Björn Kalman

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Björn

Björn Pálsson Kalman var fæddur 25. júní 1883 á Hallfreðarstöðum í Hróarstungu, N-Múlasýslu, dáinn 12. janúar 1956 í Reykjavík.

Björn var sonur Páls Ólafssonar skálds og alþingismanns og seinni konu hans Ragnhildar Björnsdóttur, Skúlasonar skálds og vinar Páls. Páll var áður kvæntur Þórunni Pálsdóttur, sem lagði grunn að fjárhag hans, en hann var 16 árum yngri, hún lést 1880. Páll faðir Björns var orðinn 56 ára er hann átti Björn, en hann hafði átt þrjá aðra syni, sem höfðu dáið á barnsaldri. Þá átti Björn systir, Bergljótu f. 1890, sem bjó í Kaupmannahöfn frá 1906. Um ástríki Páls á konu sinni og einkasyni orti hann :

Þó ég ætti þúsund börn,
með þúsund afbragðs konum,
mest ég elska mundi Björn,
og móðurina´að honum.

og

Fallegt barn er Bjössi minn,
bjartur jafnt á hár og skinn,
engan líka á hann sinn,
þótt aldraður sé faðirinn.


Björn fluttist til Reykjavíkur um aldamótin og stundaði nám við Latínuskólann sem nú er Menntaskólinn í Reykjavík. Þaðan varð hann stúdent 1904 með I einkunn. Meðan á náminu stóð kenndi Ólafur Rósinkranz íþróttir við skólann, en hann var áhugasamur um knattspyrnu og tókst að vekja áhuga margra ungra drengja á þessari íþrótt. Björn var sérlega áhugasamur og lagði sig fram um að þeir félagar tækju sem allra mestum framförum í leiknum. Hann útvegaði sér eintak af enskum knattspyrnureglum, þýddi þær smám saman á íslensku og las upp úr þeim á æfingum, þannig náðu menn áður en langt um leið valdi á reglunum og gátu leikið löglega.

Áður en hann hélt utan sumarið 1904 var staddur í Reykjavík Vilhjálmur Stefánsson, landkönnuður og um sama leiti kom William Napier, enskur skákmeistari, í heimsókn til Íslands. Napier tefldi við Björn sem þá var einn sterkasti skákmaður hér á landi og tókst Birni að sigra meistarann. Vilhjálmur varð færni Björns á sviði skákarinnar svo minnistæð að hann færði það veturinn eftir í tal við Nataniel Shaler deildarforseta Harvard háskóla í Bandaríkjunum. Shaler, sem vildi efla skáksveit skólans, sagðist skyldi útega Birni skólastyrk og greiða ferð hans yfir hafið ef Vilhjálmi tækist að fá hann til náms í skólanum.

Björn sigldi haustið 1904 til Danmerkur til frekara náms og nam verkfræði við Hafnarháskóla 1904-05, en fór haustið 1905 með Vilhjálmi Stefánssyni landkönnuði til Boston að ráði Vilhjálms til að setjast í Harvard háskóla og halda þar áfram námi í rafmagnsfræðum. En bakvið þetta bjó auðvitað að Björn styrkti skáksveit skólans. Fóru þeir Vilhjálmur saman á skipi frá Allan félaginu frá Glasgow til Montreal. Björn var sjóveikur nær alla leiðina, en á skipinu var kanadískur skákmeistari James Mavor, prófessor við háskólann í Toronto, sem tefldi mikið við ónefndan ástralskan skákmann á leiðinni. Vilhjálmur tefldi líka við þá en lofaði þeim harðari keppinaut sem var Björn. Er siglt var inn um Belle Isle sund lægði sjóinn og Björn komst á fætur. Hann vann hverja skákina á fætur annarri og tefldi loks við þá báða samtíma blindskák og vann báðar.

Er í Harvard var komið voru skákmenn skólans því mótfallnir að svona ungur og nýkominn nemandi yrði tekinn framyfir hina eldri. Þessu til stuðnings voru reglur skólans um að nemendur sem kæmu úr öðrum skólum þyrftu að hafa verið við nám í eitt ár áður en þeir mættu keppa fyrir hönd skólans. Þrátt fyrir að þetta hafi verið Birni mikið áfall þá hafði hann áður lýst því fyrir Vilhjálmi að hann hefði áhyggjur af heilsu sinni, en svo lýsir Vilhjálmur þessu í ævisögu sinni ; „Hann varð altekinn þeirri hugsun, að hann væri að missa vitið. Einmitt þegar við hinir töldum, að hann ætti að vera gramur eða reiður vegna þess, að einhverjar reglur hindruðu, að hann gæti keppt, kom hann á fund minn og tjáði mér, að hann væri að bila andlega. Hann hafði lesið einhvers staðar, að geðveiki væri algeng meðal skákmanna og því betri sem skákmaðurinn væri, því meiri væri hættan á geðveiki, og í mestri hættu væru snillingarnir, sem sú bölvun legðist á, að þeim væri um megn að gleyma skákum sínum. Ég held, að það hafi haft mest áhrif á Björn, að honum var ómögulegt að gleyma. Hann hafði sagt bæði mér og öðrum frá þessum þætti í fari sínu. Nær frá bernsku mundi hann hverja skák, sem hann hafði teflt; hann gat stillt skákum upp eftir minni og skilgreint í huganum mistökin, sem honum eða andstæðingnum höfðu orðið á. Að líkindum taldi ég þetta ekki nógu alvarlegt, þegar hann sagði mér frá því, þar eð ég hélt, að ég gæti fengið hann til að skipta um skoðun með því að hlæja að honum. En einum eða tveimur dögum síðar var hann horfinn.“ Það var vorið 1906 sem Björn hvarf frá Harvard í skyndingu og án þess að kveðja vini sína Vilhjálm eða Shaler. Síðar fréttu þeir af Birni í Winnipeg þar sem hann vann við múrsteina- og kalkburð. Síðar gerðist Björn meðritstjóri að íslendingablaðinu Lögberg. Björn fluttist til Íslands að nýju í árslok 1908 og stundaði laganám við Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan cand. juris 1912 og varð Hæstaréttarlögmaður 1922.

Björn og dætur.

Er Björn var í Kanada tefldi hann mikið við landa sinn, Magnús Smith og stóð honum nokkuð jafnfætis, að sögn Péturs Zophaníassonar, en það jafngilti því að vera einn af sterkustu skákmönnum í Kanada, því Magnús hafði orðið Kanadameistari í öll þau skipti sem hann tefldi á meistaramótunum þar árin 1899, 1903 og 1906. Á þessum tíma átti Björn oft erfitt með svefn og gekk illa að útiloka sig frá því að hugsa um skák.

Þegar Björn var í Winnipeg 1906 fór hann með kunningja sínum að fylgjast með fjöltefli Frank Marshall, sem var bandarískur skákmeistari. Einn skákmaður mætti ekki til leiks og þar sem vitað var að Björn gat teflt var hann dreginn að auðu borðinu. Eftir nokkra leiki virtist Marshall forviða og kvartar yfir því að menn hefðu átt að aðvara hann gagnvart þessum manni og sagði að hann hefði átt að vera á fyrsta borði. Marshall tapaði þessari einu skák og vildi tefla aftur við Björn, en hann neitaði að tefla og reyndar aldrei framar, a.m.k. í Winnipeg. Skák sú er hann tefldi við Marshall virðist vera sú eina sem hann tefldi vestanhafs, sem varðveist hefur. Hún birtist í Lasker Chess Magasine.

Árið 1907 kom heimsmeistarinn í skák, Dr. Emanuel Lasker til Kanada og birtist m.a. frétt í Heimskringlu í júní 1907 um komu hans til bæjarins. Lasker hafði svo mikið álit á Magnúsi Smith að hann fékk hann til að gerast taflfélaga sinn og bauð honum ritstjórastarf við eitt af skáktímaritum sínum og þekktist Magnús boð heimsmeistarans og fór til New York.

Björn starfaði að ýmsum störfum eftir lögfræðinámið, s.s. kennsla við Verzlunarskólann, ristjóri blaðsins Reykjavík, blaðamaður á Morgunblaðinu, á fjármálaskrifstofu Stjórnarráðsins, og póstafgreiðslumaður á Seyðisfirði. Björn bjó með á Seyðisfirði um nokkurt skeið ásamt fjölskyldu sinni og þar tók hann sér ættarnafnið Kalman árið 1916. Hann hætti svo til alveg að tefla skák þar sem þær lögðust þungt á hann og hann gat ekki hætt að hugsa um skákirnar. Hann er nefndur í grein í Vísi 27. maí 1925 með þessum orðum : " ... enn eru til hér á landi ýmsir góðir skákmenn, en þó munu nú sumir hinna slyngustu hafa lagt þá íþrótt niður að mestu. Má þar nefna meðal annarra : þá Björn Pálsson Kalman og Pétur Zóphóníasson ... og mundu hafa talist hlutgengir hvar sem væri á skákþingum erlendis ... ".

Björn var í hópi fyrstu lögfræðinganna sem útskrifuðust frá Háskóla Íslands sumarið 1912 ásamt 4 öðrum. Hann starfaði ekki sem málafærslumaður að neinu ráði fyrr en um og eftir 1920 og var þá hæstaréttarlögmaður í Reykjavík og víðar um árabil. Hann veiktist af lömunarveiki 1924 og var um tíma þungt haldinn, en náði sér smám saman, en gekk haltur upp frá því. Kona hans var Martha María Indriðadóttir, leikkona, en hún var dóttir Indriða Einarssonar þingmanns Vestmannaeyja 1891. Þau áttu börnin; Páll Einar Kalman, f. 14. janúar 1924, d. 23. maí 1996, sem fór utan 18 ára til siglinga og sneri aldrei aftur heim, Helga Kalman, Hildur Kalman, f. 29. júlí 1916, d. 6. febrúar 1974, leikkona og Björn Kalman, læknir í Svíþjóð. Þau skildu um miðjan þriðja áratuginn og eftir það hallaði Björn sér sífellt meira að flöskunni. Los kom á líf hans og 1929 fluttist hann um tíma til Danmerkur og þaðan til Akureyrar.

Björn flutti til Vestmannaeyja haustið 1930 og vann þar við ýmis störf, m.a. sem kokkur á fiskibátum. Hann bjó að Heimagötu 4, eða Tungu samkvæmt íbúaskrá 1934, en á þessum árum voru þar leigð herbergi til prívatmanna. Því húsi var breytt 1966-67 í gistihús undir nafninu Hótel Berg. Hann var félagi í Taflfélagi Vestmannaeyja og tefldi eitthvað, m.a. í sveitakeppni 24. október 1936 við Hafnfirðinga og gerði jafntefli á 6 borði. Hann fluttist að nýju til Reykjavíkur 1940 þar sem hann átti heima síðan.

Sú tilgáta hefur oft verið nefnd að Björn hafi verið fyrirmyndin að Dr. B. í hinni þekktu sögu Stefans Zweig, Manntafl. Við útgáfu ævisögu Vilhjálms Stefánssonar landkönnuðar 1962, sem út kom eftir andlát Vilhjálms, vaknaði sú hugmynd, því samanburður á frásögn Vilhjálms við frásögn í bók Zweigs, Manntafl er sláandi líkt að mörgu leyti. Ævisaga Stefans Zweigs gefur líka þessari hugmynd byr undir vængi, því Zweig mun hafa verið á ferð um Ameríku fyrir fyrri heimsstyrjöld og dvaldi m.a. í Boston (Harvard) ekki mörgum árum á eftir Birni og ekki ólíklegt að hann hafi heyrt af vandræðum hans.Heimildir

  • Fylkir, Jólablað 2013, samantekt e. Karl Gauti Hjaltason
  • Afmælisrit Taflfélags Vestmannaeyja 1982
  • Lögfræðingatal 1736-1992. Iðunn Reykjavík 1993
  • Lesbók Mbl. 24. desember 1942 (viðtal við Björn)
  • Söguleg skák e. Jón Ólafsson hrl., Samvinnan, 1. ágúst 1976, bls. 14 o.áfr.
  • Ættarnöfn á Íslandi, Árnastofnun, heimasíða
  • Heimasíða KR (stofnun)
  • Samantekt Karl Gauti Hjaltason