Blik 1941, 2. tbl./Lærum af sögunni

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1941


Þorsteinn Þ. Víglundsson:


LÆRUM AF SÖGUNNI
(úr sögu Orkneyinga)


Það er drepið á dyr hjá mér. Við skulum kalla hann Gunnar, piltinn, sem stendur við þröskuldinn.
Komdu sæll, Gunnar; gerðu svo vel að ganga í bæinn.
Gunnar er einstaklega prúður drengur, vel gerður og vel upp alinn. Hann hefir verið nemandi okkar í Gagnfræðaskólanum þrjú ár og lokið gagnfræðaprófi með góðri einkunn. Hann er einn af þessum iðnu, hugþekku og skylduræknu unglingum, sem geta sér traust og vinarhug kennara sinna og skilja eftir hjá þeim ljúfar endurminningar um ánægjulega samveru og samtarf.
„Hvað er þér á höndum núna, Gunnar minn?“ spurði ég, þegar við höfðum tyllt okkur.
Gunnar: „Þú minnist á sögu Orkneyinga í skólaslitaræðunni þinni í vor í tilefni af þeim þjóðhættulegu straumum, er steðja að þjóðerni okkar Íslendinga nú, og gazt þess, að norræna þjóðernið hefði horfið þar með öllu eftir að Skotakonungur eignaðist eyjarnar.
Mig langar til að vita dálítið meir úr sögu þessa norræna fólks, sem er svo athyglisverð og fróðleg fyrir okkur, sérstaklega á þessum alvarlegu tímum.“
Ég undraðist, við nánara samtal, hversu þjóðerniskennd þessa unga pilts virtist vakandi og snortin. Hann bar í brjósti amandi kvíða vegna þeirrar sorglegu veiklunar, sem komið hefir í ljós hjá nokkrum hluta íslenzka æskulýðsins á þessum „ástandstímum“, og hafði áhyggjur af þjóðerni sínu í aðsteðjandi flóði erlendra áhrifa.
„Þú, skalt spyrja, Gunnar, ég skal reyna að svara eftir beztu getu.“
Gunnar: „Voru Orkneyjar byggðar, áður en Norðmenn settust þar að?“
„Já, þar bjuggu Keltar, sem tekið höfðu kristna trú.“
Gunnar: „Hvenær settust Norðmenn að á eyjunum?“
„Á víkingaöld, og þá sérstaklega á fyrri hluta hennar eða á valdadögum Haralds hárfagra, (870-930). Frá eyjunni Herðlu í Norður-Hörðalandi eða eyjum, er Sólundir heita. Fyrir minni Sognsævar, var lagt á hafið venjulega og var þá talin vera sólarhrings sigling í góðum og hagstæðum byr til Sandeyjar, sem er austust Orkneyjanna. Norðmennirnir, sem til Orkneyja fluttu eða flýðu fyrir ofríki Haralds konungs, urðu brátt ofjarlar Keltanna þar og að öllum líkindum hnepptu þeir marga þeirra í ánauð.
Haraldur hárfagri lagði eyjarnar undir sig og gaf þær síðan vini sínum, Rögnvaldi Mærajarli, í sonargjöld ásamt Hjaltlandi. Þá urðu eylönd þessi jarlsdæmi og voru það lengi síðan.
Gunnar: „Hverjir eru kunnastir af jörlum og öðrum valdamönnum Orkneyinga?“
Fyrst framanaf voru afkomendur Rögnvalds Mærajarls, hver á fætur öðrum í beinan karllegg, jarlar yfir Orkneyjum. Frægastur þeirra er Torf-Einar sonur Rögnvalds, en bróðir Hrollaugs, er nam Hornafjörð, og Göngu-Hrólfs, er eignaðist jarlsríki í Norðmandí á Frakklandi.
Þá má nefna Magnús jarl Erlendsson, sem var vinsæll mjög og mannvinur mikill. Hann var myrtur árið 1115 og var þá brátt tekinn í helgra manna tölu, og var dýrlingur Orkneyinga um langt skeið.
Rögnvaldur Orkneyjajarl Kolsson var systursonur Magnúsar hins helga. Sigurður konungur Jórsalafari gerði hann að jarli yfir Orkneyjum árið 1136. Árið eftir hóf Rögnvaldur kirkjubyggingu í Kirkjuvogi í Orkneyjum og nefndi hana eftir Magnúsi hinum helga frænda sínum. Af fornum kirkjum, sem Norðmenn hafa byggt, er Magnúsardómkirkja talin standa næst hinni frægu og voldugu Niðaróssdómkirkju að tign og fegurð.
Þá tímar liðu, lutu Orkneyjajarlar ýmist norskum eða skozkum konungum. Fór það oft eftir manndómi og valdastyrk konunganna, hvoru megin jarlar Eyjanna leituðu sér trausts og valdaverndar.
Einn kunnasti biskup Orkneyinga er Bjarni Kolbeinsson, (1190—1222). Hann átti kyn sitt að rekja til norskra stórbænda og jarla. Hann er frægasta skáld hinna fornu Orkneyinga og orti Jómsvíkingadrápu.“
Gunnar. „Hvenær tóku Norðmennirnir á Orkneyjum kristna trú?“
Á 11. og 12. öld. Það skeði ekki í einni svipan heldur smám saman.
Gunnar: „Hvenær komust svo Englendingar til valda á Orkneyjum og á hvern hátt?“
„Það er nokkuð löng saga.
Eftir daga Hákonar Hákonarsonar hins gamla (d. 1263) fara skozk áhrif vaxandi í þessum eyjum. Algengara verður þá að skozkir jarlar og biskupar ríki þar. Á 14. öld er svo komið, að flestir prestar þar eru af skozkum ættum. Þeir, og aðrir áhrifa og valdamenn af skozku bergi brotnir, virtu að vettugi norsk lög og norskan rétt þar í eyjunum. Þar voru þó enn í gildi lög þau, er norski konungurinn Magnús lagabætir hafði sett Orkneyingum, og lögmenn voru þar jafnan norskir fram á seinni hluta 15. aldar.
Á þessum öldum fer norsk þjóðernistilfinning stöðugt þverrandi í eyjunum jafnframt því, sem skozk þjóðernisáhrif og völd færast í aukana ár frá ári. Hið norræna mál útþynnist og afskræmist, blandast meir og meir skozku og ensku. Orkneyingar hætta að virða þjóðerni sitt og tungu.
Nú víkur sögunni til Danmerkur. Árið 1448 var ungur, þýskur greifi, Kristján frá Oldenborg, tekinn þar til konungs. Það var Kristján I. Norðmenn tóku hann einnig til konungs yfir sig af gildum ástæðum, þar sem enginn afkomandi norsku konunganna var fær eða vildi gefa kost á sér í þá stöðu vanda og vegsemdar.
Það var árið 1450. Þá var gjörður samningur milli Danmerkur og Noregs þess efnis m.a. að lönd þessi með Íslandi, Grænlandi, Færeyjum, Orkneyjum og Hjaltlandi skyldu vera eitt ríki „til eilífðar“ eins og það er þar orðað. Þannig lentum við Íslendingar undir valdahæl Dana.
Kristján I. háði stríð við Svía o.fl. og varð kafinn skuldum. Í þessum skuldakröggum veðsetti hann Skotlandskonungi Orkneyjar 1468 og Hjaltland 1469, og skyldi veðið leysast með 210 kg. gulls eða 2310 kg. af silfri. En Kristján I. leysti aldrei veðið af eyjum þessum og urðu þær þannig hvorar tveggja eign Skotakonungs, og síðan Bretaveldis.“
Gunnar: „Hvað er svo eftir af málinu, sem Norðmennirnir töluðu á fyrri öldum á þessum eyjum.?“ Það er horfið fyrir löngu síðan. Það var að mestu leyti liðið undir lok í Orkneyjum um 1700 og 100 árum síðar á Hjaltlandi eða um 1800.
Þó er að finna nokkrar leyfar hins norska máls enn í afbökuðum og afskræmdum bæja og staða nöfnum. Skal ég færa fram nokkur dæmi því til sönnunar og skýringar. Skálpeiðsflói heitir nú Scapa flow. Það er hin fræga herskipahöfn Breta.
Skálavogur, nú Scalloway.
Órfjara, nú Orphir.
Moseyjarhaugur, nú Maeshow.
Kirkjuvogr, nú Kirkwall.
Vigr, nú Wire.
Eyin helga, nú Enhallow.
Sveinbólstaðir, nú Svanbister.
Fugley, nú Foula.
Svo mætti lengur telja.“
Gunnar: „Mér skilst, að saga þessa fólks megi alveg sérstaklega vekja athygli okkar Íslendinga og vera okkur hugstæð.“
„Svo er víst, Gunnar minn. Nú sem oftar getur sagan verið okkur leiðarljós.
Erlend áhrif, ísmeygileg öfl, miklu sterkari en við flest gerum okkur grein fyrir, steðja nú að þjóðerni okkar. Aldrei í sögu íslenzku þjóðarinnar hefir reynt meir á þol og seiglu íslenzks þjóðernis en nú, og manndóm og ættjarðarást okkar Íslendinga. Sérstaklega ríður á því, að æskulýðurinn vaki á verðinum og reynist sjálfum sér og þjóð sinni trúr. Hver einasti ungur Íslendingur, piltur og stúlka, strengi þess heit, að duga nú þjóð sinni af fremsta megni og láta ekki glepjast til neins þess, sem spillir móðurmálinu eða er á annan hátt vansæmandi fyrir hann sjálfan, foreldra hans og þjóðina í heild.
Undir manndómi íslenzka æskulýðsins í heild, siðgæðisþreki hans og sjálfsvirðingu er það komið hversu langvarandi og djúpstæð áhrif á þjóðerni okkar og þjóðlíf hinir erlendu gestir skilja eftir hér á landi að stríðinu loknu.
Guð gefi þjóðinni okkar þá hamingju, að hver ungur Íslendingur, stúlka og piltur, kunni að meta sjálfan sig réttilega, heimili sitt, fórnarlund og ástríki móður sinnar og umhyggju föður síns, — elski ættjörð sína og tungu, og kappkosti að vera sannur Íslendingur, sem ekki má vamm sitt vita.“
Þegar Gunnar kvaddi, var ég innilega þakklátur honum fyrir heimsóknina. Með einlægni sinni og ást til tungu sinnar og þjóðar hafði þessi ungi piltur snortið viðkvæma strengi í sál minni, strengi, sem hljómuðu lengi eftir brottför hans, — og hljóma reyndar enn. Hann er sönn fyrirmynd ungra Íslendinga.

Þ.Þ.V.