Örnefnaskrá Gísla Lárussonar

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

I. Ystiklettur (1): Klettsnef (2) kallast landsuðurshornið á Ystakletti er myndar voginn að norðanverðu, en vestan í Klettsnefi ofanvert er Klettsnefstó (3). Inn af Klettsnefi er Klettshellir (4) við sjó niðri; en ofan við hann (fyrir ofan brún) er grasbrekka nefnd Réttarfles (5) (var réttað í því). Beint norður af og lítið hærra er Djúpafles (6), en norðar Langafles (7). Móbergshryggir liggja á milli flesjanna og greina þau sundur; en brúnin hér fyrir ofan er nefnd Tindar (8) (Suðurtindar (9)) – af svonefndu „Sviði“ (fiskimiði) S.V. af Álfsey eru brúnir þessar nefndar „Kambar“ samkv. gömlu „Miðakveri“.


Niður af Langaflesi er hár tangi sem liggur í vestur, grasivaxinn að ofan, en standberg beggja megin nefndur Litlaklettsnef (10); norðan í því er uppganga erfið Gyltustígur (11). Þá tekur við Klettsvík (12) er myndast af Litlaklettsnefi öðrumegin og Miðkletti hinumegin. Klettsvík er malarvík og er uppganga úr henni að austan nefnd Skriða (13). Upp af henni er Jaðar (14). Þar austur af er slægjuland nefnt Slægjan (15) (gefur ca kýrfóður). Skriðan fellur úr Háhaus (16), hæsta tindi á Ystakletti. Vestan við Skriðuna er grasbrekka, Lauslæti (17), efst í því er skúti nefndur Ból (18), sem hefir til þessa verið notað af fuglamönnum á sumrin, en fjárból á vetrum. Niður af Lauslæti er Sturlató (19) í miðju bergi. Þar vestur af Draugató (20) (eða Marktó (21)) – áttu þaðan að stafa reimleikar miklir svo að menn ekki héldust við að nátta í áður nefndu Bóli utan kona nokkur (Guðrún Laugadóttir). Sjá síðar „Dys við Erlendarkrær“ – upp af Lauslæti er grasbrekka nefnd Sandtorfa (22), myndast af lágum bergstalla á þrjá vegu. Vestan við hana og neðan við bergstallann, er önnur grasbrekka nefnd Undir hendinni (23). Hér fyrir vestan og allt að Klettaskörðum (24), sem aðskilja Miðklett og Ystaklett er nefnt Snið (25), er það vegur í miðju bergi að klettaskörðum, er farið er landveg til Heimaeyjar (vestur kletta).


Upp af Sniði og Klettaskörðum er Heljarstígur (26); brunnið berg hryggmyndað; var áður farið bandlaust upp og niður hrygginn en varð nokkrum mönnum að bana. Þar austur af en norðan við Hendina er grasbrekka, Gatnefsbrekka (27) og vestast í henni Gatnef (28) (nef með gati í gegn). Hér fyrir neðan er sandorpin fýlabrekka, nefnd Grafningsskora (29), en niður við sjó stórgrýtt urð, Selhellraurð (30), í henni er nýfundinn hellir afarstór (1907) gaf finnandinn Ágúst Gíslason útvegsbóndi honum nafnið Leynir (31), en austar í sjó út eru Selhellrar (32), er urðin mun draga nafn af. Austan við Grafningsskoru er hátt berg og í því lítið norðar við brún uppi, er Baldursbráarhillur (33). Þar norðar og neðan við brún er tó, Svelti (34) (fer stundum fé þar niður og hrapar). En upp af þessu svæði – hábrúnin – nefnist Tindar (35) (Norðurtindar (36)). Nyrsti tindurinn, sem er hæstur nefnist Stöng (37), þar niður af norðanmegin eru Stangarbásar (38) – hellrar í berginu gefa feikna bergóm. Norðan við Stöng er nefndur Faxi (39), grasivaxinn mjór hryggur en hátt standberg beggja vegna; fyrir neðan er gras (líkist hestmakka – faxi – ef setið er á hryggnum, gæti nafnið verið dregið af því?). Nyrst á tanganum kallast Faxanef (40) og í því fyrir neðan brún er Skötukjaftur (41) (myndar nefið þríhyrnu og verður skútinn líkur skötutrjónu með opnum kjafti). Er Faxi endinn á tanga þeim er gengur norður úr Ystakletti og örnefni þessi eru á, allt frá Grafningsskoru.


Vestan við Faxa fáa faðma í sjó út er einstakur drangur – Latur (42), en austar í Faxabergi er skúti við sjó niðri, nefndur Bolabás (43) (naut er ætlaði frá Eyjum til lands fannst þar standandi. Langt síðan). Austan við Faxa er vík sem myndast af Faxa vestan megin en Lögmannssæti austan megin, Faxabót (44). En upp af Faxabót er hár tindur Þórislatur (45); en neðan við hann í berginu tó, Faxaskora (46), og efst í henni Sigmundarnef (47), þar ofar er Davíðstó (48) nú afhröpuð (kennd við Davíð Ólafsson er fór fyrst upp í hana. Hrapaði hann á Hellir Súlnaskeri. Sjá síðar).


Faxasund (49) nefnist sundið milli Faxa og Skers. Lögmannssæti (50) er tangi ekki allhár, en breiður og grasivaxið sléttlendi uppi á því, en berg á þrjá vegu og myndar þannig tanga. Við það að sunnan er vik, Drengjabót (51) og í henni drangar tveir, Drengir (52), er annar drangurinn aðeins laus við bergið og milli þeirra örmjótt sund fyrir ofan sjómál, en samfastir neðar. Voru þessir drangar sem örmjóar súlur, en af öðrum er fallið fyrir nokkru, um 1840. Út úr ytri drangnum gengur hryggur 4-5 faðma langur, sést upp úr sjó um stórstraumsfjöru, nefnd Drengjatá (53), er þar oftast mikill straumur og með flæði hætta að fara þar of nærri. Hér mun hafa orðið skipsskaði 1413 samkv. Lögmannsannál.


Drengjabótarbrekka (54) er upp af Drengjabót; en þar suður af Heyhæll (55) (er heyi oft gefið þar ofan). Hér nokkru sunnar er Gjósta (56) og Gjóstuhaus (57). Gjósta er lágmyndun og liggur neðan við áðurnefnda slægju að brún, þar er roksamt mjög. Sunnan við Gjóstuhaus tekur við stór grasivaxin brekka nefnd Fastahlíð (58), liggur hún mót suðri en neðan við hana í miðju bergi er Klemensarbæli (59) – svartfuglabekkur. Hér litlu norðar í sjó út er flúð, Tíæringsflúð (60). Tíæringur (bátur) átti að farast hér á, en suður af Föstuhlíð neðst Gunnhilla (61). Hér fyrir sunnan myndast hryggur í berginu upp og ofan, Bóndi (62) og efst á honum Bóndahaus (63). Þar á brúninni stóð laus steinn afar stór, sem féll í sjó niður í jarðskjálftanum haustið 1896.


Bóndabót (64), milli Bónda og Föstuhlíðar; en fyrir sunnan Bónda er Klettsnefnsbót (65). Þar fyrir ofan í berginu er svartfuglabyggð – margir skútar nefndir Kórar (66), er neðsti skútinn örlítill, svo aðeins getur einn fugl verpt í honum nefndur Krosskirkja (67) (líkist turni á kirkju). Ofan við Kórana er allstór fýlabrekka, Voðmúlaskora (68) en ofan við hana nyrst og sunnan í Bóndahaus er Brauðtorfa (69), smá brekka. Þar lítið neðar Brauðtorfusvelti (70).


II. Miðklettur (71) liggur milli Ystakletts og Heimakletts; eru takmörk að austan sem áður sagt Klettaskörð. Er austasti tindur Miðkletts nefndur Danskhaus (72). Þar niður af vestan megin Selhellraurðar er Gamlarétt (73), er sögn að þar hafi réttað verið fé og gefið niður í böndum á bát. Steinsenni (74) er brekka vestan við Danskhaus. Þar neðar Steinsennistó (75). Þar vestur af Kambshellir (efri) (76). Hér niður af gengur langur tangi í sjó út 25-30 faðma hár nefndur Kambur (77). Vestan í honum við sjó er Kambshellir (78) (af brimi í honum er oft markað hvort lendandi sé við Landeyjasand). Suður af Kambi er Hákarlabyrgi (79), skúti ca 30 faðma frá brún (á hákarl að hafa verið þurrkaður þar um sumur án þess að skemmast af sól eða maðki). Hér upp af Kambshöfuð, Nyrðra- (80) og Syðra- (81) en efst á þeim Bólhaus (82). Þar fyrir sunnan Valdató (83) – fór af í jarðskjálftanum 1896. Sunnan megin Miðkletts er austast Móbekkur (84). Þar vestar Bólbekkur (85) (dregið af bóli er legið var í við lundaveiði, sést enn hleðsla af veggjum). Þar vestur af Álkuhamar (86). Þá er talið að hér fyrir vestan sé


III. Heimaklettur (87). Austast í honum að sunnan, fyrir neðan brún er Þuríðarhellir (88), þar neðar og vestar Stórató (89). Þá Vatnsrás (90) við sjó niðri (rennur þar alltaf vatn úr berginu) en upp af Stórutó fyrir ofan brún Víti (91). Þar sunnar Steinketill (92) – hvammur hömrum luktur. Þá er Rauf (93), hryggur því nær ofan frá Háukollar (94) (sem er hæsti tindur Heimakletts) og niður á brún. Í berginu hér niður af er áframhaldandi hryggur í sjó niður, Berggangur (95). Efst í honum eru grastætlur Neftó (96), hér vestar ofan við brún er stór kvosmynduð grasbrekka nefnd Slægjur (97) (lítið slægjuland). Niður af henni í berginu er Bræðrabekkur (98). Í slægjunum er einstakur steinn ekki stór, Einbúi (99), en upp af honum Mónef (100) en vestar Bólnef (101). Niður af Háukollum miðja vega að brún er allstór stallur, Lágukollar (102) og er þar slægjuland lítið, en upp af þeim Pálsnef (103). Hér neðan við brún er stór grasbekkur (fýlabyggð góð), Danskató (104), en austar og neðar í berginu Kórar (105) (fýlapláss lítið). Niður af Dönskutó eru 2 kórar við sjó niðri, Leiðarkórar (106). Á sjór er þá fyllir að falla yfir innsiglinguna (taka af leið). Fyrir vestan Dönskutó er Vatnsgil (107); gilmyndun frá brún og rennur þar alltaf dálítið vatn, hér austan við Vatnsgilshellrar (108). Þar vestur af eru 3 smá tær er blaðka vex í, Blöðkutær (109), en ofan við brún Neðra- (110) og Efra-Þuríðarnef (111). Hér niður af er Langa (112) (Stóra-Langa (113)), grasbrekka grjótorpin, en sandur við sjó fram. Er í brekku þessari, sem og þeirri brekku er vestan við Heimaklett er, og liggur dálítið austur með honum að norðan, skeljasandur (gamall sjávarbotn?). Mætti af því ráða að brekka hafi verið fram undan svonefndu Kleifnabergi og þannig verið ein saman hangandi brekka. Nafnið dregið þar af „Langa“ eða „Langabrekka“(114). Klemenseyri (115) (Hörgeyri (116)) er utan við Löngu austast; stendur hún aðeins upp úr sjó með hálfflæði, er í henni smátt mógrjót, og fannst áður í henni talsvert af alabasturssteinum. Líklega ævagömul skips-„ballest“. Hér eiga þeir Gissur hvíti og Hjalti Skeggjason að hafa lent með kirkjuvið Ólafs konungs árið 1000.


Vestan við Löngu er Kleifnaberg (117), í því að austan er Skrúðabyrgi (118). Á þar að hafa verið geymdur kirkjuskrúði. Má vera að brekka hafi náð það hátt upp, að úr henni hafi mátt ganga í byrgið. Vestan undir Kleifnabergi er nefnt Langa (119) (Litla-Langa 120)). Hér hafa oft uppblásið og nú síðast 1912 er grafið var fyrir sundskýli. Mannabein þessi hafa öll fundist í nokkurri fjarlægð frá berginu og mætti af því ráða að grasivaxin brekka hafi legið fyrir öllu Kleifnabergi í fornöld og legstaðurinn hafi verið á sléttlendinu við brekkuna. Þegar sjór eyddi brekkunni við Kleifnaberg er skiljanlegt að myndast hafi nöfnin Stóra- og Litla-Langa. Fram af Kleifnabergi austan til er hylur, Álfheiðarpollur (121). Eru munnmæli um að þar hafi kona drukknað í skrúða sínum á leið til kirkju. Kemur það í bága við að kirkjan hafi staðið vestan við Kleifnaberg, en heim við Skrúðabyrgi og almenna sögusögn. Upp af Kleifnabergi er grasbrekka nefnd Kleifar (122). Er uppgangan að henni nefnd Neðri-Kleifar (123) og í henni Blótarstígur (124), en ofan við brekkuna Efri-Kleifar (125) og þar dálítið upp og austur af Snið (126), þar neðar fýlabekkur, Brynjólfsbekkur (127). Hér upp af er hamar. Er hann láréttur og grasivaxinn að ofan og lítið slægjuland, nefndur Hetta (128). Fyrir neðan hana að norðan er Hettugrjót (129) og þar austur af Hettusandur (130) – hvorutveggja við sjó niðri. En norðan við að ofanverðu eru nefnd Vesturhöfuð (131), þá Dufþekja (132) (Dufþaksskor 133)) sjá Landnámu. Í Dufþekju er sagt að nú hafi hrapað til bana 20 menn, sá síðasti varð fyrir steini í landsskjálftanum 1896. Sögn er að Dufþekja og Jökulá á Sólheimasandi hafi átt að teljast á um manndráp.


Í Dufþekju eru nefndar Efri- (134) og Neðri-Flatir (135). En upp af henni að austan eru Austurhöfuð (136) og efst í þeim Eysteinsbás (137). Austan við Dufþekju er bergflái, en austan við Rauðupallar (138). Þar ofar eru Háukollahamrar (139), þrír hamrar efst við Háukolla (140). Þar austar og neðar Háukollagil (141); er efst í því Háukollahellir , en neðar Kindabás (142) (Ókindabás (143) álíta sumir eldra nafn). Neðan við Háukollagil er Kelató (144), en austar Sveinstó (145) (nafnið frá ca 1860. Sveinn Þórðarson beykir fór þar fyrst upp) er hún nú hröpuð af. Hér austar Hvannstóð (146) (stór bekkur. Hvannstæði. Fýlapláss gott ca 40 faðm. neðan við brún). Hér neðan við Halldórssandur (147) liggur við sjó niðri allt frá Kambi að Dufþekju. (Með því að örnefni þetta er ævagamalt mætti eins ætla að það væri dregið af Halldóri þræl Hjörleifs, sem Halldórsskora á Dalfjalli).


IV. Heimaey (148). Eiðið (149) (Þrælaeið (150)) svonefnt liggur milli Heimakletts og Klifs. (Átti Ingólfur hér að hafa hitt þræla Hjörleifs að matgjörð, sjá Landnámu). Hér sunnar Botninn (151) (Hafnarbotn (152)), sandslétta er sjór gengur yfir í aftökum. Þar suður af Flatir (153), grasslétta er nú er að mestu komin í kálgarða; en syðst á þeim Sandskörð (154), uppblásin flög. Þar upp af Brimhólar (155), sjónarhæð fyrir brim á Landeyjasandi. Sunnan við botninn við sjó er klapparhryggur, Nýjabæjargarðar (156). Jörðin Nýibær átti þar fram að fiskigarða. Þá er sandvik nefnt Skildingafjara (157), mun nafnið vera komið af áttskildinga kaupgjaldi er grjótgarðurinn á að hafa verið hlaðinn til varnar sjógangi. Í fjöruna sótt hleðslugrjótið. Fram af Skildingafjöru er smá eyri í sjó út, Mávaeyri (158). Þar austur af 2 sker í sjó út, Básasker, Fremra- (159) og Efra- (160) og milli þeirra Grjótgarðurinn (161), en ofar Sjóbúðarhóll (162) – stór hóll, grasivaxinn. En austur af honum sandvik, Tangavik (163). Þá tekur við Tangi (164); milli Tangaviks og Andersarviks (165). (Nafnið Andersarvik frá ca 1840 af Anders skipsstjóra, móðurafa sira Jes A. Gíslasonar). Hefur Tanginn verið verslunarlóð frá fyrst á 19. öld? og heitið Juliushaab. En austan í Tanganum er grasbrekka með hamrastöllum nefnd Bratti (166). Hér mun hafa verið hinn svonefndi kastala er getur um í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns.


Austan við Andersarvik er slétt klöpp, Nýjabæjarhella (167), hefur verið uppsátur fyrir báta frá ómunatíð. Á henni var stórt sjávarlón, Nýjabæjarlón (168), er þar nú byggt frystihús fyrir Eyjarnar. Þá taka við klappir, sem því nær fellur yfir um háflæði, Brattaklöpp (169), Eyjólfsklöpp (170) (á klappir þessar eru nú byggð fiskhús) og Stokkhella, Ytri- (171) og Innri- (172) og ofan við þær Stokkalón (173). Nafnið dregið af stokk – hlunn – í uppsátri; mátti sjá í klöppinni – sem þó er af blágrýti – skorur afar djúpar eftir kili, sem bendir til að hér hafi um langan tíma verið uppsátur. Er þetta upp af svonefndum „Læk“, vestan við uppsátur það er nú er. Nú er yfir Stokkhellurnar og Stokkalón byggð steinbryggja. Milli Stokkhellna og Nausthamars (174), sem er klapparhamar ca 6 fet á hæð, grasivaxinn að ofan til þessa, er Lækur (175) og upp af honum Hróf (176), uppsátur fyrir báta frá ómunatíð. Fram af Nausthamri að vestanverðu er sker, Brúnkolla (177), á því hefir nú verið byggð bryggja. En hinsvegar fram af Nausthamri er annað sker, er aðeins sést um stórfjöru, Skata (178). Fyrir austan Nausthamar er sandvik, Fúla (179), eða Fúlavík (180) og austan við það Fúluvíkurtangi (181). Nokkru austar er hlaðin steinbryggja og þar austur af klöpp, Keðjuklöpp (182). Þá er tangi lítill enn austar í sjó út og aðdjúpt að, nefndur Steinbryggja (183); hafði verið notuð þegar kaupstaðurinn var í „Skansinum“ eða nokkuð lengur. Þar fyrir austan er Holuklettur (184) og upp af honum Skansinn (185), hlaðið virki – er gjört var, að minnsta kosti, fyrir 1627 – Tyrkjaránið – utan um kaupstaðinn er stóð þar fram yfir aldamótin 1800.


Var Skansinn uppbyggður að austan (hlaðið brjóstvirki) að tilhlutun sýslumanns Kapt. Kohl ca 1856 og milli 1860–70 lét kaupmaður Bryde hlaða grjótgarð allháan og traustan neðan við Skansinn að norðanverðu og tyrfa í fláann. Var áður þar svo uppblásið að Skansinum lá við falli, síðan er þetta vallgróið. Fyrir neðan og austan Skansinn er Hafnareyri (186) – lítið sandvik. Þar út af Steinrif (187) og þá Hrognasker (188). Á það kemur hafnargarðurinn. Þar lítið austar er Hringsker (189). Í því er mjög sver járnbolti með gati, og er brætt utan með honum með blýi. Er bolti þessi fyrir löngu brotinn um gatið. Eiga – að sögn – ytri skipafestar að hafa verið festar í boltann, þegar legan var norður af Skansi en út af Hafnareyri.


Landmegin við Hringsker er Stórasker (190) en milli þeirra og lands er dýpra – og grynnra Músasund (191). Fyrir utan Hringsker víkkar vogurinn til suðausturs. Frá Hringskeri og inn fyrir Klemensareyri er vogurinn nefndur Leið (192). En frá Hringskeri og út að Klettsnefi Vík (193). Norðaustur af Miðhúsum gengur tangi í sjó fram – frekar hár – Miðhúsaklettur (194). Þar út af er Flóðsker (195), sést um stærstu fjöru; en sunnar gengur mjótt vik inn í landið, Langalón (196). Þar lítið sunnar er lágur tangi og aðdjúpt mjög að norðan, Gjábakkapyttur (197), en sunnan við tangann, Rekabás (198). Litlu sunnar, en austur af Gjábakka er sker ekki landfast sem nefnt er Valdasker (199) og upp af litlu sunnar Björnsurð (200). Þar nokkru sunnar, landfast er Markssker (201), þá Ufsasker (202), en milli þeirra lágur hamar með helli í (nú nokkuð hrapað), Hellir (203). En milli Hellirs og Markskers er Gyðugat (204), smáhellir er barn á að hafa fundist í útborið (móðirin Gyða). Hér upp af frá Björnsurð er grasivaxið láglendi nefnt Akur (205) og upp af honum Vatnsdalur (206), sem nú er kominn í tún. Þá taka við Vilborgarstaðartúngarðar en norðan við þá að austanverðu er Helgustöðull (207). Hefur ekki sem mjaltastaður verið brúkaður svo neinn muni. Hér niður af Vilborgarstaðartangi (208) er gengur í sjó út. Þar austar er Grasatangi (209), upp úr sjó um fjöru. Voru áður tekin þar fjörugrös. Þá er Þvottatangi (210) norðaustur af Kirkjubæ. Þá er sker nefnt Sólboði (211), er það nokkuð frá landi og upp úr um stærstu fjöru. Á þessu skeri hefir frá ómunatíð verið tekið lag er lagt var á „Leið“ (innróðurinn hér) þegar brim var. Var álitið að bátur hreppti ólag það á „Leiðinni“ er gengið var á Sólboða áður en tekinn væri innróðurinn (lagt á „Leið“). Hér fyrir sunnan er slétt klöpp, Sléttaklöpp (212), en ofar grjóturð. Var hér upp af smáskúti – nú fallinn – sem sagt var að falist? hafi í séra Jón Þorsteinsson píslarvottur (sjá Tyrkjaránssögu).


Hér sunnan við tekur við lágur hamar, er nyrst á honum Sigurðarranka (213) – varða hlaðin. Er svæðið hér frá og að Hringskeri einu nafni nefnt Urðir (214). Sunnan við lághamar þennan er tangi nefndur Flugnatangi (215). Enn norðan við hann, ofan við brún, allt upp undir Helgafell er löng lág, Kvíalág (216). Sunnan við tangann er flúð nokkuð er aldrei kemur upp úr sjó nefnd Flúð (217), getur hún verið hættuleg bátum, er fara of grunnt. Upp af henni er Flúðatangi (218). Er svæðið milli tanganna, og norðan við Flugnatanga að Sigurðarrönku nefnt Bætur (219). En upp af þeim norðan til að Axlasteini (220) – sem steinn uppi undir Helgafelli að norðaustan – Foldir (221). Fyrir sunnan Flúðatanga er allstórt stykki í bjarginu nefnt Hlaup (222) – af hrapi. Þar upp á brún er Haugahellir (223) (sem margir ferðamenn hafa komið í, þar á meðal Hákon I, þá Karl prins 1901?


Fyrir sunnan Hlaup er Stórató (224), þá Sigganefstó (225) og Sigganef (226) þar upp af. Þá Skarfatanganef (227) og austan í því Skarfatanganefstó (228), en fram af nefinu er langur móbergstangi í sjó fram, Skarfatangi (229). Er svæði þetta (bergið) frá Flugnatanga og hingað að nefnt Flugur (230). En graslendið hér upp af að Helgafelli Haugar (231) (er hólótt). Gömul fjárrétt er í Haugum nefnd Haugaborg (232). Milli Skarfatanga og Sæfjalls (233) eru 2 allbreið vik, Eystri- (234) og Vestri- Lambaskorur (235) – var að sögn vetrarbeit fyrir lömb. En austan í Sæfjalli uppi eru Sæfjallshálsar (236). En litlu austar í miðju Sæfjalli er bergstalli frá brún í sjó niður, Hrútsbringur (237). Hátoppur Sæfjalls nefnist Háubúr (238) (síra Brynj. Jónsson, sóknarlýsing: Háubúrar). Næst við Sæfjall að sunnan er Kervíkurfjall (239), en milli þeirra Gunnarsurð (240) – álitið besta rekapláss fyrr á tímum, þurfti þó að fara niður í böndum til að ná reka. Upp af urðinni er Gunnarsurðarból (241) (fjárból). Neðan við Kervíkurfjall er urð og í henni steinn mikill, Sigmundarsteinn (242). En urðin Sigmundarsteinsurð (243) (sbr. kvæði Jónasar Hallgrímssonar: „Veit ég út í Vestmannaeyjum...“). Upp af Kervíkurfjalli er allstór dalur, Lyngfellisdalur (244), þar sem sagt er að Tyrkir hafi sofið og þurrkað púður sitt 1627. Er þar fyrir vestan nefnd Kinn (245) (vestan hæðarinnar er myndar Lyngfellisdal). Milli Kervíkurfjalls og Litlhöfða (246) (sem er hátt fjall er gengur beint í austur og í sjó fram) er smá vík, Kópavík (247) (var áður dálítið sellátur) upp úr henni er kermyndun og sennilega áður heitað „Kervík“ (248) sem fjallið er kennt við. Austast og norðanmegin við Litlhöfða er urð og í henni drangur nefndur Landstakkur (249), en urðin Landstakksurð (250), en fyrir ofan urðina Landstakkstær (251). Í urðinni var nokkur sölvatekja.


Litlhöfðahellir (252) er upp úr urðinni. Stærsti hellir er hér hefir þekkst. Annar hellir, samnefndur, er austur úr höfðanum – allstór gapi – og eru göng á milli hellranna, niður við sjó. Gólf aðalhellirsins er neðan við sjávarmál um flæði og verður ekki komist landveg í hann nema um stórfjöru – fyrir framan Landstakk; eða í bandi úr Landstakkstó. Frá Litlhöfða að Flúðartanga er vik mikið inn í eyjuna og er Gunnarsurð í botni þess. Vík þessi er nefnd Bót (253). Í henni innarlega eru drangar 2 Stóri- (254) og Litli-Stakkur (255) (þar verpir hvítmávur – Larus clausus – svo og lítið í Stórhöfða, er ókunnugt um varp hans annarsstaðar á landinu?). Sunnan við Litlhöfða taka við Brimurðarloft (256), lágur móbergsstallur með urð fyrir framan, og fram af þeim nálægt miðju Ræningjatangi (257) (uppganga Tyrkja 1627). Nær tanginn nokkuð langt í sjó út, flatur og lágur, svo að sjór gengur yfir hann í stórbrimi. Á honum efst er Skírnarlónið (258) – nafnið frá ca 1854. Fyrstu mormónar á Íslandi skírðir þar. Næst við Brimurðarloft er allstór vík – sandur að austan en urð vestast, Brimurð (259) og Brimurðaralda (260), hæðin þar upp af. Fyrir sunnan Brimurð er lágur hamar nefndur Garðsendi (261). Þá tekur við Stórhöfði (262). Nyrst og austast undir honum er urð, Garðsendaurð (263), en upp af urðinni nyrst, Garðsendató (264). Þar næst fyrir sunnan Kepptó (265) – nafnið af „fýlakepp“, barefli sem fýll er rotaður með. Þá er Stórató (266) þar suður af. Sunnan við þá tó er Eystrabrunanef (267) (bergið mjög brunnið) og niður af því blágrýtisstallur í sjó fram, Álkustallur (268). Þá er Syðrabrunanef (269); en milli nefjanna Stórhöfðahellir (270), ca 1½ faðm neðan við brún. Þar fyrir sunnan er Brunanef en niður af því móbergsstallur, Hella (271). Þar frá gengur flái í sjó fram, Hellutá (272) og er það suðausturhorn Stórhöfða. Milli Hellutár og Álkustalls er vik, Súlukrókur (273) og upp úr honum Gat (274) og Gatnef (275). Fyrir vestan Hellutá, sunnan í Stórhöfða er stór grasbekkur með hamri fyrir ofan – var áður vetrarbeit fyrir lömb – Stóralambhilla (276) en hamarinn Lambhilluhamar (277). Vestar og hærra er önnur grashilla, Litlalambhilla (278). Milli Lambhillanna og ofan við brún er Runkarof (279). (Nafnið frá ca 1880. Lundaveiðistaður síra Runolfs, nú fríkirkjuprests í Gaulverjabæ). Neðan við Litlulambhillu er fýlapláss, Gýpur (280). En vestar frá brún, er allstór hamar, Grásteinshamar (281), en neðan við hann Kaplapyttar (282) (hesthrap að sögn). Þar er fýlatekja, en vestur af hamrinum er Grásteinsfles (283) – grasbrekka. Í henni er steinn, Grásteinn (284), en fremst Útsuðursnef (285). Fyrir neðan Útsuðursnef er sker í sjó út, Ketilssker (286). En norður af nefinu, upp við brún er grasbekkur, Sviptúnspallur (287). Þar fyrir norðan er Hánef (288) – hæsta nefið. En norðar Illanef (289). Milli nefjanna eru Malarkórar (290) – allmikil fýlabyggð. Þá er Hvannstóð,Efra- (291) og Neðra- (292). Þar fyrir neðan við sjó eru 2 hellrar allmiklir og einkennilegir, og í þeim svartfuglavarp mikið, nefndir Fjós (293). En norðar Jónsskora (294) – fýlabekkir og gil.


Napi (295) er nefmyndun er gengur enn norðar í sjó fram og upp af Napa er grasbrekka sem skúti var í ( nú afhrapaður), Napabrekka (296) og Napaból (297). Hér austar er allmikil hvilft grasivaxin með hamri fyrir ofan, nefnd Rauf (298) og Raufarhamar (299); en austar er Litla-Rauf (300). Fyrir neðan hana er Sölvaflá (301) – tangi. Þá er lágur hamar Valshilluhamar (302); en undir honum Valshilluhamarsflá (303). Uppi á Stórhöfða er vörðubrot, Trölladyngjur (304). (Fyrir sunnan Trölladyngjur er nú byggður viti). Norðan við Stórhöfða er stórt sandvik nefnt Vík (305). En syðst í því hefir frá ómunatíð verið uppsátur frá Ofanleitisbæjum (upprunalega fyrir ofan leiti). Þar upp af, eða nyrst á Stórhöfða eru húsabrot, eftir fiskikrær þeirra, Erlindarkrær (306), en vestan við þær er Dys (307). Er sögn manna að þar séu 4-6 menn grafnir er fundust í enskri skútu, er róin var upp í Víkina, vestan fyrir Stórhöfða ca 1820–30. Var skútan á hliðinni og full af sjó. Var góss flutt á land en líkin dysjuð þarna. Gjörðust reimleikar svo miklir, er góssið var vaktað, þar til selt var, að enginn hélst þar við, utan kona ein Guðrún Laugadóttir (sbr. Ystaklett). Fyrir norðan Vík taka við klappir. Er sú hæsta nefnd Brattaskál (308). Þar fyrir norðan er Lónhillusandur (309). Á honum nyrst móbergsdrangur, nú hrapaður að ofan, Steinketill (310). Þá er Klaufin (311). Dálítið sandvik en móbergsklöpp vestast og er það annað uppsátur frá Ofanleitisbæjum. Upp af þessu svæði að Vík og Brimurðaröldu er nefndur Aur (312) (er það hnullunga blágrýti). Upp af Klauf er smábrekka, Sauðatorfa (313), en vestast Klaufarskál (314). Þar framar og vestar er blágrýtisurð stór, Þorlaugargerðisgrjót (315). Þá tekur við Ofanleitishamar (316), alla leið norður undir Herjólfsdal, er hamarinn lágur að sunnan og þar nefndur Tögl (317) að Hafursdæl (318), sem er slétt laut, er gengur að brún niður, sunnan til í hamarinn. Upp af Töglum er grasi vaxið láglendi nefnt Breiðibakki (319). Þar norðar (þar sem brúnin er hæst á Hamrinum) Háufoldir (320). En litlu sunnar niður við urð Ketilsbekkur (321). Norðan í Háufoldum er Mangasnið (322), sem margir hafa hrapað úr. Þá Vítisofanferð (323) og Góðaofanferð (324), en neðan við þær Urðarbekkur (325). Urðin neðan við Hamarinn kallast Hamarsurð (326). Norðan við Góðuofanferð, sem er grastó, eru 2 krókar eða vik, Blákrókar, Syðri- (327) og Nyrðri- (328) (blágrýtiskennt berg). Rekapláss gott. Þá er nokkuð langt svæði, sem ekkert örnefni hefur, en í því er hellir ekki alllítill, sem aðeins verður komist í um stórstraumsfjöru og myndar tvo hellra að framan af bergsúlu, Teistuhellrar (329) – verpir teista í honum. Þá tekur við Torfmýri (330); láglendi er liggur suður af Herjólfsdal og er ofurlítið stykki af því mýrarkennt. Var þar um nokkurn tíma mótekja dálítil, og er það sá eini staður á eynni er mór hefir fundist. Fyrir norðan Torfmýri, en við Dalfjall er mjótt vik 70-80 faðmar á lengd, en breidd 4 faðmar minnst er klapparnef gengur lengst fram, annars 5-7 faðmar, en 10-11 faðmar fremst. Sjávardýpt 5 faðmar utast, annars 2-2½ faðm. og 1 faðmur því nær innst. Mælt með hálfflæði. Í botni er malarfjara, en nú fallnir 2 steinar allstórir í vörina, svo ómögulegt er að koma báti þar upp. Landmegin eru klappir með stöllum og skörum 2 til 4 faðma yfir sjávarflöt. Þar ofar grasi vaxin brekka. Verður hæðin öll 5-7 faðmar og innst allt að 10 föðmum. Á aðra hlið afmarkar Dalfjall vik þetta, og er fjallið þar standberg (stuðlaberg). Vik þetta hefir í langan tíma verið nefnt Kaplagjóta (341). (Segir sr. Gissur Pétursson: „þar var óskila færleikum hrundið ofan er fundust fram yfir regluna“.) Almenn sögn er sbr. séra Gissur, Jón Austmann o.fl. að hér hafi „Ægisdyr“ verið nefndar (sbr. Landnáma). Hér er hægt að róa út og inn litlum bát, ef lítið brim er. En brimsamt er hér í vestan og suðvestan brimi. Í austan og norðanátt er oft ágætt að róa hér út og inn. Er merkilegt að sumir er hér um hafa skrifað, segja ómögulegt að róa hér inn báti og alltaf sé brim, svo útræði væri óhugsanlegt (sbr. Árbók Fornleifafélagsins 1913. Er lýsing sú á Kaplagjótu allsendis röng sem og fleira sem ég hefi séð). (Sjálfur hefi ég í fleiri skipti farið hér inn, með bát hlaðinn fugli, og affermt hér, og eitt skipti á nokkuð stórum bát – 12 manna fari). Úr Dalfjalli gengur hryggur fram í berginu „Tíkartóaröxl“ og móts við hann landmegin, fyrir innan miðja gjótuna er hæð, eða hryggmyndun. Mætti hugsa að hryggur þessi hafi fyrst náð yfir um. Fyrst étist gat að neðan (sem víða má sjá) og síðan hafi haftið fallið. Hafi þannig í landnámi verið hér gat og nafnið „Ægisdyr“ þar af dregið. Hér fyrir innan er Herjólfsdalur (332) og dregur nafn af Herjólfi er Landnáma (Hauksbók) segir að fyrstur hafi reist bú í eyjunum (inni í dalnum) fyr innan Ægisdyr. Þar er grjóthaugur mikill vestan megin í dalnum, og á skriða að hafa hlaupið á bæ Herjólfs er þar hafi staðið. Nyrst í þessum haugum er dálítil uppspretta nefnd Silfurbrunnar (333). En önnur uppspretta er í miðjum dalnum, og er þar hleðsla forn nefnd Lind (334). Móbergslag er hér undir jarðveginum og er líklegt að ofan á því renni vatn til Lindarinnar úr Dalfjalli. Afrennsli úr Lindinni myndar tjörn, nefnd Daltjörn (335). Fjöll þau er mynda Herjólfsdal eru einu nafni nefnd Dalfjall (336). Samtengir þau Dalfjallshryggur (337) og því oft verið nefnd Austur- (338) og Vestur-Dalfjall (339). Er Dalfjallshryggur grasivaxinn, nema að austanverðu hafa skriður fallið. Vestan við Daltjörn er móbergssteinn stór, Fjósaklettur (340). Í honum má sjá holur klappaðar, eiga bitar að hafa staðið hér inn í; en þarna hafi verið fjós Herjólfs. Upp af tjörninni en framan í Dalfjallshrygg er móbergsnef, Saltaberg (341) (líklega dregið af hvítum rákum í berginu). Hæsti tindur á Vestur-Dalfjalli er nefndur Blátindur (342). En á Austur-Dalfjalli, (343) (eða Háey (344) sbr. séra Gissur). Nú oft nefnd „Bláhá“ (345) til aðgreiningar frá Austur-Há (346) sem er bergstallur austur úr Dalfjalli, er hann nú í daglegur tali nefndur „“ (347).


Upp af Kaplagjót er vegur upp á Dalfjall og er það svæði nefnt einu nafni Hæltær (348). En efst á þeim Hæltóarnef (349), en neðar Hæltóargil (350) og Gilsbakkar (351). En vestar og upp af Kaplagjót utanverðri eru Tíkartær og Tíkartóarnef . Þar á milli Tíkartóaröxl (352). Upp af þeim, en ofar er fjárból, Bótólfsból (353), en austar Langibekkur (354) og upp af honum Eyra (355), smá tó í berginu. Þar vestur af er Hvíldarjaðar (356), hár grashryggur. Fyrir vestan hann er Hvíld (357), kvosmynduð grasbrekka. Í Hvíld er jurtagróður sagður fjölskrúðugastur á eyjunni. Þar niður og vestar er Halldórsskora (358). Er það grastó og lömbum beitt þar á vetrum. Upp af skorunni eru kórar, sumir grasivaxnir, nefndir Halldórsskorukórar (359). Þá er Eggjabekkur (360), samt frá brún norðar. Þar norður af eru Sauðabólsbekkir (361), en Sauðaból (362) þar niður af (er fjárból). Þá tekur við allmikill hryggur er liggur til vesturs, og er allur hryggurinn nefndur Niður með Standi (363). Er fremst á honum móbergsdrangur nefndur Standur (364). Ofarlega á hryggnum að sunnan er kór, Sandkór (365). Fyrir norðan Stand myndast 2 stór nef af djúpum giljum, er hið syðra nefið nefnt Illanef (366); en hitt Hvannstóðarnef (367) eða Hvannstóð (368). Hér fyrir neðan, að Standi, er dálítil grasbrekka, Sauðatorfa (369). Upp af nefjunum norðar, en vestan við Blátind er stórt fles, nefnt Djúpafles . Hér niður af Sveinar – Suður- (370) og Norður-Sveinar (371). Allmikið fýlapláss. Þar fyrir neðan gengur langur móbergstangi í sjó út, grasivaxinn að ofan, nefnt Stafnsnes (372) ( er eins og stafn á skipi fremst). Myndar það smá vik, samnefnt, með malarkambi í botni. Hefir vik þetta frá ómunatíð verið þrautalending Eyjamanna. Við uppgönguna úr Stafnsnesi á Dalfjallshrygg er fjárból, Stafnsnesból (373). Austan í Blátindi er allmikil fýlabyggð. Er nyrst á honum nefnd Öxl (374), þá Brunakórar (375) við brún. En þar niður af Hlaup (376). Neðar Gýpur (377). Þá er sunnar Brattató (378) suður af Blátindi. Sunnar, Hellugil (379). Er þar lítið hellutak (blágrýti er klofnar í hellur).


Fyrir neðan Hellugil er Langibekkur (380), en vestar Blátindsbekkir (381). Norður úr Dalfjallshrygg gengur hamar í sjó niður nefnt Ufsaberg (382), en norður úr því að austan skerst tangi; hryggmyndun ofan frá brún, og er utan við hann drangur í sjó út, nefndur Gat (383) (hefir hrunið). Hér fyrir utan er flúð, sem getur verið hættuleg bátum. Stendur hún uppúr um stórfjöru; nefnd Gatflúð (384). Vestan við Gatið landmegin er önnur flúð, Vasaflúð (385). Þar upp af en vestan í tanganum er smátó, Gíslató (386) (Gísli Lárusson fór fyrst í hana). Fyrir austan Upsaberg er móbergstangi er myndar smá vík landmegin, nefnd Eysteinsvíkurtangi (387) og Eysteinsvík (388). En ofar Eysteinsvíkurkórar (389). Þar austur af eru nefndar Skriður (390), en niður af þeim Æðarsandur (391) (lítið æðarvarp) og rétt við sandinn er Æðarhellir (392). Fyrir austan Æðarsand eru Vatnshellrar (393). En austan megin við þá Krókar (394). Hér fyrir ofan, frá Dalfjallshrygg að Náttmálaskarði (395) – sem aðskilur Klifið frá Dalfjalli – er brúnin nefnd Eggjar (396) (áður nefndar „Skersli“ (397) skv. gömlu miðakveri).


Moldi (398) er nyrst á Hánni, dalmegin, bjarg með grastætlum, en neðar Vesturhúsabyrgi (399) – smáhillur – var áður fiskbyrgi. En sunnar, neðan við bergið eru Mykjudagsgrjót (400). Fyrir sunnan Molda tekur við tó allmikil, var hún nokkuð grasivaxin fram eftir síðastliðni öld, en er nú moldrunnin mjög. Tó þessi hefur frá ómunatíð verið nefnd Mykjudagstó (401). Nafnið „Mykjuteigstó“ (402) er nýbúið til. Dregið af líkum. Hitt þótt málleysa. Mykjuteigur hvergi til eða Mykjuteigshlaup, sem nefnt er í Árbók Fornleifafélagsins 1913. Mætti eins vel ætla að nafnið væri afbakað úr „Miðdagstó“. Þá er hádegi er sól skín í tóna, og var það dagsmark notað frá Ofanleitisbæjum. Syðst í Austur-Dalfjalli eru Fiskhellrar (403). Er bjargið þar burstmyndað og voru þar áður fiskbyrgi Eyjarbúa, hlaðin á smábekki. Grjótið dregið upp til byrgisgerðar. Efsta byrgið er nefnt Þorlaugargerðishilla (404). Þar áttu nokkrir menn að hafa komist af í Tyrkjaráninu. Ofarlega í berginu er grasivaxinn bekkur, Neftó (405). En efst Fiskhellranef (406). Fiskhellranef er miðað af „Klökkum“ (407) – fiskimiði austur af Stórhöfða og er nefið þaðan nefnt „Vaðhorn“ (408). Neðsta hillan á leið upp að byrgjunum er nefnd Steðjabringur (409), en austast Sporðhilla (410). Fyrir austan Fiskhellra er Austur-Há, sem áður er nefnd. Lágur hamar með grasbrekku neðan undir. Suðaustan í brekkunni stendur stór steinn, Hásteinn (411). En norðar, neðst í berginu er Sýslumannskór (412) (nafnið frá ca 1872–90. Skemmtistaður Aagaards sýslumanns hér). Hér fyrir norðan móberg ekki allhátt, Skiphellrar (413), smíðaslóð báta að fornu og nýju. Milli þessara fjalla hafa áður verið nefndar Skarðslágar (414) (sbr. séra Gissur Pétursson). Nafnið nú týnt. Uppúr Eystri-Skarðslág (415) er móbergsflái, sem nær upp að brún, í honum er laut, Steinketill (416). Fyrir norðan Skiphellra er bergstalli, á ská liggjandi, Langaberg (417) en uppi yfir því grasbrekka, Kaldakinn (418). Norður úr Dalfjalli gengur fjallgarður, Klifið (419) og er Náttmálaskarð á milli, er það (Náttmálaskarð) allt sandi orpið og hamrabelti vestanmegin. Er sögn um að kýr hafi verið reknar vestur með Klifi að norðan, eftir morgunmjaltir en komið upp úr skarði þessu að kvöldi. Hafi þá brekkur verið neðan undir Klifi að norðan og vestan sem nú eru hamrar, en fram að þessum tíma þó mótað fyrir brekkum hér og þar.