi stóru skip og setningur þeirra í hrófin er drápsvinna. Árarnar eru heldur engin léttavara að meðhöndla, oftast níu álna langar eða meira. Það er erfitt að róa með þeim, ef til vill fleiri tíma hvíldarlaust, jafnvel þó „fallið sé á“ í mótvindi.“
„Já, það er satt,“ mælti ég. „Þetta er allt mikið erfiði. Ekki vildi ég eiga að þræla á árunum allan daginn eða fleiri tíma nær hvíldarlaust. En þú hlýtur einnig að vera slituppgefin að þræla svona í aðgerðinni?“
„Ég uppgefin,“ endurtók hún. „Nei, nú er ég ekki þreytt. En þegar skipin lenda á Eiðinu og mikið fiskast, búið að draga allan fiskinn suður yfir Eiði, síðan upp frá Stokkhellu og upp í krærnar og þar eftir að gera að aflanum, þá erum við stundum þreyttar, konurnar í Vestmannaeyjum.“
„Já, því get ég trúað, en hvernig í ósköpunum stendur á því, að mennirnir lenda á Eiðinu með fiskinn? Það hlýtur þó að vera margfalt erfiðara fyrir alla aðila heldur en að lenda hér í Læknum?“
„Til þess liggja þrjár ástæður,“ svaraði konan. „Í fyrsta lagi er það, að fiskurinn gengur oft norðan að Eyjunum í sílisgöngunum. Þá eru notuð handfæri til fiskjar. Þá kemur fyrir, að fiskur er það ör, að búið er að fá fullfermi svo snemma dags, að sjálfsagt þykir að róa aftur og grípa gæsina, meðan hún gefst. Þá er nauðsynlegt að vera fljótur að koma aflanum á land. Munar þá miklu á tíma að lenda á Eiðinu móts við það, að róa austur fyrir Klettinn og heim í Læk. Í öðru lagi: Skipin eru oft að fiska upp við Landeyjasand, stundum all vestarlega. Ef þá hvessir af austri, sem ekki er óvanalegt hér í Eyjum, ná skipin ekki á seglum austur fyrir Klett, en verða þá að sigla upp að Eiðinu og lenda þar. Í þriðja lagi: Oft er róið í bezta veðri, en á skammri stund skipast veður og sjór. Fljótlega getur sett í svo mikinn austansjó, að Leiðin, þ.e. innsiglingin, verði með öllu ófær. Þá verða allir bátar að lenda á Eiðinu.“
Þegar ég heyrði, hve gagnkunnug konan var þessum málum, spurði ég: „Er ekki vont að lenda þessum stóru skipum fullum af fiski í hvernig veðri sem er?“
„Það er aldrei gert,“ svaraði hún. „Skipin liggja skammt fyrir utan lendinguna, meðan fiskurinn er seilaður upp úr þeim. Síðan eru seilarnar bundnar saman, taug sett við þær, sem róið er með í land, og seilarnar svo dregnar á land. Skipin eru ávallt sett upp sem léttust, án aflans og farviða. Ef róa á út aftur, er einn maður settur á land. Hann verður svo eftir í landi, tekur fiskinn af seilunum og kemur honum undan sjó. Við þau störf hjálpum við kvenfólkið oftast.“
„En segðu mér eitt, kona góð, hvernig getið þið heima í þorpinu vitað, þegar skip er lent á Eiðinu, og hvaða skip það er? Ég á við, hvort það er ykkar skip eða eitthvert annað? Það er nokkuð löng leið inn á Eiði, ef hlaupa þarf þangað margar ferðir til þess að vitja um skipin.“
,,Ojá, það er drjúgur spotti, en þessu er ekki þannig varið. Þegar skipin eru á sjó, er það venja að líta oft yfir á Eiði og athuga, hvort nokkur hreyfing er þar sjáanleg, því að strax er settur maður upp til þess að setja upp veifu á hákampinn á Eiðinu, þegar skipin koma þar að landi. Veifan er á mismunandi stöðum, þar eð hvert skip hefur sinn ákveðna veifustað. Sumir hafa þess utan sérstök merki á veifum sínum ólík hvert öðru. Það er því ekki hægt að villast á veifum skipanna. Þannig vitum við, þegar okkar skip er lent. Þá er uppi fótur og fit, brugðið fljótt við og farið inn á Eiði að hjálpa til við fiskinn. Fyrst er dregið af seilunum með landmanninum, síðan farið að draga fiskinn yfir Eiðið. Það er drjúgur spotti og erfitt að flýta sér í sandinum og grjótinu. Þá máttu trúa, að við erum oft dauðþreyttar konurnar, þegar því verki er lokið. En þó ég eigi að taka á móti heilum hlut hér í Læknum og gera að honum, þá finnst mér það ekki meira en annað, sem gera þarf. Það er ekki alltaf setið auðum höndum, þó að verið sé heima við. Þar eru líka störf, sem við kvenfólkið verðum að inna af höndum auk þess „að ganga í Sandinn.“
„Nú — einmitt það. Ég hélt að heimilisstörfin ynnu aðrar stúlkur. Viltu segja mér, hver störf þín voru í dag við heimili þitt, áður en þú fórst að taka á móti fiskinum?“
„Þau eru ekki margbrotin störfin mín heima. Ég fór á fætur kl. 6. Þá fór ég strax tvær ferðir eftir vatni inn í póst, með tvær fötur í hvort sinn. Brunnholan við húsið er svo lítil, að hún tæmist strax, ef þurrk gerir eða frost í nokkra daga. Þá verður maður að sækja allt vatn inn í póst. Það er vatnsból inni á póstflötum nokkuð fyrir innan þorpið. Þegar því var lokið, fór ég að tína mér í eldinn, svo að ég gæti eldað matinn. Ég fór því inn í Hlíðarbrekkur og tíndi mér hálfan poka af sauðataði. ,,í Botninum“ (þ.e. í flæðarmálinu og í sandinum upp af því innst í höfninni), fann ég svo spýtnarusl, fyllti pokann með því og bar hann svo heim. Þá fór ég að kveikja upp eldinn og láta í pottinn það, sem ég ætlaði að hafa til matar. Meðan það soðnaði, bjó ég um rúmin, tók til í baðstofunni og eldhúsinu. Að því loknu þurfti ég að skreppa austur í Austurbúð til þess að fá mér svolítið af mjöli. Það gekk nú svona og svona að fá það. Ég átti tal við faktorinn, og hafði hann helzt orð um að stöðva við okkur alla úttekt. Hann sagði, að maðurinn minn skuldaði svo mikið, eða milli 50 og 60 krónur. Ekki væri að vita, hvenær færi að fiskast, og ekki væri hægara að borga skuldina, ef alltaf bættist við hana. Nú, en hann lét mig þó hafa 3 pund af mjöli og annað smálegt, blessaður. Já, já. Það gerði hann, manngreyið. En þetta fer nú að lagast: Tíðin er að skána og fiskurinn virðist vera kominn á miðin.“
„Jæja, svo faktorinn lét þig hafa 3 pund af mjöli. Ekki get ég þakkað honum það, því að ekki er skuldin svo stórkostleg hjá ykkur við verzlunina, einar 50 til 60 krónur.“
„Já, hann gerði það, manntetrið, en jú, blessaður vertu, þetta er mikil skuld fyrir okkur, sem litlar tekjur höfum. En það er svona, að skuldir safnist annað slagið. Stundum aflast ekkert svo mánuðum skiptir, t.d. er nóvember, desember og janúarmánuður oft algjörlega dauður aflatími og jafnvel febrúar líka. Ekki þurfum við þó að vera skuldug vegna þess, að við eyðum svo miklu í óþarfa. Við reynum að spara sem unnt er. Mig hefur t.d. lengi langað til að fá mér fallegt sirs fyrir gluggana mína, svona eitthvað um fimm álnir, en það hefur enn orðið að sitja á hakanum fyrir öðru nauðsynlegra. Það þýðir ekkert að tala um það. Maður má þakka fyrir að hafa eitthvað að borða og klæðast í.“
Ég hlustaði á konuna með athygli og stórfurðaði mig á nægjusemi hennar og starfsgleði. Ég hugsaði til annarra, sem höfðu allsnægtir samanborið við hana og voru þó aldrei ánægðir. Mig langaði að fræðast meir af konunni, svo að ég spurði: „Hvaða breytingar til batnaðar telur þú beztar, sem orðið hafa varðandi störf húsmóðurinnar eða heimilið í heild í þinni tíð?“
„Því er fljótsvarað,“ mælti hún umhugsunarlaust. „Beztu breytinguna tel ég þá að fá kolaeldavélina í stað hlóðanna og olíulampann í stað lýsislampans. Hvorugs þessara tækja gæti ég hugsað mér að vera án í búskapnum. Heimilið er allt annað, síðan þessi yndislegu tæki komu. Allt er svo hreint og hlýtt, ekkert sót af lampanum, engin grútarfýla og alltaf hlýtt í eldhúsinu, sem er okkar eiginlega setustofa. Oftast finnur maður eitthvað til þess að brenna í vélinni, því að hún brennir öllu svo sem: taði, þangi, spýtnarusli, skán, þurrum beinum, lundaspílum o.fl. Vélin okkar er ekki stór, en hún brennir vel. Það kemur sér líka, því að lítið er um blessuð kolin. Þó að þau komi, eru þau dýr, og ekki fyrir almúgafólk að bruðla með þau.“
Meðan ég spjallaði þetta við konuna hafði hún lokið við að fletja fiskinn, því að vitanlega hélt hún áfram að vinna, meðan samtalið fór fram. Rétt í þessu kom húsbóndinn upp að krónni. Hann var með sjóklæði sín á handleggnum, brók, sjóskó og skinnstakk. Þau voru vel þvegin, og hengdi hann þau á þar til gerðan snaga í krónni. Hann heilsaði mér og spurði almæltra tíðinda, en byrjaði svo strax að salta fiskinn. Kona hans fór þá að binda upp fiskhausana. Losaði hún tálknin öðrum megin í hausnum, þræddi spotta í gegnum þau og batt þannig tvo og tvo hausa saman. Síðan lagði hún þá á handbörur, sem hjá henni voru. Ég spjallaði við þau hjónin um eitt og annað og voru þau sérlega þægileg í viðmóti, svöruðu mér og spurðu mjög kurteislega.
Þegar þau höfðu lokið störfum sínum við fiskinn og að ganga frá öllu í krónni, lögðum við af stað heim til þeirra, og héldu þau á handbörunum með sér. Þegar heim til þeirra kom, en það var stutt leið að fara, hengdu þau hausana á trönur, en á þeim eiga þeir að þorna í vindi og sól, höggvast síðan upp og verða alldýrmætt harðæti til neyzlu á heimilinu og til sölu til meginlandsins.
Húsið, sem þau eiga, er lítið og byggt úr grjóti á þrjá vegu. Að sunnan er timburþil, járnklætt, með dyr á miðju og sinn glugginn hvorum megin dyranna. Þegar inn er komið, tekur við lítill gangur og innst í honum skápur fyrir föt fjölskyldunnar. Í ganginum eru dyr til beggja handa. Öðrum megin er svefnherbergið en hins vegar eldhúsið. Við komum fyrst inn í svefnherbergið. Í því eru 3 rúm. Eitt þeirra er nokkru stærst og stendur við suðurhlið. Það er hjónarúmið. Beint á móti því við norðurhlið eru 2 rúm þriggja barna þeirra hjónanna.



Saltfiskverkun rétt um aldamótin. Til vinstri sjást hausatrönur og hausaband hangir á þeim.
Á myndinni sjást frá vinstri: Eyjólfur Eyjólfsson, Vesturhúsum, Guðmundur Ögmundsson, Batavíu, síðar vitavörður á Stórhöfða, þurrabúðarmaður, Guðbjörg dóttir hans, óþekktur drengur, Jón Einarsson, kaupmaður, Gjábakka, og Friðrik Guðmundsson, Batavíu.




Undir glugganum er lítið borð, einn stóll og þar rétt hjá fatakista, sem er notuð til að sitja á. Á veggnum hangir lítil stundaklukka, og niður úr miðju lofti olíulampi með skerm. Fleira er ekki í herberginu. Gólfið er úr breiðum borðum. Það er vel hreint og auðsjáanlega sandskúrað svo vel, að allir kvistirnir í borðunum eru bláleitir.
Við fórum svo inn í eldhúsið. En um leið og við gengum út úr svefnherberginu, veik húsfreyja sér að einu rúminu og tók böggul undan sænginni. Þetta voru tveir samanhvolfdir diskar með mat húsbóndans, vel vafðir í umbúðir, svo að maturinn kólnaði síður og væri sem heitastur, þegar húsbóndinn kæmi heim.
Þegar við komum inn í eldhúsið, setti konan matardiskana á lítið borð, sem stóð undir glugganum. Ég sá, að matur húsbóndans var soðinn fiskur, kartöflur og gulrófur. Þá tók konan rósótta eins markar skál út úr skáp, er var rétt hjá eldavélinni. Í skálinni var mjallahvítur og hreinlegur fýlafeitarbræðingur. Húsbóndinn byrjaði síðan að borða, en áður spennti hann greipar, laut höfði og fór með borðbæn í hálfum hljóðum. Mér fannst þetta einstakt. Ósjálfrátt tók ég þátt í þessari trúarathöfn með því að drúpa höfði, er ég sá að húsfreyja gerði það.

síðari hluti