Blik 1938, 1. tbl./Hvernig leiðast unglingar til eiturlyfjanautna

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1938


Þorsteinn Þ. Víglundsson, skólastjóri:HVERNIG LEIÐAST UNGLINGAR TIL EITURLYFJANAUTNA?


I.

Áður en mennirnir þekktu orsakir sótta og pesta, sóttkveikjurnar, stóðu þeir varnarlausir fyrir þeim. Þeir hugðu bænir eina ráðið gegn voðanum. Til þess svo að sannfæra drottinn um einlæga trú sína og traust á honum, gáfu menn kirkjunni gjafir, lögðu á sig föstur, gáfu mat hungruðum landshornalýð eða búandi öreigum, lásu „Faðir vorið“ nokkrum tugum sinnum afturábak og áfram, fóru pílagrímsferðir um langa vegu og aðhöfðust ýmislegt fleira þvílíkt, sem þeir héldu að Guði, Jesú og dýrðlingunum mætti þóknast og til dýrðar verða. En ekkert dugði. Hinar skæðu sóttir drápu fólkið svo ákaft, að þriðjungur heilla þjóða eyddist á skömmum tíma, án þss að nokkur fengi rönd við reist.
Eiturlyfjanautn Íslendinga er þjóðarpest, sem tærir og drepur. Hún veldur efnalegum og andlegum dauða í ríkara mæli, en þjóðin virðist yfirleitt gera sér í hugarlund.
Meðan meiri hluti þjóðarinnar líður það og er því samþykkur, að drýgstu tekjur þjóðarbúsins séu tekjur af áfengis- og tóbakssölu, þá lifir þjóðin sem vændiskona, er selur líf sitt og líkama, til þess að fullnægja daglegum þörfum.
Afleiðingarnar koma í ljós, þótt síðar verði.
Ég vil síður en svo gera lítið úr því, að menn taki trú sína og bænir með í bindindisstarfið. En það eitt vinnur ekki bug á böli eiturlyfjanautnanna og bjargar ekki æskunni frá yfirvofandi hættu. Við verðum að grafast fyrir ræturnar, leita að orsökunum til þess, að æskan smitast nautnapestinni. Síðan verða foreldrar og aðrir aðstendendur æskumanna að reyna eftir megni að fyrirbyggja smitunina, þegar ljóst er á hvern hátt hún á sér stað eða gerist.

II.

Í hittið fyrra komst ég að því, að þrír drengir, sem stundað höfðu nám í 1. bekk gagnfræðaskólans hér, komu ekki aftur í skólann vegna tóbaksneyslu. Um sumarið, eftir fyrsta veturinn í skólanum, létu þeir leiðast til ákafrar tóbaksnautnar og treystu sér ekki til að hlíta lögum og reglum skólana og búa við bindindisáhrif og -anda kennara og nemenda.

III.

Þegar þing Sambands bindindisfélaga í skólum var haldið í haust í Reykjavík, kom í ljós, að gagnfræðaskólinn hér var eini skólinn, sem þá var í sambandinu, þar sem 100% af nemendunum, eða hver einasti þeirra starfar í bindindisfélagi skólans. Ég segi þetta ekki okkur kennurunum til hróss, heldur þessum mannvœnlega æskulýðshóp og Eyjunum, því að þeim er það sómi.
Minnumst þess, að í kjölfar bindindis fer margt annað gott, eins og neysla áfengis og tóbaks hefir margt annað illt í för með sér.

IV.

Í haust leituðum við eftir því hjá nemendum skólans, hvernig unglingar hér í bæ yfirleitt leiðast til tóbaks- og áfengisnautnar, svo fljótt sem raun ber vitni um. Sérstaklega voru hafðir í huga unglingar, sem stundað hafa nám í skólanum, verið þar einbeittir og áhugasamir bindindismenn, en orðið þrælar eiturlyfjanautnanna mjög bráðlega, eftir að námi lauk.
Við vitum sem er, að skynsömum unglingum er það sjálfum ljósast, hvað veldur þessari afturför og ógæfu þeirra, þegar þeir fást til þess að hugleiða það. Og enginn þarf að efast um einlægni og sannsögli þessara ungu og áhugasömu bindindismanna.
Nemendunum var falið að svara í ritgerð eftirfarandi spuningu:
Hvað veldur því, að unglingar, sem virðast vera ákveðnir og einlægir bindindismenn á meðan þeir stunda nám hér í skólanum og virðast skilja til hlítar hættuna af eiturlyfjanautnum, eru oft eftir eitt ár eða tvö farnir að neyta tóbaks og síðan áfengis?
Svör nemendanna eru að ýmsu leyti athyglisverð og mættu verða til þess að vekja menn til íhugunar um þessi mál meira en verið hefir.
Ég set hér fyrst kafla úr ritgerðum tveggja nemenda í 3. bekk. Þeir hafa dvalið í skólanum í 3 vetur, eru skýrir og athugulir, og hafa rækt bind­indi og haft hug á því, síðan þeir hófu nám í skólanum.
Annar þeirra segir m.a. á þessa leið:
„Þegar við unglingarnir hættum námi í skólanum, ríður á því, að við lendum í góðum félagsskap. Okkur finnst við ekki vera bundnir við starf eins og áður, á meðan við dvöldum í skólanum.
Í skólanum heyrum við alla, undantekningarlaust, kennara og nemendur, vera fylgjandi bindindishreyfingunni og vitum þá alla bindindismenn. Allir gera þar lítið úr óreglumanninum og telja hann ekki færan til að ráða fyrir neinu trúnaðarstarfi. Óreglumanninum má aldrei treysta. Þess vegna eignast unglingurinn þá hugsun og þann vilja, á meðan hann er í skólanum, að berjast af alhug með hinni bindindissinnuðu æskulýðshreyfingu og gæta sín, vera sannnur bindindismaður bæði á tóbak og áfengi.
Þegar við unglingarnir síðan komum út í lífið og förum að fylgjast með, eins og það er kallað, steðja önnur öfl að okkur, sem leitast við að freista okkar og skaða okkur, því að almenn þekking á skaðræði tóbaks- og vínnautnar virðist vera á mjög lágu stigi.
Þegar unglingurinn fer að fylgjast með og sér, að allflestir, sem hann kemst í kunningsskap við, og fleiri, bæði reykja og drekka, missir hann trú á orðum kennara sinna og skólasystkina. Hann lætur hugfallast í baráttunni gegn hinum illu áhrifum og fer að efast um sannleiksgildi þess, að eitulyfjanautnirnar geri manni nokkuð illt, eins og hann var fræddur um í skólanum, og semur sig að siðum hinna, sem hann umgengst.
Aðrir hugsa sem svo, að þeir séu ekki ungir nema einu sinni, og þessvegna eigi þeir að njóta lífsins, fylgjast með öllu og haga sér eins og þeim sjálfum best líkar, en gleyma því um leið, að þeir eiga ef til vill mörg ár ólifuð sem fullornir menn. Með þessu spilla þeir framtíð sinni. En það eru ekki nema skammsýnir og lítilsigldir unglingar, sem haga sér þannig.“
Hinn nemandinn segir m.a: „Hér í skólanum eignast nemendur þá hugsjón, að sporna við tóbaks- og áfengisnautn og eru stöðugt varaðir við að eiga nokkur mök við hin skaðlegu eiturlyf. Þegar nemendurnir fara héðan úr skólanum, tekur alloft við þeim atvinnu- og aðgerðarleysið. Þeir stunda því göturnar, sem svo er kallað. En götulífið fyrst og fremst, heldur óreglunni, nautnunum að unglingunum.
Ég tel sem sé ástæðurnar fyrir tóbaks- og áfengisnautn unglinganna vera atvinnuleysið annarsvegar og vondan félagsskap, slæma félaga, hinsvegar.
Oft er tóbaki og áfengi haldið að unglingum af þeim fullorðnu.
Mörgum vanþroskuðum unglingum finnst líka upphefð í því að ganga með sígarettustert í munninum.“
Rúmlega þriðjungur nemendanna tekur það fram, að atvinnuleysið spilli unglingunum og í iðjuleysisranglinu leiðist þeir til tóbaks- og vínnautnar.
Brögð eru að, þá börnin finna.
Í 33 ritgerðum af 60, eða rúmlega 50%, segjast unglingarnir vita til þess, að siðspiltir unglingar afvegaleiði hina í þessum efnum. Unglingurinn lendir í vondum félagsskap og er tældur til tóbaksnautnar, eða honum er storkað, þykir minni maður, ekki félagshæfur, ef hann ekki fylgist með, neytir tóbaka og víns.
Margir nemendanna taka það beint fram, að skólastarfið, og sérstaklega hið mikla námsannríki, haldi þeim frá áhrifum spilltra unglinga. Þeir eru alltaf hlaðnir störfum.
Einn drengjanna veit nokkur dæmi þess, að unglingar hafa fyrst borið við tóbaks- og áfengisneyslu á þjóðhátíðinni hér. „Þar,“ segir hann, „hafa þeir stígið sitt fyrsta óheillaspor.“ Siður sá hér, að halda þjóðhátíð á hverju sumri, er ágætur og ber að mörgu leyti vott um þrótt bæjarlífsins og menningargróanda, en hún á líka sínar skuggahliðar, sem við vonum að hverfi sem mest. En við þurfum þá að vera á varðbergi.
Annar drengur skrifar: „Hér í Vestmannaeyjum eru brennur á gamlaárskvöld. Á kvöldin næstu fyrir gamlaárskvöld vaka drengir yfir því, sem brenna á, svo að aðrir drengir steli því ekki. Eins og kunnugt er, er það, sem brennt er, ýmist frjálst eða stolið. Sumir drengjanna, sem vaka, hafa það æði oft fyrir sið, að hafa með sér vindlinga, og reykja þeir þá óspart og kenna öðrum að reykja í húmi kvöldsins.“
Nemendurnir benda á það, að vanda þurfi betur til bíó­mynda, hvað þessar nautnir snertir.
Börnum og unglingum er sýnd notkun eiturlyfja, og farið með þau, eins og þau væru óskaðlegir hlutir, sem sjálfsagt er að nota og njóta.
Þannig verði sumar kvikmyndir auglýsingar fyrir tóbaks- og áfengissalana.
Ég vildi mælast til þess, að háttvirt barnaverndarnefnd bæjarins vildi taka þessa athyglisverðu athugasemd unglinganna til athugunar.
Síðast set ég hér frásögn einnar námsmeyjunnar. Frásögnin er mjög athyglisverð og hafa eflaust margar stúlkur svipaða sögu að segja.
Hún ræðir fyrst í ritgerðinni um hin illu áhrif atvinnuleysisins á unglingana og hvernig þeir leiðast oft út í vondan félagsskap, þegar þeir leika lausum hala og hafa ekkert fyrir stafni, og hvernig þeirra er freistað.
Síðan segir hún :
„Ég veit bara með mig. Oft og mörgum sinnum hefir mér verið boðinn vindlingur, en ég hefi sem betur fer, alltaf staðist freistinguna, og ég vona, að mér lánist það framvegis.
Mér hefir líka verið boðið staup af víni. Ég get sagt dæmi þess, en ég nefni ekki nöfn. Maðurinn, sem það gerði, er mjög hátt settur hér í bænum.
Það var eitt kvöld í fyrra vetur, að ég var send niður í fiskhús með vinnukonu, sem vann heima. Klukkan var orðin ellefu. Við áttum að stinga bréfi í póstkassann um leið. Þegar við komum þaðan, mættum við manni, sem við þekktum báðar vel og var daglegur gestur heima. Hann tekur okkur tali og spyr okkur, hvað við séum að slæpast úti svona seint og þannig fram eftir götunum. Að lokum býður hann okkur heim til sín. Við vorum tregar í fyrstu, en að lokum segir stúlkan við mig: „Við skulum koma aðeins.“ Svo ég lét þá undan. Þegar heim til hans kom, býður hann okkur inn í stofu. Þá kemur hann með átsúkkulaði, og gefur okkur. Meðan við erum að neyta þess, fer hann fram fyrir og kemur að vörmu spori aftur inn með þrjú glös og heitt vatn og hellir nokkru í glösin og lætur sykur í þau. Þar næst dregur hann upp spíritusflösku og ætlar að bæta í glösin. Ég spurði hann þá, hvort hann væri vitlaus, en hann sagði að þetta mundi ekki saka mig nokkurn skapaðan hlut. Ég bar þó sigur úr býtum, sem betur fór. En hann vissi sem var, að stúlkunni þótti gott í staupinu og þau drukku, og hún drakk sig fulla að minnsta kosti, en ég kvaddi og fór. Síðan þetta kvöld hefi ég andstyggð á þessum manni og hefi ekki getað litið hann réttu auga síðan.“
Það varðar ekki við lög að tæla unglinga, hvorki stúlkur eða drengi, til tóbaks-og áfengisnautnar. Það telst ekki neinn glæpur að ginna saklausan unglinginn inn á þær brautir, sem leitt geta til eyðileggingar á lífi hans án þess beint að taka það af honum.
Það er glæpur, að byrla manni eitur, sem bráðdrepur hann, en það er ekki talinn glæpur að stofna til tortímingar t.d. á lífi unglinga, pilta og stúlkna, þannig, að þau verða meira sorgarefni foreldrum sínum og öðrum aðstandendum lifandi en þó þau lægu lík, og þjóðfélaginu meiri skaði að þeim lifandi en liðnum.