Blik 1938, 3. tbl./Sigurbjörn Sveinsson sextugur

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1938


Sigurbjörn Sveinsson sextugur.
Sigurbjörn Sveinsson

.

Í ríki skammdegisins eru jólin hin merkasta tilbreyting, — ekki síst fyrir börnin, því einmitt þeim er jólahátíðin fyrst og fremst tileinkuð.
Ég man hann vel, þennan kalda, svipþunga aðfangadag. Hann leið fyrir okkur börnin í djúpri tilhlökkun, eins og fyrirboði óvæntra tíðinda.
Og það var hann einmitt.
Hann var fyrirboði þráðrar hátíðar. Um kvöldið, eftir að hin eiginlega jólahátíð var gengin í garð, söfnuðumst við börnin, ásamt fullorðna fólkinu, saman í hinni litlu stofu, sem var fátæk að húsgögnum. Það var kveikt á kertunum á jólatrénu, og ljós þeirra skinu skært eins og æfintýralegar stjörnur. Foreldrar mínir voru fátæk, en samt fengum við systkinin öll jólagjöf, hvert fyrir sig.
Ég fékk fallega barnabók.
Þessi bók var „Bernskan,“ eftir Sigurbjörn Sveinsson. Ég las hana oft, geymdi hana vandlega og mér þótti vænna um þessa bók, en öll önnur leikföng mín til samans. Hún veitti mér innsýn inn í nýjan heim. Hún lauk upp fyrir mér dyrum að dásamlegri æfintýraveröld. Hún var eins og bergmál minna eigin barnslegu hugsana.
Um höfund bókarinnar vissi ég ekkert. Hann var mér framandi, — fjarlægur.
En samt var hann vinur minn og gjafari að þessari eigulegu jólagjöf. Síðan eru nokkur ár liðin, og nú eru viðhorfin breytt. Nú hefi ég kvatt bernskubyggðir og numið ný lönd og kynnst nýjum mönnum. —
Sigurbjörn Sveinsson átti sextugsafmæli 19. okt. s.l. Á þeim degi var honum margur heiður sýndur, og það sízt að ástæðulausu.
Ef til vill er Sigurbjörn vinsælasti maður á Íslandi, því börnin unna honum hugástum og eru honum þakklát fyrir hinar skemmtilegu, ævintýralegu bækur hans.
Ritstjórn Bliks hefir farið þess á leit, að ég skrifaði nokkur orð í tilefni sextugsafmælis Sigurbjarnar Sveinssonar, og ég vil leyfa mér að enda þessa afmælishugvekju mína, sem reyndar er á eftir áætlun, með þessum orðum:
Sigurbjörn Sveinsson, ég þakka þér fyrir jólagjöfina forðum!

Helgi Sæmundsson.