Blik 1946. Ársrit/Leiðir skilja

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1946


FROSTI:
Leiðir skilja
(Eilítill sögukafli)Við Maggi í Merki vorum fóstbræður eða töldum okkur vera það, enda þótt við ælumst ekki upp hjá sömu hjónum né á sama heimilinu. Við höfðum ekki heldur blandað saman blóði okkar við “móður jörð“ né gengið undir jarðarmen. — En við vorum leikbræður frá blautu barnsbeini og skólabræður og sessunautar árum saman. Við vorum hvor annars gaman öll bernskuárin, lékum saman, grétum saman og glöddumst saman. Við tjáðum hvor öðrum bernskuóra okkar og framtíðardrauma.
Fermingarvorið okkar afréðum við að stunda sjó um sumarið og sóttum fast að fá það. Í þann tíð stunduðu sveitungar okkar fiskveiðar í tugum árabáta. Við árina skyldi okkur hitna í hamsi, hlaupa kapp í kinn og þrek og styrkur í vöðva og sinni.
Þetta vor rérum við með fósturfeðrum okkar, Maggi þriðji maður á „Voninni“, en ég fjórði á „Sigurfaranum“. Hinir hásetarnir voru þeir Jón og Árni.
Skammt var milli vara.
Með októbermánuði þetta haust gekk hann til norðaustanáttar með brimi og boðaföllum, kulda og krapahryðjum.
Nokkur fiskur hafði veiðzt fyrir frátökin, og nú spáðu hinir eldri og vísari sjómenn nægum afla, þegar veður lægði og straumur hægðist.
Um miðjan mánuðinn stillti dröfn og lægði storma. Þá þutu sjómenn upp til handa og fóta, sóttu síld og beittu línur sínar.
Undir birtingu næsta morgun var ýtt úr vör.
Við Maggi skiptumst á kveðjum, þegar við gengum til skips. Fleyturnar okkar höfðu samflot út á miðin. Víða heyrðist áraglamur í næturkyrrðinni, og sumstaðar dökknaði fyrir bátum á firðinum. Máninn glotti og merlaði fjörðinn í silfurgliti. Við rérum karskann til þess að ná úr okkur hrollinum, sem komið hafði í okkur við svefnrofin og úrsvalt haustnæturloftið.
Undiralda var mikil, svo að úr tók fjöll, þegar út á flóann kom, og Rastarboða braut í ólögum.
Við lögðum línuna út og suður af fjarðarmynninu í útjaðri rastarinnar. „Vonin“ var enn samflota.
Norðaustanölduna lægði, þegar leið á morguninn, og dökkur klakkabakki þokaðist upp við sjóndeildarhring í suðri. Sunnanáttin leyndist ekki lengur.
Um hádegi höfðum við dregið rúman helming línunnar. Þá var „Vonin“ ekki fjær okkur en svo, að ég greindi glögglega Magga við andófið.
Nú var tekið að hvessa af suðri; kominn stórastormur og kröpp ylgja, því að suðurfallið rann gegn stormkvikunni, lyfti henni og skrýfði hana saman í hættulega straumhnúta, sem hæglega gátu fyllt bát, ef hittu.
Fiskur var nægur.
Andófið þyngdist æ meir og meir. Brátt andæfðum við þrír og rérum eins og kraftarnir frekar leyfðu, en ekki dugði. Fóstri minn dró línuna á hnífli og leyfði ekki af; — þó hélt ég hann tvígildan til átakanna.
„Betur á bak ...,!“ kallaði hann. Það vissi ég, hvað þýddi, því að ég réri á það borðið. Ég spyrnti betur í og stritaði við árina í líf og blóð. Hnúarnir hvítnuðu. Mig verkjaði í bak og handlegg. Ég beit á jaxlinn. — Þá kom kvika á bátinn aftan við kinnung bakborðsmegin. Gusurnar skullu á herðum mér. Sædrifið fyllti vit mín, svo að ég saup hveljur og sá ekki glóru. Mig sveið í augun af seltunni. Ég fann kaldan sjóinn seytla niður bert bakið á mér.
Nú varð að duga eða drepast.
Fóstri minn brá línunni um hnýfil bátsins, þreif fötuna, sem var í barkanum, og jós af kappi og hörku, því að mikill sjór hafði komið inn við kvikuna. — Á andófinu mátti ekki eftir gefa.
Þegar fóstri minn hafði þurrausið bátinn, tók hann til að draga línuna aftur. Brátt reið önnur kvika á bátinn, sem nú horfði rétt. Hún skrýfði sig saman og upp rétt framan við stefnið og dembdi sér hvítfyssandi framan yfir hann. Ég heyrði skell. Ég skotraði auga aftur fyrir mig og sá fóstra minn í grænum sjó. Það hrykti í bátnum. Sjórinn flæddi um hann allan. Svo morraði hann þarna hállfullur af sjó og fiski. —
Fóstri minn henti til mín fötunni og skipaði mér snöggum rómi að ausa. Sjálfur þreif hann nestiskassann, sleit af honum lokið og jós allt hvað af tók. Jón og Árni reyndu að halda bátnum í horfi.
Þegar við höfðum þurrausið bátinn, drógum við inn endann á línunni, sem hafði slitnað. — Síðan var slegið undan, þegar lag gafst, og seglbúið. Fóstri minn renndi stýrinu fyrir bátinn og lykkjaði það fast. Við Árni sátum undir árum, meðan Jón reisti sigluna og losaði um seglið.
Ég skyggndist nú eftir „Voninni“. — Þarna sá ég hana sem allra snöggvast. Henni brá fyrir uppi á hvítfölduðum ölduhrygg.
Við þöndum seglið linlega út með sprytinu. Stormurinn fyllti það, og báturinn tók á rás undan stormi og sjó. Við strengdum klóna lítið eitt. Síðan komum við þríhyrnunni fyrir. Árni gætti skautsins á seglinu, viðbúinn að slaka á klónni, ef með þyrfti. Jón gætti þríhyrnunnar. Ég annaðist austurinn.

„Að sigla fleyi og sofa í meyjararmi
ýtar segja yndið mest,
og að teygja vakran hest.“

Árni kvað við raust. Hann var jafnan glaðlyndur og glannafenginn.
Ég þóttist sjá, að fóstri minn heyrði naumast orð af því, sem Árni kvað. Honum var dýpri alvara í hug. Líf okkar allra lá við, að vel væri stýrt.
Það sauð á keipum. „Sigurfarinn“ vatt sér liðlega undan æðandi bárunum og straumkvikunum. Hann morraði í báruláginni, stritandi gegn soginu. Svo þaut hann áfram, lyfti sér léttilega upp í bárufaldinn og varðist brotum á bæði borð. Aðeins skvettur komu inn yfir borðstokkinn endur og eins. Andi fóstra míns sveif yfir honum, fannst mér. Honum treysti ég takmarkalaust. En hann treysti á annað æðra, það vissi ég.
Þegar við komum inn í fjarðarmynnið, lægði sjóinn. Hér gætti vars af fjöllum og töngum, svo að smásævi var, en misvinda. Nú gætti ég þríhyrnunnar, en Jón losaði sprytið úr rakkanum og sat undir.
Fjörðinn hvítskóf í hviðunum.
Við lentum heilir í höfn.
Þegar við höfðum losað bátinn og brýnt honum, snæddum við og lögðum okkur stundarkorn, áður en aðgerðin hófst.
Á leið aftur niður í vör mætti okkur hin sorglega fregn: „Vonin“ hafði fundizt á hvolfi í mynni fjarðarins. — Skipshöfnin öll drukknuð...
Maggi horfinn! Minningarnar seytluðu fram í hugann, ein af annari. Ég hamaðist við verkið; það dró úr sviðanum.
Síðast sá ég „Voninni“ bregða fyrir uppi á hvítfyssandi ölduhrygg. Þar sé ég hana enn.