Þjóðhátíðin

From Heimaslóð
(Redirected from Þjóðhátíð)
Jump to navigation Jump to search
Þjóðhátíð í blíðskaparveðri
Þjóðhátíð 1972

Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum er haldin í fyrstu helgi ágústmánaðar. Hátíðin er af gömlum grunni eða frá því árið 1874.

Í dag er þjóðhátíðin í Eyjum stór og mikil hátíð þar sem ÍBV - íþróttafélag byggir upp ævintýralega smáborg í Herjólfsdal sem hverfur svo nánast sporlaust fjórum dögum síðar. Þar er boðið upp á tónlistarveislu þar sem vinsælustu hljómsveitir landsins hverju sinni stíga á stokk og gleðja hátíðargesti allan sólarhringinn. Flugeldasýning, brenna á Fjósakletti og brekkusöngur er meðal þess sem boðið er upp á. Hin sérstæðu hvítu hústjöld setja líka sterkan svip sinn á dalinn þar sem heimamenn setja upp tjöldin sín á skipulagðan hátt þar sem að hver röð tjalda myndar götu og hvert tjald hefur númer eða nafn. Þar hafast menn við í gegnum allar tegundir veðurs og næra sig á lunda og kjötsúpu. Þar er oft á tíðum dvalið fram í dagrenningu við gítarspil og söng.

Saga

Þjóðhátíð

Fyrstu hátíðarhöldin í Herjólfsdal hafa verið á 19. öld, en Pétur Bryde, eigandi Brydebúð, bauð starfsfólki sínu þangað árlega. Samkvæmt ársreikningum verslunarinnar árið 1859 kostaði svona veisla um 46rd, en árslaun verslunarstjórans voru um 250 ríkisdalir.

Árið 1859 kostaði Pétur Bryde endurnýjun vegsins niður í Herjólfsdal. Hann hafði þá í nokkur ár rekið garð að nafni Þórulundur í dalnum, sem var nefnt eftir konu hans. Garðurinn stóð nálægt þeim stað þar sem að litla sviðið er á Þjóðhátíð nú. Garðurinn var rifinn árið 1932 þegar að hlaupabraut var gerð umhverfis tjörnina, en allar tilraunir Péturs til trjáræktar höfðu misheppnast.

Fyrsta þjóðhátíðin

Fyrsta Þjóðhátíðin var haldin sunnudaginn 2. ágúst árið 1874 í Herjólfsdal. Þá mættu í dalinn um 400 manns um hádegisbilið, reistu tjöld við suðurhlið tjarnarinnar og hlóðu veisluborð úr torfi og grjóti vestan við tjaldbúðirnar. Það sjást enn leifar af því nálægt hringtorginu. Tjöldin og Herjólfsdys voru prýdd fánum og borðum.

Þorsteinn Jónsson flutti minni konungsins, og var eftir það hleypt af 9 fallbyssuskotum, sem bergmáluðu vel í fjöllunum í kring. Að því loknu flutti séra Brynjólfur Jónsson minni Íslands og Þorsteinn Jónsson flutti minni Jóns Sigurðssonar.

Borðað var vel og kaffi drukkið, og upp frá því hófst dansleikur undir berum himni með söngi og tralli, sem stóð fram undir miðnæti. Ölvun var að sögn viðstaddra lítil, og allt fór vel fram.

Fyrirmyndin

Hvítu hústjöldin setja skemmtilegan svip á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.

Eftir þessa þjóðhátíð var hún haldin nokkrum sinnum í viðbót, en þá yfirleitt um miðjan ágúst. Um 1901 hafði hátíðarhaldið þróast á þá leið að kappróður var orðinn einn dagskráarliða. Eftir kappróðurinn var gengin skrúðganga inn í dalinn og hann skreyttur. Flutt var minni konungs, Íslands og Vestmannaeyja, og hófust þá íþróttaviðburðir: glíma, kapphlaup, og fleira.

Síðar um kvöld voru kaffiveitingar og sódavatn á boðstólum í tjöldunum, en áfengi stóð ekki til boða. Frá þeirri Þjóðhátíð hefur hún verið haldin nánast óslitið.

Tréspíra-þjóðhátíðin 1943

1943- Mánudagur 10. ágúst rann upp með glaða sólskini og blíðasta veðri. Allt virtist leika í lyndi. Þjóðhátíðin afstaðin með skaplegheitum, nema hvað stormur á föstudagskvöldið, eyðilagði tjald-bústaðina í Dalnum. Kl. 3 mánudag fréttist að Daníel Loftsson væri dáinn, og það snögglega. – Litlu síðar kvisaðist að ekki mundi allt vera með felldu um dauða hans, en fór þó ekki hátt. – Kl. 4 fréttist lát Þorláks Sverrissonar, hafði hann fundist örendur í búð sinni Söluturninum. – Fóru menn þá að bera sér í munn að um áfengiseitrun væri að ræða, en þó voru um það getgátur einar. – Seinna um daginn fréttist að tveir menn höfðu verið fluttir á spítalann, veikir af áfengiseitrun. Það voru þeir Jón Gestsson og Guðmundur Guðmundsson.-

Þjóðhátíð í þá gömlu daga

Þriðjudagsmorguninn fréttist lát þeirra beggja Jóns og Guðmundar, höfðu báðir dáið þá um nóttina. – Þá fóru að berast út ægifregnir um marga sem sjúkir væru orðnir og að menn væru fluttir hvaðanæfa úr bænum á sjúkrahúsið. – Um kl. 11 fréttist lát Inga Sveinbjörnssonar, - kl. 1 lát Sveinjóns Ingvarssonar, - kl. 2 lát Þórarins Bernótussonar, - kl. 3 lát Árnýjar Guðjónsdóttur.- Þá voru komnir á sjúkrahúsið veikir Jónas Sigurðsson, Andrés Gestsson, Ólafur Davíðsson, og var þeim tveim síðastnefndu vart hugað líf. – Fleiri voru fluttir á sjúkrahúsið þann sama dag, en þeir voru ekki mjög veikir.

Fleiri dauðsföll fréttust ekki á þriðjudag, en miðvikudagsnótt andaðist Ólafur Davíðsson, og var hann sá síðasti sem dó af eitruninni.

Út um bæinn láu menn víðsvegar, sem ýmist ekki vildu láta leggja sig á sjúkrahúsið, enda ekki mjög hættulega veikir.

Þessi frásögn er skrifuð af Kristjönu Óladóttur, Skólavegi 22, Vestmannaeyjum. Frumritið sem er handskrifað var afhent Skjalasafni Vestmannaeyja í september 2004.

Eftir gos

Þjóðhátíð á Breiðabakka.

Eftir Heimaeyjargosið 1973 var mikill vikur og gjall í Herjólfsdal, sem gerði dalinn óvænlegan til hátíðarhalda. Sökum þess að hreinsunaraðgerðir bæjarins beindust fyrst og fremst að íbúðarsvæðum sat Herjólfsdalur á hakanum um þónokkra stund, en hann var ekki hreinsaður almennilega fyrr en 1976. Ákveðið var sökum þess að flytja hátíðarhöld Þjóðhátíðar suður á Breiðabakka í nokkur ár.

Stóra sviðið á þjóðhátíð árið 2005

Þjóðhátíðin 1973 var eingöngu eitt kvöld. Á Breiðabakka var útbúið lítið svið og danspallur. Smávægilegur varðeldur var reistur og þeir sem voru í Vestmannaeyjum — nánast eingöngu fólk sem tók þátt í hreinsunarstörfunum, mættu.

Árið 1976 var Herjólfsdalur hreinsaður og tyrfður, sem var mjög mikið verk sökum þess hversu mikið svæði var um að ræða. Næsta ár, 1977, héldu Týrarar fyrstu Þjóðhátíðina í Herjólfsdal eftir gosið.

Sameining Þórs og Týs

Fram til ársins 1996 skiptust íþróttafélögin Þór og Týr á að halda Þjóðhátíðina. Við sameiningu félaganna varð til meiri samstaða um árangur, og það besta var tekið frá hefðum hvors félagsins um sig, til dæmis voru bæði félögin vön því að reisa brú yfir tjörnina. Brú Þórs var beinni, hærri og ögn breiðari, en brú Týs var lægri og hafði stóran pall á brúnni miðri þar sem að fólk mælti sér oft mót. Týsbrúin þótti að mörgu leiti betri, og töluvert rómantískari fundarstaður, þannig að hún hefur verið notuð síðan að sameiningin varð.

Þjóðhátíð í umsjón Týs.

Einnig margefldist við þetta flugeldasýningin, tónleikahaldið og allir aðrir þættir hátíðarhaldanna, þar sem að um sameiginlegt átak var að ræða. Þó hafa heyrst neikvæðnisraddir á þá leið að sá samkeppnisandi sem ríkti er Þór og Týr voru við völd hafi minnkað og þjóðhátíðin því að einhverju leiti staðnað.

Veðurfar

Meðalhiti á Stórhöfða yfir daga þjóðhátíðar á árunum 1974 til 1991 var 9.9°C (9.8°C á föstudeginum, 10.4°C á laugardeginum og 9.7°C á sunnudeginum). Meðalhiti í Herjólfsdal getur hæglega verið 3°C hærra en á Stórhöfða. Vindhraðinn í dalnum er líklega enn minni en á Stórhöfða, allt niður að 50% af vindstyrknum, en hann var 15,3 hnútar (7,87 m/s) þar. Meðalvindur var mestur árið 1976, um 25,4 hnútar (um 13 m/s) - þá var Þjóðhátíð haldin á Breiðabakka. Meðalskýjahula var 5,9 áttunduhlutar, en var hún 8/8 (nánast alskýjað allan tímann) árið 1989 og 1,4 áttundu árið 1977 (nánast heiðskírt allan tímann).

Nokkrum sinnum hefur það komið fyrir að miklir vindar hafa gert nokkurn usla á tjöldum og rigningar kælt og bleytt margar þúsundir manna, sem láta það þó yfirleitt lítið á sig fá. Eitt árið, líklega 1969, var verið að nota kringlótt skátatjald sem veitingatjald, og það, ásamt nokkrum öðrum tjöldum, fauk upp hliðina á Molda og yfir Hánna. Það þurfti þá mikinn mannskap til þess að bjarga tjaldinu. Á þjóðhátíð 2002 varð veður svo vont að hátíðargestir leituðu skjóls í heimahúsum og íþróttamiðstöðinni á meðan að tjöld þeirra fuku í stórum stíl, ef að rigningarnar héldu þeim ekki niðri. Þó koma inn á milli sæluveður — árið 2003 var sérlega minnisstætt vegna góðviðris, og eins árið 1977.

Tölfræðin sýnir að það skiptist mjög á skin og skúrum á þjóðhátíð í Eyjum, en það hefur sýnt sig að ef að engin rigning er á laugardagskvöldinu, þá verði engin úrkoma yfir sunnudaginn heldur.

Siðir

Þjóðhátíð á fyrri hluta 20. aldar

<video> Jóðhátíðin í Herjólfsdal.flv </video> Mest áberandi siðurinn, þegar að litið er yfir dalinn, er sá siður að raða upp hvítum hústjöldum í götur. Fyrsta hústjaldið virðist hafa komið til sögunnar árið 1908, en þá voru sælgæti og gosdrykkir seldir í fyrsta sinn. Hústjöld fóru að verða áberandi um 1910. Á fyrstu þjóðhátíðunum var hústjöldunum ekki raðað upp eftir neinu sérstöku skipulagi, þó svo að tjaldformið virðist hafa haldið sér frá upphafi. Helsti munurinn þá og nú er sá að ekki voru notaðar járn- eða trégrindur í upphafi, heldur eingöngu ein tréstöng í hverju horni, og svo snærisbönd sem héldu tjaldinu strektu. Tilkoma grindanna hefur gert það að verkum að ekkert pláss fer til spillis undir snærisböndin, þannig að hægt er að raða hústjöldunum mun þéttar en áður.

Árið 1929 er fyrst getið um brennu á Fjósakletti, en varðeldar hafa tíðkast í smærri stíl nokkru fyrr. Þó er vitað að það var engin brenna fyrir árið 1908, þar sem að spýtnabrak fannst ógjarnan á víð og dreif þá eins og nú; timbur var munaðarvara sem varð að nýta sem allra best.

Þjóðhátíð 1986.

Þegar árið 1903 eru nefndir flugeldar. Gísli J. Johnsen sá um framkvæmd hennar á fyrstu árunum.

Bjargsig er fyrst nefnt á 17. júníhátíðinni 1911 en um 1920 er talað um bjargsig í Dalsfjalli eins og fastan sið á þjóðhátíð og hefur verið svo síðan.

Árið 1977 fór fyrst fram brekkusöngur á þjóðhátíð undir stjórn Árna Johnsens. Sama ár tók Árni einnig við af Stefáni Árnasyni, sem kallaður var Stebbi Pól, sem kynnir á þjóðhátíð, en Stefán hafði gengt starfi þular á þjóðhátíð í áratugi. Söngur við varðeld hefur lengi tíðkast í Vestmannaeyjum, en á þjóðhátíð koma mörg þúsund manns saman í brekkunni í Herjólfsdal og syngja saman í góða klukkustund gömul og góð dægurlög í bland við þjóðhátíðarlögin.

Göturnar

Blys í brekkunni í Herjólfsdal er fastur liður á þjóðhátíð og bætist alltaf eitt blys í viðbót á ári. Árið 2006 voru þau alls 132.

Hefð er fyrir því, eins og áður segir, að raða hústjöldunum upp í götur, og hefur hver gata hlotið nafn, sem hefur haldist með nánast engum breytingum í gegnum árin.

  • Sjómannasund
  • Sigurbraut
  • Lundaholur
  • Skvísusund
  • Veltusund
  • Þórsgata
  • Týsgata
  • Ástarbraut


Þjóðhátíðarlagið

Sjá aðalgrein: Þjóðhátíðarlög

Á hverju ári er sérstakt lag samið til þess að vera einkennislag Þjóðhátíðarinnar það árið. Þessi hefð hefur haldist frá árinu 1933. Oddgeir Kristjánsson samdi lögin fyrstu áratugina en eftir fráfall hans hafa margir komið að því að semja lögin. Mikil eftirvænting er í bæjarbúum og áhugamönnum fyrir afhjúpun lagsins ár hvert. Misjafnar skoðanir eru á lögunum, en flestir eru sammála um ágæti laganna, sérstaklega eftir verslunarmannahelgina.

Kvikmyndir

Kvikmyndir frá Þjóðhátíð

Myndasafn


Heimildir

  • Þjóðhátíðarblað Vestmannaeyja, ýmsir árgangar milli 1962-2002, þá sérstaklega:
    • Þjóðhátíðin í Herjólfsdal frá fornu fari, Þjóðhátíðarblaðið 2002.
    • Veður á Þjóðhátíð í Eyjum 1974-1991, e. Trausta Jónsson veðurfræðing, Þjóðhátíðarblaðið 1992.
    • Þjóðhátíðarlögin ómissandi þáttur Eyjastemningarinnar, e. Árna Johnsen, Þjóðhátíðarblaðið 1992.
  • Þjóðólfur, 26. árgangur, bls. 196. [1]
  • Dalurinn.is, Saga Þjóðhátíðar. [2]