Urðir

From Heimaslóð
Revision as of 08:42, 24 July 2012 by Daniel (talk | contribs)
(diff) ← Older revision | Latest revision (diff) | Newer revision → (diff)
Jump to navigation Jump to search
Hestar á Urðum
Krakkar á leik á Urðum.

Urðir voru á austurströnd Heimaeyjar fyrir gos. Urðir voru afmarkaðar af Hringskeri og Sigurðarrönku.

Örnefni á Urðum voru talið í réttri röð austur með:

Miðhúsaklettur var áberandi klettadrangi norðaustur frá Miðhúsum.

Elliðaeyjalón var lón á klöppunum upp af Miðhúsakletti, en Elliðaey bar yfir lónið, séð frá sjávarbakkanum austur af Miðhúsum og hefur það þaðan nafnið.

Flóðsker var sker út af Miðhúsakletti. Það kom upp út sjó á stórstraumsfjöru, en var allveg í kafi þegar flæddi að. Ef haldið var og grunnt fyrir Urðirnar á smábátunum áttu þeir það til ða steyta á skerinu.

Langalónsklöpp var stór flöt klöpp austur af Miðhúsum.Á klöppinni var oft þurrkað saltfisk og var hann fluttur að og frá henni á árabátum. Aðal ástæðan fyrir notkun staðarins þrátt fyrir erfiðið að koma afurðum þangað var að sleppa við mold og sandrik af klöppunum. Eini gallinn við verkun á þessum stað var hinsvegar að fiskistakkar urðu í hættu af sjávargangi ef gerði sumarstorm.

Langalón var vík sunnan við Langalónsklöpp

Gjábakkapyttur var vík norðan við Rekabás

Rekabás var urðarvík norðan við Langalón. Þar var oft talsverður reki og sagnir herma að þar hafi mátt nauðlenda. Í Rekabási var sagt að það væri reimt en þar drukknaði vinnumaður frá Gjábakka þegar hann var að bjarga þar rekaviðartré. Sagan segir að hann hafi gengið aftur og var hann þekktur sem Akurdraugurinn.

Leiðarvarðan en annað nafn á henni var Gjábakkavarðan af því hún stóð skammt austan við Gjábakka. Varðan sást alls staðar vel að og var hún hlaðin úr dökku basaltgrjóti var stöng upp úr henni miðri. Voru flögg eða ljósmerki á stönginni notuð til að vara sjómenn við ef leiðin til hafnar væri aðgæsluverð eða ófær og var þá flaggað einu flaggi ef leiðin var aðgæsluverð en tveim ef hún var ófær og í myrkri var notast við rauð ljós í stað flagga.

Akurinn var flatlendi austur af Leiðarvörðunni allt austur að Þurrkhúsi. Akurinn mun vera eitt af þeim akurlendum sem gert var tilraun með til akuryrkju á ofanverðri 18. öld. Síðar voru á Akrinum mikil stakkastæði og þar höfðu síðar bæði Amerískir og Breskir hermenn aðsetur á stríðsárunum og reistu þarna bragga.

Valdasker var sker austur af Rekabási.

Marksker var tangi sem skagaði út í sjóinn norðan við Helli. Í örnefnaskrá Þorkels Jóhannessonar var einnig sagt að tanginn hafi verið kallaður Matsker vegna mikillar smáufsaveiði við skerið.

Iðugat(Gyðugat) var stórt gat á klettinum og spýttist sjór þar upp þegar það var brim. Mikil iða var í sprungunni og þaðan kemur nafnið. En af stráksskap var þetta nefnt Gyðugat og var þannig skráð í örnefnaskrá. Iðugat var einnig til á Vilborgarstaðatanga í sprungu sem þar var í klöppinni en hún losnaði síðar frá og hvarf í sjóinn.

Hellir var lóðréttur hamar fyrir sunnan Marksker. Hellir lá á milli Markskers og Ufsaskers, beint niður af Þurrkhúsinu. Yfir Helli var svo steyptur kantur (um 1930) og var þar hent rusli og úrgangi. En áður en í Helli var gerð aðstaða til að losa rusl var staðurinn vinsæll æfingastaður fyrir sprang og bjargsig. Á haustin var Hellir líka vinsæll staður barna að sleppa lundapysjum.

Ufsasker var tangi sunnan við Helli. Aðdjúpt var að tanganum að norðan og veiddist oft vel af ufsa og var tanginn og klöppin uppáhalds veiðistaður stráka ofan úr bænum og úr austurbænum.

Björnsurð var stórsteinótt urð lítið eitt austan við Helli og Ufasker. En þar sveigðist landið inn og suður á við. Á klöppunum vestan við Björnsurð var þurrkaður saltfiskur og þar rétt ofan við var gamall kofi kallaður Tobbakofi kenndur við Þorbjörn Guðjónsson bónda á Kirkjubæ og var notaður sem fjárhús.

Vilborgarstaðartangi var lágur tangi sem skagaði langt út óg sjó og var mikið af söl og þangi einnig var mikið um polla á tanganum sem krakkar sóttust mikið í að leika sér í.

Afapollur var djúpur og skálarlaga pollur á Vilborgarstaðatanga. Á heitum dögum var sjórinn í pollinum volgur og var pollurinn lengi notaður til sjóbaða og leikja. Síðustu árin fyrir gos var þó stór blágrítissteinn í honum miðjum sem hafði lent þar í brimi og hálffyllti þessi steinn pollinn.

Grasatangi var tangi austur af Vilborgarstaðartanga. Fór tanginn allveg í kaf í flóði og var því alvaxinn þangi, fjörugrös, söl og öðrum sjáfargróðri. En fók af Kirkjubæjunum nýtti þennan tanga til þangskurðar, söl- og fjörugrasatínslu.

Grásteinar einnig kallað Gráusteinar en það voru tveir gráir steinar sem stóðu við sjóinn fyrir ofan og austan Grasatanga. Var vinsæll leikstaður drengja frá Kirkjubæjunum.

Sólboði var sker út af Urðunum sunnan við Þvottatanga. Fyrr á tíð var tekið lag á Leiðina með því að merkja sjó á Sólboða. Átti að taka lagið og róa inn, þegar ólagið gékk á boðan. Ef ólagi var sleppt inn fyrir boðan var álitið of seint að leggja á Leiðina.

Þvottatangi var nokkru sunnar en Grasatangi en þar var þvegin ull frá Kirkjubæjum og Vilborgarstöðum. En það var venja að bera ull frá bæjunum til þvotta á urðirnar.

Sléttaklöpp. Af Urðunum sunnan við Þvottadranga tók við mjótt stórgrýtisbelti , en síðan kom aðdjúp vík inn í landið, þar sem sjór skvampaði alltaf í. Þá tók við sléttaklöpp sem voru stórar flatar klappir beint austur af Kirkjubæjum. Þær voru þurrar á fjöru og var þar fjöldin allur af lónum og pollum. Mikið var af kröbbum og ígulkerjum í pollunum og lónunum og mikið um söl á klöppunum.

Rauðhellir. Í jaðri stórgrýtisins fyrir ofan sléttuklöpp tók við nokkuð af rauðamöl og var þar Rauðhellir. Opið í hann var nokkuð ofarlega í Urðinni og var erfitt að finna hellinn. Þar var Jón Þorsteinsson píslarvottur, prestur að Kirkjubæ veginn í Tyrkjaráninu árið 1627.

Sigurðarranka var þar sem vitinn á Urðum var fyrir gos. Sagt er að þar hafi áður verið fiskikró sem Sigurður nokkur hlóð. Kona hans var kölluð Ranka og var króin nefnd eftir henni.

Myndir



Heimildir

  • Þorkell Jóhannesson. Örnefni í Vestmannaeyjum. Reykjavík: Hið íslenzka þjóðvinafélag, 1938.
  • Guðjón Ármann Eyjólfsson. Vestmannaeyjar byggð og eldgos. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja, 1973.