Blik 1955/Fiskaðgerðarhúsin í Eyjum

From Heimaslóð
Revision as of 16:57, 29 August 2010 by Viglundur (talk | contribs)
(diff) ← Older revision | Latest revision (diff) | Newer revision → (diff)
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1955Fiskaðgerðarhúsin í Eyjum


Fiskaðgerðarhúsin í Eyjum eiga sína þróunarsögu eins og flest annað, sem varðar atvinnulífið.
Um aldir hafa fiskhúsin í Eyjum verið nefndar krær. Merkingin í orðinu mun til skamms tíma hafa verið sérstæð í máli Eyjamanna. Fram að síðasta tug síðustu aldar (um 1890) voru krærnar byggðar úr torfi og grjóti með torfþaki. Algeng stærð á þeim var 3x6 álnir eða 2x4 metrar. Ávallt var gert að fiskinum úti, en hann síðan saltaður í krónni. Venjulega var borin blámöl í króargólfið undir fiskinn. Nokkru fyrir síðustu aldamót tóku menn að hafa trégólf í krónum.
Auk fisksins voru geymd í krónum sjóklæði (skinnklæði), handfæri og ýmislegt smálegt, sem geymast skyldi undir lás. Þessar fiskkrær stóðu allar sunnan (ofan) við Strandveg, suður af Stokkhellu eða þar í námunda, en gamla bæjarbryggjan er byggð á Stokkhellu.
Upp úr síðustu aldamótum tóku útgerðarmenn hér almennt að byggja fiskkrær sínar úr timbri. Brátt hófst þá bygging þeirra norðan Strandvegar eða hafnarmegin við hann. Þorsteinn Jónsson í Laufási byggði þar fyrstu króna árið 1907. Nokkru síðar voru króarbyggingarnar skipulagðar þar, og stóðu flestar á svæðinu milli Strandvegar og Brattagarðs, sem svo er kallaður, þ.e. garðurinn milli gömlu bæjarbryggjunnar og Tangaklappa, norðan við byggingu Fiskiðjunnar og Bratta.
Magnús Ísleifsson trésmíðameistari í London hér í Eyjunum stóð fyrir smíði á mörgum krónum. Stærð þeirra var 18—20 álnir á lengd (11,3— 12,6 m) og 10 álnir á breidd. Á milli króaraða var 5 álna breiður pallur (3,2 m) eða sund frá Strandvegi. Krærnar, sem fjærst stóðu veginum, voru byggðar á steinsteyptum stólpum. Krærnar sneru stöfnum að pallinum, sem fiskinum var ekið eftir á handvögnum norður í þær.

Myndin til vinstri er af króaröðum og sundinu milli þeirra. Oft voru þar þversund milli króa og fiskinum ekið þar inn um hliðardyr.Myndin til vinstri sýnir m.a. stólpana, sem krærnar stóðu á. Myndin er tekin í vestur frá bæjarbryggjunni.


Myndin til vinstri er af efstu krónni við Strandveginn við eitt sundið.

Á svæðinu, þar sem þessar pallakrær stóðu, standa nú byggingar Fiskiðjunnar og Ísfélags Vestmannaeyja.
FISKIÐJAN, hið mikla fiskiðjuver norðan Strandvegar, þar sem áður stóðu timburkrœr. Eigendur eru Ágúst Matthíasson, Þorsteinn Sigurðsson og Gísli Þorsteinsson.
Myndin er af verzlun og fiskiðjuveri Ísfélagsins, er stendur norðan Strandvegar á nokkrum hluta þeirra lóða, sem timburkrærnar stóðu áður.

Hið nýja stórhýsi Vinnslustöðvarinnar, sem er samvinnufélag útgerðarmanna í Eyjum. Í húsi þessu eru skrifstofur; matstofa með matseld handa aðkomuverkafólki o.fl.Hraðfrystistöð Vestmannaeyja, eign Einars Sigurðssonar.Þ.Þ.V.