Blik 1938, 2. tbl./Að loknu þriggja vetra námi

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1938AÐ LOKNU ÞRIGGJA VETRA NÁMI.

Ég er einn af þeim undarlega fáu, sem lokið hafa þriggja vetra námi í Gagnfræðaskólanum í Vestmannaeyjum á þessu ári, og orðið aðnjótandi þeirrar fræðslu og þess félagslega þroska, sem hann hefir sínum nemendum að bjóða.
Þegar litið verður yfir þessi fáu en þýðingarmiklu skólaár, þá verður ýmislegt til að staldra við og íhuga nánar, á hinum skemmtilegu skólaárum. Þegar svo er íhugað, hvaða þýðingu slík menntun sem þessi hefir, þá vekur það undrun, hve fáir hafa notið hennar. Hví er það svo? Frá því gagnfræðaskólinn er stofnaður, hefir hinni þróttmiklu æsku Vestmannaeyja gefist kostur á menntun, sem allir, ríkir sem fátækir, geta notið, en fyrir áhugaleysi æskunnar, hefir sú viðleitni, sem henni hefir verið sýnd, ekki borið þann árangur sem skyldi.
Hugsanir æskunnar virðast beinast að öðru en menntun, sem er skilyrði fyrir þróun og siðferðislegum vexti þjóðarinnar. Ýmsir æskumenn ímynda sér, að framhaldsskólarnir séu einskonar fangelsi, þar sem hver nemandi sé pyntaður til lærdóms. En það er algjörlega röng hugmynd. Nemendurnir eru ekki að læra fyrir aðra en sig sjálfa og sína framtíð. Það er því algjörlega á valdi sérhvers nemanda, hve mikið hann ber úr býtum á skólagöngunni. Í gagnfræðaskólanum er hver nemandi frjáls um það, hve mikið hann leggur á sig við námið, því að með því kemur fram vilji og einkenni nemendanna, og með því fá kennarar rétta hugmynd og reynslu um áhuga og hugsanir hvers nemanda. En nemendurnir eru ekki að öllu leyti sjálfráðir um hegðun sína og framferði innan skólans. Það er athugað í hverju því er ábótavant og reynt að bæta úr því á sem bestan hátt. Innan skólans starfar bindindisfélag, sem hver nemandi er meðlimur í og þar af leiðir, að enginn nemandi hefir um hönd eiturlyf nútímans, sem hafa ár eftir ár eyðilagt marga uppvaxandi æskumenn í landinu.
Þessi félagsskapur innan skólans hefir valdið því, að sumir hafa dregist aftur úr hópnum á miðri leið, og orðið viðskila við hann; ekki talið sig nógu frjálsa. En þessir unglingar eru fáir, og hefir það jafnvel orðið til þess, að aðsókn hefir orðið meiri að skólanum en ella.
Þegar nú æska Vestmannaeyja á kost á skólagöngu í þrjú ár, að mestu endurgjaldslaust, og það er vitað, að allur þorrinn af unglingum á þessum aldri, hefir sáralítið að starfa, og megin tíminn, sem skólinn starfar, er hentugur fyrir æskulýðinn, þá er leitt til þess að vita, að aðalmenntastofnun bæjarfélagsins skuli aðeins vera skipuð nokkrum hluta þess æskulýðs, sem í framtíðinni á að ráða málum þessa bæjarfélags. Það spáir ekki góðu um framtíð bæjarfélagsins. Margir segja, að ekki þurfi allir að læra, að ekki lifi allir á því. Það er reyndar satt. En er þá nokkur maður eða nokkur þjóð of menntuð. Og í gagnfræðaskóla kaupstaðarins eru aðeins kenndar þær námsgreinar, sem hverjum manni eru nauðsynlegar í hvaða stétt eða stöðu, sem hann starfar.
Þegar aðrar þjóðir leggja mikið fé í uppfræðslu æskulýðsins, eiga þá Íslendingar að draga úr sinni fræðslustarfsemi á sama tíma. Nei. Hinar miklu menningarþjóðir, sem eru fjársterkar, geta hlúð vel að sinni æsku, og þær gera það. Þær vita, hvað mikið ríður á uppeldi og menntun æskunnar í landinu fyrir komandi kynslóðir.
Að síðustu óska ég þess og vona, að æska Vestmannaeyja læri að nota sér þau skilyrði og þau tækifæri, sem henni bjóðast hér til aukinnar þekkingar og meiri þroska.
Við skulum öll standa að því sem einn maður að efla gagnfræðaskólann hér og skapa honum sem best starfsskilyrði. Hann á allt gott skilið af Eyjabúum, ekki síst æskulýðnum hér.

Jóhann Vilmundarson.